31. okt. 2007 : Vel heppnað námskeið fyrir heimsóknavini

Í kjölfar kynningarviku Rauða kross Íslands, sem lauk fyrr í þessum mánuði hélt Kópavogsdeildin í gær námskeið fyrir sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu. Námskeiðið var vel sótt, en alls mættu 20 þátttakendur. Nýir heimsóknavinir munu því hefja störf á næstunni.

29. okt. 2007 : Samstarf um aðstoð við fjölskyldur í Kópavogi

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs munu starfa saman að neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur fyrir jólin. Mæðrastyrksnefnd Kópavogs annast úthlutun á matarstyrkjum til fjölskyldna í neyð með stuðningi frá Kópavogsdeild Rauða krossins sem hefur afhent nefndinni styrk að upphæð 360.000 krónur. 

23. okt. 2007 : Lokaátak á kynningu Rauða krossins

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands tóku þátt í lokaátaki félagsins með því að kynna starfsemi Rauða krossins í Smáralindinni, laugardaginn 20. október. Gestum Smáralindar var gefinn kostur á að skrá sig sem sjálfboðaliðar eða félagsmenn auk þess sem ýmis verkefni voru kynnt. Dagurinn heppnaðist mjög vel og ríkti ánægja meðal sjálfboðaliðanna að taka þátt í þessu lokaátaki.

22. okt. 2007 : Forsetahjónin heimsóttu Dvöl

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, forsetafrú, heimsóttu Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða í Kópavogi, á laugardaginn. Heimsóknin var liður í kynningarviku Rauða kross Íslands þar sem athygli var vakin á innanlandsverkefnum félagsins. Í Dvöl ríkti mikil gleði yfir heimsókninni og fjölmenntu gestir þangað. Forsetahjónin spjölluðu við gestina, skoðuðu handavinnu þeirra og lýstu yfir hrifningu á húsinu og aðstæðum þar. Þá barst talið einnig að rabarbara sem vex við Dvöl og þar sem ekki vex mikið af honum við Bessastaði ætla starfsmenn og gestir Dvalar að senda forsetahjónunum rabarbara úr garðinum. Forsetinn óskaði svo eftir því að fá sendar myndir af þeim hjónunum í Dvöl sem teknar voru við þetta tækifæri.

19. okt. 2007 : Vel heppnað opið hús hjá Kópavogsdeild

Í gær var opið hús hjá Kópavogsdeild þar sem verkefni deildarinnar voru kynnt fyrir gestum og gangandi. Sjálfboðaliðar kynntu verkefnin sem þeir taka þátt í, sögðu frá sinni reynslu og sýndu myndir úr starfinu. Alls voru um fimmtíu manns á opna húsinu. Við þetta tækifæri var nýr samstarfssamningur undirritaður við BYKO en fyrirtækið styrkir ungmennastarfið hjá Kópavogsdeild, Enter og Eldhuga, með myndarlegu fjárframlagi. Einnig var happdrætti þar sem dregið var um veglega vinninga frá Kaffibúðinni Hamraborg 3, Átján rauðum rósum Hamraborg 3, Bókabúðinni Hamraborg 5 og Rauða krossinum. Opna húsið var liður í kynningarátakinu sem Rauði kross Íslands stendur fyrir á landsvísu í þessari viku.

18. okt. 2007 : BYKO verður bakhjarl ungmennastarfs Kópavogsdeildar

BYKO hefur ákveðið að styrkja ungmennastarf Kópavogsdeildar Rauða krossins með veglegu fjárframlagi í vetur og verður þannig helsti bakhjarl starfs Kópavogsdeildar með ungmennum af innlendum og erlendum uppruna. Um er að ræða verkefnin Enter og Eldhuga en þau eru bæði hluti af átakinu „Byggjum betra samfélag“ sem Rauði krossinn stendur fyrir.

Anna Guðný Hermannsdóttir, fulltrúi BYKO, og formaður og framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar undirrituðu samstarfssamning í opnu húsi hjá Kópavogsdeild í dag. Samningurinn gerir Kópavogsdeild kleift að standa að verkefnunum af þeim krafti og metnaði sem hugur hennar stendur til en mikill fjöldi barna og ungmenna af erlendum og íslenskum uppruna tekur þátt í verkefnunum. Sjálfboðaliðar á ýmsum aldri bera verkefnið uppi.

