30. ágú. 2007 : Góð mæting á fyrsta prjónakaffi vetrarins

Rúmlega þrjátíu manns mættu á fyrsta prjónakaffi vetrarins hjá Kópavogsdeild eftir sumarfrí sem haldið var 29. ágúst síðastliðinn í sjálfboðamiðstöðinni. Andinn var góður í hópnum og var sérstaklega ánægjulegt að sjá þar á meðal nokkra nýliða sem tóku þátt í fyrsta skipti eftir að hafa séð blaðaauglýsingu um prjónakaffið. Það er líka gaman frá því að segja að deildinni hafði verið gefin þó nokkuð mörg falleg vélprjónuð teppi og peysur en eftir átti að ganga frá endum og var hópurinn fljótur að taka það verkefni að sér og var kominn dágóður bunki af fullkláruðum teppum í lok kaffisins.   

27. ágú. 2007 : Hundurinn Leó leit við í sjálfboðamiðstöðinni

Hundurinn Leó heimsótti Kópavogsdeild fyrir helgi með Ingibjörgu, eiganda sínum. Ingibjörg er sjálfboðaliði hjá deildinni og heimsóknavinur með Leó. Komu þau til að sækja klút merktan Rauða krossinum sem Leó ætlar að bera þegar þau sinna sjálfboðnum störfum sínum í vetur. Ætla þau að taka þátt í Enter-starfinu og heimsækja Enter-hópinn reglulega á miðvikudögum í sjálfboðamiðstöðinni þegar starfið fer af stað um miðjan september. Eins og sjá má af myndinni ber Leó klútinn með stakri prýði.

 

24. ágú. 2007 : Heimsókn til Kópavogsdeildar

Miðvikudaginn 22. ágúst fékk Kópavogsdeildin heimsókn frá hópi nýrra starfsmanna Rauða krossins. Hópurinn var skipaður fólki sem nýlega hefur tekið við störfum hjá ýmsum deildum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, og fékk hann kynningu á verkefnum og starfsemi Kópavogsdeildar. Var heimsóknin liður í því að kynna fyrir nýliðunum starfsemi Rauða krossins en auk Kópvogsdeildar heimsótti hópurinn Fjölsmiðjuna sem er vinnusetur fyrir ungt fólk, fataflokkunarstöðina í Hafnarfirði og Vin sem er athvarf fyrir geðfatlaða í Reykjavík. 

20. ágú. 2007 : Tvær vinkonur söfnuðu 11.000 krónum á tombólu

Vinkonurnar Ingibjörg Helga Steingrímsdóttir og Snjólaug Benediktsdóttir úr Kársnesskóla héldu tombólu fyrir utan búðina Strax við Hófgerði ásamt því að ganga í hús með bauk og söfnuðu alls 11.000 krónum til styrktar Rauða krossinum. Þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og afhentu söfnunarféð. Tekið var vel á móti þeim og þeim færðar kærar þakkir fyrir þetta framtak.
 
Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Fjársöfnun ungmenna rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.
 
Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í sjálfboðamiðstöðina alla virka daga á milli kl. 11-15.

20. ágú. 2007 : Leikföng óskast

Kópavogsdeild Rauða krossins óskar eftir leikföngum fyrir börn á aldrinum 0-6 ára. Deildin fer af stað með nýtt verkefni sem ber heitið „Alþjóðlegir foreldrar” í október. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eiga börn á aldrinum 0-6 ára. Alþjóðlegu foreldrarnir munu hittast vikulega í félagsmiðstöðinni Mekka og boðið verður upp á stutta íslenskukennslu fyrir foreldrana í hvert sinn og fjölbreyttar kynningar. Ætlunin er að hafa leikföng fyrir börnin á staðnum og vantar okkur leikföngin.  

Ef þú átt einhver leikföng sem þú mátt sjá af fyrir börn á þessum aldri þætti okkur vænt um ef þú kæmir með þau til okkar í sjálfboðamiðstöðina í Hamraborg 11. Miðstöðin er opin alla virka daga frá 11-15.

Nánari upplýsingar um verkefnið eru hér á síðunni undir hlekknum „Alþjóðlegir foreldrar”.

14. ágú. 2007 : Unglingastarfið á fullt eftir sumarfrí

Hjá Kópavogsdeild Rauða krossins eru starfandi tveir hópar ungs fólks, Enter og Eldhugar. Starfsemin hefur legið niðri í sumar en í september hefst starfið af fullum þunga að nýju.

10. ágú. 2007 : Sjálfboðaliða vantar í Dvöl

Sjálfboðaliða vantar í Dvöl við Reynihvamm 43 fyrir veturinn. Dvöl er athvarf fyrir geðfatlaða og er ætlað að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við að geðsjúkdóma að stríða. Sjálfboðaliðar gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Dvalar með því að taka þátt í starfsemi athvarfsins og veita gestunum félagsskap.
 
Það vantar sjálfboðaliða til að vera í Dvöl á laugardögum frá kl. 13-16. Venjulega eru tveir sjálfboðaliðar á vakt hvern laugardag en fundur verður haldinn í lok ágúst eða byrjun september með sjálfboðaliðum þar sem þeir geta raðað sér niður á vaktir. Reynt verður að hafa sem flesta sjálfboðaliða þannig að nóg væri fyrir hvern og einn að vera í athvarfinu tvo til þrjá laugardaga fram að jólum.

7. ágú. 2007 : 10. bekkingar læra skyndihjálp

Á fyrri helmingi ársins fengu 10. bekkingar fimm grunnskóla í Kópavogi, þ.e. Digranesskóla, Kársnesskóla, Kópavogsskóla, Salaskóla og Snælandsskóla, kennslu í skyndihjálp. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og hafa því öðlast víðtæka þekkingu á því hvernig bregðast skuli við í kjölfar slysa eða bráðaveikinda. Kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn.

Námskeiðið er skólunum og nemendum að kostnaðarlausu og geta nemendurnir jafnframt fengið námskeiðið metið til eininga í framhaldsskólum.

7. ágú. 2007 : Dagsferð Dvalar

Tuttugu manns úr Dvöl fóru í dagsferð 12. júní síðastliðinn. Farinn var Gullni hringurinn, þ.e. á Þingvöll, Laugavatn, Gullfoss og Geysi. Einstök veðurblíða var þennan dag sem gerði ferðina einstaklega skemmtilega. Lagt var af stað frá Dvöl kl. 9 að morgni og komið heim kl. 17. Í hádeginu var hamborgari snæddur á Hótel Geysi.

Dvöl er athvarf fyrir fólk með geðraskanir sem er staðsett í Reynihvammi 43 í Kópavogi. Markmiðið með starfseminni er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Kópavogsdeild Rauða krossins annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.