24. jún. 2006 : Sumarlokun sjálfboðamiðstöðvar

Skrifstofa og sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins er lokuð vegna sumarleyfa en opnar aftur þriðjudaginn 8. ágúst. Opnunartíminn verður þá sem fyrr alla virka daga kl. 11-15. Ef brýn nauðsyn krefur er hægt að hafa samband við formann deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson á [email protected] eða 895 5807.

23. jún. 2006 : Fræknir félagar söfnuðu fyrir Rauða krossinn

Frá vinstri: Breki, Brynjar, Hjörtur Týr og Kristófer Valur. Theódór Óskar vantar á myndina.
Fimm félagar úr Kópavogsskóla afhentu Kópavogsdeild Rauða kross Íslands 8.262 kr.
sem þeir höfðu safnað með því að halda tombólu í nokkra daga fyrir utan Nóatún í Hamraborg. Þetta voru þeir Brynjar og Breki Arndal, Hjörtur Týr Björnsson, Kristófer Valur Brynjarsson og Theódór Óskar Þorvaldsson. Strákarnir sögðust staðráðnir í því að halda áfram að safna fyrir góð málefni og leggja þannig sitt af mörkum til að hjálpa fólki. Þeim þótti hins vegar miður að sumir vegfarendur höfðu ekki trúað því að þeir væru að safna fyrir Rauða krossinn.

Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Fjársöfnun ungmenna rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er um hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

21. jún. 2006 : Dvöl hlýtur milljón króna í styrk frá Bónus

Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, tekur við styrknum úr hendi Jóhannesar Jónssonar kaupmanns. Á milli þeirra eru Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.
Á þjóðhátíðardaginn fékk Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, afhentan styrk frá Bónus að upphæð ein milljón króna. Féð mun renna í ferða- og tómstundasjóð gesta Dvalar og mun þannig nýtast til að rjúfa félagslega einangrun þeirra.

Jóhannes Jónsson kaupmaður afhenti Garðari H. Guðjónssyni, formanni Kópavogsdeildar, styrkinn við opnun nýrrar verslunar Bónus í Ögurhvarfi í Kópavogi að viðstöddum nokkrum gestum Dvalar og fjölmörgum viðskiptavinum verslunarinnar.

„Þetta er höfðingleg gjöf og ánægjuleg viðurkenning á því starfi sem fram fer í Dvöl. Við munum sjá til þess að fénu verði vel varið í þágu gesta Dvalar. Markmiðið með starfinu er að auka lífsgæði fólks og þessi gjöf hjálpar okkur í því mikilvæga starfi,“ segir Garðar.

16. jún. 2006 : Sjálfboðaliðar fjölmenntu á Litlu hryllingsbúðina

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu söngleikinn Litla hryllingsbúðin í gær í boði Íslensku óperunnar. Sýningin, sem er sviðsett af Leikfélagi Akureyrar, er sýnd í Reykjavík um þessar mundir og er kraftmikil og fjörug enda um sígildan rokksöngleik að ræða. Áhugasamir eru hiklaust hvattir til að skella sér á söngleikinn á meðan færi gefst en sýningardagar eru áætlaðir út júní.

Sýningin er tilnefnd til nokkurra verðlauna Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, sem afhent verða í dag, þ.á.m. sem besta sýningin að mati áhorfenda. Nánari upplýsingar um sýninguna eru hér.

Kópavogsdeild þakkar Íslensku óperunni kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

13. jún. 2006 : Dvalargestir í Króatíu

Hópurinn fyrir framan gistiheimilið.
Mig langar í nokkrum orðum að segja frá ferð Dvalarhópsins til Króatíu, um leið og ég vil fyrir hönd hópsins þakka öllum sem komu nálægt því að gera þessa ferð mögulega.

Undirbúningur og skipulagning fyrir ferðina var í höndum starfsfólks Dvalar, svo og leiðir til að ná kostnaðinum niður.

Dvalið var í eina viku á hóteli við Adríahafið í 25-29ºC hita í sól og logni. Við fórum 12 saman frá Dvöl aðfaranótt miðvikudagsins 17. maí sl. og tók ferðin um 11 klukkustundir, þar til komið var á áfangastað.

9. jún. 2006 : Hjálpfús börn í leikskólanum Rjúpnahæð

Börn í leikskólanum Rjúpnahæð með gjafirnar sem þau afhentu Fanneyju Karlsdóttur, framkvæmdastjóra Kópavogsdeildar.
Börn í leikskólanum Rjúpnahæð í Kópavogi komu nýlega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins og afhentu leikföng sem þau höfðu safnað handa börnum í neyð. 

Leikskólabörnin hafa verið að læra um Hjálpfús að undanförnu en það er fræðsluefni sem inniheldur sögur sem sagðar eru af Rauða kross stráknum Hjálpfúsi í formi fingurbrúðu. Markmið námsefnisins er að kenna nemendum hversu mikilvægt það er að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

Leikföngin sem leikskólabörnin gáfu eru ætluð til að gleðja munaðarlaus börn í sunnanverðri Afríku en þar styður Rauði kross Íslands við bakið á börnum sem hafa misst foreldra sína úr alnæmi. Auk þess munu leikföngin geta nýst í aðstoð við bágstödd börn á Íslandi.

2. jún. 2006 : Sjálfboðaliðar fögnuðu sumri saman

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar mættu í grillveisluna í Dvöl.
Um síðustu helgi var blásið til grillveislu fyrir sjálfboðaliða Kópavogsdeildar. Veislan var haldin í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, sem er staðsett á afar skjólgóðum og fallegum stað í Reynihvammi 43.

Sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum komu saman og fögnuðu sumri enda við hæfi þar sem hluti sjálfboðaliðanna tekur sér frí frá störfum yfir sumartímann. Veislan var því fínn endir á mjög farsælu vetrarstarfi.

Hátt í 50 manns mættu í veisluna og eftir að hafa gætt sér á grillmat tóku margir þeirra þátt í fjöldasöng við undirleik á tvo gítara.