31. jan. 2008 : Enter-krakkarnir heimsækja Latabæ

Enter-hópurinn fór í heimsókn í myndver Latabæjar í gær og fékk mjög svo góðar móttökur. Hópurinn fékk fræðslu um starfsemi Latabæjar og kynningu á hinum ýmsu deildum fyrirtækisins. Krakkarnir skoðuðu meðal annars teiknideildina og sáu hvernig persónur í Latabæjarþáttunum eru búnar til á teikniborðinu. Þau sáu brúðurnar eins og Sigga sæta og Höllu hrekkjusvín og var sýnt hvernig þeim er stjórnað.

Þau fóru einnig í upptökusalinn og hittu sjálfan skapara Latabæjar, Magnús Scheving, sem dró fram íþróttaálfinn í sér og tók nokkrar leikfimiæfingar með krökkkunum. Hoppuðu þau og sprikluðu og reyndu að herma eftir alls konar hundakúnstum íþróttaálfsins. Krakkarnir voru svo leystir út með gjöfum, alsælir, eftir vel heppnaða heimsókn. Þökkum við Magnúsi og starfsfólki Latabæjar kærlega fyrir þessar góðu móttökur.

29. jan. 2008 : Hagkaup styrkja Föt sem framlag í þrjú ár

Hagkaup og Kópavogsdeild Rauða krossins hafa gert með sér samning um að Hagkaup styrki verkefnið Föt sem framlag árlega í þrjú ár. Styrkur Hagkaupa nemur um helmingi af kostnaði Kópavogsdeildar við verkefnið og gerir deildinni kleift að standa að verkefninu af þeim krafti og metnaði sem hugur stendur til.

Sjálfboðaliðar á öllum aldri sauma og prjóna fatnað fyrir verkefnið og útbúa ungbarnapakka sem sendir eru til neyðaraðstoðar víðs vegar um heim, mest til Malaví og Gambíu. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hafa frá árinu 2002 útbúið tæplega 3.000 ungbarnapakka en um 50 sjálfboðaliðar starfa við verkefnið. Síðasta miðvikudag hvers mánaðar kl. 16-18 mæta að jafnaði um 35 konur í sjálfboðamiðstöð deildarinnar til að vinna að verkefninu.

25. jan. 2008 : Sjálfboðaliðar óskast í Alþjóðlega foreldra

Kópavogsdeild óskar eftir góðu fólki til að sinna sjálfboðnum störfum í verkefninu Alþjóðlegir foreldrar. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eiga börn á aldrinum 0-6 ára. Alþjóðlegu foreldrarnir hittast vikulega með börnin sín, á fimmtudögum kl. 10.00-11.30, í sjálfboðamiðstöð deildarinnar. Á þessum samverum bjóðum velkomna foreldra allra landa sem eru heima með 0-6 ára börn sín og vilja hitta aðra með lítil börn. Boðið er upp á stutta íslenskukennslu fyrir foreldrana í hvert sinn ásamt fjölbreyttum kynningum og eru það sjálfboðaliðarnir sem sjá um dagskrána.

25. jan. 2008 : Afródans hjá Eldhugum

Í gær kom danskennari frá Kramhúsinu í sjálfboðamiðstöðina og kenndi Eldhugunum afródans frá Vestur-Afríku. Eldhugarnir lærðu ýmiss spor og settu þau svo saman í heilan dans. Þeir horfðu einnig á myndbrot af dönsurum í Afríku og fræddumst um dansinn sjálfan. Það hefur verið Afríku-þema hjá Eldhugunum undanfarið en í síðustu viku fengu þeir kynningu á Úganda í Austur-Afríku. Fræddust þeir um sögu landsins og aðstæður þar í dag. Sáu þeir einnig fjölmargar myndir af Úgandabúum og mjög svo grænu landi þeirra.

24. jan. 2008 : Sífellt bætist í hóp alþjóðlegra foreldra

Mikið líf og fjör var í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í morgun þegar foreldrar mættu með börnin sín til að taka þátt í verkefninu Alþjóðlegir foreldrar. Alls mættu tíu foreldrar og þar af fimm nýjir. Koma foreldrarnir frá hinum ýmsu löndum eða Þýskalandi, Póllandi, Bandaríkjunum, Kanada, Guyana, Spáni og Svíþjóð auk íslensku þátttakendanna. Sáu þeir íslensku um dagskrána sem að þessu sinni snerist um líkamann og var því íslenskukennsla tengd honum. 

