21. des. 2006 : Gleðilega jólahátíð

Kópavogsdeild Rauða krossins óskar sjálfboðaliðum og samstarfsfólki gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir starfið á árinu sem er að líða.

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar opnar aftur eftir jólaleyfi fimmtudaginn 4. janúar kl. 11.

21. des. 2006 : Jólastemmning í Dvöl

Gestkvæmt var í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, í vikunni þegar jólamatur var þar á borðum. Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins og bæjarstjóri Kópavogs voru á meðal gesta. Boðið var upp á bæði londonlamb og svínasteik en í eftirrétt var heimalagaður ís. Eftir matinn settust fastagestirnir í Dvöl saman og lásu jólakortin sem höfðu borist athvarfinu. Gestirnir fengu einnig afhenta jólapakka frá Kópavogsdeild Rauða krossins til að taka með sér heim og opna á aðfangadagskvöld.

Á Þorláksmessu munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sjá um að halda athvarfinu opnu kl. 13-16. Síðan verður opið dagana 27.-29. desember og eftir áramótin opnar aftur 2. janúar. Í Dvöl er opið alla virka daga kl. 9-16 nema fimmtudaga kl. 10-16.

18. des. 2006 : Sjálfboðaliðar skipulögðu aðventuhátíð í Sunnuhlíð

Þann 3. desember síðast liðinn héldu konur í hópi heimsóknavina Kópagvogsdeildar í Sunnuhlíð sína árlegu aðventuhátíð fyrir heimilisfólk, fjölskyldur þess og starfsfólk. Sáu þær um skipulag hátíðarinnar, dagskrá og veitingar.

Margt skemmtilegt var á dagskrá hátíðarinnar í ár. Hún hófst á því að allir fengu sér hressingu og piparkökur og að því búnu var séra Ægir Fr. Sigurgeirsson með hugvekju. Þá tók við söngur og að lokum var öllum boðið upp á kaffi og kökur. Dagmar Huld Matthíasdóttur hjúkrunarforstjóri í Sunnuhlíð sagði gesti hátíðarinnar hafa verið um 150 talsins og fannst henni hátíðin í ár vera sérlega vel lukkuð.

12. des. 2006 : Konur í Sunnuhlíð gáfu í Föt sem framlag

Konur í dagvist á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð afhentu Kópavogsdeild nýlega ellefu ungbarnateppi og þrjár ungbarnahúfur að gjöf. Teppin og húfurnar renna í verkefni deildarinnar sem kallast Föt sem framlag. Verkefnið felst í því að útbúnir eru fatapakkar til neyðaraðstoðar erlendis, einkum í Afríku, og eru teppi og húfa hluti þess sem er í pakkanum.

Anna Bjarnadótttir, hópstjóri sjálfboðaliða Kópavogsdeildar í Föt sem framlag, tók á móti teppunum og húfunum og fannst henni sérlega gleðilegt að konur í Sunnuhlíð gæfu þessa gjöf. Konurnar hafa líka skrifað börnunum og fjölskyldum þeirra bréf sem fylgir teppunum. Bréfinu fylgir mynd af konunum þar sem þær eru að prjóna. Fulltrúar Rauða kross Íslands ætla að gera það sem þeir geta til að bréfið berist á leiðarenda um leið og teppin.

11. des. 2006 : Kristín Steinsdóttir rithöfundur las fyrir unga innflytjendur

Kristín Steinsdóttir rithöfundur heimsótti hópinn Enter, unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára, síðastliðinn miðvikudag. Hún sagði þeim frá tveimur bókum sínum, Rissa vill ekki fljúga og Hver étur ísbirni?. Bækurnar vöktu mikla lukku, börnin hlustuðu öll af athygli og sum þeirra könnuðust við eða höfðu þegar lesið bækurnar sem Kristínu fannst gleðilegt.

Kristín sagði frá því að verið væri að þýða bækur hennar á hin ýmsu tungumál og að í framtíðinni væri gaman að geta boðið erlendum börnum á Íslandi að lesa úrval íslenskra barnabóka á móðurmáli þeirra. Judita Virbickaite, sem er ein af sjálfboðaliðunum í Enter, kemur frá Litháen og var ánægð að sjá Kristínu með litháíska útgáfu af bók sinni Engill í Vesturbænum. Hún sagði að mörg litháísk börn á Íslandi gætu haft gaman af að lesa hana á móðurmáli sínu.

7. des. 2006 : Fjölmennur fagnaður á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Húsfyllir var á opnu húsi Kópavogsdeildar á alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar deildarinnar úr fjölbreyttum verkefnum komu saman ásamt mörgum góðum gestum. Skemmtiatriðin vöktu mikla lukku og jólalega veitingar runnu ljúflega niður.

Einar Már Guðmundsson rithöfundur flutti valin ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni Ég stytti mér leið framhjá dauðanum. Einar Már svaraði síðan fyrirspurnum áheyrenda. Hann sagði að sjálfsagt mætti líkja starfi Rauða krossins að einhverju leyti við þá sýn í nokkrum ljóðanna að þegar maður er kominn í öngstræti birtir til að nýju.

Nýtt tvíeyki á tónlistarsviðinu, Elísabet Eyþórsdóttir söngkona og Börkur Hrafn Birgisson gítarleikari, braut upp upplesturinn með því að flytja nokkur ljúf lög af geisladisknum Þriðja leiðin en lögin samdi Börkur Hrafn við ljóð Einars Más.

5. des. 2006 : Vaxandi þátttaka í sjálfboðnu Rauða kross starfi

Kópavogsdeild fagnar í dag alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans sem er tileinkaður þeim fjölmörgu einstaklingum sem vinna sjálfboðið starf í þágu annarra.

„Það er ánægjulegt að segja frá því nú á alþjóðadegi sjálfboðaliðans að fjöldi sjálfboðaliða Kópavogsdeildar hefur um það bil þrefaldast á síðastliðnum þremur árum“, segja þau Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, og Fanney Karlsdóttir, framkvæmdastjóri deildarinnar, í eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu í tilefni dagsins. Í greininni er fjallað um vaxandi þátttöku í sjálfboðnu Rauða kross starfi.

Ungt fólk gefur af sér í sjálfboðnu starfi

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur á undanförnum árum beint kröftum sínum að því að efla sjálfboðið starf á vegum deildarinnar, styrkja rótgróin verkefni og hefja ný. Við stóðum frammi fyrir þeirri staðreynd fyrir fáeinum árum að sáralítil endurnýjun hafði orðið í hópi sjálfboðaliðanna um nokkurt árabil og meðalaldur þeirra var orðinn allhár.
Okkur þótti því tímabært að blása til sóknar og freista þess að auka verulega nýliðun í hópi sjálfboðaliðanna. Það var að hluta til takmark í sjálfu sér að fjölga sjálfboðaliðum en fyrst og fremst kölluðu aðkallandi verkefni eftir fjölgun sjálfboðaliða.

2. des. 2006 : Opið hús á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans, þriðjudaginn 5. desember, verður opið hús í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins kl. 19.30-21.00 að Hamraborg 11. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að fjölmenna ásamt vinum og ættingjum. Auk þess eru allir velkomnir sem vilja kynna sér starf deildarinnar og skemmta sér í tilefni dagsins. Boðið verður upp á skemmtiatriði og ljúffengar veitingar með jólalegu ívafi.

