19. des. 2007 : Jólaljóð Eldhuga

Krakkarnir í Eldhugum sömdu ljóð á dögunum eins og fram hefur komið á þessari síðu og hér fyrir neðan kemur annað sköpunarverk Eldhuga í tilefni þess að jólin eru á næsta leyti.

Jólin eru bæði fyrir svarta og hvíta
Og þá á enginn að vera að kýta
Þá ríkir ást og friður
Eins og jólanna er siður
Hvíti jólasnjórinn fellur til jarðar
Alla leið frá Kópavogi til Ísafjarðar
Stjarna skær á himni skín
Og allir fara í jólafötin sín
Öllum líður vel
Og dagana til jóla ég tel
Þá borða allir saman
Og hafa mjög gaman
              
               -Eydís Eldhugi

18. des. 2007 : Forstöðumannaskipti í Dvöl

Í lok síðasta mánaðar kvaddi Björk Guðmundsdóttir gesti og starfsfólk Dvalar en Björk hefur gengt stöðu forstöðumanns frá því í byrjun febrúar 2005.  Í hennar stað hefur verið ráðin Ingibjörg Hrönn Ingimarsdóttir.

Starfsemi Dvalar hefur dafnað vel frá opnun og aðsóknin verið góð og hefur Björk átt stóran hlut í velgengni athvarfsins. Gestir eru sammála um að notalegt andrúmsloft og vistlegt umhverfi einkenni athvarfið. Þeir einstaklingar sem sækja athvarfið koma flestir til að rjúfa einangrun og fá stuðning en þetta er mjög breiður hópur á aldrinum 20 til 70 ára. Bæði konur og karlar sækja athvarfið. Athvarfið er opið alla virka daga kl. 9-16 nema á fimmtudögum en þá er opið kl. 10-16 og kl. 13-16 á laugardögum.

13. des. 2007 : Litlu jólin hjá Enter-krökkunum

Í gær var síðasti tíminn hjá Enter-krökkunum í sjálfboðamiðstöðinni fyrir jól. Það voru hin svokölluðu “litlu jól” hjá krökkunum og fengu þau jólasmákökur og hlustuðu á jólatónlist í tilefni dagsins. Föndruðu þau líka ýmislegt, klipptu út stjörnur og hjörtu ásamt því að teikna. Þau fengu einnig hundinn Leó í heimsókn en Leó vekur gjarnan mikla lukku hjá krökkunum þegar hann heimsækir þá. Hann mætti með jólatrefil og fengu krakkarnir að klappa honum og knúsa.

11. des. 2007 : Eldhugar í ljóðagerð

Eldhugarnir hittust í síðasta skipti fyrir jól á fimmtudaginn í síðustu viku og fóru á kaffihús. Fengu þeir kakó og köku og röbbuðu heilmikið saman og kynntust betur. Þeir sömdu einnig nokkur jólaljóð eins og það sem birtist hér fyrir neðan.

Á jólunum er allt skreytt
En skrautið það verður breytt
Á jólunum ríkir ást og friður
Jólatréð er gamall siður
Snjókornin falla út um allt
Gleðin ríkir þúsundfalt
Jesúbarnið fæddist hér
Og því skemmta allir sér
                 
                   -Konný Eldhugi

10. des. 2007 : Nemendur í MK afhenda afrakstur fatamarkaðs

Nemendur frá Menntaskólanum í Kópavogi afhentu á dögunum fulltrúa frá alþjóðasviði Rauða kross Íslands, Gesti Hrólfssyni, 95 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem nemendurnir stóðu fyrir í nóvember. Peningarnir renna í hjálparsjóð Rauða krossins sem er notaður til að efla menntun fátækra ungmenna í Mósambík.

7. des. 2007 : Tombólubörn

Börn í Kópavogi eru dugleg að halda tombólur eins og svo oft áður og hafa 33 börn búsett í Kópavogi haldið tombólur á árinu 2007.

Rúmlega 300 börn um allt land stóðu fyrir tombólum til styrktar starfi Rauða krossins á árinu og söfnuðu alls um 500.000 kr. Framlag tombólubarnanna rennur alltaf til ungmenna- og barnastarfs Rauða krossins víða um heim, og að þessu sinni verða peningarnir notaðir til að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku.

6. des. 2007 : Húsfyllir á fagnaði vegna alþjóðadags sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fylltu sjálfboðamiðstöðina á fagnaði sem haldinn var í gærkvöldi í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga. Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, greindi frá því í stuttu ávarpi að sjálfboðaliðum deildarinnar hefur fjölgað verulega á árinu eins og á undanförnum árum.

Samningsbundnir sjálfboðaliðar voru 175 fyrir réttu ári en þeim hefur síðan fjölgað í 240 eða um 37 af hundraði. Garðar þakkaði sjálfboðaliðum fyrir frábært framlag þeirra á árinu og sagðist vonast til að sjá sem flesta að störfum á nýju ári.

5. des. 2007 : Sjálfboðaliðagleði í kvöld

Í dag, 5. desember er alþjóðadagur sjálfboðaliðans og því verður haldin hátíð í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg 11 fyrir alla sjálfboðaliða deildarinnar. Hátíðin stendur yfir frá kl. 20-22 og verður margt góðra gesta.

Boðið verður upp á ljúffengar veitingar með jólalegu ívafi. Þetta er kjörið tækifæri fyrir sjálfboðaliða deildarinnar til að hittast og skemmta sér saman á aðventunni og taka með sér gesti, svo sem vini, maka, foreldra, systkini og börn. Nýir sjálfboðaliðar velkomnir.

30. nóv. 2007 : Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember

Laugardaginn 1. desember kl. 14-16 munu Eldhugar ásamt öðrum ungmennum í Rauða kross starfi selja rauð alnæmismerki í Smáralind sem búin eru til af fólki sem tekur þátt í sjálfshjálparhópi smitaðra á vegum Rauða krossins í Malaví og rennur allur ágóði af sölunni til hópsins.

Fulltrúi frá alþjóðasviði Rauða krossins fræddi Eldhuga fyrr í vetur um alnæmi í sunnanverðri Afríku og starf Rauða krossins á þeim slóðum. Einnig komu læknanemar í heimsókn og voru með fræðslu um kynsjúkdóma og þar á meðal alnæmi.

29. nóv. 2007 : Prjónakaffi

Síðasta prjónakaffi ársins var haldið í sjálfboðmiðstöð Kópavogsdeildar í gær og mættu 27 hressar prjónakonur. Komu þær með afrakstur síðasta mánaðar og nýttu síðan samveruna til þess að prjóna, fá sér kaffi og ræða saman um hin ýmsu mál.

 

28. nóv. 2007 : Eldhugar selja merki til stuðnings alnæmissmituðum

Ungmennahreyfing Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu mun þann 1. desember, frá kl. 14 – 16, selja merki með mynd af alnæmisborðanum í Smáralind.

Merkin eru handgerð úr perlum og eru búin til af fólki sem er smitað af alnæmi og tekur þátt í sjálfshjálparhópum í Malaví. Þetta er mjög fátækt fólk og verður ágóða af merkjasölunni varið til þess að efla starf með alnæmissmituðum í Malaví auk þess sem félagar í sjálfshjálparhópunum fá hluta af ágóðanum til eigin nota.

Í síðustu samveru Eldhuga byrjuðu krakkarnir að perla nælu til eigin nota og fengu þannig góða tilfinningu fyrir vinnunni að baki merkjunum sem á að fara að selja. Nú er talið að tæpar 40 milljónir manna séu smitaðar af alnæmisveirunni og munu fleiri líða vegna alnæmis, t.d. um 4,6 milljónir barna í sunnanverðri Afríku sem orðið hafa munaðarlaus.

26. nóv. 2007 : Vistfólki hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar boðið á Kjarvalsstaði

Sjálfboðaliðar úr hópi heimsóknavina Kópavogsdeildar fylgdu vistfólki hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar á Kjarvalsstaði í síðustu viku en deildin hefur boðið vistfólkinu upp á svipaðar ferðir í nokkur ár, í ferðina að þessu sinni fóru 37 manns.

Á Kjalvarsstöðum voru skoðaðar sýningar Birgis Snæbjörns, Óla Jóhanns Ásmundssonar og Kjarvalssýningin. Eftir skoðun á sýningunum bauð deildin upp á kaffi og meðlæti.

23. nóv. 2007 : Alþjóðlegir foreldrar

Sjöunda samverustund Alþjóðlegra foreldra fór fram í gær í Mekka, félagsmiðstöð Hjallaskóla. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu um dagskrána og stýrðu henni með söng, leik og gleði. Þátttakendur komu með mat frá sínum heimalöndum.

Alþjóðlegir foreldrar hittast í Mekka alla fimmtudaga frá kl.10.30-12.00. Síðasta samveran verður næstkomandi fimmtudag þann 29. nóvember og verður þá föndrað fyrir jólin.

