29. jún. 2007 : Sumarlokun sjálfboðamiðstöðvar

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er lokuð frá 2. júlí til og með 6. ágúst vegna sumarleyfa. Sjálfboðamiðstöðin opnar aftur þriðjudaginn 7. ágúst og verður þá opin sem fyrr alla virka daga kl. 11-15. Hægt er að senda deildinni tölvupóst á netfangið [email protected].

Sumaropnun í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, er alla virka daga kl. 9-15.

Ef nauðsyn krefur er hægt að hafa samband við formann Kópavogsdeildar, Garðar H. Guðjónsson, í síma 895 5807 eða á gaji[hjá]mmedia.is.

21. jún. 2007 : Nýjar upplýsingar á vefnum á fleiri tungumálum

Á vefsíðu Kópavogsdeildar Rauða krossins er nú að finna uppfærðar upplýsingar á útlensku um verkefni deildarinnar og það á fleiri tungumálum en áður. Þau tungumál sem bætast við nú eru rússneska og spænska en auk þess er að finna upplýsingar á ensku, pólsku og  tælensku.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á að auglýsa heimsóknaþjónustu deildarinnar á erlendum tungumálum og hafa upplýsingar þess efnis verið settar í sérstakan ramma til hægri á síðunni. Með þeim hætti er vakin athygli á því að fólk af erlendum uppruna getur hitt sjálfboðaliða Rauða krossins til þess að æfa sig í íslensku. Eins getur fólk af erlendum uppruna boðið fram krafta sína sem sjálfboðaliðar með því að heimsækja fólk sem hefur þörf fyrir félagsskap og æfa sig í íslensku um leið.

15. jún. 2007 : Góð þátttaka á Börn og umhverfi

Í gær útskrifaði Kópavogsdeild Rauða krossins síðustu nemendurna á þessu misseri af námskeiðinu Börn og umhverfi. Námskeiðið hefur alls verið haldið fjórum sinnum undanfarnar vikur. Fullbókað var á öll námskeiðin og þátttakendur voru samtals 65 talsins.

13. jún. 2007 : Viðtöl við sjálfboðaliða í Eldhugum

Eftirfarandi er grein um Eldhuga sem birtist á forsíðunni á vef Rauða kross Íslands. Í greininni eru tekin viðtöl við þrjá sjálfboðaliða í Eldhugum.

Öflugt starf unga fólksins í Kópavogi 

Þátttaka ungs fólks í starfi Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur vaxið mikið á undanförnum misserum. Margir hafa gerst sjálfboðaliðar í ýmsum verkefnum og ný verkefni fyrir ungmenni hafa orðið til og fest rætur. Þar eru ungir innflytjendur áberandi.

12. jún. 2007 : Fjórar kynslóðir á prjónakaffi í maí

Rúmlega 30 manns sóttu síðasta prjónakaffi Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir sumarfrí sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni 30. maí síðastliðinn. Mætingin á vormánuðum hefur verið afar góð og vonast er til að enn bætist í hópinn með haustinu. Það er alltaf glatt á hjalla í prjónakaffi og gaman að segja frá því að meðal gesta síðast voru fjórar kynslóðir sömu fjölskyldunnar. Því er kjörið fyrir fjölskylduna að koma saman og láta gott af sér leiða.

Markmiðið með prjónakaffinu er að sjálfboðaliðar komi saman til að njóta félagsskapar við að prjóna eða sauma ungbarnafatnað fyrir neyðaraðstoð.

6. jún. 2007 : Stórskemmtileg vorhátíð sjálfboðaliða í Dvöl

Á laugardaginn síðasta var vorhátíð sjálfboðaliða haldin í Dvöl. Vorhátíðin er eins konar uppskeruhátíð sjálfboðaliða á liðnum vetri og var margs að fagna. Starf deildarinnar hefur eflst mikið í vetur með auknum fjölda sjálfboðaliða en rúmlega 70 manns hafa skrifað undir sjálfboðaliðasamning síðan haustið 2006.

4. jún. 2007 : Sunnuhlíð fagnar 25 ára afmæli

Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins samfögnuðu hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð á 25 ára afmælinu sem haldið var hátíðlegt í síðustu viku. Við það tækifæri færði Kópavogsdeild hjúkrunarheimilinu ferðatæki með geislaspilara að gjöf sem mun nýtast við spilun á tónlist í virkninni þar sem heimilisfólk stundar ýmsa handavinnu.

Reynir Guðsteinsson, varaformaður Kópavogsdeildar, flutti Sunnuhlíð kveðju frá deildinni og minnti á hvernig leiðir Sunnuhlíðar og deildarinnar hafa legið saman frá upphafi hjúkrunarheimilisins.

4. jún. 2007 : Ánægðir Dvalargestir á Fuerteventura

Níu manna hópur frá Dvöl fór í vikulanga ferð til eyjarinnar Fuerteventura 22. maí síðastliðinn. Á eyjunni var ýmislegt skoðað. Farið var í dýragarðinn, bílferð um alla eyjuna, markaðir heimsóttir og dvalið á ströndinni. Á hverju kvöldi var farið út að borða. Einn í hópnum, 54 ára maður, hafði hvorki farið út fyrir landsteinana né ferðast með flugvél áður. Þetta var því heilmikil upplifun fyrir hann sem og hina ferðalangana. Allir komu heim hæstánægðir með velheppnaða ferð.

Hópurinn hafði undirbúið ferðina vel með starfsfólki Dvalar og safnað fyrir henni með fjölbreyttum hætti, svo sem með því að halda fata- og nytjamarkað í mars með aðstoð frá nemendum í Menntaskólanum í Kópavogi. Einnig kom að góðum notum styrktarfé úr ferðasjóði Dvalar sem nokkur fyrirtæki hafa lagt í og gerði gestum Dvalar kleift að komast með í ferðina.

1. jún. 2007 : Tveir nýir starfsmenn Kópavogsdeildar

Á dögunum var gengið frá ráðningu tveggja nýrra starfsmanna Kópavogsdeildar Rauða krossins í stöður framkvæmdastjóra og verkefnastjóra sjálfboðamiðstöðvar. Nýr framkvæmdastjóri deildarinnar verður Linda Ósk Sigurðardóttir og nýr verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar verður Dögg Guðmundsdóttir. Munu þær báðar taka til starfa í ágústmánuði þegar skrifstofa deildarinnar opnar aftur eftir sumarlokun í júlí. Linda Ósk og Dögg munu taka við af þeim Fanneyju Karlsdóttur og Ingunni Ástu Sigmundsdóttur sem hverfa til náms og annarra starfa.