29. mar. 2007 : Vefsíða Eldhuga opnuð og Eldhugablaðið gefið út

Í dag efna Eldhugar til útgáfuteitis í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem opnuð verður vefsíða Eldhuga og útgáfu Eldhugablaðsins verður fagnað. Boðsgestir í teitinu verða ungmenni úr Hafnarfjarðardeild Rauða krossins.

Á forsíðunni á vef Kópavogsdeildar má nú finna hlekk til hægri inn á vefsíðu Eldhuga. Bein slóð á vefsíðuna er: www.redcross.is/eldhugar. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um starf Eldhuga. Eldhugablaðið inniheldur efni sem Eldhugar hafa sett saman og tengist markmiði þeirra að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma.

28. mar. 2007 : Samvera heimsóknavina og athyglisverð fræðsla um Alzheimersjúkdóminn

Heimsóknavinir sem heimsækja fólk á einkaheimili komu saman í sjálfboðamiðstöðinni í vikunni á svokallaðri samveru sem nýtt er til að þeir geti miðlað reynslu sinni til annarra sem sinna heimsóknaþjónustu.

Í framhaldi af samverunni var boðið upp á fræðslu fyrir alla sjálfboðaliða deildarinnar og að þessu sinni ræddi María Th. Jónsdóttir, formaður félags aðstandenda Alzheimerssjúkra, um upphafseinkenni Alzheimersjúkdómsins. Hún skýrði einnig frá sinni reynslu af sjúkdómnum en hún hefur unnið fyrir samtökin í 22 ár og þekkir því vel til sjúklinga og fjölskyldna sem hafa þurft að glíma við einkenni Alzheimer.

27. mar. 2007 : Eldhugar fengu kynningu á Mexíkó

Eldhugar fengu nýlega svokallaða vegabréfaheimsókn um Mexíkó. Vegabréfaheimsóknir gefa Eldhugum tækifæri á að kynnast menningu annarra landa og lífi fólks þar með frásögnum gesta, íslenskra sem erlendra, sem hafa dvalið erlendis til lengri eða skemmri tíma.

Að þessu sinni var það Patricia Segura Valdes sem heimsótti Eldhuga. Patricia er fædd og uppalin í Mexíkóborg en fluttist til Íslands fyrir um tuttugu árum. Hún starfar sem spænskukennari í Menntaskólanum í Kópavogi en hefur verið við nám í Háskóla Íslands frá því að hún kom til landsins og lokið prófum þaðan úr þremur mismuandi greinum.

22. mar. 2007 : Nemendur í Snælandsskóla gáfu Rauða krossinum fimmtán hjól

Í gær afhentu nokkrir nemendur úr 8.-10. bekk Snælandsskóla fulltrúum Rauða krossins fimmtán hjól sem senda á til Malaví. Landsfélag Rauða krossins í Malaví kemur hjólunum áleiðis til þeirra sem þurfa en líklegt er að sjálfboðaliðar Rauða krossins í landinu fái flest þeirra til afnota.

Þetta er í fyrsta sinn sem krakkarnir í Snælandsskóla afhenda Rauða krossinum slíka gjöf og koma hjólin sér afar vel. Á hvert hjól er fest kveðja á ensku til nýs eiganda þar sem honum er óskað velfarnaðar á nýja hjólinu.

21. mar. 2007 : Áfangi um sjálfboðið starf kenndur í fjórða sinn í MK

Næsta haust verður áfangi um sjálfboðið Rauða kross starf kenndur í fjórða sinn í Menntaskólanum í Kópavogi. Fyrst var boðið upp á áfangann á vormisseri 2006 og hefur hann verið kenndur síðan. Í áfanganum vinna nemendur ýmis sjálfboðin störf á vegum Kópavogsdeildar Rauða krossins. Sameiginlegt verkefni nemendanna er síðan að halda fatamarkað til styrktar málefni Rauða krossins.

Nemendurnir í áfanganum á þessari önn héldu velheppnaðan markað 10. og 11. mars síðastliðinn til styrktar ferðasjóði Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Nokkrir nemendanna fóru í gær í Dvöl til að fagna árangrinum. Fulltrúar Dvalar þökkuðu þeim kærlega fyrir að leggja þeim lið með því að halda markaðinn.

20. mar. 2007 : Fjölbreytt kynning á heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar

Kópavogsdeild Rauða krossins býður upp á heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem hefur þörf fyrir félagsskap og dægrastyttingu. Til þess að sem flestir viti að þessi þjónusta er fyrir hendi er hún kynnt með fjölbreyttum hætti.

Nýverið kom út nýr bæklingur um heimsókna-þjónustu deildarinnar og er honum dreift víða um Kópavog. Bæklingnum er meðal annars dreift heim til Kópavogsbúa sem eru 75 ára og eldri í heimsóknum fulltrúa Landsbjargar sem fara yfir öryggisþætti og slysavarnir.

Starfsfólk heimahjúkrunar í Kópavogi var nýlega afhentur bæklingurinn og veitt kynning á starfi heimsóknavina.

19. mar. 2007 : Heimsóknir hunda ganga vel

Hundar taka þátt í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar með því að heimsækja fólk sem óskar eftir félagsskap þeirra. Nú eru alls um tíu hundar sem taka þátt í heimsóknum til Kópavogsbúa ýmist í heimahúsum eða á sambýlum og stofnunum.

Hundaeigendurnir sem taka þátt í verkefninu hittust í síðustu viku í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar til að segja hver öðrum frá hvernig gengur að heimsækja og miðla þannig af reynslu sinni til hvers annars sem sjálfboðaliðar. Heimsóknirnar ganga almennt mjög vel og mikil ánægja er meðal fólksins sem nýtur þess að hitta hundana reglulega.