22. nóv. 2007 : Sjálfboðaliða vantar í Dvöl

Kópavogsdeild vantar sjálfboðaliða til að vera í Dvöl á laugardögum frá kl. 13-16. Venjulega eru tveir sjálfboðaliðar á vakt hvern laugardag. Verkefnið býður upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.

Dvöl er athvarf fyrir geðfatlaða og er ætlað að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við að geðsjúkdóma að stríða. Sjálfboðaliðar gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Dvalar með því að taka þátt í starfsemi athvarfsins og veita gestunum félagsskap.

Sjálfboðaliðar í Dvöl þurfa að vera 18 ára eða eldri og sækja grunnnámskeið um hugsjónir Rauða krossins.

Þeir sem hafa áhuga á því að sinna sjálfboðnu starfi í þessu verkefni vinsamlega hafi samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

19. nóv. 2007 : Um 95 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema

Á fatamarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu um helgina söfnuðust um 95 þúsund krónur. Fjöldi manns kom á markaðinn og gerði góð kaup á notuðum dömu-, herra- og barnafatnaði ásamt dóti. Allur ágóðinn rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík. MK-nemarnir höfðu farið í fataflokkunarstöð Rauða krossins og valið föt á markaðinn. Síðan settu þeir hann upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með aðstoð bæði Eldhuganna og Enter-krakkanna.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanganum um sjálfboðið Rauða kross starf. Menntaskólinn í Kópavogi er enn sem komið er eini framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga. Í áfanganum hafa nemendurnir unnið sjálfboðin störf fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins, svo sem starf með ungum innflytjendum í Enter, Eldhugunum og aðstoð við langveik börn í Rjóðrinu.

19. nóv. 2007 : Sjálfboðaliðum boðið að sjá LEG

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu sýninguna LEG um helgina í boði Þjóðleikhússins. Sýningin er eftir Hugleik Dagsson og er söngleikur um ólétta táningsstúlku. Hljómsveitin FLÍS samdi alla tónlistina fyrir verkið og er hún víst einkar litrík og fjölbreytt.

Kópavogsdeild þakkar Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

15. nóv. 2007 : Fatamarkaður í dag!

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi halda fatamarkað í dag, föstudag, kl. 15-19 og á morgun, laugardag, kl. 12-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins að Hamraborg 11. Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn, ásamt alls kyns varningi, á verðinu 300-1500 krónur. Allur ágóði rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

 

15. nóv. 2007 : Undirbúningur fyrir fatamarkaðinn í fullum gangi

Undirbúningur fyrir fatamarkaðinn sem haldinn verður hjá Kópavogsdeild á morgun og laugardaginn gengur vel. Í gær tóku Enter-krakkarnir vel til hendinni og grófflokkuðu fötin sem komin eru í sjálfboðamiðstöðina. Afrísk tónlist var sett í geislaspilarann og skemmtu krakkarnir sér vel við að flokka og kannski ekki síst við að máta föt og skó. Í dag taka svo Eldhugarnir við undirbúningnum ásamt nemendum MK í áfanga um sjálfboðið starf en þeir síðarnefndu sjá um markaðinn.

14. nóv. 2007 : Konur í Sunnuhlíð gáfu teppi í Föt sem framlag

Konur á dvalarheimilinu Sunnuhlíð afhentu nýlega Kópavogsdeild Rauða krossins 58 ungbarnateppi. Teppin eru kærkomin gjöf og renna í verkefni deildarinnar sem kallast Föt sem framlag. Þau eru send erlendis, einkum til Afríku, þar sem börn í neyð njóta góðs af þeim. Við þökkum konunum í Sunnuhlíð kærlega fyrir þessa hlýju gjafir.  

14. nóv. 2007 : Fatamarkaður MK-nema til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi halda fatamarkað föstudaginn 16. nóvember kl. 15-19 og laugardaginn 17. nóvember kl. 12-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins að Hamraborg 11. Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn, ásamt alls kyns varningi, á verðinu 300-1500 krónur. Allur ágóði rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

9. nóv. 2007 : Eldhugar fræðast um alnæmi

Í gær fengu Eldhugarnir fræðslu um alnæmi og alnæmisvandann í heiminum ásamt ungmennum í Rauða kross starfi í Reykjavík sem komu í heimsókn. Tilefnið var undirbúningur fyrir alnæmisdaginn sem er haldinn árlega 1. desember til að vekja athygli á þessari alheimfarsótt. Í ár ætlar Rauði krossinn að vekja athygli á vandanum með ýmsum uppákomum í Smáralind 1. desember og munu Eldhugarnir ásamt öðrum ungmennum í Rauða kross starfi taka þátt í því.

7. nóv. 2007 : Sýnt og sagt frá í Enter

Í dag hjá Enter-krökkunum var sýnt og sagt frá. Krakkarnir voru beðnir um að koma með einhvern hlut að heiman, til dæmis uppáhaldsdót eða eitthvað frá sínu heimalandi, til að sýna hinum og segja þeim frá hlutnum. Komu þeir með alls konar hluti eins og fótbolta, húfu og úr. Sjálfboðaliðarnir komu einnig með hluti og sögðu frá þeim. Þar á meðal var tromma frá Indlandi, svissneski fáninn og steinn frá eldfjalli á Ítalíu. Síðan fóru krakkarnir líka í ýmsa leiki.

6. nóv. 2007 : Heimsóknavinahundar í broddi fylkingar í Laugavegsgöngu

Laugardaginn 3. nóvember stóð Hundaræktarfélag Íslands fyrir árlegri göngu með hunda niður Laugaveginn. Fjölmennt var í göngunni og ýmsar tegundir hunda skörtuðu sínu fegursta. Hundar og eigendur þeirra sem starfa sem sjálfboðaliðar í heimsóknaþjónustu fyrir Rauða kross Íslands voru fremstir í flokki og fóru fyrir göngunni.

2. nóv. 2007 : Eldhugar í sjónvarpsþáttagerð

Eldhugarnir hittust í gær eins og venjan er á fimmtudögum og var verkefni dagsins að hefjast handa við að búa til sjónvarpsþátt í anda Kastljóssins. Eldhugarnir fóru í heimsókn í Sjónvarpshúsið um daginn og fengu kynningu á því sem fer fram þar varðandi fréttir og þáttagerð. Í gær var svo komið að þeim að skapa viðfangsefni og persónur, þáttastjórnendur og viðmælendur, ásamt skemmtiatriði. Leiklistarnemi kom og var Eldhugum innan handar og er ekki annað hægt að segja en að afraksturinn hafi verið stórgóður og skemmtilegur.

1. nóv. 2007 : Skemmtilegt prjónakaffi

Prjónakaffi var haldið í sjálfboðmiðstöð Kópavogsdeildar í gær og mættu 24 hressar prjónakonur. Komu þær með afrakstur síðasta mánaðar og drógu upp úr pokum dýrindis teppi, húfur, sokka og peysur sem þær höfðu prjónað. Tóku þær svo upp prjónana, fengu sér kaffi og ræddu saman um hin ýmsu mál.

31. okt. 2007 : Vel heppnað námskeið fyrir heimsóknavini

Í kjölfar kynningarviku Rauða kross Íslands, sem lauk fyrr í þessum mánuði hélt Kópavogsdeildin í gær námskeið fyrir sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu. Námskeiðið var vel sótt, en alls mættu 20 þátttakendur. Nýir heimsóknavinir munu því hefja störf á næstunni.

29. okt. 2007 : Samstarf um aðstoð við fjölskyldur í Kópavogi

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs munu starfa saman að neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur fyrir jólin. Mæðrastyrksnefnd Kópavogs annast úthlutun á matarstyrkjum til fjölskyldna í neyð með stuðningi frá Kópavogsdeild Rauða krossins sem hefur afhent nefndinni styrk að upphæð 360.000 krónur. 

23. okt. 2007 : Lokaátak á kynningu Rauða krossins

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands tóku þátt í lokaátaki félagsins með því að kynna starfsemi Rauða krossins í Smáralindinni, laugardaginn 20. október. Gestum Smáralindar var gefinn kostur á að skrá sig sem sjálfboðaliðar eða félagsmenn auk þess sem ýmis verkefni voru kynnt. Dagurinn heppnaðist mjög vel og ríkti ánægja meðal sjálfboðaliðanna að taka þátt í þessu lokaátaki.

22. okt. 2007 : Forsetahjónin heimsóttu Dvöl

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, forsetafrú, heimsóttu Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða í Kópavogi, á laugardaginn. Heimsóknin var liður í kynningarviku Rauða kross Íslands þar sem athygli var vakin á innanlandsverkefnum félagsins. Í Dvöl ríkti mikil gleði yfir heimsókninni og fjölmenntu gestir þangað. Forsetahjónin spjölluðu við gestina, skoðuðu handavinnu þeirra og lýstu yfir hrifningu á húsinu og aðstæðum þar. Þá barst talið einnig að rabarbara sem vex við Dvöl og þar sem ekki vex mikið af honum við Bessastaði ætla starfsmenn og gestir Dvalar að senda forsetahjónunum rabarbara úr garðinum. Forsetinn óskaði svo eftir því að fá sendar myndir af þeim hjónunum í Dvöl sem teknar voru við þetta tækifæri.

