Tilnefning á Skyndihjálparmanni ársins 2008
Veist þú um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum hefur bjargað mannslífi á árinu 2008? Ef svo er - sendu okkur upplýsingar.
Á hverju ári velur Rauði krossinn „Skyndihjálparmann ársins“. Þá er einstaklingi sem hefur á árinu veitt almenna skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn. Tilgangurinn með tilnefningunni er ekki síst að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og áfalla.
Ábendingar um eftirtektarverðan atburð þar sem hinn almenni borgari hefur brugðist við slysi eða veikindum til bjargar mannslífi er hægt að gera á vefnum með því að smella hér eða senda með pósti á Rauða kross Íslands Efstaleiti 9, 103 Reykjavík, merktar „Skyndihjálparmaður ársins“.
Gleðileg jól
Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.
Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar verður lokuð frá og með 22. desember en opnar aftur mánudaginn 5. janúar 2009, kl.10.
Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir verður lokað 24.-28. desember, 31. desember og 1. janúar.
Opið hús í Dvöl á laugardögum
Opið hús er í Dvöl, athvarfi Kópavogsdeildar að Reynihvammi 43, á hverjum laugardegi kl. 11-14 og er boðið uppá léttan hádegisverð fyrir gesti. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar taka vel á móti gestum í Dvöl á laugardögum en athvarfið er annars opið virka daga kl. 9-16. Reksturinn er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar, Kópavogsbæjar og svæðisskrifstofu málefna fatlaðra.
Mun fleiri leituðu neyðaraðstoðar í Kópavogi
Um 40 sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins voru að störfum fyrir jólin vegna matar- og fataúthlutana og í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir. Sjálfboðaliðum við þessi verkefni hefur fjölgað mjög frá síðasta ári enda hafa mun fleiri leitað aðstoðar nú en á undanförnum árum. Þá eru ótaldir þeir sjálfboðaliðar sem sinna heimsóknaþjónustu og fleiri verkefnum á vegum deildarinnar. Um 50 heimsóknavinir fóru í desember á einkaheimili, stofnanir fyrir aldraða, í fangelsið í Kópavogi og víðar til að draga úr félagslegri einangrun.
Hjálpfús í leikskóla Kópavogs
Kópavogsdeildin hefur sent eintak af sjöundu sögustund fræðsluefnisins Hjálpfús heimsækir leikskólann, Tilfinningar, og DVD-disk með Hjálpfúsþáttunum úr Stundinni okkar til allra leikskóla í Kópavogi.
Fræðsluefnið er hugsað sem leið til að ná til barnanna vegna erfiðrar stöðu margra heimila vegna ástandsins í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ekki er talað um efnahagsþrengingar heldur reynt að koma á framfæri hvernig ná má fram jákvæðum tilfinningum.
Heimilisfólk í Sunnuhlíð færir Kópavogsdeildinni prjónavörur að gjöf
Konur á dvalarheimilinu Sunnuhlíð gáfu deildinni veglega gjöf í dag, um 100 prjónuð teppi ásamt peysum, húfum, sokkum og vettlingum. Þær höfðu sinnt þessari handavinnu síðasta árið og gerðu sér dagamun í hádeginu með jólaveitingum þegar prjónavörurnar voru afhentar verkefnastjóra deildarinnar, Dögg Guðmundsdóttur.
Þessar vörur eru kærkomin gjöf og renna í verkefni deildarinnar sem kallast Föt sem framlag. Hluti þeirra verður seldur í Rauða kross búðunum á höfuðborgarsvæðinu og hluti verður sendur erlendis, einkum til Afríku, þar sem börn í neyð njóta góðs af þeim. Við þökkum konunum í Sunnuhlíð kærlega fyrir þessa hlýju gjafir.
Fataúthlutun hjá Rauða krossinum á miðvikudögum
Rauða kross deildirnar á höfuðborgarsvæðinu standa að úthlutun á notuðum fatnaði alla miðvikudaga kl. 10-14. Sjálfboðaliðar Rauða krossins annast úthlutunina. Úthlutun fer fram að Laugavegi 116, gengið inn af bílastæði Grettisgötumegin. Verslanir Rauða krossins eru að Laugavegi 12 og Laugavegi 116 Reykjavík og Strandgötu 24 Hafnarfirði. Í verslununum er unnt að fá góðan fatnað á mjög sanngjörnu verði.
Þrjár Rauða kross búðir á höfuðborgarsvæðinu
Rauði krossinn rekur þrjár búðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að kaupa ódýr, notuð föt. Tvær eru á Laugaveginum í Reykjavík og ein við Strandgötu í Hafnarfirði. Rauði krossinn er með sérstaka gáma á Sorpu-stöðvunum þar sem fólk getur skilið eftir föt sem það notar ekki lengur. Fötin fara svo í Fatasöfnunarstöð Rauða krossins þar sem þau eru flokkuð fyrir búðirnar. Hægt er að gera góð kaup á fötum fyrir karla, konur, unglinga og börn.
MK-nemar fá viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf
Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru ellefu í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir tóku einnig þátt í landssöfnun Rauða krossins í október, Göngum til góðs, héldu dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að halda handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni.
Tombólukrökkum boðið í bíó í tilefni af degi sjálfboðaliðans
Sjálfboðaliðar Rauða krossins eru á öllum aldri, þau yngstu hafa í gegnum tíðina verið iðin við að halda tombólur og nýtur Rauði kross Íslands góðs af þeirri vinnu. Um 450 börn um allt land stóðu á árinu fyrir alls konar söfnunum til að styrkja starf Rauða krossins. Á árinu söfnuðust 600.000 krónur.
Það var spenna í loftinu í Laugarásbíói á laugardaginn þegar tombólukrakkar Rauða krossins mættu til að horfa á myndina Lukkuláka. Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar stóð fyrir bíósýningunni en eins og undanfarin ár gaf Laugarásbíó sýninguna.
Jólagjafir stórfjölskyldunnar fara til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs í ár
„Eftir að ég las um fjölgun fólks sem þarf á mataraðstoð að halda fyrir jólin, í kjölfar kreppunnar, ákvað ég í ár að gefa peningana, sem ella hefðu farið í jólagjafir til stjórfjölskyldunnar, vina og barna þeirra, til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs“ segir Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeild Rauða krossins.
Stórfjölskyldan og vinirnir tóku fréttum af pakkaleysinu um jólin mjög vel og þótti þetta góð og gegn hugmynd. Móðursystir Ingunnar Ástu var svo ánægð með hugmyndina að hún ákvað að bæta við upphæðina í nafni barna sinna, og því fær Mæðrastyrksnefnd Kópavogs afhent í dag 35.000 krónur til innkaupa á mat og öðrum nauðsynjum fyrir fjölskyldur sem þangað sækja nú fyrir jólin. Þá er gaman að segja frá því að amma Ingunnar Ástu fékk kvennfélagið þar sem hún býr til að gefa Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur andvirði jólagjafa til félagskvenna í ár.
Sjálfboðaliðagleði í sjálfboðamiðstöðinni
Í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans 5. desember hélt deildin sjálfboðaliðagleði í sjálfboðamiðstöðinni á föstudaginn síðastliðinn. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga.