Dagskrá:
•  Einar Már Guðmundsson rithöfundur les brot úr bókum sínum og ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni Ég stytti mér leið framhjá dauðanum.
•  Börkur Hrafn Birgisson gítarleikari og Elísabet Eyþórsdóttir söngkona flytja lög af nýja geisladisknum Þriðja leiðin.
•  Eldhugar Kópavogsdeildar Rauða krossins flytja frumsaminn leikþátt um mikilvægi vináttu og virðingar í samfélaginu.
•  Nemendur Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur söngkonu flytja nokkur lög.

1. des. 2006 : Kínversk leikfimi fyrir gesti Dvalar

Einu sinni í viku sér sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins um að bjóða gestum í Dvöl í kínverska leikfimi. Sjálfboðaliðinn, Guðbjörg Sveinsdóttir, hefur staðið fyrir leikfimi í Dvöl undanfarin ár og sér auk þess um að leiðbeina gestum í handavinnu í beinu kjölfari af leikfiminni. Framtak Guðbjargar er svo sannarlega vel metið af gestum athvarfsins. Leikfimin er stunduð utanhúss þegar veður leyfir enda eykur það á frískleikann. Þess má geta að systir Guðbjargar er einnig sjálfboðaliði í Dvöl því hún býður gestum í nudd.

Sjálfboðaliðar í Dvöl koma víða að og þessa dagana eru þeirra á meðal Maria frá Grikklandi, Temitope frá Nígeríu og Romuald frá Frakklandi. Þau eru öll á Íslandi á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta. Mynd af þeim fylgir hér fyrir neðan.

1. des. 2006 : Eldhugar heimsóttu ungmenni í Hafnarfirði

Eldhugar Kópavogsdeildar heimsóttu í síðustu viku jafnaldra sína í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins sem hittast þar á sama tíma vikulega. Hafnfirðingarnir tóku vel á móti hópnum og buðu upp á myndasýningu. Sýndar voru þrjár stuttmyndir sem unglingar í starfi Gamla bókasafnsins í Hafnarfirði gerðu síðastliðið sumar. Í myndunum er á gamansaman hátt fjallað um fordóma og mismunun í nútíma samfélagi. Myndirnar vöktu mikla athygli og þóttu hin besta skemmtun þrátt fyrir að umfjöllunarefnið hefði alvarlegan undirtón.

Ungmennin fengu svo tíma til að kynnast betur og áður en þau vissu af var rútan mætt til að aka Eldhugum aftur í heimahagana. Eldhugar þakka fyrir góðar móttökur og hafa fullan hug á að bjóða Hafnfirðingunum í heimsókn til sín eftir áramót.

Eldhugar hafa í þessari viku æft leikþætti sem sýndir verða á opnu húsi í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 á alþjóðadegi sjálfboðaliðans 5. desember.

27. nóv. 2006 : Afmælisgjafir runnu til Rauða krossins

Kópavogsbúinn Bogi Þórir Guðjónsson hélt nýlega upp á áttræðisafmæli sitt og í stað þess að þiggja gjafir hvatti hann vini og vandamenn til þess að styrkja Rauða krossinn. Bogi Þórir fékk að láni söfnunarbauk Kópavogsdeildar Rauða krossins og hafði hann frammi í afmælisveislunni sem hann hélt í félagsheimili eldri borgara í Gjábakka. Alls söfnuðust rúmar 20 þúsund krónur í baukinn sem voru afhentar Kópavogsdeild.

Kópavogsdeild Rauða krossins þakkar Boga Þóri kærlega fyrir framtakið og fólkinu hans fyrir að styðja verkefni félagsins.

Verkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins snúa að mannúðarmálum og margvíslegri aðstoð við þá sem búa við þrengingar og mótlæti. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sinna verkefnum á borð við heimsóknir til fólks sem býr við einsemd og einangrun, starf með ungum innflytjendum, stuðning við geðfatlaða, störf að neyðarvörnum, fatasöfnun og fataflokkun. Kópavogsdeild tekur einnig þátt í neyðaraðstoð félagsins erlendis.

23. nóv. 2006 : Nemendur MK kynntu sér þróunarstarf Rauða krossins

Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda í MK komu fyrir stuttu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fræddust um þróunarstarf Rauða krossins. Gestur Hrólfsson, starfsmaður á alþjóðasviði Rauða kross Íslands, kynnti nemendunum þróunarverkefni Rauða kross Íslands í Afríku.

Gestur sagði frá því viðfangsmikla verkefni sem baráttan gegn alnæmi er orðin í álfunni og áherslur Rauða krossins í þeim efnum. Hann benti á hvernig söfnunarféð í landssöfnuninni Göngum til góðs mun nýtast í verkefni Rauða kross Íslands í Afríku til stuðnings börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmisvandans.

Gestur sagði mikilvægasta framlag sjálfboðaliða Rauða krossins í Afríku kunna að vera það fræðslu- og forvarnarstarf sem þeir inna af hendi meðal fjölskyldna og þorpssamfélaga um alla álfuna. Það væri starf sem oft fari lítið fyrir en beri ríkulegan ávöxt.

18. nóv. 2006 : Fjölgun hunda í heimsóknaþjónustu

Fleiri hundar hafa bæst í hóp sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins og heimsækja fólk sem óska eftir félagsskap þeirra. Nýjasta viðbótin er hundurinn Pollý sem heimsækir vikulega vistfólk á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð ásamt eiganda sínum Lilju. Þar að auki heimsækja hundar nú öll sambýli aldraðra í Kópavogi, Dvöl sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og Rjóðrið sem er skammtímavistun fyrir langveik börn. Hundar taka einnig þátt í nokkrum heimsóknum sjálfboðaliða í heimahús, þar sem þess er óskað, og eru hundarnir hvatning til þeirra sem vilja fara út að ganga. Hundar í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar voru áberandi í hundagöngu sem farin var niður Laugaveginn í byrjun nóvember. Hundaræktarfélag Íslands stóð fyrir göngunni og Rauða kross hundarnir voru í forystusveit göngunnar ásamt einum lögregluhundi.

11. nóv. 2006 : Héldu tombólu í Salahverfi

Systurnar Erna María, Guðbjörg, Lilja og Rebekka Ósk Svavarsdætur héldu tombólu ásamt vinkonu sinni Örnu Björk Helgadóttur. Ágóðann af tombólunni, 500 kr., afhentu þær Kópavogsdeild Rauða krossins. Tombólan var haldin fyrir utan Nettó í Salahverfi og varningurinn var dót sem stelpurnar höfðu safnað í hverfinu. Stelpurnar vissu að Rauði krossinn starfar í yfir 180 löndum að því að hjálpa fólki þar sem neyðin er mest og mikil fátækt. Söfnunarfé stúlknanna rennur einmitt í verkefni Rauða krossins til styrktar börnum í neyð erlendis. Fyrir tilstilli tombólubarna á Íslandi safnast árlega samtals um hálf milljón króna.