19. okt. 2007 : Vel heppnað opið hús hjá Kópavogsdeild

Í gær var opið hús hjá Kópavogsdeild þar sem verkefni deildarinnar voru kynnt fyrir gestum og gangandi. Sjálfboðaliðar kynntu verkefnin sem þeir taka þátt í, sögðu frá sinni reynslu og sýndu myndir úr starfinu. Alls voru um fimmtíu manns á opna húsinu. Við þetta tækifæri var nýr samstarfssamningur undirritaður við BYKO en fyrirtækið styrkir ungmennastarfið hjá Kópavogsdeild, Enter og Eldhuga, með myndarlegu fjárframlagi. Einnig var happdrætti þar sem dregið var um veglega vinninga frá Kaffibúðinni Hamraborg 3, Átján rauðum rósum Hamraborg 3, Bókabúðinni Hamraborg 5 og Rauða krossinum. Opna húsið var liður í kynningarátakinu sem Rauði kross Íslands stendur fyrir á landsvísu í þessari viku.

18. okt. 2007 : BYKO verður bakhjarl ungmennastarfs Kópavogsdeildar

BYKO hefur ákveðið að styrkja ungmennastarf Kópavogsdeildar Rauða krossins með veglegu fjárframlagi í vetur og verður þannig helsti bakhjarl starfs Kópavogsdeildar með ungmennum af innlendum og erlendum uppruna. Um er að ræða verkefnin Enter og Eldhuga en þau eru bæði hluti af átakinu „Byggjum betra samfélag“ sem Rauði krossinn stendur fyrir.

Anna Guðný Hermannsdóttir, fulltrúi BYKO, og formaður og framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar undirrituðu samstarfssamning í opnu húsi hjá Kópavogsdeild í dag. Samningurinn gerir Kópavogsdeild kleift að standa að verkefnunum af þeim krafti og metnaði sem hugur hennar stendur til en mikill fjöldi barna og ungmenna af erlendum og íslenskum uppruna tekur þátt í verkefnunum. Sjálfboðaliðar á ýmsum aldri bera verkefnið uppi.

18. okt. 2007 : Opið hús hjá Kópavogsdeild í dag, fimmtudag, kl. 13-18

Þessa dagana leggur Rauði krossinn sig fram um að kynna þau fjölmörgu verkefni sjálfboðaliða sem unnin eru á vegum deilda um allt land. Lögð er megin áhersla á að kynna störf sjálfboðaliða sem miða að því að draga úr einsemd, fordómum og félagslegri einangrun. Kópavogsdeild Rauða krossins skipuleggur öflugt sjálfboðið starf sem miðar að því að byggja betra samfélag hér í Kópavogi. Verkefni sjálfboðaliðanna eru fjölbreytt og við leggjum áherslu á að finna hverjum og einum verkefni við hæfi.

17. okt. 2007 : Eldhugar fara í ferð í sjónvarpið á morgun, fimmtudag

Eldhugar fara í ferð í sjónvarpshúsið á morgun og fá fræðslu um það sem gerist á bak við tjöldin í sjónvarpinu. Síðar í haust kemur svo leikari til Eldhugana og ætlar að aðstoða þá við að búa til sinn eigin sjónvarpsþátt í anda Kastljóssins. Spennandi.....

17. okt. 2007 : Enter-krakkarnir fóru í heimsókn í Vífilfell

Í dag fóru Enter-krakkarnir í heimsókn í Vífilfell og sáu hvernig kók, safi og ýmsar aðrar drykkjarvörur eru framleiddar. Það var tekið vel á móti þeim og sáu þau ótal flöskur þjóta um færiböndin, tappa í alls konar litum og stafla af vörum tilbúnar til drykkjar. Krakkarnir fengu svo auðvitað líka að smakka framleiðsluna og vakti það mikla gleði. Þau nutu drykkjarins yfir myndbandi um verksmiðjuna en sáu einnig gamlar auglýsingar fyrir vörur eins og Svala og kók. Eftir kynninguna fengu þau svo að taka með sér drykk heim í nesti.

16. okt. 2007 : Heimsóknavinir gegn einsemd og einangrun

Grein um heimsóknir til fólks sem býr við einsemd og einangrun eftir Garðar H. Guðjónsson og Lindu Ósk Sigurðardóttur. Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 13. október.

Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun, sem virðist því miður vera vaxandi vandi í samfélaginu. Deildin sinnir þessu með öflugri heimsóknaþjónustu og rekstri Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Þjónustan eflist jafnt og þétt og nú eru um 70 sjálfboðaliðar í reglubundnum verkefnum heimsóknavina. Gestgjafarnir eru karlar og konur á ýmsum aldri. Heimsóknirnar fara fram á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, sambýlum og athvarfi geðfatlaðra, sambýli heilabilaðra, skammtímavistun fyrir langveik börn og í Sunnuhlíð.

15. okt. 2007 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins gegn einsemd og einangrun

Grein um starf og verkefni Rauða krossins í Kópavogi eftir Geir A. Guðsteinsson blaðamann sem birtist í Kópavogsblaðinu.

Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun. Deildin sinnir þessu með öflugri heimsóknaþjónustu og rekstri Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Þjónustan er sífellt að eflast og nú eru 65-70 sjálfboðaliðar í reglubundnum verkefnum heimsóknavina. Gestgjafarnir eru karlar og konur á ýmsum aldri. Heimsóknirnar fara fram á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, sambýlum og athvarfi geðfatlaðra, sambýli heilabilaðra, skammtímavistun fyrir langveik börn og í Sunnuhlíð. Þess má geta að heimsóknir til heimilismanna í Sunnuhlíð hafa staðið yfir frá árinu 1984. Alltaf er þörf fyrir sjálfboðaliða og alltaf heitt á könnunni á skrifstofunni í Hamraborg. Einnig er hægt að fylgjast með starfinu á netsíðunni www.redcross.is/kopavogur

15. okt. 2007 : Opið hús hjá Kópavogsdeild Rauða krossins, fimmtudaginn 18. október frá kl. 13.00-18.00

Þessa dagana leggur Rauði krossinn sig fram um að kynna þau fjölmörgu verkefni sjálfboðaliða sem unnin eru á vegum deilda um allt land. Lögð er megin áhersla á að kynna störf sjálfboðaliða sem miða að því að draga úr einsemd, fordómum og félagslegri einangrun. Kópavogsdeild Rauða krossins skipuleggur öflugt sjálfboðið starf sem miðar að því að byggja betra samfélag hér í Kópavogi. Verkefni sjálfboðaliðanna eru fjölbreytt og við leggjum áherslu á að finna hverjum og einum verkefni við hæfi.

15. okt. 2007 : Rauði krossinn kynnir innanlandsstarf sitt í samstarfi við SPRON

Vikuna 14.-20. október mun Rauði krossinn kynna starf sitt um allt land.  Samkvæmt viðhorfskönnun sem Capacent Gallup gerði nýverið fyrir Rauða kross Íslands kom í ljós að almenningur virðist lítið þekkja til öflugs starfs sjálfboðaliða Rauða krossins hérlendis, en tengi starfsemi félagsins einkum við neyðaraðstoð úti í heimi.

Samkvæmt könnuninni telja um 74% að Rauði krossinn verji meirihluta af fjármunum sínum í alþjóðlegt hjálparstarf. Samt er það svo að yfir 70% af verkefnum Rauða krossins eru unnin innanlands af sjálfboðaliðum félagsins sem eru um 1.700 talsins.

“Með því að verja heilli viku til að kynna innanlandsstarf Rauða krossins vonumst við til að efla hóp þeirra sem vilja gerast sjálfboðaliðar, en ekki síður að þeir sem geta nýtt sér þjónustu okkur viti hvað við höfum í boði,” segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða krossins.

12. okt. 2007 : Eldhugar búa til vináttu- og virðingartré

Eldhugar hittust í gær, eins og aðra fimmtudaga, og hófu vinnu við vináttu- og virðingartré. Eldhugarnir klipptu út laufblöð í marglitum pappír og laufblöðin prýddi svo texti sem þeir höfðu samið sjálfir út frá eigin brjósti. Hugtökin sem þau unnu með voru vinátta, virðing, ábyrgð, fordómar, mismunun, umburðarlyndi og að byggja betra samfélag. Andagiftin sveif svo sannarlega yfir vötnum og voru meðal annars samdir eftirfarandi textar: Góðan vin er erfitt að finna, erfiðara að fara frá og ekki hægt að gleyma; að eiga vin er það besta sem kemur fyrir mann í lífinu og byggjum betra samfélag með því að hjálpa öðrum

11. okt. 2007 : Enter-krakkar í teiknihug

Enter-krakkarnir hittust í gær í sjálfboðamiðstöðinni og var verkefni dagsins að teikna myndir. Fyrst teiknuðu þau myndir af dýrmætum fjölskyldum sínum og síðan af einhverju sem þeim finnst skemmtilegt að gera. Það er greinilegt að fótbolti er vinsæll hjá strákunum í Enter. Meðfylgjandi myndir teiknuðu bræðurnir Rafael og Gabriel frá Portúgal.

