21. des. 2006 : Gleðilega jólahátíð

Kópavogsdeild Rauða krossins óskar sjálfboðaliðum og samstarfsfólki gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir starfið á árinu sem er að líða.

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar opnar aftur eftir jólaleyfi fimmtudaginn 4. janúar kl. 11.

21. des. 2006 : Jólastemmning í Dvöl

Gestkvæmt var í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, í vikunni þegar jólamatur var þar á borðum. Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins og bæjarstjóri Kópavogs voru á meðal gesta. Boðið var upp á bæði londonlamb og svínasteik en í eftirrétt var heimalagaður ís. Eftir matinn settust fastagestirnir í Dvöl saman og lásu jólakortin sem höfðu borist athvarfinu. Gestirnir fengu einnig afhenta jólapakka frá Kópavogsdeild Rauða krossins til að taka með sér heim og opna á aðfangadagskvöld.

Á Þorláksmessu munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sjá um að halda athvarfinu opnu kl. 13-16. Síðan verður opið dagana 27.-29. desember og eftir áramótin opnar aftur 2. janúar. Í Dvöl er opið alla virka daga kl. 9-16 nema fimmtudaga kl. 10-16.

18. des. 2006 : Sjálfboðaliðar skipulögðu aðventuhátíð í Sunnuhlíð

Þann 3. desember síðast liðinn héldu konur í hópi heimsóknavina Kópagvogsdeildar í Sunnuhlíð sína árlegu aðventuhátíð fyrir heimilisfólk, fjölskyldur þess og starfsfólk. Sáu þær um skipulag hátíðarinnar, dagskrá og veitingar.

Margt skemmtilegt var á dagskrá hátíðarinnar í ár. Hún hófst á því að allir fengu sér hressingu og piparkökur og að því búnu var séra Ægir Fr. Sigurgeirsson með hugvekju. Þá tók við söngur og að lokum var öllum boðið upp á kaffi og kökur. Dagmar Huld Matthíasdóttur hjúkrunarforstjóri í Sunnuhlíð sagði gesti hátíðarinnar hafa verið um 150 talsins og fannst henni hátíðin í ár vera sérlega vel lukkuð.

12. des. 2006 : Konur í Sunnuhlíð gáfu í Föt sem framlag

Konur í dagvist á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð afhentu Kópavogsdeild nýlega ellefu ungbarnateppi og þrjár ungbarnahúfur að gjöf. Teppin og húfurnar renna í verkefni deildarinnar sem kallast Föt sem framlag. Verkefnið felst í því að útbúnir eru fatapakkar til neyðaraðstoðar erlendis, einkum í Afríku, og eru teppi og húfa hluti þess sem er í pakkanum.

Anna Bjarnadótttir, hópstjóri sjálfboðaliða Kópavogsdeildar í Föt sem framlag, tók á móti teppunum og húfunum og fannst henni sérlega gleðilegt að konur í Sunnuhlíð gæfu þessa gjöf. Konurnar hafa líka skrifað börnunum og fjölskyldum þeirra bréf sem fylgir teppunum. Bréfinu fylgir mynd af konunum þar sem þær eru að prjóna. Fulltrúar Rauða kross Íslands ætla að gera það sem þeir geta til að bréfið berist á leiðarenda um leið og teppin.

11. des. 2006 : Kristín Steinsdóttir rithöfundur las fyrir unga innflytjendur

Kristín Steinsdóttir rithöfundur heimsótti hópinn Enter, unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára, síðastliðinn miðvikudag. Hún sagði þeim frá tveimur bókum sínum, Rissa vill ekki fljúga og Hver étur ísbirni?. Bækurnar vöktu mikla lukku, börnin hlustuðu öll af athygli og sum þeirra könnuðust við eða höfðu þegar lesið bækurnar sem Kristínu fannst gleðilegt.

Kristín sagði frá því að verið væri að þýða bækur hennar á hin ýmsu tungumál og að í framtíðinni væri gaman að geta boðið erlendum börnum á Íslandi að lesa úrval íslenskra barnabóka á móðurmáli þeirra. Judita Virbickaite, sem er ein af sjálfboðaliðunum í Enter, kemur frá Litháen og var ánægð að sjá Kristínu með litháíska útgáfu af bók sinni Engill í Vesturbænum. Hún sagði að mörg litháísk börn á Íslandi gætu haft gaman af að lesa hana á móðurmáli sínu.

7. des. 2006 : Fjölmennur fagnaður á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Húsfyllir var á opnu húsi Kópavogsdeildar á alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar deildarinnar úr fjölbreyttum verkefnum komu saman ásamt mörgum góðum gestum. Skemmtiatriðin vöktu mikla lukku og jólalega veitingar runnu ljúflega niður.

Einar Már Guðmundsson rithöfundur flutti valin ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni Ég stytti mér leið framhjá dauðanum. Einar Már svaraði síðan fyrirspurnum áheyrenda. Hann sagði að sjálfsagt mætti líkja starfi Rauða krossins að einhverju leyti við þá sýn í nokkrum ljóðanna að þegar maður er kominn í öngstræti birtir til að nýju.