18. ágú. 2006 : Verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar tekinn til starfa

Ingunn Ásta er verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar.
Ingunn Ásta Sigmundsdóttir hefur hafið störf hjá Kópavogsdeild Rauða kross Íslands sem verkefnastjóri sjálfboða-miðstöðvar. Ingunn Ásta mun m.a. sinna öflun og þjálfun sjálfboðaliða og hafa umsjón með verkefnum eins og heimsóknaþjónustu, starfi með ungum innflytjendum og stuðningi við geðfatlaða.

Ingunn Ásta lauk nýverið námi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands og hefur aðstoðað við rannsóknir á því sviði. ?Það er mér sönn ánægja að vera komin til starfa hjá Kópavogsdeild Rauða kross Íslands. Starf verkefnastjóra er fjölbreytt, felur í sér víðtæka reynslu og samskipti við sérstaklega gott fólk. Ég vonast til að störf mín láti gott af sér leiða og verði viðbót við það mikilvæga starf sem hér fer fram.?, segir Ingunn Ásta.

18. ágú. 2006 : Vinkonur söfnuðu fyrir börn í neyð

Þuríður Simona og Herdís Brá komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með ágóðann af söfnun sinni.
Vinkonurnar Herdís Brá Jónsdóttir og Þuríður Simona Hilmarsdóttir söfnuðu flöskum og dósum að andvirði 8.442 kr. og færðu Kópavogsdeild Rauða krossins. Í söfnuninni nutu stelpurnar dyggrar aðstoðar nágranna sinna í Smárahverfi auk vina og vandamanna.

Söfnunarfé stelpnanna mun styrkja börn í neyð í gegnum verkefni Rauða krossins erlendis. Stelpurnar sögðust ætla að halda áfram að safna fyrir Rauða krossinn og lýstu yfir áhuga á að taka þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs sem verður laugardaginn 9. september. Í Göngum til góðs er tilvalið fyrir ungmenni að fá foreldrana til liðs við sig og ganga með sérmerkta söfnunarbauka Rauða krossins um hverfi Kópavogs.

11. ágú. 2006 : Skemmtileg dagsferð gesta í Dvöl

Hópurinn rölti um jarðhitasvæðið í Krýsuvík.
Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, fóru í dagsferð 18. júlí um svæði á Reykjanesi og Suðurlandi. Sautján þátttakendur mættu í Dvöl að morgni dags í blíðskaparveðri. Keyrt var um Hafnarfjörð að Kleifarvatni og til Krýsuvíkur. Hópurinn skoðaði jarðhitasvæðið í Krýsuvík og því næst Krýsuvíkurkirkju.

Næsta stopp var við Strandakirkju og kirkjan skoðuð. Rétt hjá kirkjunni er lítið, snoturt veitingahús sem heitir T-húsið þar sem ferðalangarnir fengu sér kaffisopa. Konan sem rekur kaffihúsið prjónar lopapeysur þegar rólegt er og selur á staðnum. Hópurinn sló saman og keypti peysu í kveðjugjöf handa Joakim Lilljegren, sjálfboðaliða frá Alþjóðlegum Ungmennaskiptum, sem hefur starfað í Dvöl undanfarið eitt ár en er nú farinn heim til Svíþjóðar.

24. jún. 2006 : Sumarlokun sjálfboðamiðstöðvar

Skrifstofa og sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins er lokuð vegna sumarleyfa en opnar aftur þriðjudaginn 8. ágúst. Opnunartíminn verður þá sem fyrr alla virka daga kl. 11-15. Ef brýn nauðsyn krefur er hægt að hafa samband við formann deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson á [email protected] eða 895 5807.

23. jún. 2006 : Fræknir félagar söfnuðu fyrir Rauða krossinn

Frá vinstri: Breki, Brynjar, Hjörtur Týr og Kristófer Valur. Theódór Óskar vantar á myndina.
Fimm félagar úr Kópavogsskóla afhentu Kópavogsdeild Rauða kross Íslands 8.262 kr.
sem þeir höfðu safnað með því að halda tombólu í nokkra daga fyrir utan Nóatún í Hamraborg. Þetta voru þeir Brynjar og Breki Arndal, Hjörtur Týr Björnsson, Kristófer Valur Brynjarsson og Theódór Óskar Þorvaldsson. Strákarnir sögðust staðráðnir í því að halda áfram að safna fyrir góð málefni og leggja þannig sitt af mörkum til að hjálpa fólki. Þeim þótti hins vegar miður að sumir vegfarendur höfðu ekki trúað því að þeir væru að safna fyrir Rauða krossinn.

Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Fjársöfnun ungmenna rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er um hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

21. jún. 2006 : Dvöl hlýtur milljón króna í styrk frá Bónus

Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, tekur við styrknum úr hendi Jóhannesar Jónssonar kaupmanns. Á milli þeirra eru Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.
Á þjóðhátíðardaginn fékk Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, afhentan styrk frá Bónus að upphæð ein milljón króna. Féð mun renna í ferða- og tómstundasjóð gesta Dvalar og mun þannig nýtast til að rjúfa félagslega einangrun þeirra.

Jóhannes Jónsson kaupmaður afhenti Garðari H. Guðjónssyni, formanni Kópavogsdeildar, styrkinn við opnun nýrrar verslunar Bónus í Ögurhvarfi í Kópavogi að viðstöddum nokkrum gestum Dvalar og fjölmörgum viðskiptavinum verslunarinnar.

„Þetta er höfðingleg gjöf og ánægjuleg viðurkenning á því starfi sem fram fer í Dvöl. Við munum sjá til þess að fénu verði vel varið í þágu gesta Dvalar. Markmiðið með starfinu er að auka lífsgæði fólks og þessi gjöf hjálpar okkur í því mikilvæga starfi,“ segir Garðar.

16. jún. 2006 : Sjálfboðaliðar fjölmenntu á Litlu hryllingsbúðina

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu söngleikinn Litla hryllingsbúðin í gær í boði Íslensku óperunnar. Sýningin, sem er sviðsett af Leikfélagi Akureyrar, er sýnd í Reykjavík um þessar mundir og er kraftmikil og fjörug enda um sígildan rokksöngleik að ræða. Áhugasamir eru hiklaust hvattir til að skella sér á söngleikinn á meðan færi gefst en sýningardagar eru áætlaðir út júní.

Sýningin er tilnefnd til nokkurra verðlauna Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, sem afhent verða í dag, þ.á.m. sem besta sýningin að mati áhorfenda. Nánari upplýsingar um sýninguna eru hér.

Kópavogsdeild þakkar Íslensku óperunni kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

13. jún. 2006 : Dvalargestir í Króatíu

Hópurinn fyrir framan gistiheimilið.
Mig langar í nokkrum orðum að segja frá ferð Dvalarhópsins til Króatíu, um leið og ég vil fyrir hönd hópsins þakka öllum sem komu nálægt því að gera þessa ferð mögulega.

Undirbúningur og skipulagning fyrir ferðina var í höndum starfsfólks Dvalar, svo og leiðir til að ná kostnaðinum niður.