5. okt. 2007 : Alþjóðlegir foreldrar hittast

Fyrsta samverustund Alþjóðlegra foreldra fór fram í gær í Mekka, félagsmiðstöð Hjallaskóla. Ellefu foreldrar mættu með ellefu börn sín á aldrinum sex vikna til sex ára. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu um dagskrána og stýrðu henni með söng, leik og gleði.

Eftir formlega setningu og kynningu á verkefninu kynntu þátttakendur sig með nafni og sögðu frá hvaða landi þeir koma.  Á meðal þeirra voru fimm íslenskar mæður, þrjár pólskar, tvær frá Litháen og ein frá Ítalíu. Léttar veitingar voru í boði og leikföng fyrir börnin.

Markmið Kópavogsdeildar með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru innilega velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla.

3. okt. 2007 : Hressir Enter-krakkar brugðu á leik

Skemmtilegir Enter-krakkar lífguðu upp á sjálfboðamiðstöðina í dag með hlátrasköllum og ærslagangi. Markmið dagsins var að fara í skemmtilega leiki og hafa gaman af. Krakkarnir fóru meðal annars í látbragsleik, “ég hugsa mér hlut” og “hver er maðurinn?”. Einnig kom hundurinn Leó í heimsókn og fengu þau að halda á honum og klappa. Leó var hinn prúðasti og virtist alveg hafa jafnmikinn áhuga á krökkunum og þau á honum. En þá var gamanið aldeilis ekki búið því Sigga sjálfboðaliði hafði bakað pönnukökur og komið með handa krökkunum. Sigga þekkir flesta krakkana vel frá því í fyrra og er henni alltaf vel fagnað þegar þau hittast. Kalla þeir hana Siggu ömmu.

2. okt. 2007 : Alþjóðlegir foreldrar hittast í fyrsta skipti í vikunni

Fimmtudaginn 4. október verður verkefninu Alþjóðlegir foreldrar ýtt úr vör og hittust sjálfboðaliðar í dag í sjálfboðamiðstöðinni til að undirbúa þennan fyrsta fund. Kópavogsdeild býður velkomna foreldra allra landa sem eru heima með 0-6 ára börn sín og vilja hitta aðra með lítil börn. Sjálfboðaliðarnir eiga sjálfir börn á þessum aldri og ætla að miðla af þekkingu sinni og reynslu og bjóða upp á stutta íslenskukennslu fyrir foreldrana í hvert sinn sem tengist ungabörnum og lífinu á Íslandi með börn á fyrrgreindum aldri.

27. sep. 2007 : Fleiri fatapakkar tilbúnir fyrir börn í neyð

Í vikunni komu sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag í sjálfboðamiðstöðina til að pakka ungbarnafötum í þar til gerða pakka sem sendir verða til barna í neyð í Malaví. Alls var pakkað 110 pökkum. Samtals hefur þá Kópavogsdeild sent frá sér 246 pakka í september en einnig var pakkað í byrjun mánaðarins. Sjálfboðaliðarnir hafa því svo sannarlega ekki setið auðum höndum undanfarna mánuði og enn halda þeir áfram að prjóna fleiri föt til að senda til Afríku.

21. sep. 2007 : Skemmtilegir krakkar í Enter og Eldhugum hittast aftur eftir sumarfrí

Starf Kópavogsdeildar með ungmennum fór aftur af stað af fullum krafti í vikunni. Annars vegar hittist Enter-hópurinn en í honum eru ungir innflytjendur 9-12 ára sem koma úr móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla. Hins vegar komu Eldhugar saman en þann hóp skipa 13-16 ára ungmenni víðs vegar að úr Kópavogi, íslensk og erlend.

19. sep. 2007 : Námskeið fyrir heimsóknavini

Kópavogsdeild hélt í gær námskeið fyrir heimsóknavini þar sem þátttakendurnir fengu leiðsögn varðandi hlutverk og störf heimsóknavina. Þátttakendurnir fengu fræðslu um hvað ber að hafa í huga í heimsóknum til gestgjafa meðal annars varðandi virðingu og samræður en einnig hvað ber að varast eins og fordóma og forræðishyggju. Þá fengu þátttakendurnir kynningu á sögu, markmiðum og starfi Rauða krossins ásamt verkefnum Kópavogsdeildar.  

14. sep. 2007 : Athvörf Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða á landsmóti

Athvörf Rauða kross Íslands héldu sitt árlega landsmót dagana 5.-7. september síðastliðinn. Það var haldið á Hótel Hvítá í Biskupstungum. Alls tóku 34 manns þátt í mótinu frá fjórum athvörfum, Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Laut á Akureyri. Var meðal annars farið í danskeppni og Árnesingadeild Rauða krossins bauð í mat.

12. sep. 2007 : Sjálfboðaliða vantar í Enter

Kópavogsdeild vantar fleiri sjálfboðaliða í Enter. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.00 hittast hressir krakkar 9-12 ára úr nýbúadeild Hjallaskóla í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og hafa það gaman saman. Áhersla er lögð á að veita krökkunum málvörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

12. sep. 2007 : MK-nemar fengu kynningu á verkefnum deildarinnar

Nemendur sem sitja áfanga í sjálfboðnu Rauða kross starfi í Menntaskólanum í Kópavogi fengu kynningu á verkefnum deildarinnar í dag. Þeir fengu meðal annars fræðslu um heimsóknaþjónustu, Enter, Eldhuga, Rjóðrið og Dvöl. Að lokinni kynningunni fengu nemendurnir að velja sér verkefni sem þeir ætla að sinna í sjálfboðnu starfi í vetur.

10. sep. 2007 : Undirbúningur í fullum gangi fyrir Alþjóðlega foreldra

Samráðsfundur var haldinn í sjálfboðamiðstöðinni í dag með fulltrúum frá Heilsugæslu Kópavogs og nýbúadeild Hjallaskóla í tengslum við undirbúning fyrir verkefnið Alþjóðlegir foreldrar. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eiga börn á aldrinum 0-6 ára. Alþjóðlegu foreldrarnir munu hittast vikulega í félagsmiðstöðinni Mekka og boðið verður upp á stutta íslenskukennslu fyrir foreldrana í hvert sinn og fjölbreyttar kynningar. Ætlunin er að hafa leikföng fyrir börnin á staðnum og ef einhver á leikföng fyrir börn á þessum aldri sem viðkomandi má sjá af þætti okkur vænt um að fá þau til okkar í sjálfboðamiðstöðina í Hamraborg 11. Miðstöðin er opin alla virka daga frá 11-15.

5. sep. 2007 : Fötum pakkað fyrir börn í neyð

Í gær hittist góður hópur kvenna sem eru sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag og prjóna ungbarnaföt. Tilefnið var að pakka þessum fötum niður í þar til gerða pakka sem að mestu verða sendir til fjölskyldna í Malaví. Í hvern pakka fer handprjónuð peysa, teppi, húfa, sokkar og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum og bleyjum. Sjálfboðaliðarnir hittust heima hjá Önnu Bjarnadóttur sem löngum hefur haldið utan um pökkunina og boðið fram húsnæði sitt. Hópurinn var hress að vanda og pökkuðust tugir pakka á skömmum tíma.

30. ágú. 2007 : Góð mæting á fyrsta prjónakaffi vetrarins

Rúmlega þrjátíu manns mættu á fyrsta prjónakaffi vetrarins hjá Kópavogsdeild eftir sumarfrí sem haldið var 29. ágúst síðastliðinn í sjálfboðamiðstöðinni. Andinn var góður í hópnum og var sérstaklega ánægjulegt að sjá þar á meðal nokkra nýliða sem tóku þátt í fyrsta skipti eftir að hafa séð blaðaauglýsingu um prjónakaffið. Það er líka gaman frá því að segja að deildinni hafði verið gefin þó nokkuð mörg falleg vélprjónuð teppi og peysur en eftir átti að ganga frá endum og var hópurinn fljótur að taka það verkefni að sér og var kominn dágóður bunki af fullkláruðum teppum í lok kaffisins.   

27. ágú. 2007 : Hundurinn Leó leit við í sjálfboðamiðstöðinni

Hundurinn Leó heimsótti Kópavogsdeild fyrir helgi með Ingibjörgu, eiganda sínum. Ingibjörg er sjálfboðaliði hjá deildinni og heimsóknavinur með Leó. Komu þau til að sækja klút merktan Rauða krossinum sem Leó ætlar að bera þegar þau sinna sjálfboðnum störfum sínum í vetur. Ætla þau að taka þátt í Enter-starfinu og heimsækja Enter-hópinn reglulega á miðvikudögum í sjálfboðamiðstöðinni þegar starfið fer af stað um miðjan september. Eins og sjá má af myndinni ber Leó klútinn með stakri prýði.