Að venju var boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttamaður og rithöfundur, las úr bók sinni, Magnea og Katrín Baldursdóttir las nokkur ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni, Þak hamingjunnar. Þá léku nemendur úr Tónlistarskóla Kópavogs fyrir gestina. Svo var happdrætti og voru fjórir heppnir sjálfboðaliðar leystir út með gjöfum. Sjálfboðaliðar deildarinnar slógu sjálfir botninn í dagskrána með fjöldasöng. Sjálfboðaliðar sem stjórna söngstundum í Sunnuhlíð leiddu fjöldasönginn og voru sungin jólalög í bland við önnur gömul og góð íslensk lög.
Til hamingju með daginn!
Í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans í dag, 5. desember, færir Kópavogsdeild Rauða krossins þeim fjölmörgu sem unnið hafa sjálfboðið starf á vegum deildarinnar innilegar þakkir fyrir ómetanlegt framlag á árinu.
Kópavogsdeild hefur starfað með Kópavogsbúum í blíðu og stríðu í hálfa öld en þátttaka sjálfboðaliða í starfinu hefur líklega aldrei verið meiri en nú. Nú er óhætt að segja að mjög reyni á hlutverk Rauða krossins í íslensku samfélagi. Deildin hefur þegar ráðist í margvíslegar aðgerðir til þess að aðstoða fólk í gegnum yfirstandandi þrengingar. Allt þetta starf er borið uppi af sjálfboðaliðum.
Námskeið í sálrænum stuðningi 8. desember – án endurgjalds
Kópavogsdeildin heldur námskeið í sálrænum stuðningi í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11, 2 hæð, mánudaginn 8. desember kl. 17-21.
Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.
Sjálfboðaliðar í leikhús
Hópur sjálfboðaliða fór á leiksýninguna Vestrið eina í boði Borgarleikhússins um helgina. Höfundur þessa alvöru gamanverks um tvo bræður er Martin McDonagh en Ingunn Ásdísardóttir þýddi það yfir á íslensku og leikstjórn er í höndum Jóns Páls Eyjólfssonar. Kópavogsdeild þakkar Borgarleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.
Barnalán hjá Alþjóðlegum foreldrum
Eins og meðfylgjandi mynd sýnir ríkir mikið barnalán hjá þátttakendunum í verkefninu Alþjóðlegum foreldrum. Verkefnið gengur vel og hittist góður hópur mæðra með börnin sín á fimmtudagsmorgnum í sjálfboðamiðstöðinni. Mæðurnar koma hingað til að hitta aðrar mæður og spjalla yfir kaffibolla. Reglulega er einnig boðið upp á stutta íslenskukennslu og kynningar. Tilgangurinn með þessum samverum er að rjúfa félagslega einangrun foreldra með lítil börn. Þátttakendurnir koma frá ýmsum löndum eins og Ástralíu, Póllandi, Noregi, Frakklandi, Rússlandi, Spáni, Lettlandi, Eistlandi, Mexíkó og Moldova. Samverurnar eru opnar foreldrum allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára og vilja hitta aðra með lítil börn.
Prjónahópurinn fjölmennir í prjónakaffi
Í gær var haldið síðasta prjónakaffi deildarinnar fyrir jól og mættu yfir þrjátíu hressar prjónakonur. Þær komu með prjónavörur sem þær hafa unnið að síðasta mánuðinn og fengu meira garn til að halda áfram að prjóna. Svo voru veitingar í boði sem þær gæddu sér á yfir prjónum og spjalli. Framlag þessara sjálfboðliða er sent til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví og Gambíu en einnig í Rauða kross búðirnar hér á landi þar sem alltaf er mikil eftirspurn eftir til dæmis handprjónuðum vettlingum og sokkum.
Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd veita neyðaraðstoð í Kópavogi
Kópavogsdeild Rauða krossins og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs hafa gert samkomulag um neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur í Kópavogi fyrir jólin. Kópavogsdeild Rauða krossins hefur stóraukið framlag sitt vegna aðstoðarinnar miðað við fyrri ár enda er búist við að fleiri leiti aðstoðar nú.
Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd hvetja fyrirtæki og stofnanir til að styrkja hjálparstarfið fyrir jólin með vörum eða fjárframlögum. Rauði krossinn þarf á talsverðum fjölda sjálfboðaliða að halda vegna verkefnisins og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.
Jólaföndur og jólabakstur í fangelsinu í Kópavogi
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sáu um jólaföndur í fangelsinu síðustu tvo laugardaga fyrir þá sem sitja af sér dóm þar. Beiðni barst frá fangelsinu um aðstoð sjálfboðaliðanna til að auka afþreyingu fyrir fólkið sem situr þar inni og koma af stað dálitlum jólaundirbúningi. Fyrstu laugardagana í desember munu sjálfboðaliðar svo sjá um að leiðbeina fólkinu í jólabakstri.
Nemendur í Hjallaskóla fá fræðslu um starf Kópavogsdeildar
Um fimmtíu nemendur unglingadeildar Hjallaskóla komu í sjálfboðamiðstöðina fyrir helgi og fengu fræðslu um starf deildarinnar. Fræðslan var hluti af þemadögum í skólanum sem stóð yfir í síðustu viku og var þemað mannúð.
Í sjálfboðamiðstöðinni fengu nemendurnir fræðslu um heimsóknaþjónustuna, fataverkefnið, verkefni tengd innflytjendum, vinadeildasamstarfið og að sjálfsögðu Eldhugana en það er starf sem þessum nemendum stendur einmitt til boða að taka þátt í. Þeir sáu myndband úr starfinu frá því í fyrra og myndir úr starfi síðustu mánaða. Eldhugarnir hittast á fimmtudögum kl. hálfsex og er opið fyrir alla 13-16 ára Kópavogsbúa.
Sparifatasöfnun Rauða krossins laugardaginn 22. nóvember
Rauði krossinn leitar eftir aðstoð almennings til að gefa vel með farinn sparifatnað fyrir börn og fullorðna í sérstakri sparifatasöfnun laugardaginn 22. nóvember milli kl. 11:00-15:00. Með því að gefa í söfnun Rauða krossins er hægt að veita fjölskyldum og einstaklingum tækifæri til að eignast spariföt fyrir jólin í fataúthlutun félagsins eða fá þau á hagstæðu verði í verslunum Rauða krossins.
Rauði krossinn hvetur alla til að kíkja í skápana og finna föt sem ekki eru lengur í notkun en gætu öðlast nýtt líf hjá nýjum eiganda. Tekið verður á móti sparifatnaðinum á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu og víðsvegar úti á landi.
Nú reynir á
Rauði krossinn hefur þann tilgang að koma fólki til hjálpar þegar á reynir. Það hefur hann gert í stóru og smáu, hér heima og erlendis, og nú er óhætt að segja að mjög reyni á hlutverk félagsins í íslensku samfélagi. Rauði krossinn hefur þegar ráðist í aðgerðir til þess að aðstoða fólk í gegnum yfirstandandi þrengingar og mun beita kröftum sínum í náinni framtíð til þess að lina þjáningar þeirra sem eiga um sárt að binda vegna efnhagsástandsins.
