27. jún. 2008 : Kópavogsdeild afhendir Héraðsskjalasafni Kópavogs gömul gögn

Linda Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, og Þóra Elfa Björnsson afhentu í dag Hrafni Sveinbjarnarsyni, héraðsskjalaverði, gömul gögn frá Kópavogsdeild. Þar á meðal voru bókhaldsgögn og handskrifaðar fundargerðarbækur, sú elsta frá stjórnarfundi 1977 en einnig bækur frá 1982 þegar sjúkravinahópur deildarinnar var settur á fót. Þóra Elfa sat í stjórn deildarinnar í 19 ár og skrifaði sumar fundargerðarbækurnar.

23. jún. 2008 : Öflugt starf á liðnum vetri

Kópavogsdeild hefur haldið úti öflugu sjálfboðaliðastarfi á liðnum vetri. Sífellt bætist í hóp sjálfboðaliða sem sinna ýmsum verkefnum á vegum deildarinnar. Í vetur hefur fjöldi sjálfboðaliða sinnt heimsóknaþjónustu á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, í Sunnuhlíð, Rjóðrinu og Dvöl. Heimsóknavinirnir hitta gestgjafa sína reglulega og fara út að ganga með þeim, spjalla saman, fara á kaffihús, syngja og lesa svo eitthvað sé nefnt.

Sjálfboðaliðar vinna einnig með ungmennum, bæði íslenskum og erlendum, og stjórna vikulegum samverum þeirra þar sem ungmennin eru virkjuð á fjölbreyttan máta eins og með dansi, leiklist, föndri, söng og ýmiss konar fræðslu.

20. jún. 2008 : Alþjóðadagur flóttamanna í dag

Um 40 milljónir manna um allan heim hafa hrakist frá heimkynnum sínum vegna átaka, ofbeldis eða annarra orsaka. Af þeim eru tæplega 12 milljónir flóttamenn í öðru landi, en um 26 milljónir eru á vergangi innan eigin landamæra. Föstudaginn 20. júní, á Alþjóðadegi flóttamanna, er vakin sérstök athygli á aðstæðum þessa fólks um gjörvallan heim.

Í dómsmálaráðuneytinu verður Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra afhent kl. 13:45 fyrsta eintakið af Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna í íslenskri þýðingu. Handbókin er gefin út af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rauða krossinum með styrk frá dómsmálaráðuneyti.  

16. jún. 2008 : Góð þátttaka á námskeiðunum Börn og umhverfi

Kópavogsdeild hélt þrjú Börn og umhverfi námskeið í maí og júní og var fullbókað á þau öll. Samtals voru þátttakendurnir 58 á námskeiðunum þremur. Hvert námskeið skiptist á fjóra daga og þrjá tíma í senn. Leiðbeinendurnir voru leikskólakennari og hjúkrunarfræðingur. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Fyrstu tvo dagana er lögð áhersla á samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Þriðji og fjórði dagurinn snúast svo um slysavarnir, algengar slysahættur og ítarlega kennslu í skyndihjálp. Þar að auki fá þátttakendurnir innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

13. jún. 2008 : Heimsóknavinir í vorferð

Heimsóknavinir Kópavogsdeildar fóru í vorferð í vikunni til Akraness. Markmiðið var að gera sér glaðan dag og þakka heimsóknavinunum fyrir gott starf í vetur. Rúta sótti um tuttugu heimsóknavini í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og keyrði upp á Akranes til Akranesdeildar Rauða krossins en í húsakynnum deildarinnar beið starfsfólk og sjálfboðaliðar sem tóku vel á móti hópnum að sunnan. Þar fræddi framkvæmdastjóri Akranesdeildar hópinn um störf heimsóknavina á Skaganum og önnur verkefni deildarinnar. Gestirnir gáfu þá gestgjöfunum blóm með þökkum fyrir góðar viðtökur.

