22. des. 2005 : Gleðilega hátíð!

Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.

Skrifstofa Kópavogsdeildar verður lokuð frá og með Þorláksmessu en opnar aftur þriðjudaginn 3. janúar. Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða, verður lokað á aðfangadag, jóladag, annan í jólum, gamlársdag og nýársdag. Í hádeginu á Þorláksmessu verður borðuð skata kl. 11.30 og eru allir gestir athvarfsins sérstaklega velkomnir.

22. des. 2005 : Fjölmennur hátíðarmálsverður í Dvöl

Starfsfólk Dvalar hafði veg og vanda af málsverðinum.
Húsfyllir var í árlegum hátíðarmálsverði í Dvöl í tilefni jólahátíðarinnar. Fjölmargir gestir Dvalar, starfsfólk og aðstandendur athvarfsins komu í hádegismat og gæddu sér á dýrindis hamborgarhrygg með tilheyrandi. Meðal gesta var bæjarstjóri Kópavogs, Gunnar Birgisson.

Allir fastagestir athvarfsins fengu jólaglaðning frá Kópavogsdeild Rauða krossins. Auk þess færði Joakim sjálfboðaliði athvarfinu spil að gjöf sem hann hafði útbúið sjálfur. Óhætt er að segja að hátíðarstemmning hafi ríkt í notalegum húsakynnum athvarfsins í Reynihvammi 43.

21. des. 2005 : Kópavogsdeild bætir aðstöðu Fjölsmiðjunnar

Fulltrúar Kópavogsdeildar og Fjölsmiðjunnar.
Kópavogsdeild Rauða krossins gaf Fjölsmiðjunni nýverið fjögur hundruð þúsund krónur til að styrkja starf hússtjórnardeildar. Fénu verður varið til kaupa á nýjum gufuofni sem eykur afköst deildarinnar og bætir aðstöðu nema og starfsfólks.

Kópavogsdeild hefur á undanförnum árum veitt Fjölsmiðjunni talsverða fjárstyrki til uppbyggingar á aðstöðu í trésmíðadeild og hússtjórnardeild. Kópavogsdeild hefur einnig, eins og aðrar deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, stutt dyggilega við rekstur Fjölsmiðjunnar. Enn fremur hafa sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar stutt við starfið.

16. des. 2005 : Nemendur í MK halda styrktartónleika fyrir Pakistan

Nemendur úr MK í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar.
Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda, sem er kenndur í Menntaskólanum í Kópavogi, komu fyrir stuttu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fengu kynningu á hjálparstarfi Rauða krossins. Nína Helgadóttir fræddi nemendurna og kennarann þeirra, Hjördísi Einarsdóttur, um hjálparstarf Rauða krossins í kjölfar jarðskjálftans í Pakistan 8. október síðastliðinn.

Sú hugmynd hefur nú kviknað meðal nemenda MK að halda tónleika 29. desember til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans í Pakistan. Tónleikarnir verða haldnir í Austurbæ kl. 21 og miðaverð er 2.500 kr. Meðal listamanna sem koma fram eru: Jagúar, Ragnheiður Gröndal, Millarnir ásamt Páli Óskari og Bogomil Font, Stebbi og Eyvi, Leaves, Ske, Dúndurfréttir og Brynhildur Guðjónsdóttir. Miðar fást í Austurbæ og á midi.is.

Tónleikarnir eru haldnir í samtarfi við Kópavogsdeild Rauða krossins og mun allur ágóði af tónleikunum renna í hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðunum.

15. des. 2005 : Fjölmenn aðventuhátíð heimsóknavina í Sunnuhlíð

Heimsóknavinir stjórnuðu fjöldasöng og undirspili á aðventuhátíðinni.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar skipulögðu í vikunni aðventuhátíð í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Samkomusalurinn var þéttsetinn á hátíðinni enda öllum vistmönnum Sunnuhlíðar boðið auk þess sem nokkrir aðstandendur tóku þátt.

Sjálfboðaliðarnir, sem allir eru úr hópi heimsóknavina deildarinnar, stjórnuðu fjöldasöng á jólalögum í bland við önnur lög. Undirspilið var ýmist frá harmonikku, gítar eða munnhörpu.

Nokkrir af sjálfboðaliðunum höfðu tekið með sér heimalagaðar pönnukökur og annað góðgæti og sú viðbót við kaffiveitingarnar vakti lukku.