Siðareglur fyrir sjálfboðaliða og starfsmenn Rauða krossins
Stjórn Rauða kross Íslands samþykkti nýverið siðareglur fyrir alla sjálfboðaliða og starfsmenn Rauða kross Íslands og deilda. Reglurnar eru í níu liðum og fjalla meðal annars um samskipti fólks, trúnað við skjólstæðinga, öflun fjármuna og hagsmunaárekstra. Siðareglurnar eru settar í samræmi við ákvæði í stefnu félagsins.
Fjöldi fólks fær fræðslu um sálrænan stuðning
Fjöldi fólks hefur að undanförnu sótt námskeið Kópavogsdeildar um sálrænan stuðning en námskeiðin hafa verið haldin án endurgjalds. Síðasta námskeiðið að sinni verður haldið mánudaginn 8. desember næstkomandi og er enn unnt að skrá sig til þátttöku. Námskeiðin eru liður í aðgerðum Kópavogsdeildar vegna efnahagskreppunnar.
600 þúsund krónur söfnuðust á handverksmarkaði MK-nema í dag
Á handverksmarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu í dag söfnuðust um 600 þúsund krónur. Afraksturinn rennur óskiptur til að styrkja ungmenni í Maputo-héraði í Mósambík en Kópavogsdeildin er í vinadeildasamstarfi með Rauða krossinum í Maputo-héraði.
Handverksmarkaðurinn í dag fer vel af stað!
Mikil aðsókn hefur verið á handverksmarkað deildarinnar sem hófst kl. 10 í morgun. Margir áhugasamir hafa komið og gert góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá hefur verið sérstaklega mikill áhugi á handverki frá Mósambík en til sölu eru batik-myndir, armbönd, hálsmen, box í ýmsum stærðum og gerðum ásamt töskum. Þögult uppboð er í gangi á sérlega veglegum hlutum frá Mósambík.
Ungir og aldnir vinna saman að því að safna fyrir Rauðakrossdeildina í Maputo
Kópavogsdeild Rauða krossins stendur fyrir handverksmarkaði til styrktar Rauðakrossdeild í Mósambík. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 14.11.2008.
Handverksmarkaður Rauða krossins 15. nóvember
Hér er tækifæri til að verða sér úti um fallegt handverk, setja það jafnvel í jólapakkana og styrkja um leið gott málefni!
Kópavogsdeild Rauða krossins heldur handverksmarkað laugardaginn 15. nóvember kl. 10-18 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma fleiri sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum.
Ókeypis fjármálanámskeið haldin hjá Kópavogsdeild
Tekist hefur samstarf með Kópavogsdeild, Kópavogsbæ og Neytendasamtökunum um að bjóða bæjarbúum uppá fjármálanámskeið án endurgjalds. Námskeiðin verða tvö fyrst um sinn, það fyrra 24. nóvember og það síðara 1. desember. Að sögn Garðars H. Guðjónssonar, formanns Kópavogsdeildar, verður metið í framhaldinu hvort ástæða sé til að bjóða fleiri námskeið.
Opnar samverur og aðstoð
Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er opin alla virka daga frá kl. 10-16 og er fólk ávallt velkomið að kíkja í heimsókn í kaffi og spjall. Deildin býður einnig upp á opnar samverur fyrir ýmsa hópa samfélagsins. Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 sem hittast í sjálfboðamiðstöðinn á fimmtudögum kl. 17.30-19.00, hópur kvenna á öllum aldri hittist síðasta miðvikudag hvers mánðar kl. 16-18 í svokölluðu prjónakaffi þar sem þær sinna handavinnu og svo hittist hópur mæðra frá ýmsum löndum með lítil börn sín á fimmtudögum kl. 10-11.30. Þátttaka í þessum samverum er ókeypis og opin öllum.
Ráðgjöf og hlustun hjá Hjálparsíma Rauða krossins 1717
Hjálparsími Rauða krossins 1717 er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna kvíða, þunglyndis, depurðar, efnahagsáhyggja eða jafnvel sjálfsvígshugsana. Hjálparsíminn 1717 gegnir því hlutverki að veita ráðgjöf til fólks á öllum aldri sem óskar eftir stuðningi.
Símhringingar í Hjálparsímann hafa aukist jafnt og þétt, og hefur aukningin verið mest á þessu ári. Um 19.000 símtöl hafa borist Hjálparsímanum það sem af er árs, eða um 60 símtöl á dag. Langflest símtölin snúast um sálræn vandamál. Síðustu vikur hefur orðið töluverð aukning í símhringingum í tengslum við fjárhagsáhyggjur og vanlíðan vegna þeirra umbrota sem nú eiga sér stað í þjóðfélaginu.
Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar megi leita frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning. Meðal hlutverka Hjálparsímans er einnig að vera til staðar fyrir þá sem eru einmana og einangraðir og þurfa upplýsingar um samfélagsleg úrræði.
Ungbarnanudd hjá Alþjóðlegum foreldrum
Alþjóðlegir foreldrar hittast vikulega í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og eiga skemmtilega stund saman með börnunum sínum. Reglulega er boðið upp á ýmiss konar fræðslu eða viðburði sem tengist annaðhvort ungabörnum eða innflytjendum á Íslandi. Alþjóðlegir foreldrar hafa til dæmis fengið fræðslu um starfsemi og þjónustu Alþjóðahúss, fengið kynningu á dagvistunarmálum og farið í Hreyfiland. Á dögunum tók svo einn þátttakandinn sig til og kenndi ungbarnanudd sem hún sjálf hafði lært nýlega. Foreldrarnir mynduðu hring á gólfinu eins og myndin sýnir og lærðu helstu handtökin við nuddið. Þetta vakti mikla gleði bæði hjá foreldrunum og börnunum og verður því eflaust endurtekið áður en langt um líður.
Eldhugar búa til brjóstsykur
Eldhugar Kópavogsdeildar hittust á fimmtudaginn í síðustu viku eins og venja er á fimmtudögum og í þetta skiptið var alveg nýtt verkefni lagt fyrir hópinn, brjóstsykursgerð. Vatni, sykri og þrúgusykri var skellt í pott og soðið, síðan var bragefnunum blandað út í og þegar efniviðurinn hafði kólnað aðeins voru brjóstsykursmolar klipptir út, mótaðir í alls konar myndir og settir á sleikjóprik, allt undir góðri handleiðslu eldri sjálfboðaliða. Í þetta skiptið bjuggu Eldhugarnir til jarðarberja- og perubrjóstsykur. Á morgun heldur brjóstsykursgerðin áfram og ætla Eldhugarnir þá að prófa lakkrísbragð og kólabragð.
Afraksturinn verður síðan seldur á handverksmarkaði sem deildin mun standa fyrir 15. nóvember næstkomandi. Markaðurinn verður auglýstur nánar síðan en á honum munu finnast prjónaflíkur og annað handverk frá sjálfboðaliðum deildarinnar en einnig handverk alla leiðina frá Mósambík þar sem deildin er í vinadeildasamstarfi með Rauða kross deild í Maputo-héraði í Mósambík.
