30. maí 2008 : Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar aðstoða vegna jarðskjálftanna

Rauði kross Íslands virkjaði neyðarvarnarkerfi sitt í gær vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi og brugðust sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar skjótt við beiðni um aðstoð. Sjálfboðaliðarnir fóru austur fyrir fjall á fjöldahjálparstöðvar sem opnaðar höfðu verið á Selfossi, Hveragerði, Stokkseyri og á fleiri stöðum. Þar sáu þeim um skráningu fólks og aðhlynningu, veittu sálrænan stuðning og hressingu og mat eftir föngum.  

29. maí 2008 : Ungmenni í vorferð

Krakkarnir sem taka þátt í ungmennastarfi deilda á höfuðborgarsvæðinu héldu í sína árlegu vorferð á laugardaginn og mætti góður hópur Enter-krakka og Eldhuga, alls 14 sem var meirihluti þátttakenda. Eftir að hafa smalað hópnum saman í rútu var  haldið til Stokkseyrar þar sem farið var í frábæra sundlaug sem þar er. Voru krakkarnir duglegir við að synda og sprikla, enda rennibraut á staðnum ásamt boltum og ýmsum leiktækjum.

Draugar, beinagrindur, álfar og tröll voru sótt heim í Drauga-, Trölla- og Álfasetrin að Stokkseyri. Krakkarnir voru himinlifandi yfir söfnunum og vildu sum fara strax af stað aftur þegar þau voru búnir að fara einn hring, en önnur voru ánægð að ferðin um söfnin var yfirstaðin.

29. maí 2008 : Kópavogsdeild styrkir hjálparstarf í Mjanmar

Kópavogsdeild hefur ákveðið að veita 300.000 kr. til hjálparstarfsins í Mjanmar vegna fellibylsins sem reið þar yfir í byrjun maí. Talið er að fellibylurinn hafi orðið um 60 þúsundum manna að aldurtila og um ein milljón manna séu heimilislaus. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins hafa aðstoðað fólk frá því að fellibylurinn skall yfir. Sjálfboðaliðar hafa unnið þrekvirki við að dreifa hjálpargögnum, koma fólki í húsaskjól og koma í veg fyrir smitsjúkdóma sem oft blossa upp í hamförum sem þessum. Rauði krossinn í Mjanmar hefur verið í lykilhlutverki í hjálparstarfinu en um 30 þúsund sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í hjálparstarfinu.

27. maí 2008 : Sjálfboðaliðar kynna Alþjóðlega foreldra á aðalfundi Rauða kross Íslands

Fulltrúar frá Kópavogsdeild kynntu verkefnið Alþjóðlegir foreldrar á aðalfundi Rauða krossins á dögunum. Á fundinum voru haldnar málstofur um innflytjendamál þar sem verkefni tengd innflytjendum voru kynnt. Sigrún Eðvaldsdóttir sjálfboðaliði og Diana Wilson þátttakandi greindu frá tilkomu Alþjóðlegra foreldra sem er nýjasta verkefni Kópavogsdeildar og hófst haustið 2007. Ennfremur sögðu þær frá fyrirkomulagi verkefnisins, vikulegum samverum, íslenskukennslu og fræðslu á samverunum og eigin reynslu af þátttöku í verkefninu.

Markmið Kópavogsdeildar með Alþjóðlegum foreldrum er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla. Foreldrarnir hittast vikulega yfir veturinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og er þátttaka ókeypis. Alþjóðlegir foreldrar eru komnir í sumarfrí en skipulögð dagskrá hefst aftur í haust.

26. maí 2008 : Heimsóknavinir Rauða krossins í Sunnuhlíð

"Allt þetta samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Sunnuhlíðar hefur jafnan verið með miklum ágætum og öllum sem að því koma til gleði og skemmtunar." 

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands fagnar um þessar mundir 50 ára afmæli sínu og er óhætt að segja að eftir öll þessi ár liggi spor hennar víða. Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun og því sinnir deildin meðal annars með öflugri heimsóknaþjónustu í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Deildin hafði ásamt öðrum félagasamtökum í Kópavogi forystu um uppbyggingu hjúkrunarheimilisins.