Dvalið var í eina viku á hóteli við Adríahafið í 25-29ºC hita í sól og logni. Við fórum 12 saman frá Dvöl aðfaranótt miðvikudagsins 17. maí sl. og tók ferðin um 11 klukkustundir, þar til komið var á áfangastað.

9. jún. 2006 : Hjálpfús börn í leikskólanum Rjúpnahæð

Börn í leikskólanum Rjúpnahæð með gjafirnar sem þau afhentu Fanneyju Karlsdóttur, framkvæmdastjóra Kópavogsdeildar.
Börn í leikskólanum Rjúpnahæð í Kópavogi komu nýlega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins og afhentu leikföng sem þau höfðu safnað handa börnum í neyð. 

Leikskólabörnin hafa verið að læra um Hjálpfús að undanförnu en það er fræðsluefni sem inniheldur sögur sem sagðar eru af Rauða kross stráknum Hjálpfúsi í formi fingurbrúðu. Markmið námsefnisins er að kenna nemendum hversu mikilvægt það er að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

Leikföngin sem leikskólabörnin gáfu eru ætluð til að gleðja munaðarlaus börn í sunnanverðri Afríku en þar styður Rauði kross Íslands við bakið á börnum sem hafa misst foreldra sína úr alnæmi. Auk þess munu leikföngin geta nýst í aðstoð við bágstödd börn á Íslandi.

2. jún. 2006 : Sjálfboðaliðar fögnuðu sumri saman

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar mættu í grillveisluna í Dvöl.
Um síðustu helgi var blásið til grillveislu fyrir sjálfboðaliða Kópavogsdeildar. Veislan var haldin í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, sem er staðsett á afar skjólgóðum og fallegum stað í Reynihvammi 43.

Sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum komu saman og fögnuðu sumri enda við hæfi þar sem hluti sjálfboðaliðanna tekur sér frí frá störfum yfir sumartímann. Veislan var því fínn endir á mjög farsælu vetrarstarfi.

Hátt í 50 manns mættu í veisluna og eftir að hafa gætt sér á grillmat tóku margir þeirra þátt í fjöldasöng við undirleik á tvo gítara.

29. maí 2006 : Vel heppnuð vorferð ungmenna

Krakkarnir saman komnir á Þingvöllum.
Á uppstigningardag héldu tæplega 50 ungmenni í vorferð á vegum Rauða kross deildanna á höfuðborgarsvæðinu. Krakkar úr Kópavogi voru alls 22 talsins og flestir þeirra ungir innflytjendur sem taka þátt í vikulegu starfi með sjálfboðaliðum Kópavogs-deildar yfir skólaárið. Auk þeirra voru önnur ungmenni sem hafa tengst og tekið þátt í Rauða kross starfi. 

Í ferðinni var fyrst stoppað á Þingvöllum þar sem útsýnið var skoðað við Hakið áður en gengið var niður Almannagjá. Næsti viðkomustaður var Þrastarlundur en þar var slegið upp grillveislu á tjaldstæðinu, farið í leiki og mikið hlegið. 

26. maí 2006 : Sjálfboðaliðar fylgdu öldruðum til messu á kirkjudegi aldraðra

Vistfólk Sunnuhlíðar fór með sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar í messu í Kópavogskirkju.
Sjálfboðaliðar úr hópi heimsóknavina Kópavogs-deildar buðu vistfólki hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar að koma með sér í messu í Kópavogskirkju á uppstigningardag.

Uppstigningardagur er jafnframt kirkjudagur aldraðra og sú venja hefur skapast á undanförnum árum að sjálfboðaliðar Kópavogs-deildar fylgi vistfólki Sunnuhlíðar í messu og messukaffi á eftir. Fjölmenni mætti í kirkjuna og að aflokinni guðsþjónustu var farið í kaffi í safnaðar-heimilinu Borgum.

26. maí 2006 : Stúlkur gengu til góðs í Kársneshverfi

Sæunn skilaði ágóðanum af söfnun vinkvennanna til Kópavogsdeildar Rauða krossins.
Vinkonurnar Sæunn Gísladóttir og Aníta Marí Kristmannsdóttir söfnuðu 6.382 krónum fyrir Rauða krossinn með því að ganga með söfnunarbauk á milli húsa í Kársneshverfi í Kópavogi. Kópavogsdeild Rauða krossins var afhent söfnunarféð í vikunni með óskum um að það rynni til styrktar fólki í neyð í Indlandi.

Segja má að stúlkurnar hafi með fjársöfnun sinni gengið til góðs sem sjálfboðaliðar Rauða krossins. Rauði kross Íslands undirbýr nú landssöfnunina Göngum til góðs sem fer fram 9. september nk. Þá mun Rauði krossinn hvetja landsmenn til að leggja söfnuninni lið með fjárframlögum til styrktar börnum sem eru fórnarlömb alnæmisvandans í Afríku. Kópavogsdeild Rauða krossins stýrir söfnuninni í Kópavogi og mun hvetja Kópavogsbúa til að ganga til góðs sem og styrkja málefnið.

18. maí 2006 : Föt sem framlag gagnast í Malaví

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar ásamt Nínu Helgadóttur skoða hannyrðir hópsins Föt sem framlag.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar komu nýlega saman í sjálfboða-miðstöðinni til að fræðast um hvernig verkefnið Föt sem framlag nýtist fólki í neyð erlendis. Myndarlegur og afkastamikill hópur sjálfboðaliða Kópavogsdeildar tekur þátt í verkefninu Föt sem framlag sem felur í sér að útbúa fatapakka fyrir börn, m.a. með því að prjóna peysur og teppi.

Nína Helgadóttir, verkefnisstjóri þróunarverkefna hjá Rauða krossi Íslands, hitti sjálfboðaliða deildarinnar og sagði þeim frá hvernig framlag þeirra kemur að góðum notum í Afríkuríkinu Malaví. Þar í landi er útbreiðsla alnæmis mikið vandamál og Rauði kross Íslands tekur þátt í að aðstoða fjölskyldur og munaðarlaus börn sem eru fórnarlömb alnæmisvandans.

12. maí 2006 : Góð skráning á Börn og umhverfi

Útlit er fyrir góða þátttöku á námskeiðinu Börn og umhverfi hjá Kópavogsdeild. Fullt er á námskeiðin sem hefjast 16. og 29. maí en enn eru nokkur laus pláss á námskeiðið sem verður 7., 8., 12. og 13. júní. Kennt er í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Fjallað er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur og veitt ítarleg kennsla í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins. 

8. maí 2006 : Alþjóðadagur Rauða krossins haldinn hátíðlegur

Garðar H. Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar og Fanney Karlsdóttir framkvæmdastjóri deildarinnar
Kópavogsdeild fagnar alþjóðadegi Rauða krossins sem er 8. maí. Dagurinn er fæðingardagur stofnanda hreyfingarinnar, Henry Dunant, og fyrst og fremt helgaður öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna fyrir Rauða krossinn og Rauða hálfmánann um heim allan. Í tilefni dagsins birtist eftirfarandi grein í Morgunblaðinu eftir Garðar H. Guðjónsson, formann deildarinnar og Fanneyju Karlsdóttur framkvæmdastjóra deildarinnar.