Heimsóknavinur Kópavogsdeildar fer á slóðir Alþjóða Rauða krossins í Genf
Bragi Óskarsson er heimsóknavinur sem sinnir heimsóknum á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð. Þar stendur hann fyrir vikulegum söngstundum fyrir heimilisfólkið með fleiri heimsóknavinum. Bragi byrjaði sem sjálfboðaliði hjá deildinni fyrir rúmum tveimur árum síðan þegar hann hætti að vinna og fór á eftirlaun. Hann hafði séð auglýsingu um starf deildarinnar og kom í sjálfboðamiðstöðina til að fá frekari upplýsingar. Hann byrjaði svo fljótlega í Sunnuhlíð, fyrst við upplestur í afleysingum en síðan í sönghópnum.
Bragi hefur einnig farið í ferðir með heimilisfólkinu í Sunnuhlíð og verið því innan handar en Kópavogsdeildin stendur reglulega fyrir ferðum á söfn og í messur. Bragi fór einnig í allmerkilega ferð í september en þá fór hann til Genf á vegum Rauða krossins í árlega sjálfboðaliðaferð þar sem sjálfboðaliðarnir fá kynningu á starfsemi Alþjóða Rauða krossins. Hann var dreginn úr potti sjálfboðaliða hjá Kópavogsdeild og fór utan með konu sinni. Alls voru tæplega fjörutíu manns í ferðinni frá fleiri deildum Rauða krossins og varði hópurinn fjórum dögum í Genf.
Fataúthlutun hafin á ný
Fatasöfnun Rauða krossins hóf fataúthlutun á ný í dag kl. 10 í nýju húsnæði félagsins að Laugavegi 116, í Reykjavík, eftir stutt hlé meðan á flutningi Fataflokkunarstöðvar Rauða krossins stóð. Fólk sem á þarf að halda getur leitað í úthlutunina á Laugavegi, á miðvikudögum milli kl. 10 og 16 , og fengið föt án endurgjalds.
Ráðgert er að úthluta að minnsta kosti vikulega og getur hver einstaklingur fengið um 4-5 kg af fötum í hvert sinn. Hér er um að ræða samstarfsverkefni deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.
Um 2.300 manns fengu úthlutað fötum í fyrra og á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefur um 1.200 manns fengið föt hjá söfnuninni.
Svæðisfundur á höfuðborgarsvæði
Svæðisfundur Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu var haldinn í húsnæði Garðabæjardeildar í gær. Fulltrúar allra deilda á svæðinu sátu fundinn.
Að loknum hefðbundnum svæðisfundarstörfum (skýrslu formanns, kjöri á svæðisráði næsta árs og umræðum um fjárhags- og framkvæmdaáætlun) kynnti Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins nýsamþykktar siðareglur félagsins.
Hjálparsíminn 1717 er alltaf opinn!
Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.
Nýr samstarfssamningur undirritaður um rekstur Dvalar
Í gær var haldið upp á 10 ára afmæli Dvalar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir í Kópavogi. Yfir 100 manns tóku þátt í því að fagna þessum merka áfanga í safnaðarheimili Digraneskirkju. Þar voru mættir fulltrúar frá Félags- og tryggingamálaráðuneytinu ásamt landsskrifstofu Rauða kross Íslands, starfsfólk og gestir annarra athvarfa á höfuðborgarsvæðinu og að sjálfsögðu starfsfólk, gestir og sjálfboðaliðar Dvalar.
Einnig voru viðstaddir fulltrúar frá rekstraraðilum athvarfins, þ.e. Kópavogsdeildinni, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi og Kópavogsbæ. Tækifærið var notað til að skrifa undir nýjan samstarfssamning þessara þriggja aðila um rekstur Dvalar. Samningurinn er til þriggja ára og tryggir áframhaldandi starfsemi athvarfsins.
Athvarfið Dvöl í Kópavogi 10 ára
Í dag verður haldið upp á tíu ára afmæli Dvalar sem er í Reynihvammi 43. Athvarfið er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins, Kópavogsbæjar og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi.
„Athvarfið hefur í tímans rás sannað gildi sitt og rofið einangrun fjölda fólks sem glímir við geðraskanir," segir Þórður Ingþórsson forstöðumaður Dvalar. Þórður segir að frá upphafi hafi verið lögð áhersla á að efla sjálfstæði og virkni gesta og er fólk aðstoðað við að leita nýrra leiða í leik og starfi óski viðkomandi þess. Margir sækja staðinn eftir að hafa dvalist á geðdeild en allir komi til að njóta samveru.
Nær 200 gengu til góðs í Kópavogi
Um 200 sjálfboðaliðar á öllum aldri gengu til góðs í Kópavogi á laugardaginn en það er mun meiri þátttaka en víða annars staðar. Alls söfnuðust 1.688.000 krónur í baukana í Kópavogi og er það jafnframt mun betri árangur en náðist í mörgum nágrannasveitarfélaganna sé miðað við íbúafjölda. Kópavogsdeild kann öllum sem tóku þátt í Göngum til góðs í Kópavogi bestu þakkir fyrir framlagið.
Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vorum við undir það búin að þátttaka yrði dræmari en fyrir tveimur árum þegar 350 manns gengu með okkur til góðs hér í bænum. Þetta gekk eftir en við getum þó verið stolt af framlagi Kópavogsbúa, hvort sem litið er til fjölda sjálfboðaliða eða til upphæðarinnar sem safnaðist. Sjálfboðaliðum okkar var nánast undantekningarlaust vel tekið, segir Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og söfnunarstjóri í Kópavogi. Hann vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til starfsfólks og þeirra sem mönnuðu söfnunarstöðvarnar og stóðu sína vakt frá því snemma að morgni og fram eftir deginum.
Færri Gengu til góðs en fengu frábærar móttökur
Um 1000 sjálfboðaliðar Gengu til góðs í gær með Rauða krossinum til styrktar verkefnis um sameiningu fjölskyldna í Kongó sem sundrast hafa vegna stríðsátaka. Reynslan hefur sýnt að það þarf að minnsta kosti um 2000 manns til að ganga í öll hús á landinu, og því er ljóst að einungis tókst að ná til um 50% landsmanna í söfnuninni í gær. Rauði krossinn er mjög þakklátur þeim sem gáfu af tíma sínum í gær og Gengu til góðs, og vill einnig þakka þeim sem tóku á móti sjálfboðaliðunum og gáfu í söfnunina.
Rauði krossinn hvetur þá sem ekki gafst tækifæri til að gefa í söfnunina í gær að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 903 1010, 903 3030 og 903 5050. Þá dragast frá kr. 1000 kr., kr. 3000 kr. eða kr. 5000 frá næsta símreikningi. Símarnir verða opnir út þessa viku.
Bestu þakkir!
Kópavogsdeild þakkar öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið í göngum til góðs. Þá þökkum við bæjarbúum fyrir góðar móttökur, framlag ykkar skiptir miklu máli.
Kynningarfundur um starfsemi Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11, 2 hæð, miðvikudaginn 8. október kl.18.
Áhugasamir eru eindregið hvattir til að mæta og kynna sér verkefni deildarinnar.
Frekari upplýsingar um fundinn fást í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is
Mætum öll og göngum til góðs með Rauða krossinum á laugardag
Rauði krossinn skorar á fólk að gerast sjálfboðaliði í klukkustund laugardaginn 4. október og Ganga til góðs fyrir landssöfnun Rauða krossins. Söfnunarféð rennur óskert í verkefni til að sameina fjölskyldur í Kongó sem hafa sundrast vegna stríðsátaka.