23. maí 2008 : Gunnar Birgisson bæjarstjóri fékk sögu deildarinnar að gjöf

Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, færði Gunnari Birgissyni, bæjarstjóra Kópavogs, afmælisrit deildarinnar að gjöf á aðalfundi Rauða kross Íslands sem haldinn var í Kópavogi 17. maí síðastliðinn með þökkum fyrir gott samstarf á liðnum árum. Kópavogsdeild og Kópavogsbær eiga samstarf um ýmis verkefni, svo sem rekstur Dvalar, heimsóknaþjónustu, fræðslu í skyndihjálp og fleira. Gunnar árnaði deildinni allra heilla í tilefni af 50 ára afmæli deildarinnar í ávarpi sem hann flutti við setningu fundarins.

Í tilefni af afmælinu hefur Kópavogsdeild gefið út afmælisritið Verkin tala - Kópavogsdeild Rauða krossins 1958-2008. Í ritinu eru verk deildarinnar og sjálfboðaliða hennar rakin í máli og myndum. Garðar H. Guðjónsson tók verkið saman en Kópavogsdeild er útgefandi.

21. maí 2008 : Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fengu viðurkenningu

Á aðalfundi Rauða krossins 17. maí síðastliðinn voru tveir sjálfboðaliðar í Kópavogsdeild heiðraðir og veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins. Þetta eru Pálína Jónsdóttir sem hefur unnið sem sjálfboðaliði í yfir 20 og Rúna H. Hilmarsdóttir sem hefur unnið sem sjálfboðaliði frá árinu 1994.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu fengu einnig viðurkenningu vegna viðbragðshóps um neyðarvarnir en starf hópsins hefur vakið verðskuldaða athygli. Á síðustu 12 mánuðum hefur verið farið í tíu útköll. Viðbragðshópurinn samanstendur af 17 sjálfboðaliðum frá öllum deildum höfuðborgarsvæðisins og á hverjum tíma eru þrír á bakvakt tilbúnir að bregðast við. Inga Lilja Diðriksdóttir, stjórnarmaður, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Kópavogsdeildar.

20. maí 2008 : Afhentu 8 milljónir í Hjálparsjóð

Á aðalfundir Rauða kross Íslands, sem haldinn var í Kópavogi um síðustu helgi, afhentu deildir á höfuðborgarsvæðinu 8 milljón króna framlag í Hjálparsjóð. Framlagið er hagnaður af fatasöfnunarverkefni deildanna og er þetta ekki í fyrsta skipti sem svo ríkulegt framlag rennur í Hjálparsjóð frá þessu verkefni. Frá stofnun fatasöfnunar árið 2000 hefur verkefnið skilað 24,5 milljónum í Hjálparsjóð og því ljóst að mikil verðmæti eru falin í þeim fatnaði sem til fellur á heimilum fólks.

Framlagið í Hjálparsjóð eru þó ekki einu verðmætin sem skapast í fatasöfnunni því vikulega fer fram úthlutun á fatnaði auk þess sem fatnaður er sendur til hjálparstarfs þegar þess er þörf. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna mikið og óeigingjarnt verk í fatasöfnuninni jafnt í flokkunarstöðinni, úthlutun sem og Rauðakrossbúðunum. Ef þú hefur áhuga á að leggja verkefninu lið hafðu þá samband í síma 587-0900

19. maí 2008 : Tímamótasamningur um fatasöfnun

Á laugardaginn skrifuðu Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu undir nýjan samning um fatasöfnun. Markar samningurinn nokkur tímamót í sögu verkefnisins en með honum er stjórnun verkefnisins einfölduð og vænta menn þess að það verði til mikilla hagsbóta.

Þriggja manna rekstrarstjórn mun nú stýra verkefninu ásamt verkefnisstjóra. Í þessari fyrstu verkefnisstjórn sitja Þórir Guðmundsson Reykjavíkurdeild, sem jafnframt er formaður, Gunnar M. Hansson Kópavogsdeild og Herdís Sigurjónsdóttir Kjósarsýsludeild. Verkefnisstjóri fatasöfnunar er Örn Ragnarsson.