 

24. ágú. 2007 : Heimsókn til Kópavogsdeildar

Miðvikudaginn 22. ágúst fékk Kópavogsdeildin heimsókn frá hópi nýrra starfsmanna Rauða krossins. Hópurinn var skipaður fólki sem nýlega hefur tekið við störfum hjá ýmsum deildum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, og fékk hann kynningu á verkefnum og starfsemi Kópavogsdeildar. Var heimsóknin liður í því að kynna fyrir nýliðunum starfsemi Rauða krossins en auk Kópvogsdeildar heimsótti hópurinn Fjölsmiðjuna sem er vinnusetur fyrir ungt fólk, fataflokkunarstöðina í Hafnarfirði og Vin sem er athvarf fyrir geðfatlaða í Reykjavík. 

20. ágú. 2007 : Tvær vinkonur söfnuðu 11.000 krónum á tombólu

Vinkonurnar Ingibjörg Helga Steingrímsdóttir og Snjólaug Benediktsdóttir úr Kársnesskóla héldu tombólu fyrir utan búðina Strax við Hófgerði ásamt því að ganga í hús með bauk og söfnuðu alls 11.000 krónum til styrktar Rauða krossinum. Þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og afhentu söfnunarféð. Tekið var vel á móti þeim og þeim færðar kærar þakkir fyrir þetta framtak.
 
Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Fjársöfnun ungmenna rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.
 
Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í sjálfboðamiðstöðina alla virka daga á milli kl. 11-15.

20. ágú. 2007 : Leikföng óskast

Kópavogsdeild Rauða krossins óskar eftir leikföngum fyrir börn á aldrinum 0-6 ára. Deildin fer af stað með nýtt verkefni sem ber heitið „Alþjóðlegir foreldrar” í október. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eiga börn á aldrinum 0-6 ára. Alþjóðlegu foreldrarnir munu hittast vikulega í félagsmiðstöðinni Mekka og boðið verður upp á stutta íslenskukennslu fyrir foreldrana í hvert sinn og fjölbreyttar kynningar. Ætlunin er að hafa leikföng fyrir börnin á staðnum og vantar okkur leikföngin.  

Ef þú átt einhver leikföng sem þú mátt sjá af fyrir börn á þessum aldri þætti okkur vænt um ef þú kæmir með þau til okkar í sjálfboðamiðstöðina í Hamraborg 11. Miðstöðin er opin alla virka daga frá 11-15.

Nánari upplýsingar um verkefnið eru hér á síðunni undir hlekknum „Alþjóðlegir foreldrar”.

14. ágú. 2007 : Unglingastarfið á fullt eftir sumarfrí

Hjá Kópavogsdeild Rauða krossins eru starfandi tveir hópar ungs fólks, Enter og Eldhugar. Starfsemin hefur legið niðri í sumar en í september hefst starfið af fullum þunga að nýju.

10. ágú. 2007 : Sjálfboðaliða vantar í Dvöl

Sjálfboðaliða vantar í Dvöl við Reynihvamm 43 fyrir veturinn. Dvöl er athvarf fyrir geðfatlaða og er ætlað að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við að geðsjúkdóma að stríða. Sjálfboðaliðar gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Dvalar með því að taka þátt í starfsemi athvarfsins og veita gestunum félagsskap.
 
Það vantar sjálfboðaliða til að vera í Dvöl á laugardögum frá kl. 13-16. Venjulega eru tveir sjálfboðaliðar á vakt hvern laugardag en fundur verður haldinn í lok ágúst eða byrjun september með sjálfboðaliðum þar sem þeir geta raðað sér niður á vaktir. Reynt verður að hafa sem flesta sjálfboðaliða þannig að nóg væri fyrir hvern og einn að vera í athvarfinu tvo til þrjá laugardaga fram að jólum.

7. ágú. 2007 : 10. bekkingar læra skyndihjálp

Á fyrri helmingi ársins fengu 10. bekkingar fimm grunnskóla í Kópavogi, þ.e. Digranesskóla, Kársnesskóla, Kópavogsskóla, Salaskóla og Snælandsskóla, kennslu í skyndihjálp. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og hafa því öðlast víðtæka þekkingu á því hvernig bregðast skuli við í kjölfar slysa eða bráðaveikinda. Kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn.

Námskeiðið er skólunum og nemendum að kostnaðarlausu og geta nemendurnir jafnframt fengið námskeiðið metið til eininga í framhaldsskólum.

7. ágú. 2007 : Dagsferð Dvalar

Tuttugu manns úr Dvöl fóru í dagsferð 12. júní síðastliðinn. Farinn var Gullni hringurinn, þ.e. á Þingvöll, Laugavatn, Gullfoss og Geysi. Einstök veðurblíða var þennan dag sem gerði ferðina einstaklega skemmtilega. Lagt var af stað frá Dvöl kl. 9 að morgni og komið heim kl. 17. Í hádeginu var hamborgari snæddur á Hótel Geysi.

Dvöl er athvarf fyrir fólk með geðraskanir sem er staðsett í Reynihvammi 43 í Kópavogi. Markmiðið með starfseminni er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Kópavogsdeild Rauða krossins annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar. 

29. jún. 2007 : Sumarlokun sjálfboðamiðstöðvar

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er lokuð frá 2. júlí til og með 6. ágúst vegna sumarleyfa. Sjálfboðamiðstöðin opnar aftur þriðjudaginn 7. ágúst og verður þá opin sem fyrr alla virka daga kl. 11-15. Hægt er að senda deildinni tölvupóst á netfangið [email protected].

Sumaropnun í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, er alla virka daga kl. 9-15.

Ef nauðsyn krefur er hægt að hafa samband við formann Kópavogsdeildar, Garðar H. Guðjónsson, í síma 895 5807 eða á gaji[hjá]mmedia.is.

21. jún. 2007 : Nýjar upplýsingar á vefnum á fleiri tungumálum

Á vefsíðu Kópavogsdeildar Rauða krossins er nú að finna uppfærðar upplýsingar á útlensku um verkefni deildarinnar og það á fleiri tungumálum en áður. Þau tungumál sem bætast við nú eru rússneska og spænska en auk þess er að finna upplýsingar á ensku, pólsku og  tælensku.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á að auglýsa heimsóknaþjónustu deildarinnar á erlendum tungumálum og hafa upplýsingar þess efnis verið settar í sérstakan ramma til hægri á síðunni. Með þeim hætti er vakin athygli á því að fólk af erlendum uppruna getur hitt sjálfboðaliða Rauða krossins til þess að æfa sig í íslensku. Eins getur fólk af erlendum uppruna boðið fram krafta sína sem sjálfboðaliðar með því að heimsækja fólk sem hefur þörf fyrir félagsskap og æfa sig í íslensku um leið.

15. jún. 2007 : Góð þátttaka á Börn og umhverfi

Í gær útskrifaði Kópavogsdeild Rauða krossins síðustu nemendurna á þessu misseri af námskeiðinu Börn og umhverfi. Námskeiðið hefur alls verið haldið fjórum sinnum undanfarnar vikur. Fullbókað var á öll námskeiðin og þátttakendur voru samtals 65 talsins.

13. jún. 2007 : Viðtöl við sjálfboðaliða í Eldhugum

Eftirfarandi er grein um Eldhuga sem birtist á forsíðunni á vef Rauða kross Íslands. Í greininni eru tekin viðtöl við þrjá sjálfboðaliða í Eldhugum.

Öflugt starf unga fólksins í Kópavogi 

Þátttaka ungs fólks í starfi Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur vaxið mikið á undanförnum misserum. Margir hafa gerst sjálfboðaliðar í ýmsum verkefnum og ný verkefni fyrir ungmenni hafa orðið til og fest rætur. Þar eru ungir innflytjendur áberandi.

12. jún. 2007 : Fjórar kynslóðir á prjónakaffi í maí

Rúmlega 30 manns sóttu síðasta prjónakaffi Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir sumarfrí sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni 30. maí síðastliðinn. Mætingin á vormánuðum hefur verið afar góð og vonast er til að enn bætist í hópinn með haustinu. Það er alltaf glatt á hjalla í prjónakaffi og gaman að segja frá því að meðal gesta síðast voru fjórar kynslóðir sömu fjölskyldunnar. Því er kjörið fyrir fjölskylduna að koma saman og láta gott af sér leiða.

Markmiðið með prjónakaffinu er að sjálfboðaliðar komi saman til að njóta félagsskapar við að prjóna eða sauma ungbarnafatnað fyrir neyðaraðstoð.

6. jún. 2007 : Stórskemmtileg vorhátíð sjálfboðaliða í Dvöl

Á laugardaginn síðasta var vorhátíð sjálfboðaliða haldin í Dvöl. Vorhátíðin er eins konar uppskeruhátíð sjálfboðaliða á liðnum vetri og var margs að fagna. Starf deildarinnar hefur eflst mikið í vetur með auknum fjölda sjálfboðaliða en rúmlega 70 manns hafa skrifað undir sjálfboðaliðasamning síðan haustið 2006.

