28. mar. 2008 : Skráning stendur yfir á námskeið í sálrænum stuðningi

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur námskeiðið Sálrænn stuðningur mánudaginn 7. apríl kl. 17-21 í Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur skráning yfir.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.Viðfangsefni eru meðal annars: Mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli.

27. mar. 2008 : Vinsælt prjónakaffi

Þrjátíu konur mættu í prjónakaffi sem var haldið í sjálfboðmiðstöð Kópavogsdeildar í gær. Komu þær með ungbarnaföt sem þær höfðu prjónað og saumað síðasta mánuðinn og nýttu síðan samveruna til þess að prjóna, fá sér kaffi og ræða saman um hin ýmsu mál. Nokkrir nýir sjálfboðaliðar bættust í hópinn eftir að hafa séð auglýsingu um prjónakaffið í blöðunum og bjóðum við þá sérstaklega velkomna í þennan góða hóp.

22. mar. 2008 : Nemendur í Snælandsskóla gáfu Rauða krossinum þrettán hjól

Á dögunum afhentu nokkrir nemendur úr unglingadeild Snælandsskóla fulltrúum Rauða krossins þrettán hjól sem þau höfðu gert upp. Nokkur hjól eru nú þegar á leið til Gambíu en þau sem eftir eru fara síðar til Malaví. Landsfélög Rauða krossins í þessum löndum koma hjólunum áleiðis til þeirra sem þurfa. Þetta er í annað sinn sem krakkarnir í Snælandsskóla afhenda Rauða krossinum hjól að gjöf og munu þau áreiðanlega koma sér vel hjá nýjum eigendum.

19. mar. 2008 : Ungmenni gegn fordómum

Í gær tóku Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Alþjóðahús, Amnesty International, Þjóðkirkjan, Ísland Panorama og Soka Gakkai Íslandi höndum saman við Smáralind, Glerártorg og Neista um dagskrá í tilefni af Evrópuviku gegn fordómum.

Í Reykjavík tóku Hara systur nokkur velvalin lög við góðar undirtektir Smáralindargesta og um hundrað krakka sem sérstaklega voru komin frá hinum ýmsu ngmennahreyfingum til að taka þátt í uppákomunni. Á Glerártorgi var mikið um dýrðir en þar kom hljómsveitin Edocsil fram og skemmti gestum.

14. mar. 2008 : Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti 15. - 23. mars 2008: Viðburður í Smáralind 18. mars kl. 16

Á morgun hefst Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti sem hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti, 21. mars. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi daginn í minningu 69 mótmælenda myrtir voru 21. mars 1960 er þeir mótmæltu aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku. Evrópuvikan miðar að því að uppræta mismunun, fordóma og þjóðernishyggju í álfunni og stuðla þannig að umburðarlyndu Evrópusamfélagi þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna.

Birtingarmyndir kynþáttamisréttis eru ólíkar eftir löndum og menningarsvæðum en kynþáttamisrétti nær yfir vítt svið - allt frá fordómum til ofbeldisverka. Kynþáttamisrétti á Íslandi birtist helst í útlendingafælni og duldum fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna en hefur því miður nýlega einnig brotist út í ofbeldi. Fordómarnir birtast einkum í hversdagslífinu - þegar talað er niður til þeirra sem ekki eru skilgreindir sem ,,hreinir” Íslendingar og þeir fá lakari þjónustu og atvinnu.

12. mar. 2008 : Góð mæting á samveru heimsóknavina

Kópavogsdeild hélt mánaðarlega samveru heimsóknavina í sjálfboðamiðstöðinni í gær og var mjög góð mæting. Alls mættu yfir tuttugu heimsóknavinir til að hlýða á erindi um þunglyndi og kvíða. Fulltrúi frá Geðhjálp hélt erindið og svaraði spurningum á eftir. Hann sagði frá starfi Geðhjálpar og persónulegri reynslu sinni en talaði einnig um einkenni þunglyndis og kvíða og gaf góð ráð um hvernig hægt er að hjálpa fólki sem glímir við slíka kvilla.

10. mar. 2008 : Skráning stendur yfir á námskeiðið Slys á börnum

Kópavogsdeild heldur námskeiðið Slys á börnum 17. og 18. mars kl. 18-21 í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11, 2. hæð. Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna, andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús o.fl. Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn hvort sem er í starfi eða daglegu lífi. Skráning stendur yfir á námskeiðið og enn eru laus pláss. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig hér á síðunni fyrir 14. mars

6. mar. 2008 : Vel sótt námskeið í skyndihjálp

Námskeið í almennri skyndihjálp var haldið hjá Kópavogsdeild í vikunni og var það vel sótt. Tuttugu þátttakendur sátu námskeiðið og fögnum við því að svona margir hafi áhuga á því að öðlast þessa brýnu þekkingu. Þátttakendurnir fengu leiðsögn varðandi grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmið námskeiðsins er að þátttakendurnir verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Allir fá skírteini sem staðfestir þátttöku.