16. maí 2008 : Fjölmenni í afmælis- og útgáfufagnaði Kópavogsdeildar

Mikill fjöldi samstarfsaðila og velunnara Kópavogsdeildar tók þátt í afmælis- og útgáfufagnaði deildarinnar sem haldinn var í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg í gær. Kópavogsdeild var stofnuð 12. maí 1958 og fagnar því 50 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni hefur saga deildarinnar verið gefin út í veglegu afmælisriti. Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og höfundur sögunnar, fylgdi henni úr hlaði með þeim orðum að ritið væri gefið út í þakklætisskyni við alla sem lagt hafa starfi deildarinnar lið í áranna rás.

Hann afhenti síðan fyrrverandi formönnum deildarinnar, Ásgeiri Jóhannessyni og Garðari Briem, fyrstu eintökin, árituð með kveðju frá deildinni og þökkum fyrir framlag þeirra sem forystumanna. Ásgeir var formaður 1977-1988 og Garðar á árunum 1994-2002.

15. maí 2008 : Saga Kópavogsdeildar 1958-2008 er komin út

Saga Kópavogsdeildar Rauða krossins í 50 ár er komin út en þar er greint frá verkum deildarinnar og sjálfboðaliða hennar frá stofnun 12. maí 1958 til þessa dags. Um er að ræða veglegt afmælisrit prýtt fjölda mynda og ber það heitið Verkin tala – Kópavogsdeild Rauða krossins 1958-2008. Garðar H. Guðjónsson tók verkið saman en Kópavogsdeild er útgefandi. Útgáfu ritsins og afmælis Kópavogsdeildar var fagnað í móttöku í sjálfboðamiðstöð deildarinnar fimmtudaginn 15. maí.

Unnið hefur verið að útgáfu ritsins síðan aðalfundur deildarinnar 2005 samþykkti að ráðist skyldi í undirbúning. Kópavogsdeild hefur í áranna rás ráðist í stórvirki í þágu aldraðra, fólks með geðraskanir, ungmenna í vanda og fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun. Á síðustu árum hefur deildin byggt upp öflugt starf sjálfboðaliða að ýmsum verkefnum og eru samningsbundnir sjálfboðaliðar deildarinnar nú um 300 talsins.

14. maí 2008 : Nemendur MK afhenda afrakstur fatamarkaðar

Nemendur frá Menntaskólanum í Kópavogi afhentu á dögunum framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands, Kristjáni Sturlusyni, 145 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem nemendurnir stóðu fyrir í apríl. Peningarnir renna í hjálparsjóð Rauða krossins sem er notaður til að efla menntun fátækra ungmenna í Mósambík.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanga um sjálfboðið starf hjá Menntaskólanum í Kópavogi en áfanginn er kenndur í samvinnu við Kópavogsdeild Rauða krossins. Í áfanganum vinna nemendurnir sjálfboðin störf fyrir deildina og fá ýmiss konar fræðslu, meðal annars um störf Rauða krossins.

9. maí 2008 : Kópavogsdeild veitir veglega styrki á 50 ára afmælinu

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur fært hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð og Fjölsmiðjunni í Kópavogi veglegar gjafir í tilefni af 50 ára afmæli sínu. Garðar H. Guðjónsson formaður afhenti gjafirnar á sérstökum hátíðarfundi stjórnar á alþjóðadegi Rauða krossins 8. maí. Við sama tækifæri afhentu nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi hjálparsjóði Rauða kross Íslands afrakstur af fatamarkaði sem þeir héldu nýverið til styrktar ungmennum í Mósambík.

8. maí 2008 : Kópavogsdeild Rauða krossins í 50 ár

Alþjóðadagur Rauða krossins og Rauða hálfmánans er í dag en hann hefur ævinlega mikið gildi fyrir okkur sem störfum innan þessarar stærstu og útbreiddustu mannúðarhreyfingar heims. En við sem störfum með Kópavogsdeild Rauða krossins erum venju fremur í hátíðarskapi um þessar mundir því 12. maí næstkomandi verður deildin 50 ára. Við munum gera ýmislegt á næstu vikum til að minnast þessara merku tímamóta í sögu Rauða kross starfs í Kópavogi.

6. maí 2008 : Lifnar yfir fólki þegar hundarnir koma í heimsókn

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hefur um árabil staðið fyrir heimsóknum í Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra, en fyrir tæpum tveimur árum var tekið upp á þeirri nýbreytni að leyfa ferfætlingum að gerast heimsóknarvinir. Greinin birtist í Morgunblaðnu 3. maí.