4. jún. 2007 : Sunnuhlíð fagnar 25 ára afmæli

Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins samfögnuðu hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð á 25 ára afmælinu sem haldið var hátíðlegt í síðustu viku. Við það tækifæri færði Kópavogsdeild hjúkrunarheimilinu ferðatæki með geislaspilara að gjöf sem mun nýtast við spilun á tónlist í virkninni þar sem heimilisfólk stundar ýmsa handavinnu.

Reynir Guðsteinsson, varaformaður Kópavogsdeildar, flutti Sunnuhlíð kveðju frá deildinni og minnti á hvernig leiðir Sunnuhlíðar og deildarinnar hafa legið saman frá upphafi hjúkrunarheimilisins.

4. jún. 2007 : Ánægðir Dvalargestir á Fuerteventura

Níu manna hópur frá Dvöl fór í vikulanga ferð til eyjarinnar Fuerteventura 22. maí síðastliðinn. Á eyjunni var ýmislegt skoðað. Farið var í dýragarðinn, bílferð um alla eyjuna, markaðir heimsóttir og dvalið á ströndinni. Á hverju kvöldi var farið út að borða. Einn í hópnum, 54 ára maður, hafði hvorki farið út fyrir landsteinana né ferðast með flugvél áður. Þetta var því heilmikil upplifun fyrir hann sem og hina ferðalangana. Allir komu heim hæstánægðir með velheppnaða ferð.

Hópurinn hafði undirbúið ferðina vel með starfsfólki Dvalar og safnað fyrir henni með fjölbreyttum hætti, svo sem með því að halda fata- og nytjamarkað í mars með aðstoð frá nemendum í Menntaskólanum í Kópavogi. Einnig kom að góðum notum styrktarfé úr ferðasjóði Dvalar sem nokkur fyrirtæki hafa lagt í og gerði gestum Dvalar kleift að komast með í ferðina.

1. jún. 2007 : Tveir nýir starfsmenn Kópavogsdeildar

Á dögunum var gengið frá ráðningu tveggja nýrra starfsmanna Kópavogsdeildar Rauða krossins í stöður framkvæmdastjóra og verkefnastjóra sjálfboðamiðstöðvar. Nýr framkvæmdastjóri deildarinnar verður Linda Ósk Sigurðardóttir og nýr verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar verður Dögg Guðmundsdóttir. Munu þær báðar taka til starfa í ágústmánuði þegar skrifstofa deildarinnar opnar aftur eftir sumarlokun í júlí. Linda Ósk og Dögg munu taka við af þeim Fanneyju Karlsdóttur og Ingunni Ástu Sigmundsdóttur sem hverfa til náms og annarra starfa.

30. maí 2007 : Sjálfboðaliði í MK áfanga hlaut viðurkenningu við útskrift

Þann 25. maí voru brautskráðir nemar frá Menntaskólanum í Kópavogi við hátíðlega athöfn í Digraneskirkju. Við það tækifæri afhenti Rannveig Jónsdóttir Sigurði Sindra Helgasyni nemanda í MK og sjálfboðaliða hjá Kópavogsdeild, styrk úr Ingólfssjóði fyrir sjálfboðin störf hans hjá deildinni nú í vor. Sjóðurinn er tileinkaður fyrsta skólameistara MK, Ingólfi  A. Þorkelssyni, og er markmiðið með sjóðnum að efla áhuga nemenda skólans á húmanískum greinum. Það er mikil viðurkenning að hljóta styrk úr Ingólfssjóði. Sigurður Sindri tók á vormánuðum þátt í áfanga um sjálfboðið starf sem boðið er upp á í MK í samvinnu við Kópavogsdeild. Hann stóð sig sérstaklega vel sem sjálfboðaliði og því hlaut hann útnefningu til styrkveitingar úr sjóðnum. Deildin hlaut einmitt  nýverið viðurkenningu frá Rauða krossi Íslands fyrir áfangann.

23. maí 2007 : Fjórða námskeiðinu um Börn og umhverfi bætt við

Námskeiðið Börn og umhverfi hefur farið sérlega vel af stað og nú er svo komið að fullt er á námskeiðin þrjú sem í boði voru. Því hefur Kópavogsdeild bætt við fjórða námskeiðinu og verður það haldið dagana 11., 12., 13. og 14. júní kl. 17-20. Sem fyrr fer kennslan fram í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

22. maí 2007 : Skemmtileg heimsókn heimsóknavina Akranesdeildar í Kópavogsdeild

Ellefu heimsóknavinir Akranesdeildar sóttu Kópavogsdeild heim í gær. Með í för var verkefnisstjóri Akranesdeildar, Anna Lára Steindal. Heimsóknin heppnaðist afar vel og var hugsuð sem eins konar fræðslu- og umbunarferð fyrir heimsóknavinina. Fengu þeir fræðslu um störf heimsóknavina hjá Kópavogsdeild og boðið var upp á kaffi og með því.  Stemmningin í hópnum var afar góð þrátt fyrir slæmt ferðaveður.

22. maí 2007 : Þrjár bekkjarsystur söfnuðu 5.067 krónum á tombólu

Þrjár bekkjarsystur í Kópavogsskóla seldu dót á tombólu fyrir utan Nóatún í Hamraborg til styrktar Rauða krossinsum. Ágóðinn af sölunni var samtals 5.067 krónur sem þær afhentu Kópavogsdeild. Vinkonurnar heita Rakel Eyjólfsdóttir, Bjarnþóra Hauksdóttir og Birna Ósk Helgadóttir.

S
túlkurnar sögðu að fólk hefið tekið þeim vel og það hefðu helst verið fullorðnir sem keyptu af þeim dót á tombólunni. Sumir gáfu þeim líka peninga án þess að fá nokkurð í staðinn eða borguðu meira en hluturinn átti að kosta í raun. Þær voru mjög ánægðar með árangurinn og sögðust ætla að halda fleiri tombólur í framtíðinni.

21. maí 2007 : Kópavogsdeild fékk viðurkenningu vegna áfanga um sjálfboðið starf

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur fengið viðurkenningu frá Rauða krossi Íslands fyrir samstarfið við Menntaskólann í Kópavogi um áfangann SJÁ 102 sem kenndur hefur verið í skólanum á undanförnum misserum. Formaður deildarinnar tók við viðurkenningunni fyrir hönd deildarinnar á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Akureyri á laugardaginn. Aðalfundurinn samþykkti endurskoðaða stefnu sem gildir til 2010 og leggur mikla áherslu á að starf með innflytjendum og verkefni sem miða að því að draga úr félagslegri einangrun.

18. maí 2007 : Sérlega vel heppnuð vorferð barna og ungmenna

Í gær, uppstigningardag, héldu börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Ferðin er dagsferð, það er frí í skólum, og því kjörið tækifæri fyrir alla í ungmennastarfi Rauða krossins til að hittast og kynnast og hafa gaman saman.

18. maí 2007 : Kirkjudagur aldraðra, 17. maí

Í gær, á uppstigningardegi, sem jafnframt er kirkjudagur aldraðra, hélt stór hópur íbúa í Sunnuhlíð til messu í Kópavogskirkju. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hafa árlega aðstoðað fólkið og aðstandendur þess í ferðinni. Að sögn þeirra gekk ferðin afar vel þrátt fyrir leiðinlegt veður. Í kirkjuferðinni aðstoða sjálfboðaliðar íbúa við að komast til og frá kirkju og  í kaffið í safnaðarheimilinu eftir messu. Þeir sjá því um að keyra hjólastóla, finna sæti og kaffiveitingar fyrir fólkið og annað sem þarf að sjá um í ferðinni.

17. maí 2007 : Vorferð barna og ungmenna í dag

Í dag, uppstigningardag, héldu börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Ferðin er dagsferð, það er frí í skólum, og því kjörið tækifæri fyrir alla í ungmennastarfi Rauða krossins til að hittast og kynnast og hafa gaman saman. Það ríkti mikil gleði og spenningur í sjálfboðamiðstöðinni áður en lagt var af stað en um þrjátíu þátttakendur í Enterhóp og Eldhugum Kópavogsdeildar skráðu sig í ferðina auk sjálfboðaliða.

15. maí 2007 : Námskeiðið Börn og umhverfi hefst í dag

Í dag hefst fyrsta námskeiðið af þremur um Börn og umhverfi sem í boði verða hjá Kópavogsdeild í ár. Námskeiðið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár meðal ungmenna sem eru á 12. aldursári og eldri. Fullt er á námskeiðið sem hefst í dag en enn eru nokkur laus pláss á námskeiðunum sem hefjast 23. maí og 4. júní. Kennt er í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

11. maí 2007 : Margir litu við á alþjóðadegi Rauða krossins

Margir heimsóttu Kópavogsdeild á opnu húsi í sjálfboðamiðstöðinni þann 8. maí sem haldið var í tilefni alþjóðadags Rauða krossins og Kópavogsdaga sem nú standa yfir. Dagurinn er fæðingardagur upphafsmanns hreyfingarinnar, Henry Dunant, og því haldinn hátíðlegur hjá deildum og landsfélögum víða um heim.

