27. apr. 2006 : Hundar í heimsóknaþjónustu

Hundar í heimsóknaþjónustu Kópavogs-deildar. Frá vinstri: Elsa, Tóta, Máni, Nína og Ronja.
Hjá Kópavogsdeild Rauða krossins er að verið að hefja nýtt verkefni innan Rauða kross Íslands sem er notkun hunda í heimsókna-þjónustu. Verkefnið felur í sér að hundur ásamt eiganda sínum fer í heimsókn og veitir félagsskap.

Hundar eru farnir af stað í vikulegar heimsóknir í heimahús, á sambýli aldraðra, í Dvöl sem er athvarf fyrir geðfatlaða og í Rjóður sem er skammtímavistun fyrir langveik börn. Heimsóknir hunda eru kærkomin viðbót við starf annarra sjálfboðaliða og ákveðin nýjung í heimsóknaþjónustu.

Heimsóknir hundanna hafa vakið afar góð viðbrögð meðal þess fólks sem þeirra njóta því alls staðar er þeim tekið fagnandi. Í Dvöl hafa gestir athvarfsins lagt sig í líma við að mæta þegar von er á hundi og á öðrum stöðum er heimsókna hundanna einnig beðið með mikilli eftirvæntingu.

21. apr. 2006 : Frætt um viðbrögð vegna fuglaflensu og Kötlugoss

Herdís Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarvarna, hélt erindi á hópeflinu.
Á síðasta hópefli sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var fjallað um þátttöku Rauða krossins í undirbúningi og áætlanagerð vegna viðbragða við farsóttum af völdum fuglaflensu. Kynninguna hélt Herdís Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri neyðarvarna á landsskrifstofu Rauða kross Íslands. Herdís sagði einnig frá æfingunni Bergrisanum sem haldin var helgina 24. og 25. mars sl. og hlutverki Rauða krossins í þeirri æfingu  þar sem æfð voru viðbrögð við Kötlugosi.

Meðal verkefna sjálfboðaliða Kópavogsdeildar eru neyðarvarnir sem fela í sér fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf í neyðartilfellum.

11. apr. 2006 : Börn og umhverfi - skráning hafin

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands heldur námskeiðið Börn og umhverfi (áður barnfóstrunámskeið) fyrir ungmenni 12 ára og eldri.

Fyrsta námskeiðið: 16., 17., 22. og 23. maí  
                             kl. 18-21 alla dagana.
Annað námskeiðið: 29., 30., 31. maí og 1. júní  
                             kl. 17-20 alla dagana.

Námskeiðsgjald: 5.500 kr. Innifalin eru námskeiðsgögn, bakpoki með skyndihjálparbúnaði og hressing.
Skráning: Í síma 554 6626 eða á [email protected]

6. apr. 2006 : Frábær söfnun á fatamarkaði MK-nema

Nína Helgadóttir, sem veitti söfnunarfénu viðtöku, er hér ásamt fulltrúum nemenda í MK, Garðari Guðjónssyni formanni Kópavogsdeildar og Fanneyju Karlsdóttur framkvæmdastjóra Kópavogsdeildar.
Nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í MK afhentu í gær Rauða krossi Íslands 140.017 krónur sem renna eiga til götubarna í Mósambík. Fjárhæðin er ágóði af fatamarkaði sem haldinn var í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar 1. apríl síðastliðinn.

Nína Helgadóttir, sem sinnir verkefnum Rauða kross Íslands í Afríku, veitti söfnunarfé MK-nemanna viðtöku í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og sagði að fjárhæðin myndi nýtast afar vel þeim götubörnum í Mósambík sem leita skjóls í athvörfum Rauða krossins. Börnin eru mörg munaðarlaus eftir borgarastyrjöld sem ríkti í landinu en auk þess er fjöldi barna að missa foreldra sína úr alnæmi.

4. apr. 2006 : Ungir innflytjendur heimsóttu Ríkisútvarpið

Guðni Már Henningsson kenndi Nasipe að skipta á milli lags og auglýsinga í Popplandi á Rás tvö.
Ungir innflytjendur fóru á dögunum ásamt sjálfboðaliðum Kópavogs-deildar í skoðunarferð um Útvarps- og sjónvarpshúsið í Efstaleiti. Hópurinn fékk að fylgjast með upptökum á Stundinni okkar og ræða við þáttastjórnendurna Birtu og Bárð. Á meðan á upptökum stóð þurfti að ríkja grafarþögn og gekk það vel þrátt fyrir að fjörugur hópur væri að fylgjast með.

Síðan var gengið í gegnum leikmunadeild og förðunarherbergi og þaðan í stúdíó Rásar tvö. Þar fengu krakkarnir að aðstoða Guðna Má Henningsson við útsendingu Popplandsins. Að lokum var kíkt við á fréttastofunni þar sem var mikill hamagangur enda stór frétt í farvatninu. Krakkarnir voru hæstánægðir með ferðina og þeim þótti áhugavert að sjá hvernig vinna fer fram í kringum útvarp og sjónvarp.