5. maí 2006 : Lífleg Íslandssaga fyrir unga innflytjendur

Adrian og Edmund tóku sig vel út sem víkingar á Sögusafninu.
Ungir innflytjendur heimsóttu nýlega Sögusafnið í Perlunni með sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar. Á safninu kynntust krakkarnir á myndrænan hátt þekktum atburðum og sögufrægum persónum úr Íslandssögunni. Krökkunum þótti safnið líflegt þar sem sögupersónurnar eru mjög raunverulegar en þær eru úr silikoni og gerðar eftir afsteypum af lifandi fólki. Það vakti einnig lukku krakkanna að fá að klæðast brynjum líkt og víkingar forðum daga og handleika sverð.

Starf Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum miðar að því að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

27. apr. 2006 : Hundar í heimsóknaþjónustu

Hundar í heimsóknaþjónustu Kópavogs-deildar. Frá vinstri: Elsa, Tóta, Máni, Nína og Ronja.
Hjá Kópavogsdeild Rauða krossins er að verið að hefja nýtt verkefni innan Rauða kross Íslands sem er notkun hunda í heimsókna-þjónustu. Verkefnið felur í sér að hundur ásamt eiganda sínum fer í heimsókn og veitir félagsskap.

Hundar eru farnir af stað í vikulegar heimsóknir í heimahús, á sambýli aldraðra, í Dvöl sem er athvarf fyrir geðfatlaða og í Rjóður sem er skammtímavistun fyrir langveik börn. Heimsóknir hunda eru kærkomin viðbót við starf annarra sjálfboðaliða og ákveðin nýjung í heimsóknaþjónustu.

Heimsóknir hundanna hafa vakið afar góð viðbrögð meðal þess fólks sem þeirra njóta því alls staðar er þeim tekið fagnandi. Í Dvöl hafa gestir athvarfsins lagt sig í líma við að mæta þegar von er á hundi og á öðrum stöðum er heimsókna hundanna einnig beðið með mikilli eftirvæntingu.

21. apr. 2006 : Frætt um viðbrögð vegna fuglaflensu og Kötlugoss

Herdís Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarvarna, hélt erindi á hópeflinu.
Á síðasta hópefli sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var fjallað um þátttöku Rauða krossins í undirbúningi og áætlanagerð vegna viðbragða við farsóttum af völdum fuglaflensu. Kynninguna hélt Herdís Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarvarna á landsskrifstofu Rauða kross Íslands. Herdís sagði einnig frá æfingunni Bergrisanum sem haldin var helgina 24. og 25. mars sl. og hlutverki Rauða krossins í þeirri æfingu  þar sem æfð voru viðbrögð við Kötlugosi.

Meðal verkefna sjálfboðaliða Kópavogsdeildar eru neyðarvarnir sem fela í sér fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf í neyðartilfellum.

11. apr. 2006 : Börn og umhverfi - skráning hafin

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands heldur námskeiðið Börn og umhverfi (áður barnfóstrunámskeið) fyrir ungmenni 12 ára og eldri.

Fyrsta námskeiðið: 16., 17., 22. og 23. maí  
                             kl. 18-21 alla dagana.
Annað námskeiðið: 29., 30., 31. maí og 1. júní  
                             kl. 17-20 alla dagana.

Námskeiðsgjald: 5.500 kr. Innifalin eru námskeiðsgögn, bakpoki með skyndihjálparbúnaði og hressing.
Skráning: Í síma 554 6626 eða á [email protected]

6. apr. 2006 : Frábær söfnun á fatamarkaði MK-nema

Nína Helgadóttir, sem veitti söfnunarfénu viðtöku, er hér ásamt fulltrúum nemenda í MK, Garðari Guðjónssyni formanni Kópavogsdeildar og Fanneyju Karlsdóttur framkvæmdastjóra Kópavogsdeildar.
Nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í MK afhentu í gær Rauða krossi Íslands 140.017 krónur sem renna eiga til götubarna í Mósambík. Fjárhæðin er ágóði af fatamarkaði sem haldinn var í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar 1. apríl síðastliðinn.

Nína Helgadóttir, sem sinnir verkefnum Rauða kross Íslands í Afríku, veitti söfnunarfé MK-nemanna viðtöku í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og sagði að fjárhæðin myndi nýtast afar vel þeim götubörnum í Mósambík sem leita skjóls í athvörfum Rauða krossins. Börnin eru mörg munaðarlaus eftir borgarastyrjöld sem ríkti í landinu en auk þess er fjöldi barna að missa foreldra sína úr alnæmi.

4. apr. 2006 : Ungir innflytjendur heimsóttu Ríkisútvarpið

Guðni Már Henningsson kenndi Nasipe að skipta á milli lags og auglýsinga í Popplandi á Rás tvö.
Ungir innflytjendur fóru á dögunum ásamt sjálfboðaliðum Kópavogs-deildar í skoðunarferð um Útvarps- og sjónvarpshúsið í Efstaleiti. Hópurinn fékk að fylgjast með upptökum á Stundinni okkar og ræða við þáttastjórnendurna Birtu og Bárð. Á meðan á upptökum stóð þurfti að ríkja grafarþögn og gekk það vel þrátt fyrir að fjörugur hópur væri að fylgjast með.

Síðan var gengið í gegnum leikmunadeild og förðunarherbergi og þaðan í stúdíó Rásar tvö. Þar fengu krakkarnir að aðstoða Guðna Má Henningsson við útsendingu Popplandsins. Að lokum var kíkt við á fréttastofunni þar sem var mikill hamagangur enda stór frétt í farvatninu. Krakkarnir voru hæstánægðir með ferðina og þeim þótti áhugavert að sjá hvernig vinna fer fram í kringum útvarp og sjónvarp.

30. mar. 2006 : Hópefli sjálfboðaliða

30. mar. 2006 : Fatamarkaður MK-nema til styrktar götubörnum í Mósambík

Nemendurnir flokkuðu föt fyrir markaðinn í fataflokkunarstöð Rauða krossins.
Hópur nemenda í Menntaskólanum í Kópavogi heldur fatamarkað laugardaginn 1. apríl kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins í Hamraborg 11. Notuð föt verða seld á vægu verði, allt á 300 eða 500 krónur. Fólki er einnig velkomið að prútta. Ágóðinn af markaðnum rennur til styrktar götubörnum í Mósambík.

Markaðurinn er lokaverkefni nemendanna í tveggja eininga áfanga um sjálfboðið starf. Menntaskólinn í Kópavogi mun vera fyrsti framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga.

27. mar. 2006 : Sparisjóður Kópavogs styrkir ferðalanga í Dvöl

Fulltrúar Sparisjóðs Kópavogs og Dvalar við afhendingu styrksins.
Fulltrúar frá Sparisjóði Kópavogs komu á dögunum færandi hendi í Dvöl og veittu ferðafélagi Dvalar 50 þúsund króna styrk í ferðasjóð og tólf handtöskur. Þessari höfðinglegu gjöf var tekið fagnandi í athvarfinu. Styrkurinn mun nýtast til að safna fyrir ferð gestanna til Króatíu í maí. Handtöskurnar munu án efa gagnast á ferðalaginu. Nú vantar aðeins herslumuninn að náist að safna fyrir ferðinni.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.

