31. jan. 2007 : Gagnleg samvera heimsóknavina og fræðsla um geðraskanir

Í gær var haldin samvera fyrir sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins sem sinna heimsóknum á einkaheimilum. Samvera sem þessi er hugsuð sem tækifæri fyrir heimsóknavini til að segja frá hvernig gengur í heimsóknunum og jafnframt miðla af reynslu sinni til annarra heimsóknavina. Um leið er þetta vettvangur til að hitta aðra heimsóknavini, en margir nýir heimsóknavinir hafa bæst í hópinn á undanförnum misserum. Það er mikilvægt að fá að leita í reynslubanka heimsóknavina sem hafa starfað lengi hjá Rauða krossinum til að leiðbeina þeim sem eru að koma nýir inn í starfið. Samvera og handleiðsla fyrir heimsóknavini deildarinnar, sem sinna heimsóknum á einkaheimili, er nú haldin á 6-8 vikna fresti.

Í framhaldi samverunnar hélt Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur erindi um þunglyndi og kvíða. Erindið var opið öllum sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar og var hugsað sem liður í fræðslu fyrir þá.

31. jan. 2007 : Rausnarlegt boð Borgarleikhússins til sjálfboðaliða

Borgarleikhúsið býður sjálfboðaliðum deildarinnar reglulega á leiksýningar þeim að kostnaðarlausu og hefur það mælst mjög vel fyrir. Síðastliðinn föstudag bauð leikhúsið sjálfboðaliðum á sýninguna Ófagra veröld. Sjálfboðaliðarnir voru fullir eftirvæntingar þegar þeir sóttu miðana sína í sjálfboðamiðstöð deildarinnar á fimmtudag og föstudag. Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, fengu einnig miða enda margir þeirra sem gera sér annars ekki ferð í leikhús.

26. jan. 2007 : Skemmtileg heimsókn Eldhuga í myndver Latabæjar

Eldhugar og sjálfboðaliðar fóru í síðustu viku í heimsókn í myndver Latabæjar. Kjartan Már kynningastjóri tók á móti Eldhugum, fylgdi þeim um húsakynnin og sagði frá því hvernig ævintýrið um Latabæ hófst.

Að því loknu var farið í risastórt kvikmyndaverið þar sem þættirnir eru teknir upp. Kjartan lýsti ferlinu við gerð þáttanna fyrir Eldhugum og gestirnir fengu að sjá brúðurnar, þar á meðal Sigga sæta sem spjallaði meira að segja aðeins við viðstadda. Eldhugar sáu einnig heimili nokkurra persóna eins og Sollu stirðu og Gogga Mega. Mest spennandi fannst Eldhugum þó líklega að fara upp í geimskip íþróttaálfsins, sumum þótti það meira að segja alveg frábært!

25. jan. 2007 : Skráning hafin á námskeið fyrir nýja heimsóknavini

Þeir sem hafa áhuga á að starfa sem sjálfboðaliðar í heimsóknaþjónustu geta nú skráð sig á undirbúningsnámskeið fyrir heimsóknavini. Námskeiðið verður haldið þriðjudaginn 20. febrúar kl. 18-21 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar að Hamraborg 11. Námskeiðið er ókeypis og opið öllum áhugasömum. Dagskrá námskeiðsins og skráning er hér neðar.

Heimsóknavinir Kópavogsdeildar rjúfa einsemd og félagslega einangrun fólks með heimsóknum á einkaheimili og stofnanir. Heimsóknavinur veitir félagsskap, svo sem með því að spjalla, spila, lesa fyrir viðkomandi og fara í gönguferðir.

22. jan. 2007 : Tvær duglegar stúlkur söfnuðu fyrir Rauða krossinn

Tvær vinkonur og bekkjarsystur úr Smárahverfi söfnuðu fé fyrir Rauða kross Íslands með því að ganga í stórar blokkir í hverfinu og safna dósum. Að lokum fóru þær með allar dósirnar til endurvinnslu og úr varð söfnunarféð, 6.500 krónur, sem þær afhentu Kópavogsdeild. Stúlkurnar heita Andrea Rán Sigurðardóttir og Írena Eik Ólafsdóttir og eru á 11. aldursári. Stúlkurnar söfnuðu 694 drykkjarumbúðum og voru ánægðar með árangurinn.

15. jan. 2007 : Velheppnuð fjöldahjálparæfing í Varmárskóla

Neyðarnefnd Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði stóð fyrir fjöldahjálparæfingu í Varmárskóla í Mosfellsbæ á laugardaginn. Æfð var opnun fjöldahjálparstöðvar vegna sprengihótunar í bænum. 

Auk fjöldahjálparstöðvarinnar var Hjálparsími Rauða krossins 1717 virkjaður sem og upplýsingasími almannavarna. Sérstök áhersla var lögð á aðkomu fjölmiðla og miðlun upplýsinga.

9. jan. 2007 : Sjálfboðaliðar óskast í Eldhuga og Enter

Kópavogsdeild Rauða krossins er þessa dagana að bæta við nýjum sjálfboðaliðum, 18 ára og eldri, í verkefnin Eldhugar og Enter. Verkefni sjálfboðaliða fela í sér að skipuleggja og stýra ungu fólki í spennandi viðfangsefnum. Fundur fyrir nýja sjálfboðaliða í Enter og Eldhugum verður haldinn mánudaginn 15. janúar í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11.

Áhugasamir geta skráð sig í síma 554 6626 eða á [email protected] Þeir sem ekki komast á fundinn en hafa áhuga á verkefnunum geta samt tekið þátt og skulu endilega senda tölvupóst eða hringja. Nánari upplýsingar um þessi verkefni og önnur fylgja hér fyrir neðan.

4. jan. 2007 : Enta styrkir gesti Dvalar

Kópavogsfyrirtækið Enta ehf. færði Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, kærkomna gjöf um jólin með 50.000 króna framlagi í ferða- og tómstundasjóð Dvalar. Gjöfin mun gera gestum Dvalar kleift að skipuleggja tómstundaviðburði og ferðalög. Meðal gestanna hefur verið vinsælt að fara í dagsferðir innanlands yfir sumartímann. Athvarfið hefur einnig staðið fyrir tveimur ferðum út fyrir landsteinana, annars vegar til Danmerkur árið 2004 og hins vegar til Króatíu síðastliðið sumar.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.

4. jan. 2007 : Útbjó og seldi jólakort til styrktar Rauða krossinum

Hin 8 ára gamla Védís Mist Agnadóttir ákvað upp á sitt einsdæmi að útbúa jólakort til styrktar Rauða krossi Íslands. Hún bar hugmyndina undir foreldra sína sem lögðu henni lið með því að fjölfalda teikningu eftir hana á kort og keyptu af henni. Ágóðinn var samtals 5.000 kr. sem Védís Mist afhenti Kópavogsdeild Rauða krossins.

Kópavogsdeild þakkar Védísi Mist kærlega fyrir hennar flotta framtak. Söfnunarféð mun renna í sjóð sem íslensk börn safna í til styrktar börnum í neyð erlendis. Á síðasta ári söfnuðu fleiri börn en nokkru sinni áður peningum fyrir Rauða kross Íslands og er upphæðin sú hæsta hingað til eða 560 þúsund krónur. Fénu verður varið til að hjálpa börnum í Síerra Leone sem lentu í eða tóku þátt í borgarastyrjöldinni í landinu en mörg þeirra voru barnahermenn.