18. okt. 2007 : Opið hús hjá Kópavogsdeild í dag, fimmtudag, kl. 13-18

Þessa dagana leggur Rauði krossinn sig fram um að kynna þau fjölmörgu verkefni sjálfboðaliða sem unnin eru á vegum deilda um allt land. Lögð er megin áhersla á að kynna störf sjálfboðaliða sem miða að því að draga úr einsemd, fordómum og félagslegri einangrun. Kópavogsdeild Rauða krossins skipuleggur öflugt sjálfboðið starf sem miðar að því að byggja betra samfélag hér í Kópavogi. Verkefni sjálfboðaliðanna eru fjölbreytt og við leggjum áherslu á að finna hverjum og einum verkefni við hæfi.

17. okt. 2007 : Eldhugar fara í ferð í sjónvarpið á morgun, fimmtudag

Eldhugar fara í ferð í sjónvarpshúsið á morgun og fá fræðslu um það sem gerist á bak við tjöldin í sjónvarpinu. Síðar í haust kemur svo leikari til Eldhugana og ætlar að aðstoða þá við að búa til sinn eigin sjónvarpsþátt í anda Kastljóssins. Spennandi.....

17. okt. 2007 : Enter-krakkarnir fóru í heimsókn í Vífilfell

Í dag fóru Enter-krakkarnir í heimsókn í Vífilfell og sáu hvernig kók, safi og ýmsar aðrar drykkjarvörur eru framleiddar. Það var tekið vel á móti þeim og sáu þau ótal flöskur þjóta um færiböndin, tappa í alls konar litum og stafla af vörum tilbúnar til drykkjar. Krakkarnir fengu svo auðvitað líka að smakka framleiðsluna og vakti það mikla gleði. Þau nutu drykkjarins yfir myndbandi um verksmiðjuna en sáu einnig gamlar auglýsingar fyrir vörur eins og Svala og kók. Eftir kynninguna fengu þau svo að taka með sér drykk heim í nesti.

16. okt. 2007 : Heimsóknavinir gegn einsemd og einangrun

Grein um heimsóknir til fólks sem býr við einsemd og einangrun eftir Garðar H. Guðjónsson og Lindu Ósk Sigurðardóttur. Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 13. október.

Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun, sem virðist því miður vera vaxandi vandi í samfélaginu. Deildin sinnir þessu með öflugri heimsóknaþjónustu og rekstri Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Þjónustan eflist jafnt og þétt og nú eru um 70 sjálfboðaliðar í reglubundnum verkefnum heimsóknavina. Gestgjafarnir eru karlar og konur á ýmsum aldri. Heimsóknirnar fara fram á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, sambýlum og athvarfi geðfatlaðra, sambýli heilabilaðra, skammtímavistun fyrir langveik börn og í Sunnuhlíð.

15. okt. 2007 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins gegn einsemd og einangrun

Grein um starf og verkefni Rauða krossins í Kópavogi eftir Geir A. Guðsteinsson blaðamann sem birtist í Kópavogsblaðinu.

Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun. Deildin sinnir þessu með öflugri heimsóknaþjónustu og rekstri Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Þjónustan er sífellt að eflast og nú eru 65-70 sjálfboðaliðar í reglubundnum verkefnum heimsóknavina. Gestgjafarnir eru karlar og konur á ýmsum aldri. Heimsóknirnar fara fram á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, sambýlum og athvarfi geðfatlaðra, sambýli heilabilaðra, skammtímavistun fyrir langveik börn og í Sunnuhlíð. Þess má geta að heimsóknir til heimilismanna í Sunnuhlíð hafa staðið yfir frá árinu 1984. Alltaf er þörf fyrir sjálfboðaliða og alltaf heitt á könnunni á skrifstofunni í Hamraborg. Einnig er hægt að fylgjast með starfinu á netsíðunni www.redcross.is/kopavogur

15. okt. 2007 : Opið hús hjá Kópavogsdeild Rauða krossins, fimmtudaginn 18. október frá kl. 13.00-18.00

Þessa dagana leggur Rauði krossinn sig fram um að kynna þau fjölmörgu verkefni sjálfboðaliða sem unnin eru á vegum deilda um allt land. Lögð er megin áhersla á að kynna störf sjálfboðaliða sem miða að því að draga úr einsemd, fordómum og félagslegri einangrun. Kópavogsdeild Rauða krossins skipuleggur öflugt sjálfboðið starf sem miðar að því að byggja betra samfélag hér í Kópavogi. Verkefni sjálfboðaliðanna eru fjölbreytt og við leggjum áherslu á að finna hverjum og einum verkefni við hæfi.

15. okt. 2007 : Rauði krossinn kynnir innanlandsstarf sitt í samstarfi við SPRON

Vikuna 14.-20. október mun Rauði krossinn kynna starf sitt um allt land.  Samkvæmt viðhorfskönnun sem Capacent Gallup gerði nýverið fyrir Rauða kross Íslands kom í ljós að almenningur virðist lítið þekkja til öflugs starfs sjálfboðaliða Rauða krossins hérlendis, en tengi starfsemi félagsins einkum við neyðaraðstoð úti í heimi.

