30. apr. 2008 : Prjónahópurinn pakkar 230 fatapökkum

Í gær var pökkunardagur í sjálfboðamiðstöðinni þar sem sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag pökkuðu prjónaflíkum í fatapakka sem sendir verða til Afríku. Alls pökkuðust 230 fatapakkar og hefur Kópavogsdeild ekki áður sent frá sér jafnmarga pakka í einu. Fötin í pökkunum eru afrakstur prjónavinnu sjálfboðaliðanna síðustu mánaða og eiga þeir svo sannarlega hrós skilið fyrir framtakssemi og dugnað.

28. apr. 2008 : Sjálfboðaliðum boðið að sjá söngleikinn ÁST

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu söngleikinn ÁST á dögunum í boði Borgarleikhússins. Ást er samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Vesturports í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Sagan fjallar um ástir og daglegt líf heimilismanna á elliheimili.

Kópavogsdeild þakkar Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

21. apr. 2008 : 145 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema um helgina

Á fatamarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu um helgina söfnuðust 145 þúsund krónur. Fjöldi manns kom á markaðinn og gerði góð kaup á notuðum dömu-, herra- og barnafatnaði ásamt dóti. Allur ágóðinn rennur til að styrkja ungmenni í Mósambík til mennta. MK-nemarnir höfðu farið í fataflokkunarstöð Rauða krossins og valið föt á markaðinn. Síðan settu þeir hann upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og afgreiddu á markaðinum sjálfum.

18. apr. 2008 : Mikið líf og fjör á fatamarkaði MK-nema í dag, markaðurinn einnig á morgun

Nemendur í MK í áfanganum SJÁ 102 um sjálfboðið starf hjá Kópavogsdeild stóðu fyrir fatamarkaði í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í dag og var rífandi sala. Margir gerðu sér ferð í miðstöðina til að gera góð kaup á alls kyns fötum og varningi.

Markaðurinn heldur áfram á morgun, laugardag, frá kl. 11-17. Mikið úrval er enn í boði af fatnaði fyrir konur, karla, unglinga og börn. Verð á bilinu 300-1500 kr. Sérstakt tilboð er í gangi, “bland í poka”-horn þar sem hægt er að fylla einn poka af fötum fyrir 1.000 kr.

16. apr. 2008 : Fatamarkaður!

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur fatamarkað föstudaginn 18. apríl kl. 14-18 og laugardaginn 19. apríl kl. 11-17  í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð. Nemendur MK í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf sjá um markaðinn og rennur allur ágóði hans til að styrkja ungmenni í Mósambík til mennta.

Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn ásamt alls kyns varningi og er verð á bilinu 300-1500 krónur.

 

14. apr. 2008 : Fjórar vinkonur héldu páskaungasölu til styrktar Rauða krossinum

Fjórar ungar vinkonur, Rakel, Diljá, Bryndís og Telma Dögg, seldu páskaunga fyrir páska við Nóatún í Furugrund. Þær bjuggu ungana til sjálfar úr könglum, pappír og gosflöskutöppum. Þessar framtakssömu ungu stelpur komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í gær með afraksturinn, 1.284 kr., og afhentu hann til styrktar Rauða krossinum. Stelpurnar eru allar í 1. bekk í Snælandsskóla. Þökkum við þeim kærlega fyrir þetta framlag.

11. apr. 2008 : Sjálfboðaliðar fataflokkunar funda

Sjálfboðaliðar Rauða krossins sem vinna í fataflokkun funduðu á dögunum í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. Slíkir fundir eru haldnir reglulega svo að sjálfboðaliðarnir geti kynnst hver öðrum og borið saman bækur sínar enda er vettvangur starfsins á þremur stöðum, þ.e. í Fataflokkunarstöð Rauða krossins í Gjótuhrauni 7 í Hafnarfirði, Rauða kross búðinni Strandgötu 24 í Hafnarfirði og Rauða kross búðinni Laugavegi 12 í Reykjavík. Á fundinum kynnti Linda Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, starf deildarinnar og að því loknu voru málefni dagsins rædd ásamt árangri starfsins. Að því búnu var spilað bingó.