12. jún. 2008 : 18 milljónir fyrir notuð föt í neyðaraðstoð Rauða krossins

Rauði kross Íslands hefur á síðustu vikum veitt 18 milljón króna framlag til neyðaraðstoðar úr fatasöfnunarverkefni sínu. Fyrstu 8 milljónirnar voru afhentar á aðalfundi Rauða krossins í maí og renna þær til Alþjóða Rauða krossins í Palestínu. Tíu milljónir fara svo í neyðaraðstoð Alþjóða Rauða krossins í Sómalíu þar sem hundruð þúsunda Sómala þjást af matar- og vatnsskorti í kjölfar harðnandi átaka og þurrka. Alþjóða Rauði krossinn sendi frá sér neyðarbeiðni í síðustu viku vegna ástandsins í Sómalíu sem er talið vera mesti harmleikur sem riðið hefur yfir landið á undanförnum áratug.  Stór hluti íbúa er örmagna eftir langvarandi átök og erfiða lífsbaráttu, en þurrkar í landinu hafa nú enn aukið á neyðarástand þar. Framlagið til Sómalíu var afhent við fatagám í Sorpu á Sævarhöfða í gær fyrir hönd allra þeirra sem gáfu notuð föt til félagsins á síðasta ári.  

10. jún. 2008 : Dagsferð Dvalar að Skógum

Miðvikudaginn 4. júní fóru gestir og starfsmenn Dvalar í dagsferð að Skógum, til að skoða Skógasafnið og Skógarfoss. Alls voru 17 manns með í för og geislaði tilhlökkunin af hverju andliti þegar rútan lagði af stað. Eftir stutt stopp á Selfossi og Hvolsvelli, þar sem ferðalangar réttu örlítið úr fótum, var hópurinn kominn á leiðarenda. Þegar komið var að Skógum gæddu ferðalangar sér á súpu og brauði á Skógakaffi. Eftir hádegisverðinn tók Þórður Tómasson, stofnandi Skógasafnsins, á móti hópnum. Undir leiðsögn hans fræddust ferðalangar heilmikið um safnmuni og sögu safnsins.

Eftir dágóðan tíma var Þórður kvaddur og hópurinn lagði af stað að Skógarfossi. Þegar að honum var komið gengu nokkrir upp að fossinum og voru þeir verðlaunaðir með vatnsúða frá fossinum. Slíkt var þó engin fyrirstaða fyrir ferðalangana til að bera Skógarfoss augum. Á heimleið var komið við í Hveragerði þar sem allir gæddu sér á ís í Eden í veðurblíðunni.

7. jún. 2008 : Skyndihjálparkennsla í 10. bekk

Nemendur í 10. bekk í fimm grunnskólum í Kópavogi, þ.e. Digranesskóla, Kársnesskóla, Kópavogsskóla, Salaskóla og Smáraskóla, fengu kennslu á vorönn í skyndihjálp hjá Rauða krossinum. Alls voru þetta um 125 nemendur. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og hafa því öðlast víðtæka þekkingu á því hvernig bregðast skuli við í kjölfar slysa eða bráðaveikinda. Kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn. Nemendurnir geta fengið námskeiðið metið til eininga í framhaldsskólum.

4. jún. 2008 : Vor- og afmælishátíð sjálfboðaliða Kópavogsdeildar frestað

Í samráði við veðurfræðing hefur verið ákveðið að vor- og afmælishátíð deildarinnar sem átti að vera laugardaginn 7. júní verði frestað um óákveðinn tíma vegna slæmrar veðurspár þar sem hátíðin átti að vera utandyra. Við biðjumst velvirðingar á því að þurfa að grípa til þessa aðgerða.

2. jún. 2008 : Prjónahópskonur í vorferð

Sjálfboðaliðar í Föt sem framlag fóru í vorferð á dögunum til að gera sér glaðan dag og ljúka vetrarstarfinu. Ferðinni var heitið á Suðurland og var byrjað í Þorkelsgerði í Selvoginum. Þar skoðuðu prjónakonurnar íslenskt handverk eftir Sigurbjörgu Eyjólfsdóttur og fengu sér dálitla hressingu. Síðan lá leiðin á Selfoss í heimsókn til Árnesingadeildar Rauða krossins. Sjálfboðaliðar í Árnesingadeild tóku vel á móti prjónahópnum með ýmiss konar heimagerðu góðmeti og kræsingum. Svæðisfulltrúi Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum, Jóhanna Róbertsdóttir, kynnti starfið í þessum landshlutum og Ragnheiður Ágústsdóttir, starfsmaður Árnesingadeildar kynnti starf deildarinnar. Þá kynntu hópstjórar prjónahóps Kópavogsdeildar starf hópsins og færðu Árnesingadeild blóm að gjöf með þökkum fyrir góðar viðtökur.