27. feb. 2007 : Prjónakaffi fyrir alla áhugasama

Hjá Kópavogsdeild Rauða krossins sér hópur sjálfboðaliða um að prjóna, hekla og sauma ungbarnaföt fyrir börn í neyð. Hópurinn sem kallast Föt sem framlag samanstendur aðallega af konum en nokkrum körlum þó sem flest hafa látið gott af sér leiða með þessum hætti í mörg ár. Sjálfboðaliðarnir stunda handavinnuna mest megnis heima hjá sér hver á sínum hraða en síðan taka nokkrir þeirra að sér að hittast og raða flíkunum í pakka.

Nú er þörf á fleiri sjálfboðaliðum og eru áhugasamir hvattir til að koma og kynna sér verkefnið miðvikudaginn 28. febrúar kl. 16-18 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Prjónar og garn verða á staðnum en velkomið er að taka með sér eigið prjónadót og prjóna með hópnum og spjalla saman. Kaffi verður á könnunni og með því.

26. feb. 2007 : Dansandi leynigestur heimsótti Eldhuga

Undanfarið hafa Eldhugar verið sérlega duglegir við að vinna efni fyrir vefsíðu Eldhuga og efni í Eldhugablað sem gefið verður út með vorinu. Til að verðlauna Eldhuga og hrista upp í sköpunargáfunni var á fimmtudaginn síðasta fenginn leynigestur í heimsókn.  

Leynigesturinn var Brynja Pétursdóttir hiphopdansari og danskennari og með í för var kærasti hennar Kristján Þór Matthíasson rappari. Heimsókn þeirra var hugsuð sem skemmtun sem fléttað var saman við eins konar vegabréfaheimsókn. Í vegabréfa-heimsóknum fá Eldhugar að kynnast menningu og lífi í öðrum löndum í gegnum frásagnir fólks.

26. feb. 2007 : Fjöldi fólks sótti námskeið á síðasta ári

Á síðasta ári sóttu alls 348 einstaklingar á ýmsum aldri átta mismunandi námskeið á vegum Kópavogsdeildar. Þetta kemur fram í ársskýrslu deildarinnar 2006 sem má nálgast hér.

Flest námskeiðin voru haldin í sjálfboðamiðstöð deildarinnar að Hamraborg 11. Flestir sóttu námskeið í skyndihjálp, alls 112, en auk þess var metþátttaka á námskeiðunum Slys á börnum með 67 þátttakendur og Börn og umhverfi með 86 þátttakendur.

23. feb. 2007 : Umtalsverð framlög til neyðaraðstoðar erlendis

Í nýútkominni ársskýrslu Kópavogsdeildar fyrir starfsárið 2006 kemur fram að framlög deildarinnar til neyðaraðstoðar erlendis voru umtalsverð á síðasta ári.

Alls voru veittar 1.266.043 krónur til hjálparstarfs auk 3,2 milljóna króna sem söfnuðust í Kópavogi í landssöfnuninni Göngum til góðs. Framlag sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag var einnig drjúgt því sjálfboðaliðar deildarinnar útbjuggu alls 610 pakka af fatnaði fyrir ungabörn í neyð.

22. feb. 2007 : Fjöldi sjálfboðaliða nær tvöfaldaðist á síðasta ári

Samningsbundnum sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar fjölgaði úr 95 í 182 á síðasta starfsári eða um 92 prósent. Sjálfboðaliðum í heimsóknaþjónustu fjölgaði úr 37 í 71 og sjálfboðaliðum í öðrum verkefnum fjölgaði einnig mikið. Þannig tóku 24 sjálfboðaliðar þátt í starfi Dvalar og 43 í starfi með börnum og ungmennum, Enter og Eldhugum. Þetta kom fram í máli Garðars H. Guðjónssonar formanns á fjölsóttum aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gærkvöldi.

 Fjöldi sjálfboðaliða deildarinnar sótti fundinn auk fulltrúa ýmissa samstarfsaðila og frá landsskrifstofu félagsins. Gunnar Birgisson bæjarstjóri ávarpaði fundinn, þakkaði deildinni fyrir ánægjulegt samstarf á ýmsum sviðum og hvatti hana til góðra verka.

20. feb. 2007 : Námskeið á næstunni

Kópavogsdeild Rauða krossins býður upp á úrval námskeiða á næstunni. Námskeiðin eru ætluð jafnt sjálfboðaliðum og almenningi og snúa að verkefnum sjálfboðaliða og slysavörnum almennt. Öll námskeiðin eru kennd í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11.

Um er að ræða námskeið fyrir heimsóknavini 20. febrúar, námskeið í skyndihjálp 6. mars, sálrænum stuðningi 20. mars og vörnum gegn slysum á börnum 26. febrúar og 5. mars. Skráning á námskeiðin fer fram í síma 554 6626 eða á [email protected].

19. feb. 2007 : Fjör á grunnnámskeiði ungmenna í Alviðru

Félagar í ungmennastarfi í deildum Rauða krossins í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík tóku þátt í grunnnámskeiði í Alviðru um helgina. Lagt var af stað síðdegis á föstudag og komið til baka á laugardagskvöld.

