30. nóv. 2007 : Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember

Laugardaginn 1. desember kl. 14-16 munu Eldhugar ásamt öðrum ungmennum í Rauða kross starfi selja rauð alnæmismerki í Smáralind sem búin eru til af fólki sem tekur þátt í sjálfshjálparhópi smitaðra á vegum Rauða krossins í Malaví og rennur allur ágóði af sölunni til hópsins.

Fulltrúi frá alþjóðasviði Rauða krossins fræddi Eldhuga fyrr í vetur um alnæmi í sunnanverðri Afríku og starf Rauða krossins á þeim slóðum. Einnig komu læknanemar í heimsókn og voru með fræðslu um kynsjúkdóma og þar á meðal alnæmi.

29. nóv. 2007 : Prjónakaffi

Síðasta prjónakaffi ársins var haldið í sjálfboðmiðstöð Kópavogsdeildar í gær og mættu 27 hressar prjónakonur. Komu þær með afrakstur síðasta mánaðar og nýttu síðan samveruna til þess að prjóna, fá sér kaffi og ræða saman um hin ýmsu mál.

 

28. nóv. 2007 : Eldhugar selja merki til stuðnings alnæmissmituðum

Ungmennahreyfing Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu mun þann 1. desember, frá kl. 14 – 16, selja merki með mynd af alnæmisborðanum í Smáralind.

Merkin eru handgerð úr perlum og eru búin til af fólki sem er smitað af alnæmi og tekur þátt í sjálfshjálparhópum í Malaví. Þetta er mjög fátækt fólk og verður ágóða af merkjasölunni varið til þess að efla starf með alnæmissmituðum í Malaví auk þess sem félagar í sjálfshjálparhópunum fá hluta af ágóðanum til eigin nota.

Í síðustu samveru Eldhuga byrjuðu krakkarnir að perla nælu til eigin nota og fengu þannig góða tilfinningu fyrir vinnunni að baki merkjunum sem á að fara að selja. Nú er talið að tæpar 40 milljónir manna séu smitaðar af alnæmisveirunni og munu fleiri líða vegna alnæmis, t.d. um 4,6 milljónir barna í sunnanverðri Afríku sem orðið hafa munaðarlaus.

26. nóv. 2007 : Vistfólki hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar boðið á Kjarvalsstaði

Sjálfboðaliðar úr hópi heimsóknavina Kópavogsdeildar fylgdu vistfólki hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar á Kjarvalsstaði í síðustu viku en deildin hefur boðið vistfólkinu upp á svipaðar ferðir í nokkur ár, í ferðina að þessu sinni fóru 37 manns.

Á Kjalvarsstöðum voru skoðaðar sýningar Birgis Snæbjörns, Óla Jóhanns Ásmundssonar og Kjarvalssýningin. Eftir skoðun á sýningunum bauð deildin upp á kaffi og meðlæti.

23. nóv. 2007 : Alþjóðlegir foreldrar

Sjöunda samverustund Alþjóðlegra foreldra fór fram í gær í Mekka, félagsmiðstöð Hjallaskóla. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu um dagskrána og stýrðu henni með söng, leik og gleði. Þátttakendur komu með mat frá sínum heimalöndum.

Alþjóðlegir foreldrar hittast í Mekka alla fimmtudaga frá kl.10.30-12.00. Síðasta samveran verður næstkomandi fimmtudag þann 29. nóvember og verður þá föndrað fyrir jólin.

22. nóv. 2007 : Sjálfboðaliða vantar í Dvöl

Kópavogsdeild vantar sjálfboðaliða til að vera í Dvöl á laugardögum frá kl. 13-16. Venjulega eru tveir sjálfboðaliðar á vakt hvern laugardag. Verkefnið býður upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.

Dvöl er athvarf fyrir geðfatlaða og er ætlað að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við að geðsjúkdóma að stríða. Sjálfboðaliðar gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Dvalar með því að taka þátt í starfsemi athvarfsins og veita gestunum félagsskap.

Sjálfboðaliðar í Dvöl þurfa að vera 18 ára eða eldri og sækja grunnnámskeið um hugsjónir Rauða krossins.

Þeir sem hafa áhuga á því að sinna sjálfboðnu starfi í þessu verkefni vinsamlega hafi samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

19. nóv. 2007 : Um 95 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema

Á fatamarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu um helgina söfnuðust um 95 þúsund krónur. Fjöldi manns kom á markaðinn og gerði góð kaup á notuðum dömu-, herra- og barnafatnaði ásamt dóti. Allur ágóðinn rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík. MK-nemarnir höfðu farið í fataflokkunarstöð Rauða krossins og valið föt á markaðinn. Síðan settu þeir hann upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með aðstoð bæði Eldhuganna og Enter-krakkanna.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanganum um sjálfboðið Rauða kross starf. Menntaskólinn í Kópavogi er enn sem komið er eini framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga. Í áfanganum hafa nemendurnir unnið sjálfboðin störf fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins, svo sem starf með ungum innflytjendum í Enter, Eldhugunum og aðstoð við langveik börn í Rjóðrinu.

