27. feb. 2006 : Nýjar starfsreglur Kópavogsdeildar samþykktar

Birtar hafa verið hér á vefnum nýjar starfsreglur Kópavogsdeildar sem taka mið af nýsamþykktum almennum starfsreglum fyrir deildir félagsins. Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, var formaður starfshóps sem samdi nýjar starfsreglur fyrir deildir, svæðasamstarf og ungmennahreyfinguna á síðasta ári. Þær voru samþykktar í stjórn Rauða kross Íslands í desember og tóku gildi 1. janúar síðastliðinn.

Endurskoðun starfsreglnanna tók mið af nýjum lögum félagsins sem samþykkt voru á aðalfundi vorið 2005. Starfsreglur Kópavogsdeildar hafa nú verið aðlagaðar almennu starfsreglunum og staðfesti stjórn Rauða kross Íslands þær á fundi sínum í síðustu viku. Kópavogsdeild er fyrsta deildin í félaginu sem birtir sérstakar starfsreglur í kjölfar nýju, almennu reglnanna.

24. feb. 2006 : Mikill áhugi á starfi Rauða krossins

Í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar sagði Sólveig Ólafsdóttir nemendum úr MK frá þróunar- og hjálparstarfi Rauða krossins.
Fjölbreytt kynning á starfi Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur að undanförnu átt sér stað innan skólastarfs í Kópavogi á grunn- og framhaldsskólastigi.

Fulltrúar í nemendaráðum allra grunnskóla Kópavogs fengu kynningu á Rauða krossinum á sameiginlegum starfsdegi nemendaráða í félagsmiðstöðinni Ekkó. Nemendurnir voru vaktir til umhugsunar um gildi þess að vera sjálfboðaliði og hvaða verkefnum ungmenni geta sinnt innan Kópavogsdeildar Rauða krossins.

Öllum 8. bekkjum grunnskóla Kópavogs stendur til boða að fá sérstaka fræðslu um Rauða krossinn á skólatíma og hafa nokkrir skólar óskað eftir því nú þegar.

20. feb. 2006 : Ungum innflytjendum boðið í Þjóðleikhúsið

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fóru með unga innflytjendur í Þjóðleikhúsið um helgina að sjá sýninguna Klaufar og kóngsdætur. Þjóðleikhúsið bauð hópnum á sýninguna í kjölfar kynningarferðar í leikhúsið sem sjálfboðaliðar deildarinnar skipulögðu fyrir unga innflytjendur í síðustu viku.

Í kynningarferðinni fengu krakkarnir að skoða leikhúsið og fræðast um starfsemi þess. Hluti af krökkunum hafði ekki farið í leikhús áður og var því að kynnast leikhúsmenningu í fyrsta sinn. Á sýningunni skemmti hópurinn sér vel enda litrík og skemmtileg uppfærsla á sígildum ævintýrum eftir H.C. Andersen.

17. feb. 2006 : Fatamarkaður til styrktar ferðalöngum í Dvöl

Gestir í Dvöl munu selja hluta af hannyrðum sínum á fatamarkaðnum.
Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, halda fatamarkað laugardaginn 18. febrúar kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins Hamraborg 11, 2. hæð. Seld verða notuð föt á vægu verði, allt á 300 kr. eða 500 kr. Ýmsar hannyrðir og málverk eftir gesti Dvalar verða einnig til sölu. Kaffi á könnunni.

Allur ágóði af markaðnum rennur í ferðasjóð Dvalar en gestirnir eru að safna fyrir ferðalagi til Króatíu í sumar. Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.

15. feb. 2006 : Fjölgun í hópi heimsóknavina Kópavogsdeildar

Hluti af þátttakendum á námskeiði fyrir heimsóknavini.
Kópavogsdeild hélt í kvöld námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu. Nýir heimsóknavinir munu því hefja störf á næstunni enda ekki vanþörf á þar sem deildin hefur fengið allmargar óskir um heimsóknir sjálfboðaliða að undanförnu. Meirihluti þeirra sem notfæra sér þjónustuna eru aldraðir en þó eru nokkrir yngri, allt niður í tvítugt.

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem rjúfa einsemd og félagslega einangrun með heimsóknum á einkaheimili eða stofnanir. Heimsóknavinir veita félagsskap m.a. með því að spjalla, lesa fyrir viðkomandi og fara í gönguferðir. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku í klukkustund.

9. feb. 2006 : Heimsóknavinir óskast!

Kópavogsdeild óskar eftir sjálfboðaliðum til að sinna heimsóknaþjónustu.

Undirbúningsnámskeið verður haldið í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 miðvikudaginn 15. febrúar kl. 18-21.

Heimsóknavinir heimsækja fólk sem býr við einsemd og félagslega einangrun. Heimsóknavinir veita félagsskap m.a. með því að spjalla, lesa fyrir viðkomandi og fara í gönguferðir. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku í klukkustund.

Námskeiðið er ókeypis og opið öllum áhugasömum.
Skráning fer fram í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

9. feb. 2006 : Fjölmennt hópefli sjálfboðaliða

Guðríður Haraldsdóttir flutti erindi á hópeflinu.
Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hittust í hópefli þriðjudaginn 7. febrúar og hlýddu á erindi Guðríðar Haraldsdóttur, sálfræðings, sem byggt var á bókinni Að alast upp aftur.

Guðríður kynnti efni sem fjallar um að skoða eigin líðan og leiðir í samskiptum við okkar börn, vini, maka og starfsfélaga.

Efnið er helst notað á námskeiðum fyrir foreldra en ýmislegt í efninu er hægt að heimfæra upp á fjölbreytt samskipti, svo sem milli sjálfboðaliða og skjólstæðinga.

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hittast mánaðarlega í hópefli í sjálfboðamiðstöðinni.

7. feb. 2006 : Starf Rauða krossins kynnt á Framadögum

Fanney Karlsdóttir frá Kópavogsdeild og Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Reykjavíkurdeild í bás Rauða krossins á Framadögum.
Rauði kross Íslands kynnti á dögunum starfsemi sína á Framadögum fyrir háskólanema. Framadagar mynda tengsl á milli atvinnulífsins og háskólanna í landinu.

Rauði krossins lagði áherslu á að kynna sjálfboðin störf og störf sendifulltrúa á erlendri grundu. Fulltrúi frá Kópavogsdeild tók þátt í að kynna sjálfboðin störf.

Á Framadögum er iðulega boðið upp á nokkur erindi og hélt Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar Rauða krossins og stjórnarmaður í Rauða krossi Íslands fyrirlestur um sjálfboðið starf, gildi þess fyrir samfélagið og fólk á framabraut.

2. feb. 2006 : Ungir innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur

Sjálfboðaliðarnir Helena og Freyja með Antoni og Irfan í ráðhúsinu.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fóru í gær með 15 unga innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur. Krakkarnir þurftu að finna Austurvöll, Arnarhól, útitaflið, Bæjarins bestu og svara spurningum á hverjum stað.

Á Austurvelli fannst 10 ára dömu ekki nóg að svara því hvaða dag Jón Sigurðsson ætti afmæli heldur bætti því við að hann væri fæddur 1811. Endastöðin hjá öllum var við stóra kortið af Íslandi í ráðhúsinu.

Sjálfboðaliðarnir settust síðan niður með krökkunum á Ráðhúskaffi þar sem heitt súkkulaði var á boðstólnum.