30. maí 2007 : Sjálfboðaliði í MK áfanga hlaut viðurkenningu við útskrift

Þann 25. maí voru brautskráðir nemar frá Menntaskólanum í Kópavogi við hátíðlega athöfn í Digraneskirkju. Við það tækifæri afhenti Rannveig Jónsdóttir Sigurði Sindra Helgasyni nemanda í MK og sjálfboðaliða hjá Kópavogsdeild, styrk úr Ingólfssjóði fyrir sjálfboðin störf hans hjá deildinni nú í vor. Sjóðurinn er tileinkaður fyrsta skólameistara MK, Ingólfi  A. Þorkelssyni, og er markmiðið með sjóðnum að efla áhuga nemenda skólans á húmanískum greinum. Það er mikil viðurkenning að hljóta styrk úr Ingólfssjóði. Sigurður Sindri tók á vormánuðum þátt í áfanga um sjálfboðið starf sem boðið er upp á í MK í samvinnu við Kópavogsdeild. Hann stóð sig sérstaklega vel sem sjálfboðaliði og því hlaut hann útnefningu til styrkveitingar úr sjóðnum. Deildin hlaut einmitt  nýverið viðurkenningu frá Rauða krossi Íslands fyrir áfangann.

23. maí 2007 : Fjórða námskeiðinu um Börn og umhverfi bætt við

Námskeiðið Börn og umhverfi hefur farið sérlega vel af stað og nú er svo komið að fullt er á námskeiðin þrjú sem í boði voru. Því hefur Kópavogsdeild bætt við fjórða námskeiðinu og verður það haldið dagana 11., 12., 13. og 14. júní kl. 17-20. Sem fyrr fer kennslan fram í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

22. maí 2007 : Skemmtileg heimsókn heimsóknavina Akranesdeildar í Kópavogsdeild

Ellefu heimsóknavinir Akranesdeildar sóttu Kópavogsdeild heim í gær. Með í för var verkefnisstjóri Akranesdeildar, Anna Lára Steindal. Heimsóknin heppnaðist afar vel og var hugsuð sem eins konar fræðslu- og umbunarferð fyrir heimsóknavinina. Fengu þeir fræðslu um störf heimsóknavina hjá Kópavogsdeild og boðið var upp á kaffi og með því.  Stemmningin í hópnum var afar góð þrátt fyrir slæmt ferðaveður.

22. maí 2007 : Þrjár bekkjarsystur söfnuðu 5.067 krónum á tombólu

Þrjár bekkjarsystur í Kópavogsskóla seldu dót á tombólu fyrir utan Nóatún í Hamraborg til styrktar Rauða krossinsum. Ágóðinn af sölunni var samtals 5.067 krónur sem þær afhentu Kópavogsdeild. Vinkonurnar heita Rakel Eyjólfsdóttir, Bjarnþóra Hauksdóttir og Birna Ósk Helgadóttir.

S
túlkurnar sögðu að fólk hefið tekið þeim vel og það hefðu helst verið fullorðnir sem keyptu af þeim dót á tombólunni. Sumir gáfu þeim líka peninga án þess að fá nokkurð í staðinn eða borguðu meira en hluturinn átti að kosta í raun. Þær voru mjög ánægðar með árangurinn og sögðust ætla að halda fleiri tombólur í framtíðinni.

21. maí 2007 : Kópavogsdeild fékk viðurkenningu vegna áfanga um sjálfboðið starf

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur fengið viðurkenningu frá Rauða krossi Íslands fyrir samstarfið við Menntaskólann í Kópavogi um áfangann SJÁ 102 sem kenndur hefur verið í skólanum á undanförnum misserum. Formaður deildarinnar tók við viðurkenningunni fyrir hönd deildarinnar á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Akureyri á laugardaginn. Aðalfundurinn samþykkti endurskoðaða stefnu sem gildir til 2010 og leggur mikla áherslu á að starf með innflytjendum og verkefni sem miða að því að draga úr félagslegri einangrun.