Alls hafa nú á fjórða hundrað skráð sig til þátttöku í Göngum til góð en Rauða krossinn vantar 2500 sjálfboðaliða til að ná til allra heimila á landinu. Einkum vantar sjálfboðaliða í Reykjavík. Á höfuðborgarsvæðinu eru 24 söfnunarstöðvar í öllum hverfum borgarinnar og í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og á Álftanesi og Seltjarnarnesi. Fólk sem vill Ganga til góðs með Rauða krossinum fyrir gott málefni er hvatt til að skrá sig á www.raudikrossinn.is eða í síma 570 4000.
Rauði krossinn náðu að virkja 2500 sjálfboðaliða síðast þegar var Gengið til góðs árið 2006 og nú vill Rauði krossinn endurtaka þann frábæra árangur.
MK-nemar ganga til góðs
Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi ætla að ganga til góðs á laugardaginn 4. október og leggja þannig sitt af mörkum í landssöfnun Rauða krossins sem fer fram þann dag. Nemendurnir eru að hluta til þátttakendur í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf (SJÁ 102) sem hefur nú verið kenndur við skólann í nokkrar annir í samstarfi við Kópavogsdeildina. Þátttaka í landssöfnuninni Göngum til góðs er eitt af verkefnum nemendanna í áfanganum en þeirra meginverkefni er að sinna sjálfboðnum störfum fyrir deildina eins og í ungmennastarfi eða með heimsóknum til langveikra barna í Rjóðrinu. Lokaverkefni nemendanna verður að sjá um markað í sjálfboðamiðstöð deildarinnar laugardaginn 15. nóvember.
Duglegur prjónahópur
Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hittust tvisvar sinnum í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í vikunni. Fyrst var tilefnið fatapökkun þar sem afrakstri prjónaskaps síðustu mánaða var pakkað í þar til gerða fatapakka. Pakkarnir urðu alls 212 að þessu sinni og verða þeir sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Afríkuríkinu Gambíu. Í pakkana fara prjónaðar peysur, teppi, húfur og sokkar ásamt taubleyjum, samfellum og fleiru. Seinna tilefnið var hið mánaðarlega prjónakaffi þar sem sjálfboðaliðarnir hittast, fá meira garn og eiga ánægjulega stund saman. Þá komu þeir einnig með fleiri prjónavörur sem fara í fatapakka í næstu pökkun.
Sjálfboðaliðar óskast til að Ganga til góðs laugardaginn 4. október
Rauði krossinn þarf að minnsta kosti 2,500 sjálfboðaliða til að Ganga til góðs laugardaginn 4. október svo að hægt sé að ná til allra heimila á landinu.
Við hvetjum fólk til að sameinast í hressandi göngu og stuðningi við gott málefni. Aðeins er gert er ráð fyrir að hver gangi í um 1-2 klukkustundir, eða eins lengi og hver og einn óskar.
Söfnunarféð rennur óskert til verkefnis Rauða krossins um sameiningu fjölskyldna í Kongó. Það er því sérlega vel til þess fallið að Íslendingar noti tækifærið til að sameinast um að ganga til góðsog leggja sitt að mörkum til að sameina fjölskyldur á átakasvæðum.
Heimilisfólkið í Sunnuhlíð skoðar Þjóðmenningarhús
Kópavogsdeildin stóð á dögunum fyrir ferð í Þjóðmenningarhúsið fyrir heimilisfólkið í Sunnuhlíð. Rúmlega fjörutíu manns fóru í ferðina en auk íbúanna í Sunnuhlíð voru starfsmenn hjúkrunarheimilisins með í för sem og aðstandendur og sjálfboðaliðar frá deildinni. Þeir voru fólkinu innan handar í ferðinni og aðstoðuðu þá þar sem þurfti. Sú hefð hefur skapast hjá deildinni að bjóða reglulega upp á slíkar ferðir fyrir heimilisfólkið og er þá oftar en ekki farið á söfn og svo fengið sér kaffi og með því á eftir.
Tvær vinkonur styrkja Rauða krossinn
Vinkonurnar Karen Helga Sigurgeirsdóttir og Helga Mikaelsdóttir héldu tombólu í sumar og söfnuðu alls 9.564 kr. til styrktar Rauða krossinum. Þær komu með afraksturinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar á dögunum. Þær höfðu fengið gefins dót til að selja og sögðu að það hefði verið mjög gaman að halda tombóluna. Stelpurnar eru báðar 10 ára og eru í 5. bekk, Karen í Snælandsskóla og Helga í Digranesskóla.
Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi hjá Rauða krossinum...
...eru hvatningarorð Reynis Guðsteinssonar til allra á eftirlaunaaldri sem vilja láta gott af sér leiða en Reynir lét nýlega af stjórnarstörfum hjá Kópavogsdeild. Reynir kom inn í stjórn deildarinnar á aðalfundi hennar árið 2000. Hann segist alla tíð hafa verið félagslega sinnaður og hafi komið mikið að félagsmálum gegnum tíðina. Hann taldi að hann gæti hugsanlega gert gagn hjá Rauða krossinum og sló því til þegar honum bauðst sæti í stjórninni. Í fyrstu ætlaði hann bara að sitja eitt ár til reynslu en þau urðu svo á endanum átta. Hann sér ekki eftir því.
Auk stjórnarsetu, þar sem Reynir hefur hin síðustu ár verið bæði varaformaður og ritari, sat hann í stjórn Fjölsmiðjunnar og var varamaður í svæðisráði höfuðborgarsvæðisins. Hann spilaði einnig og söng ásamt öðrum í nokkurn tíma fyrir heimilisfólkið í Roðasölum en það er sambýli í Kópavogi fyrir heilabilaða. Núna er Reynir í vinnuhópi hjá Rauða krossinum sem hefur málefni geðfatlaðra á sinni könnu.
Heimsóknavinir hittast á samveru
Sjálfboðaliðar sem sinna heimsóknaþjónstu hjá deildinni hittust á samveru í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Samverurnar eru haldnar annan þriðjudaginn í hverjum mánuði yfir vetrarmánuðina og þá hittast heimsóknavinir sem sinna sjálfboðnum störfum í Sunnuhlíð, á sambýlum aldraðra, í Dvöl og á einkaheimilum. Markmiðið með samverunun er að heimsóknavinirnir hittist, læri af reynslu hvers annars og eigi ánægjulega stund saman. Reglulega er boðið upp á ýmsa fræðslu, hópefli eða heimsóknir.
Yngstu sjálfboðaliðarnir láta ekki sitt eftir liggja
Guðný Erla Snorradóttir og Kristín Anna Ólafsdóttir héldu tombólu á dögunum og færðu Rauða krossinum afraksturinn. Þær gengu í hús og söfnuðu dóti á tombóluna sem þær seldu svo. Alls seldu þær fyrir 8.108 kr. og rennur framlag þeirra í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.
Tombóla, tombóla!
