31. jan. 2006 : Gestir Dvalar undirbúa fatamarkað í fjáröflunarskyni

Joakim sjálfboðaliði hefur leiðbeint gestum Dvalar í myndlist og málverk gestanna gætu orðið til sýnis og jafnvel til sölu á fatamarkaðnum.
Þessa dagana er fjölbreytt dagskrá í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða í Kópavogi. Gestir athvarfsins eru að undirbúa fatamarkað sem haldinn verður í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar laugardaginn 18. febrúar. Seld verða notuð föt á vægu verði auk ýmissa hannyrða sem gestirnir útbúa.

Ágóðinn af fatamarkaðnum mun renna í ferðasjóð Dvalar og er markið sett á að komast alla leið til Króatíu í sumar auk þess að fara í eina dagsferð innanlands.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar. 

23. jan. 2006 : Tombólubörn í Kópavogi söfnuðu 77.046 krónum árið 2005

Aníta og Ástrós komu fyrir stuttu í sjálfboðamiðstöðina með ágóðann af tombólu sem þær héldu.
Á nýliðnu ári söfnuðust samtals 77.046 krónur fyrir tilstilli 66 ungra Kópavogsbúa sem héldu tombólur, skipulögðu flöskusafnanir eða söfnuðu fyrir félagið með öðrum hætti. Krakkarnir fengu góðar móttökur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og þar var séð til þess að mynd af þeim rataði í fjölmiðla.

Kópavogsdeild þakkar þessum dugmiklu krökkum fyrir stuðning þeirra við starf félagsins en allur ágóði af söfnun krakkanna rennur til stuðnings börnum í neyð í gegnum Rauða kross verkefni erlendis. Nú í byrjun nýs árs hafa fleiri Kópavogskrakkar sýnt hug sinn í verki og safnað fyrir Rauða krossinn. Sjá umfjöllun um þá hér að neðan.

18. jan. 2006 : Afhentu verulega fjárhæð til hjálparstarfs í Pakistan

Aníta Ólöf, Hjördís, Kristján og Garðar við afhendingu söfnunarfjárins.
Aníta Ólöf Jónsdóttir og Hjördís Einarsdóttir afhentu í dag Kópavogsdeild Rauða kross Íslands ágóðann af tónleikum til styrktar jarðskjálftanum í Pakistan sem haldnir voru í Austurbæ 29. desember síðastliðinn. Upphæðin sem safnaðist vegna tónleikanna var 610.000 kr. en auk þess voru lagðar inn 280.000 kr. á söfnunarreikning Rauða krossins dagana í kringum tónleikana. Samtals söfnuðust því 890.000 kr. sem renna óskertar í hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðunum.

Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og stjórnarmaður í Rauða krossi Íslands, tók við fénu fyrir hönd félagsins. Hann þakkaði Anítu, Hjördísi og þeim fjölmörgu öðrum sem komu að verkefninu fyrir þetta mikilsverða framlag til hjálparstarfsins í Kasmír.
- Þetta var aðdáunarvert framtak hjá ykkur og ég færi ykkur bestu þakkir frá Rauða krossi Íslands og fyrir hönd þeirra sem munu njóta góðs af, sagði Garðar.

18. jan. 2006 : Rauði krossinn æfir viðbrögð vegna bruna í fjölbýlishúsi

Sjálfboðaliðar léku íbúa fjölbýlishússins og skráðu sig í fjöldahjálparstöðina.
Á laugardaginn voru æfð viðbrögð Rauða krossins við aðstoð íbúa sem þurfa að yfirgefa heimili sín vegna bruna í íbúablokk. Opnuð var fjöldahjálparstöð í Fellaskóla og komu 25 manns í stöðina og veittu fulltrúar Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði almenna umönnun, sálrænan stuðning og skyndihjálp.

Neyðarnefndin var staðsett í Fellaskóla þar sem 15 þjálfaðir fjöldahjálparstjórar voru að störfum auk starfsfólks frá skólanum. Samhliða voru tveir fulltrúar landsskrifstofu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni og æfðu úrvinnslu skráningar og aðra aðstoð vegna aðgerðarinnar.

12. jan. 2006 : Nemendur MK velja áfanga um sjálfboðið starf

Nemendur MK hafa áður kynnst starfi Rauða krossins í gegnum fræðslu í nokkrum námsáföngum.
Á þessari önn gefst nemendum Menntaskólans í Kópavogi í fyrsta sinn kostur á að velja áfangann SJÁ 102 sem felur í sér sjálfboðið starf í samráði við Kópavogsdeild Rauða krossins. Kennarar í MK og fulltrúar Kópavogsdeildar tóku sig saman um að hanna áfangann með það að markmiði að gefa nemendum færi á að kynnast sjálfboðnu starfi og fá það metið sem hluta af námi sínu.

Nemendur munu sinna verkefnum á borð við aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Í lok annar skipuleggja nemendurnir og hafa umsjón með fatamarkaði sem verður haldinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. Allur ágóði af markaðnum rennur til styrktar ungmennum í neyð erlendis.

4. jan. 2006 : Sjálfboðaliðar óskast!

Starf með ungum innflytjendum er meðal verkefna sjálfboðaliða Kópavogsdeildar.
Kópavogsdeild óskar eftir fleiri sjálfboðaliðum í margvísleg mannúðarverkefni deildarinnar. Verkefnin eru fjölbreytt og því ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, sjá nánari lýsingar neðar.

Áhugasamir hafi samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

Hópur sjálfboðaliða heimsækir einstaklinga sem eru einmana eða félagslega einangraðir. Aðrir sjálfboðaliðar starfa með geðfötluðum í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, en þeir sjá alfarið um að halda athvarfinu opnu á laugardögum. Í rúmt ár hefur svo hópur sjálfboðaliða starfað með ungum innflytjendum í Kópavogi sem eru að aðlagast lífinu á Íslandi. Þá eru ónefnd verkefni á borð við neyðarvarnir, Föt sem framlag og fataflokkun.

3. jan. 2006 : Velheppnaðir styrktartónleikar

Góð stemmning og ágæt aðsókn var á tónleikum til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans í Pakistan sem haldnir voru í Austurbæ 29. desember. Allur ágóði af tónleikunum rennur í hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðunum. Heildarupphæðin sem safnaðist liggur ekki enn fyrir en skýrist á næstu dögum.