19. nóv. 2007 : Sjálfboðaliðum boðið að sjá LEG

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu sýninguna LEG um helgina í boði Þjóðleikhússins. Sýningin er eftir Hugleik Dagsson og er söngleikur um ólétta táningsstúlku. Hljómsveitin FLÍS samdi alla tónlistina fyrir verkið og er hún víst einkar litrík og fjölbreytt.

Kópavogsdeild þakkar Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

15. nóv. 2007 : Fatamarkaður í dag!

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi halda fatamarkað í dag, föstudag, kl. 15-19 og á morgun, laugardag, kl. 12-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins að Hamraborg 11. Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn, ásamt alls kyns varningi, á verðinu 300-1500 krónur. Allur ágóði rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

 

15. nóv. 2007 : Undirbúningur fyrir fatamarkaðinn í fullum gangi

Undirbúningur fyrir fatamarkaðinn sem haldinn verður hjá Kópavogsdeild á morgun og laugardaginn gengur vel. Í gær tóku Enter-krakkarnir vel til hendinni og grófflokkuðu fötin sem komin eru í sjálfboðamiðstöðina. Afrísk tónlist var sett í geislaspilarann og skemmtu krakkarnir sér vel við að flokka og kannski ekki síst við að máta föt og skó. Í dag taka svo Eldhugarnir við undirbúningnum ásamt nemendum MK í áfanga um sjálfboðið starf en þeir síðarnefndu sjá um markaðinn.

14. nóv. 2007 : Konur í Sunnuhlíð gáfu teppi í Föt sem framlag

Konur á dvalarheimilinu Sunnuhlíð afhentu nýlega Kópavogsdeild Rauða krossins 58 ungbarnateppi. Teppin eru kærkomin gjöf og renna í verkefni deildarinnar sem kallast Föt sem framlag. Þau eru send erlendis, einkum til Afríku, þar sem börn í neyð njóta góðs af þeim. Við þökkum konunum í Sunnuhlíð kærlega fyrir þessa hlýju gjafir.  

14. nóv. 2007 : Fatamarkaður MK-nema til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi halda fatamarkað föstudaginn 16. nóvember kl. 15-19 og laugardaginn 17. nóvember kl. 12-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins að Hamraborg 11. Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn, ásamt alls kyns varningi, á verðinu 300-1500 krónur. Allur ágóði rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

9. nóv. 2007 : Eldhugar fræðast um alnæmi

Í gær fengu Eldhugarnir fræðslu um alnæmi og alnæmisvandann í heiminum ásamt ungmennum í Rauða kross starfi í Reykjavík sem komu í heimsókn. Tilefnið var undirbúningur fyrir alnæmisdaginn sem er haldinn árlega 1. desember til að vekja athygli á þessari alheimfarsótt. Í ár ætlar Rauði krossinn að vekja athygli á vandanum með ýmsum uppákomum í Smáralind 1. desember og munu Eldhugarnir ásamt öðrum ungmennum í Rauða kross starfi taka þátt í því.

7. nóv. 2007 : Sýnt og sagt frá í Enter

Í dag hjá Enter-krökkunum var sýnt og sagt frá. Krakkarnir voru beðnir um að koma með einhvern hlut að heiman, til dæmis uppáhaldsdót eða eitthvað frá sínu heimalandi, til að sýna hinum og segja þeim frá hlutnum. Komu þeir með alls konar hluti eins og fótbolta, húfu og úr. Sjálfboðaliðarnir komu einnig með hluti og sögðu frá þeim. Þar á meðal var tromma frá Indlandi, svissneski fáninn og steinn frá eldfjalli á Ítalíu. Síðan fóru krakkarnir líka í ýmsa leiki.

6. nóv. 2007 : Heimsóknavinahundar í broddi fylkingar í Laugavegsgöngu

Laugardaginn 3. nóvember stóð Hundaræktarfélag Íslands fyrir árlegri göngu með hunda niður Laugaveginn. Fjölmennt var í göngunni og ýmsar tegundir hunda skörtuðu sínu fegursta. Hundar og eigendur þeirra sem starfa sem sjálfboðaliðar í heimsóknaþjónustu fyrir Rauða kross Íslands voru fremstir í flokki og fóru fyrir göngunni.

2. nóv. 2007 : Eldhugar í sjónvarpsþáttagerð

Eldhugarnir hittust í gær eins og venjan er á fimmtudögum og var verkefni dagsins að hefjast handa við að búa til sjónvarpsþátt í anda Kastljóssins. Eldhugarnir fóru í heimsókn í Sjónvarpshúsið um daginn og fengu kynningu á því sem fer fram þar varðandi fréttir og þáttagerð. Í gær var svo komið að þeim að skapa viðfangsefni og persónur, þáttastjórnendur og viðmælendur, ásamt skemmtiatriði. Leiklistarnemi kom og var Eldhugum innan handar og er ekki annað hægt að segja en að afraksturinn hafi verið stórgóður og skemmtilegur.

1. nóv. 2007 : Skemmtilegt prjónakaffi

Prjónakaffi var haldið í sjálfboðmiðstöð Kópavogsdeildar í gær og mættu 24 hressar prjónakonur. Komu þær með afrakstur síðasta mánaðar og drógu upp úr pokum dýrindis teppi, húfur, sokka og peysur sem þær höfðu prjónað. Tóku þær svo upp prjónana, fengu sér kaffi og ræddu saman um hin ýmsu mál.