Vinkonurnar Petra Sylvie og Kara Sól komu færandi hendi í sjálfboðamiðstöðina á dögunum. Þær höfðu tekið til í dótakössunum heima hjá sér í sumar og haldið tombólu fyrir utan Sundlaug Kópavogs. Þær söfnuðu alls 4.010 kr. Í sjálfboðamiðstöðinni var tekin af þeim meðfylgjandi mynd og fengu stelpurnar að velja sér dálítinn glaðning frá Rauða krossinum.
Prjónahópurinn hittist aftur eftir sumarfrí
Fyrsta prjónakaffi vetrarins var haldið í sjálfboðamiðstöðinni í síðustu viku. Þrjátíu hressar konur mættu og tóku með sér handavinnu sem þær höfðu unnið að yfir sumarmánuðina. Þær komu með handprjónuð teppi, peysur, húfur, bleyjubuxur og sokka sem verður síðar pakkað í þar til gerða ungbarnapakka. Pakkarnir verða síðan sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Afríku.
Systkini styrkja Rauða krossinn
Systkinin Magdalena Ósk, Viktoría Rós, Alexander Már og Gabríel Sær Bjarnþórsbörn komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með afrakstur af tombólu sem þau héldu á dögunum. Alls söfnuðu þau 8.605 kr. til styrktar Rauða krossinum. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.
Kópavogsdeild auglýsir eftir sjálfboðaliðum í ýmis verkefni
Undirbúningur fyrir hauststarf deildarinnar er í fullum gangi og vantar sjálfboðaliða til að sinna ýmsum verkefnum á næstu mánuðum. Verkefnin eru fjölbreytt og og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það er undir sjálfboðaliðum komið hversu mikið af tíma sínum þeir gefa í verkefni, hvort sem það er í hverri viku, aðra hvora viku eða sjaldnar. Verkefnin bjóða upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.
Verkefnin eru:
Skráning hafin á námskeið í skyndihjálp
Námskeið í almennri skyndihjálp verður haldið hjá Kópavogsdeild þriðjudaginn 7. október kl. 18-22. Námskeiðsgjald er 4.500 kr. og er skírteini sem staðfestir þátttöku innifalið. Á námskeiðinu læra þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.
Þrír vinir héldu tombólu til styrktar Rauða krossinum
Þrír hressir vinir frá Kársnesinu héltu tombólu á dögunum á Borgarholtsbrautinni til styrktar Rauða krossinum og söfnuðu alls 2.106 kr. Þeir Garðar Snær, Svavar Bjarki og Andri Snær seldu hluti sem þeir voru hættir að nota ásamt föndri sem þeir höfðu búið til. Þeir komu færandi hendi í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og fengu í staðinn dálítinn glaðning frá Rauða krossinum og horfðu svo á myndband þar sem upphaf, saga og starfsemi Rauða krossins er kynnt. Strákarnir eru allir að fara í 2. bekk í Kársnesskóla.
Sjálfboðamiðstöðin opnar aftur eftir sumarfrí
Kópavogsdeild afhendir Héraðsskjalasafni Kópavogs gömul gögn
Öflugt starf á liðnum vetri
Kópavogsdeild hefur haldið úti öflugu sjálfboðaliðastarfi á liðnum vetri. Sífellt bætist í hóp sjálfboðaliða sem sinna ýmsum verkefnum á vegum deildarinnar. Í vetur hefur fjöldi sjálfboðaliða sinnt heimsóknaþjónustu á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, í Sunnuhlíð, Rjóðrinu og Dvöl. Heimsóknavinirnir hitta gestgjafa sína reglulega og fara út að ganga með þeim, spjalla saman, fara á kaffihús, syngja og lesa svo eitthvað sé nefnt.
Sjálfboðaliðar vinna einnig með ungmennum, bæði íslenskum og erlendum, og stjórna vikulegum samverum þeirra þar sem ungmennin eru virkjuð á fjölbreyttan máta eins og með dansi, leiklist, föndri, söng og ýmiss konar fræðslu.
Alþjóðadagur flóttamanna í dag
Um 40 milljónir manna um allan heim hafa hrakist frá heimkynnum sínum vegna átaka, ofbeldis eða annarra orsaka. Af þeim eru tæplega 12 milljónir flóttamenn í öðru landi, en um 26 milljónir eru á vergangi innan eigin landamæra. Föstudaginn 20. júní, á Alþjóðadegi flóttamanna, er vakin sérstök athygli á aðstæðum þessa fólks um gjörvallan heim.
Í dómsmálaráðuneytinu verður Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra afhent kl. 13:45 fyrsta eintakið af Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna í íslenskri þýðingu. Handbókin er gefin út af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rauða krossinum með styrk frá dómsmálaráðuneyti.
Góð þátttaka á námskeiðunum Börn og umhverfi
Heimsóknavinir í vorferð
18 milljónir fyrir notuð föt í neyðaraðstoð Rauða krossins
Dagsferð Dvalar að Skógum
Miðvikudaginn 4. júní fóru gestir og starfsmenn Dvalar í dagsferð að Skógum, til að skoða Skógasafnið og Skógarfoss. Alls voru 17 manns með í för og geislaði tilhlökkunin af hverju andliti þegar rútan lagði af stað. Eftir stutt stopp á Selfossi og Hvolsvelli, þar sem ferðalangar réttu örlítið úr fótum, var hópurinn kominn á leiðarenda. Þegar komið var að Skógum gæddu ferðalangar sér á súpu og brauði á Skógakaffi. Eftir hádegisverðinn tók Þórður Tómasson, stofnandi Skógasafnsins, á móti hópnum. Undir leiðsögn hans fræddust ferðalangar heilmikið um safnmuni og sögu safnsins.
Eftir dágóðan tíma var Þórður kvaddur og hópurinn lagði af stað að Skógarfossi. Þegar að honum var komið gengu nokkrir upp að fossinum og voru þeir verðlaunaðir með vatnsúða frá fossinum. Slíkt var þó engin fyrirstaða fyrir ferðalangana til að bera Skógarfoss augum. Á heimleið var komið við í Hveragerði þar sem allir gæddu sér á ís í Eden í veðurblíðunni.
Skyndihjálparkennsla í 10. bekk
Vor- og afmælishátíð sjálfboðaliða Kópavogsdeildar frestað
Í samráði við veðurfræðing hefur verið ákveðið að vor- og afmælishátíð deildarinnar sem átti að vera laugardaginn 7. júní verði frestað um óákveðinn tíma vegna slæmrar veðurspár þar sem hátíðin átti að vera utandyra. Við biðjumst velvirðingar á því að þurfa að grípa til þessa aðgerða.
Prjónahópskonur í vorferð
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar aðstoða vegna jarðskjálftanna
Ungmenni í vorferð
Krakkarnir sem taka þátt í ungmennastarfi deilda á höfuðborgarsvæðinu héldu í sína árlegu vorferð á laugardaginn og mætti góður hópur Enter-krakka og Eldhuga, alls 14 sem var meirihluti þátttakenda. Eftir að hafa smalað hópnum saman í rútu var haldið til Stokkseyrar þar sem farið var í frábæra sundlaug sem þar er. Voru krakkarnir duglegir við að synda og sprikla, enda rennibraut á staðnum ásamt boltum og ýmsum leiktækjum.
