30. apr. 2007 : Pétur Gauti og Ágúst Örn gáfu ágóða af tombólu

Vinirnir Pétur Gauti Guðbjörnsson og Ágúst Örn Ingason héldu tombólu fyrir utan Nóatún í Furugrund í apríl og afhentu Kópavogsdeild Rauða krossins ágóðann sem var 1839 krónur.

Hugmyndin að tombólunni kviknaði þegar mamma Péturs Gauta, sem er dagmamma, hafði á orði að hún vildi losna við dálítið af dótinu sem hún hefur fyrir börnin sem hún gætir. Þá datt þeim vinum í hug að selja allt dótið á tombólu og gefa Rauða krossinum ágóðann. Salan gekk vel og þeir seldu meðal annars barnabækur á 80 til 100 krónur stykkið. Perla María Guðbjörnsdóttir og Oddur Ingi Guðbjörnsson hjálpuðu til á tombólunni.

25. apr. 2007 : Sjálfboðaliði Kópavogsdeildar heiðraður af Rótarý

Rótarýklúbbur Kópavogs hefur útnefnt Önnu Bjarnadóttur, sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins, sem Eldhuga ársins 2007 fyrir störf að félags- og mannúðarmálum. Anna sem er 86 ára húsmóðir hefur í mörg ár leitt hóp sjálfboðaliða Kópavogsdeildar í verkefninu Föt sem framlag sem felst í að sjálfboðaliðar prjóna og sauma fatnað á ungabörn í neyð. Anna hefur einnig verið heimsóknavinur um árabil og tók þátt í að byggja upp starf heimsóknavina Kópavogsdeildar í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Kópavogsdeild Rauða krossins heiðraði Önnu á aðalfundi deildarinnar árið 2006. Deildin óskar Önnu innilega til hamingju með viðurkenninguna frá Rótarý.

24. apr. 2007 : Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar orðnir tvöhundruð talsins

Claudia Overesch er 200. sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins. Við það tilefni færðu fulltrúar Kópavogsdeildar henni blómvönd og bókina  Í þágu mannúðar, sögu Rauða kross Íslands. Tilefnið undirstrikar þá miklu fjölgun sjálfboðaliða deildarinnar síðustu mánuði. Um áramótin 2005/2006 voru sjálfboðaliðar deildarinnar 95 talsins og hafa því meira en tvöfaldast á rúmu ári.

Claudia er í hópi sjálfboðaliða sem stýra verkefninu Eldhugar sem er fyrir ungmenni 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna. Claudia kemur frá Þýskalandi en hefur verið búsett á Íslandi undanfarin fjögur ár og stundar meistaranám í þýðingarfræðum við Háskóla Íslands. Claudia ákvað að gefa kost á sér sem sjálfboðaliði í Eldhugum því hún hefur mikinn áhuga á málefnum innflytjenda og starfaði áður sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn í Þýskalandi að svipuðum verkefnum. Henni finnst líka áhugavert að vera nú sjálf í stöðu innflytjanda með veru sinni á Íslandi.

23. apr. 2007 : Rauði krossinn kynntur í grunnskólum Kópavogs

Öllum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu býðst að fá kynningu á starfi Rauða krossins fyrir nemendur 8. bekkja. Í vetur hafa skólarnir í Kópavogi verið duglegir að nýta sér boðið og flestir skólar fengið kynningu fyrir sína nemendur.

-Það skemmtilegasta við þessar kynningar er að krakkarnir verða meðvitaðir um starf Kópavogsdeildar Rauða krossins og það kemur mörgum á óvart að það séu verkefni á vegum deildarinnar sem þessi aldurshópur getur tekið þátt í, segir Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar Kópavogsdeildar. Í kjölfar kynninganna hafa nemendur gefið kost á sér í sjálfboðin störf og ungmennastarf deildarinnar sem ber heitið Eldhugar.

18. apr. 2007 : Nemendur í Snælandsskóla prjóna til góðs

Í dag afhentu nemendur á miðstigi í Snælandsskóla Kópavogsdeild teppi sem þeir hafa verið að prjóna undanfarið handa börnum í þróunarlöndum.  Þeir hafa haft það sem verkefni undanfarin ár að prjóna teppi úr garnafgöngum og er það hluti af umhverfisstefnu skólans að nýta hráefni og um leið leggja öðrum lið.

17. apr. 2007 : Ungir innflytjendur teikna sinn uppáhaldsstað í Kópavogi

Krakkarnir í Enter, sem er starf Kópavogsdeildar Rauða krossins með ungum innflytjendum 9-12 ára, eru að undirbúa þátttöku sína í Kópavogsdögum sem verða 5.-11. maí. Hengdar verða upp teikningar krakkanna í Smáralind af uppáhaldsstað þeirra í Kópavogi.

Á teikningunum má meðal annars sjá sundlaug Kópavogs, tjörnina í Kópavogsdalnum, fótboltavöllinn við HK-húsið, höfnina í bænum, Smáralind og sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins.

13. apr. 2007 : Vinkonur héldu tombólu í Salahverfi

Vinkonurnar Elma Jenný Þórhallsdóttir og Helga Sóley Björnsdóttir héldu tombólu fyrir utan Nettó í Salahverfi og söfnuðu alls 3.233 krónum til styrktar Rauða krossinum. Þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og afhentu söfnunarféð. Þær sögðu að það hefði gengið vel að safna og sumir hefðu meira að segja afhent þeim pening án þess að þiggja tombóluvinning.

Í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar fengu stelpurnar að vita hvernig söfnunarféð þeirra mun nýtast börnum í neyð erlendis. Stelpurnar voru áhugasamar og lístu yfir vilja til að safna aftur fyrir Rauða krossinn.

10. apr. 2007 : Skráning hafin á Börn og umhverfi

Skráning er hafin á námskeiðið Börn og umhverfi hjá Kópavogsdeild Rauða krossins sem haldið verður í maí og júní. Námskeiðið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár meðal ungmenna sem eru á 12. aldursári og eldri. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Fjallað er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur og veitt ítarleg kennsla í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

Fyrsta námskeið: 15., 16., 21. og 22. maí kl. 17-20
Annað námskeið: 23., 24., 29. maí og 30. maí kl. 18-21
Þriðja námskeið: 4., 5., 6. og 7. júní kl. 17-20