24. jan. 2008 : Fjör hjá Enter-krökkunum

Krakkarnir í Enter komu í sjálfboðamiðstöðina í gær. Það var mikið fjör hjá þeim en þau fóru í leiki og spiluðu á spil. Fannst þeim sérstaklega gaman í stoppdansleiknum þar sem þau gátu hoppað og dansað að hjartans list. Þau fengu einnig hund í heimsókn, tíkina Karó, og vakti hún mikla lukku. Krakkarnir fengu hana til að setjast og heilsa og launuðu henni það með sérstöku hundagóðgæti, knúsum og klappi.

22. jan. 2008 : Skráning hafin á námskeiðið Slys á börnum

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur námskeiðið Slys á börnum 17. og 18. mars kl. 18-21 í Hamraborg 11, 2. hæð.

Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna, andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús o.fl.

Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn hvort sem er í starfi eða daglegu lífi.

17. jan. 2008 : Alþjóðlegir foreldrar hittast aftur á nýju ári

Fyrsta samvera alþjóðlegra foreldra var í morgun í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. Galvaskir foreldrar mættu með börnin sín og nýttu sér þetta tækifæri til að hitta aðra foreldra og læra íslensku. Þemað í morgun var fjölskyldan og fengu því þátttakendurnir kennslu tengdri henni. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sáu um dagskrána.

Markmið deildarinnar með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru innilega velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla.

16. jan. 2008 : Skráning hafin á námskeið í skyndihjálp

Námskeið í almennri skyndihjálp verður haldið hjá Kópavogsdeild þriðjudaginn 4. mars. kl. 18-22. Námskeiðsgjald er 4.500 kr. og er skírteini sem staðfestir þátttöku innifalið. Á námskeiðinu læra þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

11. jan. 2008 : Þrír ungir kappar söfnuðu 5.760 krónum fyrir Rauða krossinn

Patrik Gunnarsson, Jón Otti Sigurjónsson og Elvar Guðmundsson komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í vikunni og afhentu afrakstur tombólu sem þeir héldu til styrktar Rauða krossinum. Strákarnir eru sex og sjö ára og eru í 1. og 2. bekk Salaskóla. Þeir héldu tombólu hjá Nettó í Salahverfi og söfnuðu 5.760 krónum. Þökkum við þessum framtaksömu ungu köppum kærlega fyrir framlagið.

10. jan. 2008 : Sex vinkonur safna flöskum til styrktar Rauða krossinum

Sex vinkonur úr Lindaskóla, þær Birta Líf, Guðrún, Katrín Linh, Ólafía Ósk, Diljá Rún og Helga Margrét, komu færandi hendi í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í gær. Þær gengu í hús á dögunum í hverfinu sínu og söfnuðu flöskum til styrktar Rauða krossins. Þessar níu ára skemmtilegu stelpur voru aldeilis duglegar og söfnuðu alls 14.983 krónum. Það var tekið vel á móti þeim í sjálfboðamiðstöðinni og fengu þær fræðslu um upphaf, sögu og störf Rauða krossins. Þökkum við þeim kærlega fyrir þetta framtak.  
 

8. jan. 2008 : Þrjár milljónir í hjálparstarf vegna átakanna í Kenýa

Rauði kross Íslands hefur sent 3 milljónir til hjálparstarfs í Keníu vegna átakanna sem brutust út milli þjóðarbrota í landinu í kjölfar forsetakosninganna þar 30. desember. Fjármagnið rennur í neyðarbeiðni Alþjóða Rauði krossins. Einn sendifulltrúi Rauða kross Íslands, Ómar Valdimarsson, er við störf í landinu.

Hundruð  manna eru talin hafa látið lífið eða særst í ofbeldisaðgerðum og tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín. Alþjóða Rauði krossinn sendi út sérstaka neyðarbeiðni vegna stóraukins stuðnings við Rauða krossinn í Kenýu. Jafnframt hefur verið sendur fjöldi hjálparstarfsmanna til að aðstoða fórnarlömb átakanna og vinna að dreifingu matvæla og annarra hjálpargagna ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins.

7. jan. 2008 : Sjálfboðaliðar óskast í Eldhuga og Enter

Kópavogsdeild Rauða krossins er þessa dagana að bæta við nýjum sjálfboðaliðum, 18 ára og eldri, í verkefnin Eldhugar og Enter. Verkefni sjálfboðaliða fela í sér að skipuleggja og stýra ungu fólki í spennandi viðfangsefnum. Fundir fyrir sjálfboðaliða í Enter og Eldhugum verða haldnir fimmtudaginn 10. janúar í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11.

Áhugasamir geta skráð sig í síma 554 6626 eða á [email protected] Þeir sem ekki komast á fundina en hafa áhuga á verkefnunum geta samt tekið þátt og skulu endilega senda tölvupóst eða hringja. Nánari upplýsingar um þessi verkefni og önnur fylgja hér fyrir neðan.