Árið 1863 varð hugmynd Henry Dunant að stofnun sjálfboðaliðasamtaka að veruleika og fyrstu landsfélögin stofnuð. Hlutverk samtakanna var að sinna hinum særðu á stríðstímum án tillits til uppruna og áttu ríki heims að sameinast um að veita hjálparsveitum á vegum þeirra vernd. Árið 1864 samþykkti ráðstefna embættismanna svo fyrsta Genfarsamninginn um úrbætur á aðstæðum særðra hermanna á vígvöllum en samningarnir eru nú orðnir fjórir talsins.

9. maí 2007 : Sjálfboðaliðum boðið á söngleikinn Gretti

Leikfélag Reykjavíkur bauð sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar Rauða krossins á söngleikinn Gretti um síðustu helgi. Það var kjörið tækifæri fyrir sjálfboðaliða til að gera sér glaðan dag og skemmta sér á íslenskum söngleik. Verkið er eftir Egil Ólafsson, Ólaf Hauk Símonarson og Þórarin Eldjárn. Leikstjóri er Rúnar Freyr Gíslason og fjöldi valinkunnra leikara tekur þátt.

Kópavogsdeild færir leikfélaginu bestu þakkir fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

8. maí 2007 : Opið hús á alþjóðadegi Rauða krossins

Í tilefni alþjóðadags Rauða krossins 8. maí og Kópavogsdaga sem nú standa yfir verður opið hús í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins í dag kl. 16-18 í Hamraborg 11. Þar munu sjálfboðaliðar kynna fjölbreytt verkefni deildarinnar og sýndar verða myndir úr starfinu. Seldar verða prjónaðar barnaflíkur sem sjálfboðaliðar hafa útbúið og mun ágóðinn renna í hjálparstarf félagsins. Einnig verður boðið upp á veitingar með fjölþjóðlegu ívafi.

7. maí 2007 : Velheppnuð sýning ungmenna á Kópavogsdögum

Ungmenni í Kópavogsdeild Rauða krossins settu litríkan og skemmtilegan blæ á Smáralind á laugardaginn við upphaf Kópavogsdaga. Sýning á verkum ungmenna í Eldhugum og Enter naut sýn vel í göngugötunni á neðri hæðinni og þar gátu áhugasamir kynnt sér ungmennastarf deildarinnar og tekið tímarit Eldhuga með sér.

Í menningardagskrá barna á sviði vakti verðskuldaða athygli Nasipe Bajramaj, albönsk stúlka í Enter sem flutti ljóð á albönsku og íslensku. Íslenska ljóðið var frumsamið og fjallaði um sýn hennar á lífið og samkennd manna. Nasipe hefur búið á Íslandi í sex ár og er nemi í Hjallaskóla. Hún hefur tekið þátt í starfi Enter frá upphafi eða síðan vorið 2004.

Önnur börn úr starfinu í Enter voru áberandi í tælenskum dansi sem þótti afar fallegur. Stúlkurnar sem dönsuðu voru í tignarlegum tælenskum klæðnaði sem vakti mikla hrifningu annarra ungmenna á staðnum.

4. maí 2007 : Ungmenni í Eldhugum og Enter sýna skapandi verk á Kópavogsdögum

Í tilefni Kópavogsdaga verður Kópavogsdeild Rauða krossins með kynningarbás í Smáralind laugardaginn 5. maí kl. 12-16. Ungmenni og sjálfboðaliðar í Enter og Eldhugum munu sýna skapandi verkefni sín og kynna starfið. Sýndar verða teikningar ungra innflytjenda af uppáhaldsstað þeirra í Kópavogi og ljósmyndasýning Eldhuga ,,Vinátta og virðing í Kópavogi". Eldhugar hafa hannað Kópavogsbúann árið 2057 sem lítur dagsins ljós og tímariti Eldhuga verður dreift. Nokkrir krakkar úr Enter munu taka þátt í menningardagskrá á sviði í Smáralindinni kl. 14-15.

Kópavogsdagar í ár eru tileinkaðir menningu barna og ungmenna. Því er vel við hæfi að kynna ungmennastarf Kópavogsdeildar Rauða krossins. Krakkar og sjálfboðaliðar í Eldhugum og Enter vonast til að sjá sem flesta í Smáralind á laugardaginn.

2. maí 2007 : Eldhugar undirbúa sýningu á Kópavogsdögum

Það var mikið fjör síðasta fimmtudag þegar Eldhugar komu saman og undirbjuggu sýningu sína á Kópavogsdögum. Sýningin verður í Smáralind laugardaginn 5. maí kl. 12-16 og þar verður meðal annars hægt að sjá sýn Eldhuga á Kópavogsbúann árið 2057. Eldhugar verða á staðnum til að segja gestum og gangandi frá starfinu og dreifa nýútkomnu tímariti sínu. Eldhugar vonast til að sjá sem flesta í Smáralind á laugardaginn.

Eldhugar eru 13-16 ára ungmenni af íslensku og erlendum uppruna sem vinna saman að hugsjónum Rauða krossins um betra samfélag án mismununar og fordóma.

30. apr. 2007 : Pétur Gauti og Ágúst Örn gáfu ágóða af tombólu

Vinirnir Pétur Gauti Guðbjörnsson og Ágúst Örn Ingason héldu tombólu fyrir utan Nóatún í Furugrund í apríl og afhentu Kópavogsdeild Rauða krossins ágóðann sem var 1839 krónur.

Hugmyndin að tombólunni kviknaði þegar mamma Péturs Gauta, sem er dagmamma, hafði á orði að hún vildi losna við dálítið af dótinu sem hún hefur fyrir börnin sem hún gætir. Þá datt þeim vinum í hug að selja allt dótið á tombólu og gefa Rauða krossinum ágóðann. Salan gekk vel og þeir seldu meðal annars barnabækur á 80 til 100 krónur stykkið. Perla María Guðbjörnsdóttir og Oddur Ingi Guðbjörnsson hjálpuðu til á tombólunni.

25. apr. 2007 : Sjálfboðaliði Kópavogsdeildar heiðraður af Rótarý

Rótarýklúbbur Kópavogs hefur útnefnt Önnu Bjarnadóttur, sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins, sem Eldhuga ársins 2007 fyrir störf að félags- og mannúðarmálum. Anna sem er 86 ára húsmóðir hefur í mörg ár leitt hóp sjálfboðaliða Kópavogsdeildar í verkefninu Föt sem framlag sem felst í að sjálfboðaliðar prjóna og sauma fatnað á ungabörn í neyð. Anna hefur einnig verið heimsóknavinur um árabil og tók þátt í að byggja upp starf heimsóknavina Kópavogsdeildar í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Kópavogsdeild Rauða krossins heiðraði Önnu á aðalfundi deildarinnar árið 2006. Deildin óskar Önnu innilega til hamingju með viðurkenninguna frá Rótarý.

24. apr. 2007 : Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar orðnir tvöhundruð talsins

Claudia Overesch er 200. sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins. Við það tilefni færðu fulltrúar Kópavogsdeildar henni blómvönd og bókina  Í þágu mannúðar, sögu Rauða kross Íslands. Tilefnið undirstrikar þá miklu fjölgun sjálfboðaliða deildarinnar síðustu mánuði. Um áramótin 2005/2006 voru sjálfboðaliðar deildarinnar 95 talsins og hafa því meira en tvöfaldast á rúmu ári.

Claudia er í hópi sjálfboðaliða sem stýra verkefninu Eldhugar sem er fyrir ungmenni 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna. Claudia kemur frá Þýskalandi en hefur verið búsett á Íslandi undanfarin fjögur ár og stundar meistaranám í þýðingarfræðum við Háskóla Íslands. Claudia ákvað að gefa kost á sér sem sjálfboðaliði í Eldhugum því hún hefur mikinn áhuga á málefnum innflytjenda og starfaði áður sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn í Þýskalandi að svipuðum verkefnum. Henni finnst líka áhugavert að vera nú sjálf í stöðu innflytjanda með veru sinni á Íslandi.

23. apr. 2007 : Rauði krossinn kynntur í grunnskólum Kópavogs

Öllum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu býðst að fá kynningu á starfi Rauða krossins fyrir nemendur 8. bekkja. Í vetur hafa skólarnir í Kópavogi verið duglegir að nýta sér boðið og flestir skólar fengið kynningu fyrir sína nemendur.

-Það skemmtilegasta við þessar kynningar er að krakkarnir verða meðvitaðir um starf Kópavogsdeildar Rauða krossins og það kemur mörgum á óvart að það séu verkefni á vegum deildarinnar sem þessi aldurshópur getur tekið þátt í, segir Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar Kópavogsdeildar. Í kjölfar kynninganna hafa nemendur gefið kost á sér í sjálfboðin störf og ungmennastarf deildarinnar sem ber heitið Eldhugar.