11. apr. 2008 : Undirbúningur hafinn fyrir fatamarkað MK-nema

Nemendur Menntaskólans í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 hófu í vikunni undirbúning fyrir fatamarkað sem haldinn verður í sjálfboðamiðstöðinni 18. og 19. apríl næstkomandi.

Áfanginn snýst um að vinna sjálfboðið starf fyrir Kópavogsdeild og er fatamarkaðurinn lokaverkefni nemendanna. Fóru þeir í fataflokkunarstöð Rauða krossins til að velja föt á markaðinn. Á næstunni munu þeir setja hann upp í sjálfboðamiðstöðinni, hengja upp auglýsingar vítt og breitt um Kópavog og loks afgreiða á markaðinum sjálfum.

9. apr. 2008 : Fjör á samveru heimsóknavina

Mánaðarleg samvera heimsóknavina Kópavogsdeildar var haldin í sjálfboðamiðstöðinni í gær og komu góðir gestir í heimsókn. Heimsóknavinum úr Hafnarfirði og Grindavík hafði verið boðið í því skyni að heimsóknavinir ólíkra deilda hittust, ættu góða stund saman og kynntu sér starf hvers annars.

Hópstjóri heimsóknavina í Kópavogsdeild byrjaði á því að segja frá heimsóknaþjónustu deildarinnar og síðan tóku fulltrúar úr Hafnarfjarðardeild við og sögðu meðal annars frá heimsóknum sínum til hælisleitenda. Heimsóknavinirnir úr Grindavík tóku því næst við orðinu og sögðu frá sínu starfi en þessi góði hópur kvenna kallar sig Friðarliljurnar. Þær syngja og spila fyrir sína gestgjafa og tóku lagið við góðar undirtektir hinna heimsóknavinanna. Það var því mikið líf og fjör í sjálfboðamiðstöðinni. Heimsóknavinirnir gæddu sér svo á fínum veitingum þar sem einn úr Kópavogsdeildinni hafði bakað pönnukökur og búið til kakó.

8. apr. 2008 : Góð þátttaka á námskeiði í sálrænum stuðningi

Kópavogsdeild hélt í gær námskeiðið Sálrænn stuðningur og var það vel sótt. Alls sátu fimmtán manns námskeiðið. Þátttakendurnir fræddust um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þeir lærðu að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.Viðfangsefnin voru meðal annars: Mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli.

4. apr. 2008 : Ljósmyndamaraþon hjá Eldhugum

Í gær var ljósmyndamaraþon hjá Eldhugunum og unnu þeir með tvö þemu. Annars vegar það sem er skemmtilegt og áhugavert við Kópavog og hins vegar fordómar í samfélaginu. Fóru Eldhugarnir ásamt sjálfboðaliðum deildarinnar út á stúfana með myndavélar og tóku myndir í takt við þemun. Í næstu viku vinna Eldhugarnir svo enn frekar með myndirnar.

2. apr. 2008 : Söngstund hjá Enter-krökkunum

Enter-krakkarnir komu í dag í sjálfboðamiðstöðina eins og venjan er á miðvikudögum og var söngur á dagskránni. Krakkarnir fengu sönghefti með gömlum og góðum íslenskum barnalögum og spreyttu sig á ýmsum lögum. Meðal annars tóku þau Sá ég spóa og Höfuð, herðar, hné og tær sem vakti mikla kátínu krakkanna. Síðan tók við dálítill dans og enduðu krakkarnir á því að fara í nokkra leiki. Tíkin Karó kom einnig í heimsókn og gerði hún hundakúnstir fyrir krakkana og gáfu þau henni nammi að launum.