15. des. 2005 : Dvöl hlýtur styrk í ferðasjóð

Fulltrúar Sorpu, Dvalar, Lækjar og Vinjar við afhendingu styrksins.
Sorpa afhenti athvörfunum Dvöl, Læk og Vin styrk í ferðasjóð að upphæð 70.000 kr. fyrir hvert athvarf. Sorpa veitir styrkinn í stað þess að senda viðskiptavinum sínum jólakort í ár. Athvörfin þrjú eru athvörf Rauða krossins fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu því auk Dvalar í Kópavogi er Vin í Reykjavík og Lækur í Hafnarfirði.

Ferðalög eru kærkomin upplyfting fyrir gesti athvarfanna sem margir treysta sér ekki í ferðalög upp á eigin spýtur. Í öllum athvörfunum er safnað peningum í sérstaka ferðasjóði sem nýttir eru til ferðalaga innanlands sem utan.

9. des. 2005 : Hjálpfús börn á leikskólanum Núpi

Börnin á Núpi með pokana af fötum sem þau söfnuðu.
Fimm ára börn á leikskólanum Núpi komu færandi hendi í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í vikunni. Börnin höfðu safnað fatnaði til styrktar Rauða krossinum í tengslum við fræðsluefnið „Hjálpfús heimsækir leikskólann“ sem notað er á Núpi. Fræðsluefnið inniheldur sögur sem sagðar eru af Rauða kross stráknum Hjálpfúsi í formi fingur-brúðu. Markmið námsefnisins er að kenna nemendum hversu mikilvægt það er að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

Börnin á Núpi söfnuðu fötum undir yfirskriftinni „Að gleðja um jól“ og vona að fötin nýtist til að gleðja þá sem á þurfa að halda. Í heimsókninni í sjálfboðamiðstöðina fengu börnin afhent eintak af geisladisknum „Úr vísnabók heimsins“ sem hefur verið sendur til allra leikskóla í Kópavogi. Geisladiskinn er hægt að nota í tengslum við námsefnið um Hjálpfús sem allir leikskólar á landinu fengu að gjöf í fyrra frá Rauða krossi Íslands.

8. des. 2005 : Húsfyllir á fögnuði sjálfboðaliða

Þráinn Bertelsson las úr bók sinni Valkyrjur.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fjölmenntu á fögnuð deildarinnar í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans. Á meðan mest var voru um fimmtíu sjálfboðaliðar og gestir þeirra samankomnir í sjálfboðamiðstöðinni.

Sjálfboðaliðar úr fjölbreyttum verkefnum komu saman, svo sem heimsóknavinir sem heimsækja fólk sem býr við einsemd og einangrun, sjálfboðaliðar í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, sjálfboðaliðar sem starfa að neyðarvörnum, öflugar hannyrðakonur í verkefninu Föt sem framlag, stjórnarmenn deildarinnar og sjálfboðaliðar í starfi með ungum innflytjendum.

8. des. 2005 : Flöskusöfnun stúlkna í Kársneshverfi

Ósk Hind, Margrét Kristín og Ósk.
Þrjár bekkjarsystur úr 2.J. í Kársnesskóla söfnuðu flöskum og dósum að andvirði 855 kr. og færðu Kópavogsdeild Rauða krossins. Þetta voru þær Margrét Kristín Kristjánsdóttir, Ósk Jóhannesdóttir og Ósk Hind Ómarsdóttir.

Með söfnuninni styrkja stelpurnar börn í neyð í gegnum verkefni Rauða krossins erlendis. Stelpurnar fundu upp á því sjálfar að safna fyrir Rauða krossinn og nutu dyggrar aðstoðar nágranna sinna sem lögðu þeim lið.

2. des. 2005 : Opið hús í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans

Vallargerðisbræður munu stíga á stokk í sjálfboðamiðstöðinni.
Í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans 5. desember munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar koma saman í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 og gera sér glaðan dag þriðjudaginn 6. desember kl. 19.30-21. Léttar veitingar verða á boðstólnum með jólalegu ívafi. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að fjölmenna og taka gesti með sér.

Dagskrá:
• Þráinn Bertelsson les upp úr nýjustu bók sinni Valkyrjur.
• Oddný Sturludóttir, einn af höfundum Dísar og þýðandi bókarinnar Móðir í hjáverkum, flytur erindið „Jólympíuleikar“ um jólahald Íslendinga.
• Vallargerðisbræður flytja nokkur lög. Vallargerðisbræður er karlakvartett skipaður 17 ára piltum sem voru saman í skólakór Kársness.