29. feb. 2008 : Mikil þátttaka í ungmennastarfi Kópavogsdeildar

Talsvert á annað hundrað manns tóku þátt í blómlegu ungmennastarfi hjá Kópavogsdeild á síðasta ári. Alls tóku 40 börn af ýmsum þjóðernum þátt í Enter og með þeim störfuðu 15 sjálfboðaliðar. Þátttakendur í Eldhugum voru 38 og þeim til aðstoðar voru 25 sjálfboðaliðar. Sjálfboðaliðarnir eru flestir á þrítugsaldri. Þá tóku 19 nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi þátt í starfi deildarinnar í áfanga um sjálfboðið starf.

29. feb. 2008 : Kópavogsbörn hjálpa jafnöldrum sínum í Malaví

Framlag ungra Kópavogsbúa til Rauða kross deildarinnar nam nær 40 þúsund krónum á síðasta ári og verður fénu varið til þess að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku. Börnin öfluðu fjárins meðal annars með tombólum og flöskusöfnun. Kópavogsdeild veitti alls 434.465 krónur til neyðaraðstoðar erlendis á síðasta ári en auk þess söfnuðust átta milljónir króna til neyðaraðstoðar í sameiginlegri fatasöfnun deildanna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýútgefinni ársskýrslu deildarinnar.

28. feb. 2008 : Fjöldi nýrra sjálfboðaliða og nýtt verkefni á síðasta ári

Sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar fjölgaði um nær þriðjung á síðasta ári, úr 182 í 240, og varð fjölgunin einkum í þremur verkefnum. Heimsóknavinum fjölgaði úr 71 í 87, fjöldi sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag margfaldaðist og sex sjálfboðaliðar voru skráðir í nýtt verkefni, Alþjóðlega foreldra, sem hófst haustið 2007. Þetta kom fram í máli Garðars H. Guðjónssonar formanns á fjölmennum aðalfundi sem haldinn var í gærkvöldi. Garðar var endurkjörinn formaður til tveggja ára á fundinum. Hann vakti athygli á því í setningarávarpi sínu að deildin fagnar tveimur merkum áföngum á árinu. Deildin verður fimmtíu ára í maí og athvarfið Dvöl fagnar tíu ára afmæli í haust.

26. feb. 2008 : Aðalfundur

Aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn miðvikudaginn 27. febrúar kl. 20 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð. Allir sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að mæta til að taka þátt í því að gera upp síðasta starfsár og leggja á ráðin með framhaldið.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf.
Önnur mál.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða sýndar myndir úr starfi deildarinnar síðastliðið ár. Í lok fundar verður boðið upp á góðar veitingar.

Sjáumst vonandi sem flest.

25. feb. 2008 : Eldhugar heimsækja Hafnarfjörðinn

Ungmennadeild Rauða krossins í Hafnarfirði bauð Eldhugunum í heimsókn í síðustu viku til fræðslu- og tónleikaveislu. Fyrst sögðu tveir sjálfboðaliðar Rauða krossins í Gambíu frá störfum sínum þar í landi en þeir eru á Íslandi í boði Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands. Kynntu þeir gambíska Rauða krossinn og hvernig sjálfboðnum störfum er háttað þar. Síðan tóku við tónleikar hjá hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir og hélt hún uppi miklu fjöri í rúma klukkustund fyrir Eldhugana og gestgjafa þeirra í Hafnarfjarðardeildinni.

21. feb. 2008 : Sjálfboðaliði Kópavogsdeildar tilnefnd hvunndagshetja

Jóna Guðný Arthúrsdóttir, sjálfboðaliði Kópavogsdeildar, hefur verið tilnefnd til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins sem verða veitt næstkomandi þriðjudag. Á fjórða hundrað ábendinga bárust í keppnina. Samfélagsverðlaunin eru veitt í fjórum flokkum og fimm einstaklingar eru tilnefndir í hverjum flokki. Jóna Guðný er tilnefnd í flokkinn Hvunndagshetja.

20. feb. 2008 : Aðalfundur Kópavogsdeildar

Vegna mistaka sem birtust í auglýsingu í Morgunblaðinu í dag, 20. febrúar, skal tekið fram að aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn miðvikudaginn 27. febrúar kl. 20 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

Allir sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að mæta til að taka þátt í því að gera upp síðasta starfsár og leggja á ráðin með framhaldið.

