30. mar. 2006 : Hópefli sjálfboðaliða

30. mar. 2006 : Fatamarkaður MK-nema til styrktar götubörnum í Mósambík

Nemendurnir flokkuðu föt fyrir markaðinn í fataflokkunarstöð Rauða krossins.
Hópur nemenda í Menntaskólanum í Kópavogi heldur fatamarkað laugardaginn 1. apríl kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins í Hamraborg 11. Notuð föt verða seld á vægu verði, allt á 300 eða 500 krónur. Fólki er einnig velkomið að prútta. Ágóðinn af markaðnum rennur til styrktar götubörnum í Mósambík.

Markaðurinn er lokaverkefni nemendanna í tveggja eininga áfanga um sjálfboðið starf. Menntaskólinn í Kópavogi mun vera fyrsti framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga.

27. mar. 2006 : Sparisjóður Kópavogs styrkir ferðalanga í Dvöl

Fulltrúar Sparisjóðs Kópavogs og Dvalar við afhendingu styrksins.
Fulltrúar frá Sparisjóði Kópavogs komu á dögunum færandi hendi í Dvöl og veittu ferðafélagi Dvalar 50 þúsund króna styrk í ferðasjóð og tólf handtöskur. Þessari höfðinglegu gjöf var tekið fagnandi í athvarfinu. Styrkurinn mun nýtast til að safna fyrir ferð gestanna til Króatíu í maí. Handtöskurnar munu án efa gagnast á ferðalaginu. Nú vantar aðeins herslumuninn að náist að safna fyrir ferðinni.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.

24. mar. 2006 : Vinsæl námskeið í skyndihjálp

Góð þátttaka er á námskeiðum í skyndihjálp hjá Kópavogsdeild. Örfá pláss eru laus á námskeið í viðbrögðum og vörnum gegn slysum á börnum sem haldið er 3. og 5. apríl kl. 18-21. Uppselt er á námskeið í skyndihjálp 28. mars. Áhugasamir eru þó hvattir til að hafa samband því hægt er að skipuleggja annað námskeið á næstunni ef þátttaka leyfir. Skráning á námskeið er í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

Jafnframt er hafin skráning á hið vinsæla námskeið Börn og um-hverfi sem er ætlað ungmennum 12 ára og eldri. Fyrsta námskeiðið hefst 17. maí.

21. mar. 2006 : Rauða kross starf kynnt á MK-deginum

Sjálfboðaliðarnir Hjördís Perla og Guðbjörg voru meðal þeirra sem kynntu samstarf Kópavogsdeildar og MK á MK-deginum.
Samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Menntaskólans í Kópavogi var á dögunum kynnt á opnu húsi í skólanum þar sem vakin var athygli á fjölbreyttu námsframboði skólans. Nemendur úr MK sem taka áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf kynntu þátttöku sína í verkefnum Kópavogsdeildar. Áfanginn sem var í fyrsta sinn í boði á þessari önn verður aftur í boði á haustönn.

Jafnframt var vakin athygli á aðkomu Kópavogsdeildar að áföngum í sálfræði og félagsfræði þar sem nemendur kynnast ákveðnum verkefnum Rauða krossins sem tengjast námsefninu.

16. mar. 2006 : Virk þátttaka í alþjóðastarfi

Skóli í bænum Gjirokastra í Albaníu.
Kópavogsdeild tók með ýmsum hætti virkan þátt í alþjóðastarfi hreyfingarinnar á síðasta ári og varði til þess talsverðum fjármunum. Í stefnu deildarinnar segir að það sé markmið hennar að taka þátt í alþjóðlegri neyðar-aðstoð á vegum Rauða kross Íslands og vera virkur þátttakandi í alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Fjallað er um alþjóðastarf og annað starf deildarinnar í ársskýrslu 2005 sem unnt er að nálgast hér.

Deildin stóð að því í samstarfi við Garðabæjardeild og Álftanesdeild að aðstoða um 150 börn í suðurhluta Albaníu sem ýmist höfðu hrakist úr skóla eða voru í áhættuhópi að því leyti en brottfall barna úr skóla er verulegt vandamál þar. Börnin hlutu aðstoð starfsfólks og sjálfboðaliða við að aðlagast skóla og samfélagi í gegnum nám og félagsstarf. Íslensku Rauða kross deildirnar standa straum af kostnaði við verkefnið.

14. mar. 2006 : Metaðsókn á námskeið Kópavogsdeildar í fyrra

Þátttakendur á námskeiðinu Börn og umhverfi.
Þátttakendur á námskeiðum á vegum Kópavogsdeildar voru fleiri í fyrra en nokkru sinni. Alls sóttu 374 átta mismunandi námskeið á vegum deildarinnar og voru flest þeirra haldin í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg 11. Þetta kemur fram í ársskýrslu fyrir starfsárið 2005 sem gefin var út í tengslum við aðalfund deildarinnar.