24. mar. 2006 : Vinsæl námskeið í skyndihjálp

Góð þátttaka er á námskeiðum í skyndihjálp hjá Kópavogsdeild. Örfá pláss eru laus á námskeið í viðbrögðum og vörnum gegn slysum á börnum sem haldið er 3. og 5. apríl kl. 18-21. Uppselt er á námskeið í skyndihjálp 28. mars. Áhugasamir eru þó hvattir til að hafa samband því hægt er að skipuleggja annað námskeið á næstunni ef þátttaka leyfir. Skráning á námskeið er í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

Jafnframt er hafin skráning á hið vinsæla námskeið Börn og um-hverfi sem er ætlað ungmennum 12 ára og eldri. Fyrsta námskeiðið hefst 17. maí.

21. mar. 2006 : Rauða kross starf kynnt á MK-deginum

Sjálfboðaliðarnir Hjördís Perla og Guðbjörg voru meðal þeirra sem kynntu samstarf Kópavogsdeildar og MK á MK-deginum.
Samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Menntaskólans í Kópavogi var á dögunum kynnt á opnu húsi í skólanum þar sem vakin var athygli á fjölbreyttu námsframboði skólans. Nemendur úr MK sem taka áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf kynntu þátttöku sína í verkefnum Kópavogsdeildar. Áfanginn sem var í fyrsta sinn í boði á þessari önn verður aftur í boði á haustönn.

Jafnframt var vakin athygli á aðkomu Kópavogsdeildar að áföngum í sálfræði og félagsfræði þar sem nemendur kynnast ákveðnum verkefnum Rauða krossins sem tengjast námsefninu.

16. mar. 2006 : Virk þátttaka í alþjóðastarfi

Skóli í bænum Gjirokastra í Albaníu.
Kópavogsdeild tók með ýmsum hætti virkan þátt í alþjóðastarfi hreyfingarinnar á síðasta ári og varði til þess talsverðum fjármunum. Í stefnu deildarinnar segir að það sé markmið hennar að taka þátt í alþjóðlegri neyðar-aðstoð á vegum Rauða kross Íslands og vera virkur þátttakandi í alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Fjallað er um alþjóðastarf og annað starf deildarinnar í ársskýrslu 2005 sem unnt er að nálgast hér.

Deildin stóð að því í samstarfi við Garðabæjardeild og Álftanesdeild að aðstoða um 150 börn í suðurhluta Albaníu sem ýmist höfðu hrakist úr skóla eða voru í áhættuhópi að því leyti en brottfall barna úr skóla er verulegt vandamál þar. Börnin hlutu aðstoð starfsfólks og sjálfboðaliða við að aðlagast skóla og samfélagi í gegnum nám og félagsstarf. Íslensku Rauða kross deildirnar standa straum af kostnaði við verkefnið.

14. mar. 2006 : Metaðsókn á námskeið Kópavogsdeildar í fyrra

Þátttakendur á námskeiðinu Börn og umhverfi.
Þátttakendur á námskeiðum á vegum Kópavogsdeildar voru fleiri í fyrra en nokkru sinni. Alls sóttu 374 átta mismunandi námskeið á vegum deildarinnar og voru flest þeirra haldin í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg 11. Þetta kemur fram í ársskýrslu fyrir starfsárið 2005 sem gefin var út í tengslum við aðalfund deildarinnar.

Langflestir komu á námskeið í skyndihjálp en aðsókn að námskeiðunum Slys á börnum og Börn og umhverfi var einnig með allra mesta móti.

Kópavogsdeild stendur að margvíslegri fræðslu fyrir almenning, fagfólk og sjálfboðaliða á ýmsum aldri.

10. mar. 2006 : Ört vaxandi sjálfboðið starf í Kópavogsdeild

Sjálfboðaliðar og ungir innflytjendur 
fengu sér á dögunum sænskar bolludagsbollur sem einn sjálfboðaliði bakaði.
Sjálfboðið starf á vegum Kópavogs-deildar hefur farið ört vaxandi á undanförnum misserum. Heimsóknir í sjálfboðamiðstöðina í Hamraborg 11 voru mun fleiri á síðasta ári en árið á undan og samningsbundnum sjálfboða-liðum fjölgaði mjög milli áranna 2004 og 2005. Þetta kemur fram í ítarlegri ársskýrslu sem kynnt var á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í vikunni. Skýrsluna má nálgast sem pdf-skjal hér á vefnum.

Í ársskýrslunni kemur fram að 110 sjálfboðaliðar störfuðu á vegum Kópavogsdeildar um síðastliðin áramót. Þar af voru 95 samningsbundnir en samningsbundnir sjálfboðaliðar voru 78 í lok árs 2004. Fram kom í máli formanns á fundinum að þeir eru nú 107 talsins.

9. mar. 2006 : Formaður endurkjörinn og þrír nýliðar í stjórn

Garðar H. Guðjónsson var endurkjörinn formaður deildarinnar á aðalfundi.
Garðar H. Guðjónsson var endurkjörinn formaður Kópavogsdeildar til tveggja ára á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gær. Þrjár breytingar urðu á skipan stjórnar og varastjórnar. Guðmundur Freyr Sveinsson stjórnmálafræðingur og Hjördís Einarsdóttir mannfræðingur voru kjörin í stjórn í stað Guðbjargar Sveinsdóttur geðhjúkrunar-fræðings og Guðmundar K. Einarssonar verslunarmanns sem gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Sigríður María Tómasdóttir fræðslufulltrúi kom ný í varastjórn í stað Ölfu Kristjánsdóttur sem gaf ekki kost á sér.

9. mar. 2006 : Sjálfboðaliðar heiðraðir á aðalfundi

Tómas Árnason, eiginmaður Þóru Kristínar Eiríksdóttur, og Anna Bjarnadóttir.
Þær Anna Bjarnadóttir og Þóra Kristín Eiríksdóttir fengu sérstaka viðurkenningu fyrir mikið og óeigingjarnt sjálfboðið starf í þágu Kópavogsdeildar á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gærkvöldi. Anna og Þóra Kristín voru báðar í hópi sjö kvenna sem ýttu starfi heimsóknavina í Sunnuhlíð úr vör í september 1984. Þær hafa síðan starfað sleitulaust fyrir deildina sem heimsóknavinir.

Þóra Kristín var lengi ein helsta driffjöðurin í að skipuleggja starfið og Anna hefur, auk þess að vera heimsóknavinur, farið fyrir öflugum hópi kvenna sem starfar að verkefninu Föt sem framlag. Hópurinn framleiddi 658 ungbarnapakka til hjálparstarfs í fyrra og hefur framlag þeirra aldrei verið meira.

7. mar. 2006 : Aðalfundur Kópavogsdeildar haldinn á miðvikudag

Aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn miðvikudaginn 8. mars kl. 20 í Hamraborg 11, 2, hæð.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf
Önnur mál

Veitingar og spjall í lok fundarins. Allir velkomnir!

3. mar. 2006 : Sjálfboðaliðar fræðast um geðraskanir

Margir mættu á fræðslukvöldið.
Fjölmennt var á fræðslukvöldi um geðraskanir sem haldið var í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í vikunni. Guðbjörg Sveinsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og forstöðumaður athvarfsins Vin, fræddi viðstadda um nokkrar tegundir af geðröskunum og samskipti við geðsjúka. Guðbjörg fjallaði einkum um geðhvörf, geðklofa, þunglyndi og kvíða.