Á námskeiðinu lögðu krakkarnir áherslu á sjö grundvallarmarkmið Rauða krossins og voru samin leikrit til að túlka markmiðin. Þau lærðu jafnframt um upphaf hreyfingarinnar og fengu að heyra sögu Henry Dunant stofnanda Rauða krossins.

16. feb. 2007 : Dagvist Sunnuhlíðar færð gjöf

Kópavogsdeild Rauða krossins færði í gær dagvist hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíð gjöf. Um var að ræða myndbands- og mynddiskaspilara sem kemur sér afar vel fyrir þá sem sækja dagvistina. Í dagvistinni nýtur fólk þess að horfa á myndbönd og mynddiska og eru fræðslu- og heimildaþættir um Ísland og Íslendinga hve vinsælastir. Þar fyrir utan er fólkið iðið við hannyrðir, spilamennsku og að hlusta á upplestur sjálfboðaliða sem koma daglega.

13. feb. 2007 : Ungmenni kynntu sér útvarp innflytjenda

Þátttakendur í barna- og ungmennastarfi Kópavogsdeildar, Enter og Eldhugum, heimsóttu í byrjun febrúar útvarp innflytjenda í Hafnarfirði. Útvarpið, sem ber heitið Halló Hafnarfjörður, er staðsett í Flensborgarskóla og hóf útsendingar 2. nóvember 2006. Sent er út á tíðninni 96,2 sem næst í Hafnarfirði en einnig er sent út í gegnum vefveitu Hafnarfjarðar .

12. feb. 2007 : Fræðsla um rétt viðbrögð varð móður til lífs

Rauði kross Íslands hefur valið Egil Vagn Sigurðsson sem Skyndihjálparmann ársins 2006 fyrir rétt viðbrögð á neyðarstundu. Egill Vagn tók við viðurkenningunni í gær við athöfn í Smáralind sem efnt var til í tilefni af 112-deginum.

Egill Vagn, sem er einungis 8 ára, bjargaði lífi móður sinnar í júní í fyrra þegar hún hneig niður á heimili þeirra og missti meðvitund vegna bráðaofnæmis. Egill Vagn brást skjótt við og sótti adrenalínpenna í veski móður sinnar og sprautaði hana í handlegginn en hringdi síðan í neyðarlínuna 112 eftir hjálp. Hann fór svo eftir fyrirmælum neyðarvarðar þar til sjúkrabíll kom á staðinn.

10. feb. 2007 : Fjölbreytt dagskrá á 112 daginn

Viðbragðsaðilar í björgun og almannavörnum efna til fjölbreyttrar dagskrár um allt land á 112 daginn, sunnudaginn 11. febrúar. Að þessu sinni verður dagurinn helgaður margvíslegum störfum sjálfboðaliða að forvörnum, leit og björgun, almannavörnum og neyðaraðstoð. Á höfuðborgarsvæðinu verður eftirfarandi á döfinni:

Föstudaginn 9. febrúar verður ljósmyndasýningin Útkall 2006 opnuð í Kringlunni en fyrri sýningar með myndum af viðbragðsaðilum að störfum hafa vakið mikla athygli. Sýningin stendur í Kringlunni til 16. febrúar.

Samstarfsaðilar 112 dagsins á höfuðborgarsvæðinu standa sameiginlega að dagskrá og kynningu í Smáralind sunnudaginn 11. febrúar og verður hún sem hér segir:

7. feb. 2007 : Kópavogsdeild tekur þátt í upplýsingagjöf til innflytjenda

Einu sinni í viku er svarað í upplýsingasíma fyrir innflytjendur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins. Símtölum er svarað frá einstaklingum sem hafa serbó-króatísku að móðurmáli og vilja leita að upplýsingum um hin ýmsu mál sem snerta búsetu þeirra á Íslandi. Í símann svarar Dragana Zastavnikovic sem hefur búið á Íslandi í 11 ár. Dragana segir að flest símtölin snúi að upplýsingagjöf sem snertir atvinnu- og búseturéttindi innflytjenda en einnig óski fólk eftir upplýsingum um hvar það getur nálgast ýmsa þjónustu og viðskipti.

U
pplýsingasími fyrir innflytjendur er rekinn af Fjölmenningarsetri Vestfjarða og var opnaður í samvinnu við Rauða kross Íslands.

2. feb. 2007 : Þrír vinir gáfu Rauða krossinum ágóða af tombólu

Þrír vinir í Kópavogi söfnuðu dóti fyrir tombólu sem þeir héldu svo við Hagkaup í Smáralind. Miðinn á tombólunni kostaði 100 krónur og ágóðinn af sölunni var samtals 2.326 krónur sem þeir færðu Kópavogsdeild Rauða krossins. Vinirnir heita Viktor Freyr Sigurðsson, Jóhannes Kristjánsson og Illugi Njálsson og eru þeir á 7. og 8. aldursári. Félögunum þótti athyglisvert og gleðilegt að fólk sem átti leið hjá gaf þeim peninga án þess að kaupa miða og fá eitthvað í staðinn. Þannig tókst þeim líka að safna hærri upphæð.