19. des. 2007 : Jólaljóð Eldhuga

Krakkarnir í Eldhugum sömdu ljóð á dögunum eins og fram hefur komið á þessari síðu og hér fyrir neðan kemur annað sköpunarverk Eldhuga í tilefni þess að jólin eru á næsta leyti.

Jólin eru bæði fyrir svarta og hvíta
Og þá á enginn að vera að kýta
Þá ríkir ást og friður
Eins og jólanna er siður
Hvíti jólasnjórinn fellur til jarðar
Alla leið frá Kópavogi til Ísafjarðar
Stjarna skær á himni skín
Og allir fara í jólafötin sín
Öllum líður vel
Og dagana til jóla ég tel
Þá borða allir saman
Og hafa mjög gaman
              
               -Eydís Eldhugi

18. des. 2007 : Forstöðumannaskipti í Dvöl

Í lok síðasta mánaðar kvaddi Björk Guðmundsdóttir gesti og starfsfólk Dvalar en Björk hefur gengt stöðu forstöðumanns frá því í byrjun febrúar 2005.  Í hennar stað hefur verið ráðin Ingibjörg Hrönn Ingimarsdóttir.

Starfsemi Dvalar hefur dafnað vel frá opnun og aðsóknin verið góð og hefur Björk átt stóran hlut í velgengni athvarfsins. Gestir eru sammála um að notalegt andrúmsloft og vistlegt umhverfi einkenni athvarfið. Þeir einstaklingar sem sækja athvarfið koma flestir til að rjúfa einangrun og fá stuðning en þetta er mjög breiður hópur á aldrinum 20 til 70 ára. Bæði konur og karlar sækja athvarfið. Athvarfið er opið alla virka daga kl. 9-16 nema á fimmtudögum en þá er opið kl. 10-16 og kl. 13-16 á laugardögum.

13. des. 2007 : Litlu jólin hjá Enter-krökkunum

Í gær var síðasti tíminn hjá Enter-krökkunum í sjálfboðamiðstöðinni fyrir jól. Það voru hin svokölluðu “litlu jól” hjá krökkunum og fengu þau jólasmákökur og hlustuðu á jólatónlist í tilefni dagsins. Föndruðu þau líka ýmislegt, klipptu út stjörnur og hjörtu ásamt því að teikna. Þau fengu einnig hundinn Leó í heimsókn en Leó vekur gjarnan mikla lukku hjá krökkunum þegar hann heimsækir þá. Hann mætti með jólatrefil og fengu krakkarnir að klappa honum og knúsa.

11. des. 2007 : Eldhugar í ljóðagerð

Eldhugarnir hittust í síðasta skipti fyrir jól á fimmtudaginn í síðustu viku og fóru á kaffihús. Fengu þeir kakó og köku og röbbuðu heilmikið saman og kynntust betur. Þeir sömdu einnig nokkur jólaljóð eins og það sem birtist hér fyrir neðan.

Á jólunum er allt skreytt
En skrautið það verður breytt
Á jólunum ríkir ást og friður
Jólatréð er gamall siður
Snjókornin falla út um allt
Gleðin ríkir þúsundfalt
Jesúbarnið fæddist hér
Og því skemmta allir sér
                 
                   -Konný Eldhugi

10. des. 2007 : Nemendur í MK afhenda afrakstur fatamarkaðs

Nemendur frá Menntaskólanum í Kópavogi afhentu á dögunum fulltrúa frá alþjóðasviði Rauða kross Íslands, Gesti Hrólfssyni, 95 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem nemendurnir stóðu fyrir í nóvember. Peningarnir renna í hjálparsjóð Rauða krossins sem er notaður til að efla menntun fátækra ungmenna í Mósambík.

7. des. 2007 : Tombólubörn

Börn í Kópavogi eru dugleg að halda tombólur eins og svo oft áður og hafa 33 börn búsett í Kópavogi haldið tombólur á árinu 2007.

Rúmlega 300 börn um allt land stóðu fyrir tombólum til styrktar starfi Rauða krossins á árinu og söfnuðu alls um 500.000 kr. Framlag tombólubarnanna rennur alltaf til ungmenna- og barnastarfs Rauða krossins víða um heim, og að þessu sinni verða peningarnir notaðir til að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku.

6. des. 2007 : Húsfyllir á fagnaði vegna alþjóðadags sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fylltu sjálfboðamiðstöðina á fagnaði sem haldinn var í gærkvöldi í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga. Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, greindi frá því í stuttu ávarpi að sjálfboðaliðum deildarinnar hefur fjölgað verulega á árinu eins og á undanförnum árum.

Samningsbundnir sjálfboðaliðar voru 175 fyrir réttu ári en þeim hefur síðan fjölgað í 240 eða um 37 af hundraði. Garðar þakkaði sjálfboðaliðum fyrir frábært framlag þeirra á árinu og sagðist vonast til að sjá sem flesta að störfum á nýju ári.

5. des. 2007 : Sjálfboðaliðagleði í kvöld

Í dag, 5. desember er alþjóðadagur sjálfboðaliðans og því verður haldin hátíð í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg 11 fyrir alla sjálfboðaliða deildarinnar. Hátíðin stendur yfir frá kl. 20-22 og verður margt góðra gesta.

Boðið verður upp á ljúffengar veitingar með jólalegu ívafi. Þetta er kjörið tækifæri fyrir sjálfboðaliða deildarinnar til að hittast og skemmta sér saman á aðventunni og taka með sér gesti, svo sem vini, maka, foreldra, systkini og börn. Nýir sjálfboðaliðar velkomnir.