Meirihluti áheyrenda voru sjálfboðaliðar Rauða krossins enda fræðslukvöldið fyrst og fremst ætlað sjálfboðaliðum í athvörfunum Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Vin í Reykjavík. Auk þess mættu nokkrir gestir og starfsfólk athvarfanna auk annarra áhugasamra. Áheyrendur voru duglegir að varpa fram spurningum og leggja orð í belg.

27. feb. 2006 : Nýjar starfsreglur Kópavogsdeildar samþykktar

Birtar hafa verið hér á vefnum nýjar starfsreglur Kópavogsdeildar sem taka mið af nýsamþykktum almennum starfsreglum fyrir deildir félagsins. Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, var formaður starfshóps sem samdi nýjar starfsreglur fyrir deildir, svæðasamstarf og ungmennahreyfinguna á síðasta ári. Þær voru samþykktar í stjórn Rauða kross Íslands í desember og tóku gildi 1. janúar síðastliðinn.

Endurskoðun starfsreglnanna tók mið af nýjum lögum félagsins sem samþykkt voru á aðalfundi vorið 2005. Starfsreglur Kópavogsdeildar hafa nú verið aðlagaðar almennu starfsreglunum og staðfesti stjórn Rauða kross Íslands þær á fundi sínum í síðustu viku. Kópavogsdeild er fyrsta deildin í félaginu sem birtir sérstakar starfsreglur í kjölfar nýju, almennu reglnanna.

24. feb. 2006 : Mikill áhugi á starfi Rauða krossins

Í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar sagði Sólveig Ólafsdóttir nemendum úr MK frá þróunar- og hjálparstarfi Rauða krossins.
Fjölbreytt kynning á starfi Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur að undanförnu átt sér stað innan skólastarfs í Kópavogi á grunn- og framhaldsskólastigi.

Fulltrúar í nemendaráðum allra grunnskóla Kópavogs fengu kynningu á Rauða krossinum á sameiginlegum starfsdegi nemendaráða í félagsmiðstöðinni Ekkó. Nemendurnir voru vaktir til umhugsunar um gildi þess að vera sjálfboðaliði og hvaða verkefnum ungmenni geta sinnt innan Kópavogsdeildar Rauða krossins.

Öllum 8. bekkjum grunnskóla Kópavogs stendur til boða að fá sérstaka fræðslu um Rauða krossinn á skólatíma og hafa nokkrir skólar óskað eftir því nú þegar.

20. feb. 2006 : Ungum innflytjendum boðið í Þjóðleikhúsið

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fóru með unga innflytjendur í Þjóðleikhúsið um helgina að sjá sýninguna Klaufar og kóngsdætur. Þjóðleikhúsið bauð hópnum á sýninguna í kjölfar kynningarferðar í leikhúsið sem sjálfboðaliðar deildarinnar skipulögðu fyrir unga innflytjendur í síðustu viku.

Í kynningarferðinni fengu krakkarnir að skoða leikhúsið og fræðast um starfsemi þess. Hluti af krökkunum hafði ekki farið í leikhús áður og var því að kynnast leikhúsmenningu í fyrsta sinn. Á sýningunni skemmti hópurinn sér vel enda litrík og skemmtileg uppfærsla á sígildum ævintýrum eftir H.C. Andersen.

17. feb. 2006 : Fatamarkaður til styrktar ferðalöngum í Dvöl

Gestir í Dvöl munu selja hluta af hannyrðum sínum á fatamarkaðnum.
Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, halda fatamarkað laugardaginn 18. febrúar kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins Hamraborg 11, 2. hæð. Seld verða notuð föt á vægu verði, allt á 300 kr. eða 500 kr. Ýmsar hannyrðir og málverk eftir gesti Dvalar verða einnig til sölu. Kaffi á könnunni.

Allur ágóði af markaðnum rennur í ferðasjóð Dvalar en gestirnir eru að safna fyrir ferðalagi til Króatíu í sumar. Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.

15. feb. 2006 : Fjölgun í hópi heimsóknavina Kópavogsdeildar

Hluti af þátttakendum á námskeiði fyrir heimsóknavini.
Kópavogsdeild hélt í kvöld námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu. Nýir heimsóknavinir munu því hefja störf á næstunni enda ekki vanþörf á þar sem deildin hefur fengið allmargar óskir um heimsóknir sjálfboðaliða að undanförnu. Meirihluti þeirra sem notfæra sér þjónustuna eru aldraðir en þó eru nokkrir yngri, allt niður í tvítugt.

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem rjúfa einsemd og félagslega einangrun með heimsóknum á einkaheimili eða stofnanir. Heimsóknavinir veita félagsskap m.a. með því að spjalla, lesa fyrir viðkomandi og fara í gönguferðir. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku í klukkustund.

9. feb. 2006 : Heimsóknavinir óskast!

Kópavogsdeild óskar eftir sjálfboðaliðum til að sinna heimsóknaþjónustu.

Undirbúningsnámskeið verður haldið í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 miðvikudaginn 15. febrúar kl. 18-21.

Heimsóknavinir heimsækja fólk sem býr við einsemd og félagslega einangrun. Heimsóknavinir veita félagsskap m.a. með því að spjalla, lesa fyrir viðkomandi og fara í gönguferðir. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku í klukkustund.

Námskeiðið er ókeypis og opið öllum áhugasömum.
Skráning fer fram í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

9. feb. 2006 : Fjölmennt hópefli sjálfboðaliða

Guðríður Haraldsdóttir flutti erindi á hópeflinu.
Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hittust í hópefli þriðjudaginn 7. febrúar og hlýddu á erindi Guðríðar Haraldsdóttur, sálfræðings, sem byggt var á bókinni Að alast upp aftur.

Guðríður kynnti efni sem fjallar um að skoða eigin líðan og leiðir í samskiptum við okkar börn, vini, maka og starfsfélaga.

Efnið er helst notað á námskeiðum fyrir foreldra en ýmislegt í efninu er hægt að heimfæra upp á fjölbreytt samskipti, svo sem milli sjálfboðaliða og skjólstæðinga.

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hittast mánaðarlega í hópefli í sjálfboðamiðstöðinni.

7. feb. 2006 : Starf Rauða krossins kynnt á Framadögum

Fanney Karlsdóttir frá Kópavogsdeild og Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Reykjavíkurdeild í bás Rauða krossins á Framadögum.
Rauði kross Íslands kynnti á dögunum starfsemi sína á Framadögum fyrir háskólanema. Framadagar mynda tengsl á milli atvinnulífsins og háskólanna í landinu.

Rauði krossins lagði áherslu á að kynna sjálfboðin störf og störf sendifulltrúa á erlendri grundu. Fulltrúi frá Kópavogsdeild tók þátt í að kynna sjálfboðin störf.

Á Framadögum er iðulega boðið upp á nokkur erindi og hélt Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar Rauða krossins og stjórnarmaður í Rauða krossi Íslands fyrirlestur um sjálfboðið starf, gildi þess fyrir samfélagið og fólk á framabraut.