18. apr. 2007 : Nemendur í Snælandsskóla prjóna til góðs

Í dag afhentu nemendur á miðstigi í Snælandsskóla Kópavogsdeild teppi sem þeir hafa verið að prjóna undanfarið handa börnum í þróunarlöndum.  Þeir hafa haft það sem verkefni undanfarin ár að prjóna teppi úr garnafgöngum og er það hluti af umhverfisstefnu skólans að nýta hráefni og um leið leggja öðrum lið.

17. apr. 2007 : Ungir innflytjendur teikna sinn uppáhaldsstað í Kópavogi

Krakkarnir í Enter, sem er starf Kópavogsdeildar Rauða krossins með ungum innflytjendum 9-12 ára, eru að undirbúa þátttöku sína í Kópavogsdögum sem verða 5.-11. maí. Hengdar verða upp teikningar krakkanna í Smáralind af uppáhaldsstað þeirra í Kópavogi.

Á teikningunum má meðal annars sjá sundlaug Kópavogs, tjörnina í Kópavogsdalnum, fótboltavöllinn við HK-húsið, höfnina í bænum, Smáralind og sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins.

13. apr. 2007 : Vinkonur héldu tombólu í Salahverfi

Vinkonurnar Elma Jenný Þórhallsdóttir og Helga Sóley Björnsdóttir héldu tombólu fyrir utan Nettó í Salahverfi og söfnuðu alls 3.233 krónum til styrktar Rauða krossinum. Þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og afhentu söfnunarféð. Þær sögðu að það hefði gengið vel að safna og sumir hefðu meira að segja afhent þeim pening án þess að þiggja tombóluvinning.

Í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar fengu stelpurnar að vita hvernig söfnunarféð þeirra mun nýtast börnum í neyð erlendis. Stelpurnar voru áhugasamar og lístu yfir vilja til að safna aftur fyrir Rauða krossinn.

10. apr. 2007 : Skráning hafin á Börn og umhverfi

Skráning er hafin á námskeiðið Börn og umhverfi hjá Kópavogsdeild Rauða krossins sem haldið verður í maí og júní. Námskeiðið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár meðal ungmenna sem eru á 12. aldursári og eldri. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Fjallað er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur og veitt ítarleg kennsla í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

Fyrsta námskeið: 15., 16., 21. og 22. maí kl. 17-20
Annað námskeið: 23., 24., 29. maí og 30. maí kl. 18-21
Þriðja námskeið: 4., 5., 6. og 7. júní kl. 17-20

29. mar. 2007 : Vefsíða Eldhuga opnuð og Eldhugablaðið gefið út

Í dag efna Eldhugar til útgáfuteitis í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem opnuð verður vefsíða Eldhuga og útgáfu Eldhugablaðsins verður fagnað. Boðsgestir í teitinu verða ungmenni úr Hafnarfjarðardeild Rauða krossins.

Á forsíðunni á vef Kópavogsdeildar má nú finna hlekk til hægri inn á vefsíðu Eldhuga. Bein slóð á vefsíðuna er: www.redcross.is/eldhugar. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um starf Eldhuga. Eldhugablaðið inniheldur efni sem Eldhugar hafa sett saman og tengist markmiði þeirra að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma.

28. mar. 2007 : Samvera heimsóknavina og athyglisverð fræðsla um Alzheimersjúkdóminn

Heimsóknavinir sem heimsækja fólk á einkaheimili komu saman í sjálfboðamiðstöðinni í vikunni á svokallaðri samveru sem nýtt er til að þeir geti miðlað reynslu sinni til annarra sem sinna heimsóknaþjónustu.

Í framhaldi af samverunni var boðið upp á fræðslu fyrir alla sjálfboðaliða deildarinnar og að þessu sinni ræddi María Th. Jónsdóttir, formaður félags aðstandenda Alzheimerssjúkra, um upphafseinkenni Alzheimersjúkdómsins. Hún skýrði einnig frá sinni reynslu af sjúkdómnum en hún hefur unnið fyrir samtökin í 22 ár og þekkir því vel til sjúklinga og fjölskyldna sem hafa þurft að glíma við einkenni Alzheimer.

27. mar. 2007 : Eldhugar fengu kynningu á Mexíkó

Eldhugar fengu nýlega svokallaða vegabréfaheimsókn um Mexíkó. Vegabréfaheimsóknir gefa Eldhugum tækifæri á að kynnast menningu annarra landa og lífi fólks þar með frásögnum gesta, íslenskra sem erlendra, sem hafa dvalið erlendis til lengri eða skemmri tíma.

Að þessu sinni var það Patricia Segura Valdes sem heimsótti Eldhuga. Patricia er fædd og uppalin í Mexíkóborg en fluttist til Íslands fyrir um tuttugu árum. Hún starfar sem spænskukennari í Menntaskólanum í Kópavogi en hefur verið við nám í Háskóla Íslands frá því að hún kom til landsins og lokið prófum þaðan úr þremur mismuandi greinum.

22. mar. 2007 : Nemendur í Snælandsskóla gáfu Rauða krossinum fimmtán hjól

Í gær afhentu nokkrir nemendur úr 8.-10. bekk Snælandsskóla fulltrúum Rauða krossins fimmtán hjól sem senda á til Malaví. Landsfélag Rauða krossins í Malaví kemur hjólunum áleiðis til þeirra sem þurfa en líklegt er að sjálfboðaliðar Rauða krossins í landinu fái flest þeirra til afnota.

Þetta er í fyrsta sinn sem krakkarnir í Snælandsskóla afhenda Rauða krossinum slíka gjöf og koma hjólin sér afar vel. Á hvert hjól er fest kveðja á ensku til nýs eiganda þar sem honum er óskað velfarnaðar á nýja hjólinu.

21. mar. 2007 : Áfangi um sjálfboðið starf kenndur í fjórða sinn í MK

Næsta haust verður áfangi um sjálfboðið Rauða kross starf kenndur í fjórða sinn í Menntaskólanum í Kópavogi. Fyrst var boðið upp á áfangann á vormisseri 2006 og hefur hann verið kenndur síðan. Í áfanganum vinna nemendur ýmis sjálfboðin störf á vegum Kópavogsdeildar Rauða krossins. Sameiginlegt verkefni nemendanna er síðan að halda fatamarkað til styrktar málefni Rauða krossins.

Nemendurnir í áfanganum á þessari önn héldu velheppnaðan markað 10. og 11. mars síðastliðinn til styrktar ferðasjóði Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Nokkrir nemendanna fóru í gær í Dvöl til að fagna árangrinum. Fulltrúar Dvalar þökkuðu þeim kærlega fyrir að leggja þeim lið með því að halda markaðinn.

20. mar. 2007 : Fjölbreytt kynning á heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar

Kópavogsdeild Rauða krossins býður upp á heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem hefur þörf fyrir félagsskap og dægrastyttingu. Til þess að sem flestir viti að þessi þjónusta er fyrir hendi er hún kynnt með fjölbreyttum hætti.

Nýverið kom út nýr bæklingur um heimsókna-þjónustu deildarinnar og er honum dreift víða um Kópavog. Bæklingnum er meðal annars dreift heim til Kópavogsbúa sem eru 75 ára og eldri í heimsóknum fulltrúa Landsbjargar sem fara yfir öryggisþætti og slysavarnir.

Starfsfólk heimahjúkrunar í Kópavogi var nýlega afhentur bæklingurinn og veitt kynning á starfi heimsóknavina.

19. mar. 2007 : Heimsóknir hunda ganga vel

Hundar taka þátt í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar með því að heimsækja fólk sem óskar eftir félagsskap þeirra. Nú eru alls um tíu hundar sem taka þátt í heimsóknum til Kópavogsbúa ýmist í heimahúsum eða á sambýlum og stofnunum.

Hundaeigendurnir sem taka þátt í verkefninu hittust í síðustu viku í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar til að segja hver öðrum frá hvernig gengur að heimsækja og miðla þannig af reynslu sinni til hvers annars sem sjálfboðaliðar. Heimsóknirnar ganga almennt mjög vel og mikil ánægja er meðal fólksins sem nýtur þess að hitta hundana reglulega.

14. mar. 2007 : Um 200 þúsund krónur söfnuðust á markaði til styrktar Dvöl

Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á fata- og nytjamarkaðinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar um síðustu helgi þar sem söfnuðust alls 197.161 krónur í ferðasjóð Dvalar. Í byrjun næstu viku munu nemendurnir í MK, sem önnuðust markaðinn í samstarfi við athvarfið Dvöl, kíkja í kaffi í Dvöl til að fagna árangrinum.

Nemendurnir í MK sem skipulögðu og héldu markaðinn eru allir í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf og hafa unnið fjölbreytt verkefni fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins á þessari önn. Nemendurnir eru hæstánægðir með hvernig tókst til með markaðinn. Ánægjan er einnig mjög mikil í Dvöl þar sem gestir athvarfsins eru afar þakklátir fyrir stuðninginn.