18. maí 2007 : Sérlega vel heppnuð vorferð barna og ungmenna

Í gær, uppstigningardag, héldu börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Ferðin er dagsferð, það er frí í skólum, og því kjörið tækifæri fyrir alla í ungmennastarfi Rauða krossins til að hittast og kynnast og hafa gaman saman.

18. maí 2007 : Kirkjudagur aldraðra, 17. maí

Í gær, á uppstigningardegi, sem jafnframt er kirkjudagur aldraðra, hélt stór hópur íbúa í Sunnuhlíð til messu í Kópavogskirkju. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hafa árlega aðstoðað fólkið og aðstandendur þess í ferðinni. Að sögn þeirra gekk ferðin afar vel þrátt fyrir leiðinlegt veður. Í kirkjuferðinni aðstoða sjálfboðaliðar íbúa við að komast til og frá kirkju og  í kaffið í safnaðarheimilinu eftir messu. Þeir sjá því um að keyra hjólastóla, finna sæti og kaffiveitingar fyrir fólkið og annað sem þarf að sjá um í ferðinni.

17. maí 2007 : Vorferð barna og ungmenna í dag

Í dag, uppstigningardag, héldu börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Ferðin er dagsferð, það er frí í skólum, og því kjörið tækifæri fyrir alla í ungmennastarfi Rauða krossins til að hittast og kynnast og hafa gaman saman. Það ríkti mikil gleði og spenningur í sjálfboðamiðstöðinni áður en lagt var af stað en um þrjátíu þátttakendur í Enterhóp og Eldhugum Kópavogsdeildar skráðu sig í ferðina auk sjálfboðaliða.

15. maí 2007 : Námskeiðið Börn og umhverfi hefst í dag

Í dag hefst fyrsta námskeiðið af þremur um Börn og umhverfi sem í boði verða hjá Kópavogsdeild í ár. Námskeiðið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár meðal ungmenna sem eru á 12. aldursári og eldri. Fullt er á námskeiðið sem hefst í dag en enn eru nokkur laus pláss á námskeiðunum sem hefjast 23. maí og 4. júní. Kennt er í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

11. maí 2007 : Margir litu við á alþjóðadegi Rauða krossins

Margir heimsóttu Kópavogsdeild á opnu húsi í sjálfboðamiðstöðinni þann 8. maí sem haldið var í tilefni alþjóðadags Rauða krossins og Kópavogsdaga sem nú standa yfir. Dagurinn er fæðingardagur upphafsmanns hreyfingarinnar, Henry Dunant, og því haldinn hátíðlegur hjá deildum og landsfélögum víða um heim.

Árið 1863 varð hugmynd Henry Dunant að stofnun sjálfboðaliðasamtaka að veruleika og fyrstu landsfélögin stofnuð. Hlutverk samtakanna var að sinna hinum særðu á stríðstímum án tillits til uppruna og áttu ríki heims að sameinast um að veita hjálparsveitum á vegum þeirra vernd. Árið 1864 samþykkti ráðstefna embættismanna svo fyrsta Genfarsamninginn um úrbætur á aðstæðum særðra hermanna á vígvöllum en samningarnir eru nú orðnir fjórir talsins.

9. maí 2007 : Sjálfboðaliðum boðið á söngleikinn Gretti

Leikfélag Reykjavíkur bauð sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar Rauða krossins á söngleikinn Gretti um síðustu helgi. Það var kjörið tækifæri fyrir sjálfboðaliða til að gera sér glaðan dag og skemmta sér á íslenskum söngleik. Verkið er eftir Egil Ólafsson, Ólaf Hauk Símonarson og Þórarin Eldjárn. Leikstjóri er Rúnar Freyr Gíslason og fjöldi valinkunnra leikara tekur þátt.