2. feb. 2006 : Ungir innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur

Sjálfboðaliðarnir Helena og Freyja með Antoni og Irfan í ráðhúsinu.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fóru í gær með 15 unga innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur. Krakkarnir þurftu að finna Austurvöll, Arnarhól, útitaflið, Bæjarins bestu og svara spurningum á hverjum stað.

Á Austurvelli fannst 10 ára dömu ekki nóg að svara því hvaða dag Jón Sigurðsson ætti afmæli heldur bætti því við að hann væri fæddur 1811. Endastöðin hjá öllum var við stóra kortið af Íslandi í ráðhúsinu.

Sjálfboðaliðarnir settust síðan niður með krökkunum á Ráðhúskaffi þar sem heitt súkkulaði var á boðstólnum.

31. jan. 2006 : Gestir Dvalar undirbúa fatamarkað í fjáröflunarskyni

Joakim sjálfboðaliði hefur leiðbeint gestum Dvalar í myndlist og málverk gestanna gætu orðið til sýnis og jafnvel til sölu á fatamarkaðnum.
Þessa dagana er fjölbreytt dagskrá í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða í Kópavogi. Gestir athvarfsins eru að undirbúa fatamarkað sem haldinn verður í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar laugardaginn 18. febrúar. Seld verða notuð föt á vægu verði auk ýmissa hannyrða sem gestirnir útbúa.

Ágóðinn af fatamarkaðnum mun renna í ferðasjóð Dvalar og er markið sett á að komast alla leið til Króatíu í sumar auk þess að fara í eina dagsferð innanlands.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar. 

23. jan. 2006 : Tombólubörn í Kópavogi söfnuðu 77.046 krónum árið 2005

Aníta og Ástrós komu fyrir stuttu í sjálfboðamiðstöðina með ágóðann af tombólu sem þær héldu.
Á nýliðnu ári söfnuðust samtals 77.046 krónur fyrir tilstilli 66 ungra Kópavogsbúa sem héldu tombólur, skipulögðu flöskusafnanir eða söfnuðu fyrir félagið með öðrum hætti. Krakkarnir fengu góðar móttökur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og þar var séð til þess að mynd af þeim rataði í fjölmiðla.

Kópavogsdeild þakkar þessum dugmiklu krökkum fyrir stuðning þeirra við starf félagsins en allur ágóði af söfnun krakkanna rennur til stuðnings börnum í neyð í gegnum Rauða kross verkefni erlendis. Nú í byrjun nýs árs hafa fleiri Kópavogskrakkar sýnt hug sinn í verki og safnað fyrir Rauða krossinn. Sjá umfjöllun um þá hér að neðan.

18. jan. 2006 : Afhentu verulega fjárhæð til hjálparstarfs í Pakistan

Aníta Ólöf, Hjördís, Kristján og Garðar við afhendingu söfnunarfjárins.
Aníta Ólöf Jónsdóttir og Hjördís Einarsdóttir afhentu í dag Kópavogsdeild Rauða kross Íslands ágóðann af tónleikum til styrktar jarðskjálftanum í Pakistan sem haldnir voru í Austurbæ 29. desember síðastliðinn. Upphæðin sem safnaðist vegna tónleikanna var 610.000 kr. en auk þess voru lagðar inn 280.000 kr. á söfnunarreikning Rauða krossins dagana í kringum tónleikana. Samtals söfnuðust því 890.000 kr. sem renna óskertar í hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðunum.

Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og stjórnarmaður í Rauða krossi Íslands, tók við fénu fyrir hönd félagsins. Hann þakkaði Anítu, Hjördísi og þeim fjölmörgu öðrum sem komu að verkefninu fyrir þetta mikilsverða framlag til hjálparstarfsins í Kasmír.
- Þetta var aðdáunarvert framtak hjá ykkur og ég færi ykkur bestu þakkir frá Rauða krossi Íslands og fyrir hönd þeirra sem munu njóta góðs af, sagði Garðar.

18. jan. 2006 : Rauði krossinn æfir viðbrögð vegna bruna í fjölbýlishúsi

Sjálfboðaliðar léku íbúa fjölbýlishússins og skráðu sig í fjöldahjálparstöðina.
Á laugardaginn voru æfð viðbrögð Rauða krossins við aðstoð íbúa sem þurfa að yfirgefa heimili sín vegna bruna í íbúablokk. Opnuð var fjöldahjálparstöð í Fellaskóla og komu 25 manns í stöðina og veittu fulltrúar Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði almenna umönnun, sálrænan stuðning og skyndihjálp.

Neyðarnefndin var staðsett í Fellaskóla þar sem 15 þjálfaðir fjöldahjálparstjórar voru að störfum auk starfsfólks frá skólanum. Samhliða voru tveir fulltrúar landsskrifstofu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni og æfðu úrvinnslu skráningar og aðra aðstoð vegna aðgerðarinnar.

12. jan. 2006 : Nemendur MK velja áfanga um sjálfboðið starf

Nemendur MK hafa áður kynnst starfi Rauða krossins í gegnum fræðslu í nokkrum námsáföngum.
Á þessari önn gefst nemendum Menntaskólans í Kópavogi í fyrsta sinn kostur á að velja áfangann SJÁ 102 sem felur í sér sjálfboðið starf í samráði við Kópavogsdeild Rauða krossins. Kennarar í MK og fulltrúar Kópavogsdeildar tóku sig saman um að hanna áfangann með það að markmiði að gefa nemendum færi á að kynnast sjálfboðnu starfi og fá það metið sem hluta af námi sínu.

Nemendur munu sinna verkefnum á borð við aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Í lok annar skipuleggja nemendurnir og hafa umsjón með fatamarkaði sem verður haldinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. Allur ágóði af markaðnum rennur til styrktar ungmennum í neyð erlendis.

4. jan. 2006 : Sjálfboðaliðar óskast!

Starf með ungum innflytjendum er meðal verkefna sjálfboðaliða Kópavogsdeildar.
Kópavogsdeild óskar eftir fleiri sjálfboðaliðum í margvísleg mannúðarverkefni deildarinnar. Verkefnin eru fjölbreytt og því ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, sjá nánari lýsingar neðar.

Áhugasamir hafi samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

Hópur sjálfboðaliða heimsækir einstaklinga sem eru einmana eða félagslega einangraðir. Aðrir sjálfboðaliðar starfa með geðfötluðum í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, en þeir sjá alfarið um að halda athvarfinu opnu á laugardögum. Í rúmt ár hefur svo hópur sjálfboðaliða starfað með ungum innflytjendum í Kópavogi sem eru að aðlagast lífinu á Íslandi. Þá eru ónefnd verkefni á borð við neyðarvarnir, Föt sem framlag og fataflokkun.

3. jan. 2006 : Velheppnaðir styrktartónleikar

Góð stemmning og ágæt aðsókn var á tónleikum til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans í Pakistan sem haldnir voru í Austurbæ 29. desember. Allur ágóði af tónleikunum rennur í hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðunum. Heildarupphæðin sem safnaðist liggur ekki enn fyrir en skýrist á næstu dögum.