Langflestir komu á námskeið í skyndihjálp en aðsókn að námskeiðunum Slys á börnum og Börn og umhverfi var einnig með allra mesta móti.

Kópavogsdeild stendur að margvíslegri fræðslu fyrir almenning, fagfólk og sjálfboðaliða á ýmsum aldri.

10. mar. 2006 : Ört vaxandi sjálfboðið starf í Kópavogsdeild

Sjálfboðaliðar og ungir innflytjendur 
fengu sér á dögunum sænskar bolludagsbollur sem einn sjálfboðaliði bakaði.
Sjálfboðið starf á vegum Kópavogs-deildar hefur farið ört vaxandi á undanförnum misserum. Heimsóknir í sjálfboðamiðstöðina í Hamraborg 11 voru mun fleiri á síðasta ári en árið á undan og samningsbundnum sjálfboða-liðum fjölgaði mjög milli áranna 2004 og 2005. Þetta kemur fram í ítarlegri ársskýrslu sem kynnt var á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í vikunni. Skýrsluna má nálgast sem pdf-skjal hér á vefnum.

Í ársskýrslunni kemur fram að 110 sjálfboðaliðar störfuðu á vegum Kópavogsdeildar um síðastliðin áramót. Þar af voru 95 samningsbundnir en samningsbundnir sjálfboðaliðar voru 78 í lok árs 2004. Fram kom í máli formanns á fundinum að þeir eru nú 107 talsins.

9. mar. 2006 : Formaður endurkjörinn og þrír nýliðar í stjórn

Garðar H. Guðjónsson var endurkjörinn formaður deildarinnar á aðalfundi.
Garðar H. Guðjónsson var endurkjörinn formaður Kópavogsdeildar til tveggja ára á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gær. Þrjár breytingar urðu á skipan stjórnar og varastjórnar. Guðmundur Freyr Sveinsson stjórnmálafræðingur og Hjördís Einarsdóttir mannfræðingur voru kjörin í stjórn í stað Guðbjargar Sveinsdóttur geðhjúkrunar-fræðings og Guðmundar K. Einarssonar verslunarmanns sem gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Sigríður María Tómasdóttir fræðslufulltrúi kom ný í varastjórn í stað Ölfu Kristjánsdóttur sem gaf ekki kost á sér.

9. mar. 2006 : Sjálfboðaliðar heiðraðir á aðalfundi

Tómas Árnason, eiginmaður Þóru Kristínar Eiríksdóttur, og Anna Bjarnadóttir.
Þær Anna Bjarnadóttir og Þóra Kristín Eiríksdóttir fengu sérstaka viðurkenningu fyrir mikið og óeigingjarnt sjálfboðið starf í þágu Kópavogsdeildar á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gærkvöldi. Anna og Þóra Kristín voru báðar í hópi sjö kvenna sem ýttu starfi heimsóknavina í Sunnuhlíð úr vör í september 1984. Þær hafa síðan starfað sleitulaust fyrir deildina sem heimsóknavinir.

Þóra Kristín var lengi ein helsta driffjöðurin í að skipuleggja starfið og Anna hefur, auk þess að vera heimsóknavinur, farið fyrir öflugum hópi kvenna sem starfar að verkefninu Föt sem framlag. Hópurinn framleiddi 658 ungbarnapakka til hjálparstarfs í fyrra og hefur framlag þeirra aldrei verið meira.

7. mar. 2006 : Aðalfundur Kópavogsdeildar haldinn á miðvikudag

Aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn miðvikudaginn 8. mars kl. 20 í Hamraborg 11, 2, hæð.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf
Önnur mál

Veitingar og spjall í lok fundarins. Allir velkomnir!

3. mar. 2006 : Sjálfboðaliðar fræðast um geðraskanir

Margir mættu á fræðslukvöldið.
Fjölmennt var á fræðslukvöldi um geðraskanir sem haldið var í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í vikunni. Guðbjörg Sveinsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og forstöðumaður athvarfsins Vin, fræddi viðstadda um nokkrar tegundir af geðröskunum og samskipti við geðsjúka. Guðbjörg fjallaði einkum um geðhvörf, geðklofa, þunglyndi og kvíða.

Meirihluti áheyrenda voru sjálfboðaliðar Rauða krossins enda fræðslukvöldið fyrst og fremst ætlað sjálfboðaliðum í athvörfunum Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Vin í Reykjavík. Auk þess mættu nokkrir gestir og starfsfólk athvarfanna auk annarra áhugasamra. Áheyrendur voru duglegir að varpa fram spurningum og leggja orð í belg.