Draugar, beinagrindur, álfar og tröll voru sótt heim í Drauga-, Trölla- og Álfasetrin að Stokkseyri. Krakkarnir voru himinlifandi yfir söfnunum og vildu sum fara strax af stað aftur þegar þau voru búnir að fara einn hring, en önnur voru ánægð að ferðin um söfnin var yfirstaðin.
Kópavogsdeild styrkir hjálparstarf í Mjanmar
Sjálfboðaliðar kynna Alþjóðlega foreldra á aðalfundi Rauða kross Íslands
Fulltrúar frá Kópavogsdeild kynntu verkefnið Alþjóðlegir foreldrar á aðalfundi Rauða krossins á dögunum. Á fundinum voru haldnar málstofur um innflytjendamál þar sem verkefni tengd innflytjendum voru kynnt. Sigrún Eðvaldsdóttir sjálfboðaliði og Diana Wilson þátttakandi greindu frá tilkomu Alþjóðlegra foreldra sem er nýjasta verkefni Kópavogsdeildar og hófst haustið 2007. Ennfremur sögðu þær frá fyrirkomulagi verkefnisins, vikulegum samverum, íslenskukennslu og fræðslu á samverunum og eigin reynslu af þátttöku í verkefninu.
Markmið Kópavogsdeildar með Alþjóðlegum foreldrum er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla. Foreldrarnir hittast vikulega yfir veturinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og er þátttaka ókeypis. Alþjóðlegir foreldrar eru komnir í sumarfrí en skipulögð dagskrá hefst aftur í haust.
Heimsóknavinir Rauða krossins í Sunnuhlíð
"Allt þetta samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Sunnuhlíðar hefur jafnan verið með miklum ágætum og öllum sem að því koma til gleði og skemmtunar."
Kópavogsdeild Rauða kross Íslands fagnar um þessar mundir 50 ára afmæli sínu og er óhætt að segja að eftir öll þessi ár liggi spor hennar víða. Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun og því sinnir deildin meðal annars með öflugri heimsóknaþjónustu í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Deildin hafði ásamt öðrum félagasamtökum í Kópavogi forystu um uppbyggingu hjúkrunarheimilisins.
Gunnar Birgisson bæjarstjóri fékk sögu deildarinnar að gjöf
Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, færði Gunnari Birgissyni, bæjarstjóra Kópavogs, afmælisrit deildarinnar að gjöf á aðalfundi Rauða kross Íslands sem haldinn var í Kópavogi 17. maí síðastliðinn með þökkum fyrir gott samstarf á liðnum árum. Kópavogsdeild og Kópavogsbær eiga samstarf um ýmis verkefni, svo sem rekstur Dvalar, heimsóknaþjónustu, fræðslu í skyndihjálp og fleira. Gunnar árnaði deildinni allra heilla í tilefni af 50 ára afmæli deildarinnar í ávarpi sem hann flutti við setningu fundarins.
Í tilefni af afmælinu hefur Kópavogsdeild gefið út afmælisritið Verkin tala - Kópavogsdeild Rauða krossins 1958-2008. Í ritinu eru verk deildarinnar og sjálfboðaliða hennar rakin í máli og myndum. Garðar H. Guðjónsson tók verkið saman en Kópavogsdeild er útgefandi.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fengu viðurkenningu
Á aðalfundi Rauða krossins 17. maí síðastliðinn voru tveir sjálfboðaliðar í Kópavogsdeild heiðraðir og veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins. Þetta eru Pálína Jónsdóttir sem hefur unnið sem sjálfboðaliði í yfir 20 og Rúna H. Hilmarsdóttir sem hefur unnið sem sjálfboðaliði frá árinu 1994.
Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu fengu einnig viðurkenningu vegna viðbragðshóps um neyðarvarnir en starf hópsins hefur vakið verðskuldaða athygli. Á síðustu 12 mánuðum hefur verið farið í tíu útköll. Viðbragðshópurinn samanstendur af 17 sjálfboðaliðum frá öllum deildum höfuðborgarsvæðisins og á hverjum tíma eru þrír á bakvakt tilbúnir að bregðast við. Inga Lilja Diðriksdóttir, stjórnarmaður, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Kópavogsdeildar.
Afhentu 8 milljónir í Hjálparsjóð
Framlagið í Hjálparsjóð eru þó ekki einu verðmætin sem skapast í fatasöfnunni því vikulega fer fram úthlutun á fatnaði auk þess sem fatnaður er sendur til hjálparstarfs þegar þess er þörf. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna mikið og óeigingjarnt verk í fatasöfnuninni jafnt í flokkunarstöðinni, úthlutun sem og Rauðakrossbúðunum. Ef þú hefur áhuga á að leggja verkefninu lið hafðu þá samband í síma 587-0900
Tímamótasamningur um fatasöfnun
Þriggja manna rekstrarstjórn mun nú stýra verkefninu ásamt verkefnisstjóra. Í þessari fyrstu verkefnisstjórn sitja Þórir Guðmundsson Reykjavíkurdeild, sem jafnframt er formaður, Gunnar M. Hansson Kópavogsdeild og Herdís Sigurjónsdóttir Kjósarsýsludeild. Verkefnisstjóri fatasöfnunar er Örn Ragnarsson.
Fjölmenni í afmælis- og útgáfufagnaði Kópavogsdeildar
Mikill fjöldi samstarfsaðila og velunnara Kópavogsdeildar tók þátt í afmælis- og útgáfufagnaði deildarinnar sem haldinn var í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg í gær. Kópavogsdeild var stofnuð 12. maí 1958 og fagnar því 50 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni hefur saga deildarinnar verið gefin út í veglegu afmælisriti. Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og höfundur sögunnar, fylgdi henni úr hlaði með þeim orðum að ritið væri gefið út í þakklætisskyni við alla sem lagt hafa starfi deildarinnar lið í áranna rás.
Hann afhenti síðan fyrrverandi formönnum deildarinnar, Ásgeiri Jóhannessyni og Garðari Briem, fyrstu eintökin, árituð með kveðju frá deildinni og þökkum fyrir framlag þeirra sem forystumanna. Ásgeir var formaður 1977-1988 og Garðar á árunum 1994-2002.
Saga Kópavogsdeildar 1958-2008 er komin út
Saga Kópavogsdeildar Rauða krossins í 50 ár er komin út en þar er greint frá verkum deildarinnar og sjálfboðaliða hennar frá stofnun 12. maí 1958 til þessa dags. Um er að ræða veglegt afmælisrit prýtt fjölda mynda og ber það heitið Verkin tala – Kópavogsdeild Rauða krossins 1958-2008. Garðar H. Guðjónsson tók verkið saman en Kópavogsdeild er útgefandi. Útgáfu ritsins og afmælis Kópavogsdeildar var fagnað í móttöku í sjálfboðamiðstöð deildarinnar fimmtudaginn 15. maí.
Unnið hefur verið að útgáfu ritsins síðan aðalfundur deildarinnar 2005 samþykkti að ráðist skyldi í undirbúning. Kópavogsdeild hefur í áranna rás ráðist í stórvirki í þágu aldraðra, fólks með geðraskanir, ungmenna í vanda og fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun. Á síðustu árum hefur deildin byggt upp öflugt starf sjálfboðaliða að ýmsum verkefnum og eru samningsbundnir sjálfboðaliðar deildarinnar nú um 300 talsins.