Samkvæmt könnuninni telja um 74% að Rauði krossinn verji meirihluta af fjármunum sínum í alþjóðlegt hjálparstarf. Samt er það svo að yfir 70% af verkefnum Rauða krossins eru unnin innanlands af sjálfboðaliðum félagsins sem eru um 1.700 talsins.

“Með því að verja heilli viku til að kynna innanlandsstarf Rauða krossins vonumst við til að efla hóp þeirra sem vilja gerast sjálfboðaliðar, en ekki síður að þeir sem geta nýtt sér þjónustu okkur viti hvað við höfum í boði,” segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða krossins.

12. okt. 2007 : Eldhugar búa til vináttu- og virðingartré

Eldhugar hittust í gær, eins og aðra fimmtudaga, og hófu vinnu við vináttu- og virðingartré. Eldhugarnir klipptu út laufblöð í marglitum pappír og laufblöðin prýddi svo texti sem þeir höfðu samið sjálfir út frá eigin brjósti. Hugtökin sem þau unnu með voru vinátta, virðing, ábyrgð, fordómar, mismunun, umburðarlyndi og að byggja betra samfélag. Andagiftin sveif svo sannarlega yfir vötnum og voru meðal annars samdir eftirfarandi textar: Góðan vin er erfitt að finna, erfiðara að fara frá og ekki hægt að gleyma; að eiga vin er það besta sem kemur fyrir mann í lífinu og byggjum betra samfélag með því að hjálpa öðrum

11. okt. 2007 : Enter-krakkar í teiknihug

Enter-krakkarnir hittust í gær í sjálfboðamiðstöðinni og var verkefni dagsins að teikna myndir. Fyrst teiknuðu þau myndir af dýrmætum fjölskyldum sínum og síðan af einhverju sem þeim finnst skemmtilegt að gera. Það er greinilegt að fótbolti er vinsæll hjá strákunum í Enter. Meðfylgjandi myndir teiknuðu bræðurnir Rafael og Gabriel frá Portúgal.

5. okt. 2007 : Alþjóðlegir foreldrar hittast

Fyrsta samverustund Alþjóðlegra foreldra fór fram í gær í Mekka, félagsmiðstöð Hjallaskóla. Ellefu foreldrar mættu með ellefu börn sín á aldrinum sex vikna til sex ára. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu um dagskrána og stýrðu henni með söng, leik og gleði.

Eftir formlega setningu og kynningu á verkefninu kynntu þátttakendur sig með nafni og sögðu frá hvaða landi þeir koma.  Á meðal þeirra voru fimm íslenskar mæður, þrjár pólskar, tvær frá Litháen og ein frá Ítalíu. Léttar veitingar voru í boði og leikföng fyrir börnin.

Markmið Kópavogsdeildar með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru innilega velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla.

3. okt. 2007 : Hressir Enter-krakkar brugðu á leik

Skemmtilegir Enter-krakkar lífguðu upp á sjálfboðamiðstöðina í dag með hlátrasköllum og ærslagangi. Markmið dagsins var að fara í skemmtilega leiki og hafa gaman af. Krakkarnir fóru meðal annars í látbragsleik, “ég hugsa mér hlut” og “hver er maðurinn?”. Einnig kom hundurinn Leó í heimsókn og fengu þau að halda á honum og klappa. Leó var hinn prúðasti og virtist alveg hafa jafnmikinn áhuga á krökkunum og þau á honum. En þá var gamanið aldeilis ekki búið því Sigga sjálfboðaliði hafði bakað pönnukökur og komið með handa krökkunum. Sigga þekkir flesta krakkana vel frá því í fyrra og er henni alltaf vel fagnað þegar þau hittast. Kalla þeir hana Siggu ömmu.

2. okt. 2007 : Alþjóðlegir foreldrar hittast í fyrsta skipti í vikunni

Fimmtudaginn 4. október verður verkefninu Alþjóðlegir foreldrar ýtt úr vör og hittust sjálfboðaliðar í dag í sjálfboðamiðstöðinni til að undirbúa þennan fyrsta fund. Kópavogsdeild býður velkomna foreldra allra landa sem eru heima með 0-6 ára börn sín og vilja hitta aðra með lítil börn. Sjálfboðaliðarnir eiga sjálfir börn á þessum aldri og ætla að miðla af þekkingu sinni og reynslu og bjóða upp á stutta íslenskukennslu fyrir foreldrana í hvert sinn sem tengist ungabörnum og lífinu á Íslandi með börn á fyrrgreindum aldri.