29. maí 2006 : Vel heppnuð vorferð ungmenna

Krakkarnir saman komnir á Þingvöllum.
Á uppstigningardag héldu tæplega 50 ungmenni í vorferð á vegum Rauða kross deildanna á höfuðborgarsvæðinu. Krakkar úr Kópavogi voru alls 22 talsins og flestir þeirra ungir innflytjendur sem taka þátt í vikulegu starfi með sjálfboðaliðum Kópavogs-deildar yfir skólaárið. Auk þeirra voru önnur ungmenni sem hafa tengst og tekið þátt í Rauða kross starfi. 

Í ferðinni var fyrst stoppað á Þingvöllum þar sem útsýnið var skoðað við Hakið áður en gengið var niður Almannagjá. Næsti viðkomustaður var Þrastarlundur en þar var slegið upp grillveislu á tjaldstæðinu, farið í leiki og mikið hlegið. 

26. maí 2006 : Sjálfboðaliðar fylgdu öldruðum til messu á kirkjudegi aldraðra

Vistfólk Sunnuhlíðar fór með sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar í messu í Kópavogskirkju.
Sjálfboðaliðar úr hópi heimsóknavina Kópavogs-deildar buðu vistfólki hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar að koma með sér í messu í Kópavogskirkju á uppstigningardag.

Uppstigningardagur er jafnframt kirkjudagur aldraðra og sú venja hefur skapast á undanförnum árum að sjálfboðaliðar Kópavogs-deildar fylgi vistfólki Sunnuhlíðar í messu og messukaffi á eftir. Fjölmenni mætti í kirkjuna og að aflokinni guðsþjónustu var farið í kaffi í safnaðar-heimilinu Borgum.

26. maí 2006 : Stúlkur gengu til góðs í Kársneshverfi

Sæunn skilaði ágóðanum af söfnun vinkvennanna til Kópavogsdeildar Rauða krossins.
Vinkonurnar Sæunn Gísladóttir og Aníta Marí Kristmannsdóttir söfnuðu 6.382 krónum fyrir Rauða krossinn með því að ganga með söfnunarbauk á milli húsa í Kársneshverfi í Kópavogi. Kópavogsdeild Rauða krossins var afhent söfnunarféð í vikunni með óskum um að það rynni til styrktar fólki í neyð í Indlandi.

Segja má að stúlkurnar hafi með fjársöfnun sinni gengið til góðs sem sjálfboðaliðar Rauða krossins. Rauði kross Íslands undirbýr nú landssöfnunina Göngum til góðs sem fer fram 9. september nk. Þá mun Rauði krossinn hvetja landsmenn til að leggja söfnuninni lið með fjárframlögum til styrktar börnum sem eru fórnarlömb alnæmisvandans í Afríku. Kópavogsdeild Rauða krossins stýrir söfnuninni í Kópavogi og mun hvetja Kópavogsbúa til að ganga til góðs sem og styrkja málefnið.

18. maí 2006 : Föt sem framlag gagnast í Malaví

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar ásamt Nínu Helgadóttur skoða hannyrðir hópsins Föt sem framlag.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar komu nýlega saman í sjálfboða-miðstöðinni til að fræðast um hvernig verkefnið Föt sem framlag nýtist fólki í neyð erlendis. Myndarlegur og afkastamikill hópur sjálfboðaliða Kópavogsdeildar tekur þátt í verkefninu Föt sem framlag sem felur í sér að útbúa fatapakka fyrir börn, m.a. með því að prjóna peysur og teppi.

Nína Helgadóttir, verkefnisstjóri þróunarverkefna hjá Rauða krossi Íslands, hitti sjálfboðaliða deildarinnar og sagði þeim frá hvernig framlag þeirra kemur að góðum notum í Afríkuríkinu Malaví. Þar í landi er útbreiðsla alnæmis mikið vandamál og Rauði kross Íslands tekur þátt í að aðstoða fjölskyldur og munaðarlaus börn sem eru fórnarlömb alnæmisvandans.

12. maí 2006 : Góð skráning á Börn og umhverfi

Útlit er fyrir góða þátttöku á námskeiðinu Börn og umhverfi hjá Kópavogsdeild. Fullt er á námskeiðin sem hefjast 16. og 29. maí en enn eru nokkur laus pláss á námskeiðið sem verður 7., 8., 12. og 13. júní. Kennt er í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Fjallað er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur og veitt ítarleg kennsla í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins. 

8. maí 2006 : Alþjóðadagur Rauða krossins haldinn hátíðlegur

Garðar H. Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar og Fanney Karlsdóttir framkvæmdastjóri deildarinnar
Kópavogsdeild fagnar alþjóðadegi Rauða krossins sem er 8. maí. Dagurinn er fæðingardagur stofnanda hreyfingarinnar, Henry Dunant, og fyrst og fremt helgaður öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna fyrir Rauða krossinn og Rauða hálfmánann um heim allan. Í tilefni dagsins birtist eftirfarandi grein í Morgunblaðinu eftir Garðar H. Guðjónsson, formann deildarinnar og Fanneyju Karlsdóttur framkvæmdastjóra deildarinnar.

5. maí 2006 : Lífleg Íslandssaga fyrir unga innflytjendur

Adrian og Edmund tóku sig vel út sem víkingar á Sögusafninu.
Ungir innflytjendur heimsóttu nýlega Sögusafnið í Perlunni með sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar. Á safninu kynntust krakkarnir á myndrænan hátt þekktum atburðum og sögufrægum persónum úr Íslandssögunni. Krökkunum þótti safnið líflegt þar sem sögupersónurnar eru mjög raunverulegar en þær eru úr silikoni og gerðar eftir afsteypum af lifandi fólki. Það vakti einnig lukku krakkanna að fá að klæðast brynjum líkt og víkingar forðum daga og handleika sverð.

Starf Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum miðar að því að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.