Kópavogsdeild færir leikfélaginu bestu þakkir fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

8. maí 2007 : Opið hús á alþjóðadegi Rauða krossins

Í tilefni alþjóðadags Rauða krossins 8. maí og Kópavogsdaga sem nú standa yfir verður opið hús í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins í dag kl. 16-18 í Hamraborg 11. Þar munu sjálfboðaliðar kynna fjölbreytt verkefni deildarinnar og sýndar verða myndir úr starfinu. Seldar verða prjónaðar barnaflíkur sem sjálfboðaliðar hafa útbúið og mun ágóðinn renna í hjálparstarf félagsins. Einnig verður boðið upp á veitingar með fjölþjóðlegu ívafi.

7. maí 2007 : Velheppnuð sýning ungmenna á Kópavogsdögum

Ungmenni í Kópavogsdeild Rauða krossins settu litríkan og skemmtilegan blæ á Smáralind á laugardaginn við upphaf Kópavogsdaga. Sýning á verkum ungmenna í Eldhugum og Enter naut sýn vel í göngugötunni á neðri hæðinni og þar gátu áhugasamir kynnt sér ungmennastarf deildarinnar og tekið tímarit Eldhuga með sér.

Í menningardagskrá barna á sviði vakti verðskuldaða athygli Nasipe Bajramaj, albönsk stúlka í Enter sem flutti ljóð á albönsku og íslensku. Íslenska ljóðið var frumsamið og fjallaði um sýn hennar á lífið og samkennd manna. Nasipe hefur búið á Íslandi í sex ár og er nemi í Hjallaskóla. Hún hefur tekið þátt í starfi Enter frá upphafi eða síðan vorið 2004.

Önnur börn úr starfinu í Enter voru áberandi í tælenskum dansi sem þótti afar fallegur. Stúlkurnar sem dönsuðu voru í tignarlegum tælenskum klæðnaði sem vakti mikla hrifningu annarra ungmenna á staðnum.

4. maí 2007 : Ungmenni í Eldhugum og Enter sýna skapandi verk á Kópavogsdögum

Í tilefni Kópavogsdaga verður Kópavogsdeild Rauða krossins með kynningarbás í Smáralind laugardaginn 5. maí kl. 12-16. Ungmenni og sjálfboðaliðar í Enter og Eldhugum munu sýna skapandi verkefni sín og kynna starfið. Sýndar verða teikningar ungra innflytjenda af uppáhaldsstað þeirra í Kópavogi og ljósmyndasýning Eldhuga ,,Vinátta og virðing í Kópavogi". Eldhugar hafa hannað Kópavogsbúann árið 2057 sem lítur dagsins ljós og tímariti Eldhuga verður dreift. Nokkrir krakkar úr Enter munu taka þátt í menningardagskrá á sviði í Smáralindinni kl. 14-15.

Kópavogsdagar í ár eru tileinkaðir menningu barna og ungmenna. Því er vel við hæfi að kynna ungmennastarf Kópavogsdeildar Rauða krossins. Krakkar og sjálfboðaliðar í Eldhugum og Enter vonast til að sjá sem flesta í Smáralind á laugardaginn.

2. maí 2007 : Eldhugar undirbúa sýningu á Kópavogsdögum

Það var mikið fjör síðasta fimmtudag þegar Eldhugar komu saman og undirbjuggu sýningu sína á Kópavogsdögum. Sýningin verður í Smáralind laugardaginn 5. maí kl. 12-16 og þar verður meðal annars hægt að sjá sýn Eldhuga á Kópavogsbúann árið 2057. Eldhugar verða á staðnum til að segja gestum og gangandi frá starfinu og dreifa nýútkomnu tímariti sínu. Eldhugar vonast til að sjá sem flesta í Smáralind á laugardaginn.

Eldhugar eru 13-16 ára ungmenni af íslensku og erlendum uppruna sem vinna saman að hugsjónum Rauða krossins um betra samfélag án mismununar og fordóma.