Nýtt tvíeyki á tónlistarsviðinu, Elísabet Eyþórsdóttir söngkona og Börkur Hrafn Birgisson gítarleikari, braut upp upplesturinn með því að flytja nokkur ljúf lög af geisladisknum Þriðja leiðin en lögin samdi Börkur Hrafn við ljóð Einars Más.

5. des. 2006 : Vaxandi þátttaka í sjálfboðnu Rauða kross starfi

Kópavogsdeild fagnar í dag alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans sem er tileinkaður þeim fjölmörgu einstaklingum sem vinna sjálfboðið starf í þágu annarra.

„Það er ánægjulegt að segja frá því nú á alþjóðadegi sjálfboðaliðans að fjöldi sjálfboðaliða Kópavogsdeildar hefur um það bil þrefaldast á síðastliðnum þremur árum“, segja þau Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, og Fanney Karlsdóttir, framkvæmdastjóri deildarinnar, í eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu í tilefni dagsins. Í greininni er fjallað um vaxandi þátttöku í sjálfboðnu Rauða kross starfi.

Ungt fólk gefur af sér í sjálfboðnu starfi

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur á undanförnum árum beint kröftum sínum að því að efla sjálfboðið starf á vegum deildarinnar, styrkja rótgróin verkefni og hefja ný. Við stóðum frammi fyrir þeirri staðreynd fyrir fáeinum árum að sáralítil endurnýjun hafði orðið í hópi sjálfboðaliðanna um nokkurt árabil og meðalaldur þeirra var orðinn allhár.
Okkur þótti því tímabært að blása til sóknar og freista þess að auka verulega nýliðun í hópi sjálfboðaliðanna. Það var að hluta til takmark í sjálfu sér að fjölga sjálfboðaliðum en fyrst og fremst kölluðu aðkallandi verkefni eftir fjölgun sjálfboðaliða.

2. des. 2006 : Opið hús á alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans, þriðjudaginn 5. desember, verður opið hús í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins kl. 19.30-21.00 að Hamraborg 11. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að fjölmenna ásamt vinum og ættingjum. Auk þess eru allir velkomnir sem vilja kynna sér starf deildarinnar og skemmta sér í tilefni dagsins. Boðið verður upp á skemmtiatriði og ljúffengar veitingar með jólalegu ívafi.

Dagskrá:
•  Einar Már Guðmundsson rithöfundur les brot úr bókum sínum og ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni Ég stytti mér leið framhjá dauðanum.
•  Börkur Hrafn Birgisson gítarleikari og Elísabet Eyþórsdóttir söngkona flytja lög af nýja geisladisknum Þriðja leiðin.
•  Eldhugar Kópavogsdeildar Rauða krossins flytja frumsaminn leikþátt um mikilvægi vináttu og virðingar í samfélaginu.
•  Nemendur Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur söngkonu flytja nokkur lög.

1. des. 2006 : Kínversk leikfimi fyrir gesti Dvalar

Einu sinni í viku sér sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins um að bjóða gestum í Dvöl í kínverska leikfimi. Sjálfboðaliðinn, Guðbjörg Sveinsdóttir, hefur staðið fyrir leikfimi í Dvöl undanfarin ár og sér auk þess um að leiðbeina gestum í handavinnu í beinu kjölfari af leikfiminni. Framtak Guðbjargar er svo sannarlega vel metið af gestum athvarfsins. Leikfimin er stunduð utanhúss þegar veður leyfir enda eykur það á frískleikann. Þess má geta að systir Guðbjargar er einnig sjálfboðaliði í Dvöl því hún býður gestum í nudd.

Sjálfboðaliðar í Dvöl koma víða að og þessa dagana eru þeirra á meðal Maria frá Grikklandi, Temitope frá Nígeríu og Romuald frá Frakklandi. Þau eru öll á Íslandi á vegum Alþjóðlegra ungmennaskipta. Mynd af þeim fylgir hér fyrir neðan.

1. des. 2006 : Eldhugar heimsóttu ungmenni í Hafnarfirði

Eldhugar Kópavogsdeildar heimsóttu í síðustu viku jafnaldra sína í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins sem hittast þar á sama tíma vikulega. Hafnfirðingarnir tóku vel á móti hópnum og buðu upp á myndasýningu. Sýndar voru þrjár stuttmyndir sem unglingar í starfi Gamla bókasafnsins í Hafnarfirði gerðu síðastliðið sumar. Í myndunum er á gamansaman hátt fjallað um fordóma og mismunun í nútíma samfélagi. Myndirnar vöktu mikla athygli og þóttu hin besta skemmtun þrátt fyrir að umfjöllunarefnið hefði alvarlegan undirtón.

Ungmennin fengu svo tíma til að kynnast betur og áður en þau vissu af var rútan mætt til að aka Eldhugum aftur í heimahagana. Eldhugar þakka fyrir góðar móttökur og hafa fullan hug á að bjóða Hafnfirðingunum í heimsókn til sín eftir áramót.

Eldhugar hafa í þessari viku æft leikþætti sem sýndir verða á opnu húsi í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 á alþjóðadegi sjálfboðaliðans 5. desember.