27. sep. 2007 : Fleiri fatapakkar tilbúnir fyrir börn í neyð

Í vikunni komu sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag í sjálfboðamiðstöðina til að pakka ungbarnafötum í þar til gerða pakka sem sendir verða til barna í neyð í Malaví. Alls var pakkað 110 pökkum. Samtals hefur þá Kópavogsdeild sent frá sér 246 pakka í september en einnig var pakkað í byrjun mánaðarins. Sjálfboðaliðarnir hafa því svo sannarlega ekki setið auðum höndum undanfarna mánuði og enn halda þeir áfram að prjóna fleiri föt til að senda til Afríku.

21. sep. 2007 : Skemmtilegir krakkar í Enter og Eldhugum hittast aftur eftir sumarfrí

Starf Kópavogsdeildar með ungmennum fór aftur af stað af fullum krafti í vikunni. Annars vegar hittist Enter-hópurinn en í honum eru ungir innflytjendur 9-12 ára sem koma úr móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla. Hins vegar komu Eldhugar saman en þann hóp skipa 13-16 ára ungmenni víðs vegar að úr Kópavogi, íslensk og erlend.

19. sep. 2007 : Námskeið fyrir heimsóknavini

Kópavogsdeild hélt í gær námskeið fyrir heimsóknavini þar sem þátttakendurnir fengu leiðsögn varðandi hlutverk og störf heimsóknavina. Þátttakendurnir fengu fræðslu um hvað ber að hafa í huga í heimsóknum til gestgjafa meðal annars varðandi virðingu og samræður en einnig hvað ber að varast eins og fordóma og forræðishyggju. Þá fengu þátttakendurnir kynningu á sögu, markmiðum og starfi Rauða krossins ásamt verkefnum Kópavogsdeildar.  

14. sep. 2007 : Athvörf Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða á landsmóti

Athvörf Rauða kross Íslands héldu sitt árlega landsmót dagana 5.-7. september síðastliðinn. Það var haldið á Hótel Hvítá í Biskupstungum. Alls tóku 34 manns þátt í mótinu frá fjórum athvörfum, Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Laut á Akureyri. Var meðal annars farið í danskeppni og Árnesingadeild Rauða krossins bauð í mat.

12. sep. 2007 : Sjálfboðaliða vantar í Enter

Kópavogsdeild vantar fleiri sjálfboðaliða í Enter. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.00 hittast hressir krakkar 9-12 ára úr nýbúadeild Hjallaskóla í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og hafa það gaman saman. Áhersla er lögð á að veita krökkunum málvörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

12. sep. 2007 : MK-nemar fengu kynningu á verkefnum deildarinnar

Nemendur sem sitja áfanga í sjálfboðnu Rauða kross starfi í Menntaskólanum í Kópavogi fengu kynningu á verkefnum deildarinnar í dag. Þeir fengu meðal annars fræðslu um heimsóknaþjónustu, Enter, Eldhuga, Rjóðrið og Dvöl. Að lokinni kynningunni fengu nemendurnir að velja sér verkefni sem þeir ætla að sinna í sjálfboðnu starfi í vetur.

10. sep. 2007 : Undirbúningur í fullum gangi fyrir Alþjóðlega foreldra

Samráðsfundur var haldinn í sjálfboðamiðstöðinni í dag með fulltrúum frá Heilsugæslu Kópavogs og nýbúadeild Hjallaskóla í tengslum við undirbúning fyrir verkefnið Alþjóðlegir foreldrar. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eiga börn á aldrinum 0-6 ára. Alþjóðlegu foreldrarnir munu hittast vikulega í félagsmiðstöðinni Mekka og boðið verður upp á stutta íslenskukennslu fyrir foreldrana í hvert sinn og fjölbreyttar kynningar. Ætlunin er að hafa leikföng fyrir börnin á staðnum og ef einhver á leikföng fyrir börn á þessum aldri sem viðkomandi má sjá af þætti okkur vænt um að fá þau til okkar í sjálfboðamiðstöðina í Hamraborg 11. Miðstöðin er opin alla virka daga frá 11-15.

5. sep. 2007 : Fötum pakkað fyrir börn í neyð

Í gær hittist góður hópur kvenna sem eru sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag og prjóna ungbarnaföt. Tilefnið var að pakka þessum fötum niður í þar til gerða pakka sem að mestu verða sendir til fjölskyldna í Malaví. Í hvern pakka fer handprjónuð peysa, teppi, húfa, sokkar og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum og bleyjum. Sjálfboðaliðarnir hittust heima hjá Önnu Bjarnadóttur sem löngum hefur haldið utan um pökkunina og boðið fram húsnæði sitt. Hópurinn var hress að vanda og pökkuðust tugir pakka á skömmum tíma.