19. feb. 2008 : Góður hópur alþjóðlegra foreldra

Myndast hefur góður hópur alþjóðlegra foreldra sem hittist vikulega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með börnin sín. Þá er mikið spjallað, hlegið og skipst á ráðum varðandi ungabörn og lífið á Íslandi. Einnig er stutt íslenskukennsla hverju sinni eða fræðsla. Hópurinn hittist á fimmtudögum kl. 10-11.30 og á morgun kemur starfsmaður frá Alþjóðahúsi í heimsókn og verður með fræðslu um starfsemi og þjónustu Alþjóðahússins fyrir innflytjendur. Allir eru velkomnir, innfæddir eða innflytjendur, hvort sem þeir tala enga eða einhverja íslensku.

19. feb. 2008 : Skráning stendur yfir á námskeið fyrir heimsóknavini

Vilt þú taka þátt í gefandi starfi? Kópavogsdeild óskar eftir sjálfboðaliðum til að gerast heimsóknavinir og sinna heimsóknaþjónustu. Heimsóknavinirnir rjúfa einsemd og félagslega einangrun fólks með heimsóknum á einkaheimili og stofnanir. Þeir veita félagsskap m.a. með því að spjalla, lesa fyrir viðkomandi, leika á hljóðfæri og fara í gönguferðir.

Undirbúningsnámskeið verður haldið í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11 þriðjudaginn 26. febrúar kl. 18.00-22.00. Námskeiðið er ókeypis og opið öllum áhugasömum.

14. feb. 2008 : Rauði kross Íslands gefur skyndihjálparveggspjald

Í tilefni af 112-deginum sem haldinn var á vegum viðbragðsaðila í björgun og almannavörnum um allt land, gaf Rauði kross Íslands með styrk frá N1 öllum leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum á landinu skyndihjálparveggspjaldið „Getur þú hjálpað…þegar á reynir?”.  Kópavogsdeild Rauða krossins sendi öllum þessum tilteknu aðilum veggspjaldi, alls 32.

12. feb. 2008 : 112 dagurinn

Í gær var 112 dagurinn og í tilefni þess veitti Kópavogsdeild Rauða krossins Jens Karli Ísfjörð viðurkenningu fyrir að vera tilnefndur sem skyndihjálparmaður ársins 2007. Síðustu árin hafa fleiri aðilar, auk skyndihjálparmanns ársins, hlotið sérstaka viðurkenningu fyrir björgunarafrek og hafa deildir Rauða krossins víða um land afhent viðurkenningarnar. Jens Karl vann það afrek að koma þýskum eldri hjónum til bjargar þar sem þau sátu föst í bíl sínum í Steinholtsá.

8. feb. 2008 : Skráning hafin á námskeiðið Sálrænn stuðningur

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur námskeiðið Sálrænn stuðningur mánudaginn 7. apríl kl. 17-21 í Hamraborg 11, 2. hæð.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.Viðfangsefni eru meðal annars: Mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli. Námskeiðsgjald er 5.000 krónur og innifalið er skírteini sem staðfestir þátttöku.

6. feb. 2008 : Öskudagur

Öskudagurinn er í dag og komu ýmsar skemmtilegar verur í heimsókn í sjálfboðamiðstöðina til að syngja og fá sælgæti fyrir. Hér sáust meðal annars djöflar, kisur, kanínur, beinagrindur, norn og eitís-gella. Vinsælasta lagið var án efa Bjarnastaðarbeljurnar en einnig heyrðust mörg önnur lög. Eftir sönginn fengu krakkarnir svo að velja sér sælgæti, sleikjó eða karamellur.

 

4. feb. 2008 : Fatapökkun og prjónakaffi

Í síðustu viku komu sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag í sjálfboðamiðstöðina til að pakka ungbarnafötum í þar til gerða pakka sem sendir verða til barna í neyð í Malaví. Alls var pakkað 198 pökkum. Fötin í pökkunum eru afrakstur prjónavinnu sjálfboðaliðanna síðustu mánaða en síðasta miðvikudag hvers mánaðar hittast sjálfboðaliðarnir í prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og fá þá garn með sér heim til að prjóna ungbarnaföt í pakkana eins og peysur, teppi, húfur og sokka. Einnig fara samfellur, treyjur, handklæði og taubleyjur í pakkana.