27. nóv. 2006 : Afmælisgjafir runnu til Rauða krossins

Kópavogsbúinn Bogi Þórir Guðjónsson hélt nýlega upp á áttræðisafmæli sitt og í stað þess að þiggja gjafir hvatti hann vini og vandamenn til þess að styrkja Rauða krossinn. Bogi Þórir fékk að láni söfnunarbauk Kópavogsdeildar Rauða krossins og hafði hann frammi í afmælisveislunni sem hann hélt í félagsheimili eldri borgara í Gjábakka. Alls söfnuðust rúmar 20 þúsund krónur í baukinn sem voru afhentar Kópavogsdeild.

Kópavogsdeild Rauða krossins þakkar Boga Þóri kærlega fyrir framtakið og fólkinu hans fyrir að styðja verkefni félagsins.

Verkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins snúa að mannúðarmálum og margvíslegri aðstoð við þá sem búa við þrengingar og mótlæti. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sinna verkefnum á borð við heimsóknir til fólks sem býr við einsemd og einangrun, starf með ungum innflytjendum, stuðning við geðfatlaða, störf að neyðarvörnum, fatasöfnun og fataflokkun. Kópavogsdeild tekur einnig þátt í neyðaraðstoð félagsins erlendis.

23. nóv. 2006 : Nemendur MK kynntu sér þróunarstarf Rauða krossins

Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda í MK komu fyrir stuttu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fræddust um þróunarstarf Rauða krossins. Gestur Hrólfsson, starfsmaður á alþjóðasviði Rauða kross Íslands, kynnti nemendunum þróunarverkefni Rauða kross Íslands í Afríku.

Gestur sagði frá því viðfangsmikla verkefni sem baráttan gegn alnæmi er orðin í álfunni og áherslur Rauða krossins í þeim efnum. Hann benti á hvernig söfnunarféð í landssöfnuninni Göngum til góðs mun nýtast í verkefni Rauða kross Íslands í Afríku til stuðnings börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmisvandans.

Gestur sagði mikilvægasta framlag sjálfboðaliða Rauða krossins í Afríku kunna að vera það fræðslu- og forvarnarstarf sem þeir inna af hendi meðal fjölskyldna og þorpssamfélaga um alla álfuna. Það væri starf sem oft fari lítið fyrir en beri ríkulegan ávöxt.

18. nóv. 2006 : Fjölgun hunda í heimsóknaþjónustu

Fleiri hundar hafa bæst í hóp sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins og heimsækja fólk sem óska eftir félagsskap þeirra. Nýjasta viðbótin er hundurinn Pollý sem heimsækir vikulega vistfólk á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð ásamt eiganda sínum Lilju. Þar að auki heimsækja hundar nú öll sambýli aldraðra í Kópavogi, Dvöl sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og Rjóðrið sem er skammtímavistun fyrir langveik börn. Hundar taka einnig þátt í nokkrum heimsóknum sjálfboðaliða í heimahús, þar sem þess er óskað, og eru hundarnir hvatning til þeirra sem vilja fara út að ganga. Hundar í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar voru áberandi í hundagöngu sem farin var niður Laugaveginn í byrjun nóvember. Hundaræktarfélag Íslands stóð fyrir göngunni og Rauða kross hundarnir voru í forystusveit göngunnar ásamt einum lögregluhundi.

11. nóv. 2006 : Héldu tombólu í Salahverfi

Systurnar Erna María, Guðbjörg, Lilja og Rebekka Ósk Svavarsdætur héldu tombólu ásamt vinkonu sinni Örnu Björk Helgadóttur. Ágóðann af tombólunni, 500 kr., afhentu þær Kópavogsdeild Rauða krossins. Tombólan var haldin fyrir utan Nettó í Salahverfi og varningurinn var dót sem stelpurnar höfðu safnað í hverfinu. Stelpurnar vissu að Rauði krossinn starfar í yfir 180 löndum að því að hjálpa fólki þar sem neyðin er mest og mikil fátækt. Söfnunarfé stúlknanna rennur einmitt í verkefni Rauða krossins til styrktar börnum í neyð erlendis. Fyrir tilstilli tombólubarna á Íslandi safnast árlega samtals um hálf milljón króna.