Nemendur MK afhenda afrakstur fatamarkaðar
Nemendur frá Menntaskólanum í Kópavogi afhentu á dögunum framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands, Kristjáni Sturlusyni, 145 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem nemendurnir stóðu fyrir í apríl. Peningarnir renna í hjálparsjóð Rauða krossins sem er notaður til að efla menntun fátækra ungmenna í Mósambík.
Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanga um sjálfboðið starf hjá Menntaskólanum í Kópavogi en áfanginn er kenndur í samvinnu við Kópavogsdeild Rauða krossins. Í áfanganum vinna nemendurnir sjálfboðin störf fyrir deildina og fá ýmiss konar fræðslu, meðal annars um störf Rauða krossins.
Kópavogsdeild veitir veglega styrki á 50 ára afmælinu
Kópavogsdeild Rauða krossins í 50 ár
Alþjóðadagur Rauða krossins og Rauða hálfmánans er í dag en hann hefur ævinlega mikið gildi fyrir okkur sem störfum innan þessarar stærstu og útbreiddustu mannúðarhreyfingar heims. En við sem störfum með Kópavogsdeild Rauða krossins erum venju fremur í hátíðarskapi um þessar mundir því 12. maí næstkomandi verður deildin 50 ára. Við munum gera ýmislegt á næstu vikum til að minnast þessara merku tímamóta í sögu Rauða kross starfs í Kópavogi.
Lifnar yfir fólki þegar hundarnir koma í heimsókn
Prjónahópurinn pakkar 230 fatapökkum
Sjálfboðaliðum boðið að sjá söngleikinn ÁST
Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu söngleikinn ÁST á dögunum í boði Borgarleikhússins. Ást er samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Vesturports í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Sagan fjallar um ástir og daglegt líf heimilismanna á elliheimili.
Kópavogsdeild þakkar Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.
145 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema um helgina
Mikið líf og fjör á fatamarkaði MK-nema í dag, markaðurinn einnig á morgun
Nemendur í MK í áfanganum SJÁ 102 um sjálfboðið starf hjá Kópavogsdeild stóðu fyrir fatamarkaði í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í dag og var rífandi sala. Margir gerðu sér ferð í miðstöðina til að gera góð kaup á alls kyns fötum og varningi.
Markaðurinn heldur áfram á morgun, laugardag, frá kl. 11-17. Mikið úrval er enn í boði af fatnaði fyrir konur, karla, unglinga og börn. Verð á bilinu 300-1500 kr. Sérstakt tilboð er í gangi, “bland í poka”-horn þar sem hægt er að fylla einn poka af fötum fyrir 1.000 kr.
Fatamarkaður!
Kópavogsdeild Rauða krossins heldur fatamarkað föstudaginn 18. apríl kl. 14-18 og laugardaginn 19. apríl kl. 11-17 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð. Nemendur MK í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf sjá um markaðinn og rennur allur ágóði hans til að styrkja ungmenni í Mósambík til mennta.
Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn ásamt alls kyns varningi og er verð á bilinu 300-1500 krónur.
Fjórar vinkonur héldu páskaungasölu til styrktar Rauða krossinum
Sjálfboðaliðar fataflokkunar funda
Undirbúningur hafinn fyrir fatamarkað MK-nema
Áfanginn snýst um að vinna sjálfboðið starf fyrir Kópavogsdeild og er fatamarkaðurinn lokaverkefni nemendanna. Fóru þeir í fataflokkunarstöð Rauða krossins til að velja föt á markaðinn. Á næstunni munu þeir setja hann upp í sjálfboðamiðstöðinni, hengja upp auglýsingar vítt og breitt um Kópavog og loks afgreiða á markaðinum sjálfum.
Fjör á samveru heimsóknavina
Mánaðarleg samvera heimsóknavina Kópavogsdeildar var haldin í sjálfboðamiðstöðinni í gær og komu góðir gestir í heimsókn. Heimsóknavinum úr Hafnarfirði og Grindavík hafði verið boðið í því skyni að heimsóknavinir ólíkra deilda hittust, ættu góða stund saman og kynntu sér starf hvers annars.
Hópstjóri heimsóknavina í Kópavogsdeild byrjaði á því að segja frá heimsóknaþjónustu deildarinnar og síðan tóku fulltrúar úr Hafnarfjarðardeild við og sögðu meðal annars frá heimsóknum sínum til hælisleitenda. Heimsóknavinirnir úr Grindavík tóku því næst við orðinu og sögðu frá sínu starfi en þessi góði hópur kvenna kallar sig Friðarliljurnar. Þær syngja og spila fyrir sína gestgjafa og tóku lagið við góðar undirtektir hinna heimsóknavinanna. Það var því mikið líf og fjör í sjálfboðamiðstöðinni. Heimsóknavinirnir gæddu sér svo á fínum veitingum þar sem einn úr Kópavogsdeildinni hafði bakað pönnukökur og búið til kakó.
Góð þátttaka á námskeiði í sálrænum stuðningi
Kópavogsdeild hélt í gær námskeiðið Sálrænn stuðningur og var það vel sótt. Alls sátu fimmtán manns námskeiðið. Þátttakendurnir fræddust um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þeir lærðu að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.Viðfangsefnin voru meðal annars: Mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli.
Ljósmyndamaraþon hjá Eldhugum
Söngstund hjá Enter-krökkunum
Enter-krakkarnir komu í dag í sjálfboðamiðstöðina eins og venjan er á miðvikudögum og var söngur á dagskránni. Krakkarnir fengu sönghefti með gömlum og góðum íslenskum barnalögum og spreyttu sig á ýmsum lögum. Meðal annars tóku þau Sá ég spóa og Höfuð, herðar, hné og tær sem vakti mikla kátínu krakkanna. Síðan tók við dálítill dans og enduðu krakkarnir á því að fara í nokkra leiki. Tíkin Karó kom einnig í heimsókn og gerði hún hundakúnstir fyrir krakkana og gáfu þau henni nammi að launum.
Skráning stendur yfir á námskeið í sálrænum stuðningi
Kópavogsdeild Rauða krossins heldur námskeiðið Sálrænn stuðningur mánudaginn 7. apríl kl. 17-21 í Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur skráning yfir.
Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.Viðfangsefni eru meðal annars: Mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli.
Vinsælt prjónakaffi
Nemendur í Snælandsskóla gáfu Rauða krossinum þrettán hjól
Ungmenni gegn fordómum
Í gær tóku Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Alþjóðahús, Amnesty International, Þjóðkirkjan, Ísland Panorama og Soka Gakkai Íslandi höndum saman við Smáralind, Glerártorg og Neista um dagskrá í tilefni af Evrópuviku gegn fordómum.
Í Reykjavík tóku Hara systur nokkur velvalin lög við góðar undirtektir Smáralindargesta og um hundrað krakka sem sérstaklega voru komin frá hinum ýmsu ngmennahreyfingum til að taka þátt í uppákomunni. Á Glerártorgi var mikið um dýrðir en þar kom hljómsveitin Edocsil fram og skemmti gestum.