14. mar. 2007 : Um 200 þúsund krónur söfnuðust á markaði til styrktar Dvöl

Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á fata- og nytjamarkaðinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar um síðustu helgi þar sem söfnuðust alls 197.161 krónur í ferðasjóð Dvalar. Í byrjun næstu viku munu nemendurnir í MK, sem önnuðust markaðinn í samstarfi við athvarfið Dvöl, kíkja í kaffi í Dvöl til að fagna árangrinum.

Nemendurnir í MK sem skipulögðu og héldu markaðinn eru allir í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf og hafa unnið fjölbreytt verkefni fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins á þessari önn. Nemendurnir eru hæstánægðir með hvernig tókst til með markaðinn. Ánægjan er einnig mjög mikil í Dvöl þar sem gestir athvarfsins eru afar þakklátir fyrir stuðninginn.

12. mar. 2007 : Fræðslufundur um kvíðaraskanir og hugræna atferlismeðferð

Vel á annan tug sjálfboðaliða, starfsfólks og notenda athvarfa Rauða krossins fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu áttu saman ánægjulega stund í húsakynnum Vinjar í síðustu viku. Fulltrúar athvarfsins Dvöl í Kópavogi voru þarna ásamt fulltrúum Læks í Hafnarfirði og Vinjar í Reykjavík.

Brynjar Emilsson, sálfræðingur á geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúss, hélt áhugavert erindi um kvíðaraskanir og hugræna atferlismeðferð. Í erindi hans kom meðal annars fram að öll höfum við einhvers konar áráttur og þráhyggjur sem gera oft ekki annað en að krydda líf okkar. En þegar þær fara að hafa óþægilega mikil áhrif er líklega kominn tími til að leita sér aðstoðar.

9. mar. 2007 : Hægt er að gera kjarakaup á fatamarkaði alla helgina

MK-nemar halda fata- og nytjamarkað í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar nú um helgina, bæði laugardag og sunnudag kl. 11-16. Markaðurinn er haldinn í samvinnu við Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða, og rennur allur ágóði óskiptur í ferðasjóð athvarfsins. Þeir sem koma á markaðinn geta sannarlega gert kjarakaup og stutt verðugt málefni um leið.
MK-nemar og Dvöl hvetja alla til að leggja leið sína í sjálfboðamiðstöðina um helgina því verðið er ótrúlegt. Flest er hægt að kaupa á 100, 300 og 500 krónur en allra flottustu flíkurnar fara á 1.000 og 1.500 krónur.

8. mar. 2007 : MK-nemar í óða önn að undirbúa fatamarkaðinn um helgina

Vaskur hópur nemenda í Menntaskólanum í Kópavogi heldur fata- og nytjamarkað í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar dagana 10. og 11. mars kl. 11-16. Markaðurinn er haldinn í samvinnu við athvarfið Dvöl og rennur allur ágóði óskiptur í ferðasjóð athvarfsins. Þar verður hægt að gera sannkölluð kjarakaup og er óhætt að hvetja fólk til að leggja leið sína í sjálfboðamiðstöðina um helgina.

7. mar. 2007 : Fata- og nytjamarkaður fyrir ferðasjóð Dvalar 10. og 11. mars

Hópur nemenda í Menntaskólanum í Kópavogi og athvarfið Dvöl halda fata- og nytjamarkað helgina 10.-11. mars kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar að Hamraborg 11. Allur ágóði rennur í ferðasjóð Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða í Kópavogi. Notuð föt og ýmis varningur verður til sölu á vægu verði, allt frá 100 til 1500 krónur. Meðal þess sem verður á boðstólum eru föt á fólk á öllum aldri, skór, handtöskur, leðurjakkar, úlpur, borðbúnaður, bækur og dúkar ásamt fjölmörgu öðru.

3. mar. 2007 : Sjálfboðaliðum boðið á söngleikinn Ást

Sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar var á þriðjudag og fimmtudag boðið að sjá rennsli á söngleiknum Ást sem er eftir Víking Kristjánsson og Gísla Örn Garðarsson. Söngleikurinn sem fjallar um ást á elliheimili er uppsetning Vesturports í samvinnu við Borgarleikhúsið. Söngleikurinn verður frumsýndur 10. mars næstkomandi.

Leikstjóri er Gísli Örn Garðarsson og leikendur eru Kristjbörg Kjeld, Magnús Ólafsson, Theódór Júlíusson, Ómar Ragnarsson, Hanna María Karlsdóttir, Charlotte Böving, Pétur Einarsson og 10 manna öldungakór.

Sjálfboðaliðar deildarinnar skemmtu sér vel á sýningunni sem er að verða fullmótuð og lofar afar góðu. Mörgum þótti gaman að sjá íslenskum ástarlögum fléttað skemmtilega saman í bland við erlend og tengd við söguþráð söngleiksins.

1. mar. 2007 : Áhugasamar prjónakonur fylltu sjálfboðamiðstöðina

Húsfyllir varð í prjónakaffinu sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Þar var verkefnið Föt sem framlag kynnt og segja má að viðtökurnar hafi verið vonum framar því hátt í 60 manns lögðu leið sína í sjálfboðamiðstöðina til að taka þátt. Deildin vonaðist til að fjölga sjálfboðaliðum í verkefninu og aðsóknin sýnir að margir geta hugsað sér að sinna sjálfboðnu starfi sem felst í hannyrðum. Stefnt er að því að halda prjónakaffi reglulega svo þeir sjálfboðaliðar sem þess óska geti hist með handavinnuna og átt saman skemmtilega stund.