29. sep. 2008 : MK-nemar ganga til góðs

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi ætla að ganga til góðs á laugardaginn 4. október og leggja þannig sitt af mörkum í landssöfnun Rauða krossins sem fer fram þann dag. Nemendurnir eru að hluta til þátttakendur í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf (SJÁ 102) sem hefur nú verið kenndur við skólann í nokkrar annir í samstarfi við Kópavogsdeildina. Þátttaka í landssöfnuninni Göngum til góðs er eitt af verkefnum nemendanna í áfanganum en þeirra meginverkefni er að sinna sjálfboðnum störfum fyrir deildina eins og í ungmennastarfi eða með heimsóknum til langveikra barna í Rjóðrinu. Lokaverkefni nemendanna verður að sjá um markað í sjálfboðamiðstöð deildarinnar laugardaginn 15. nóvember.

26. sep. 2008 : Duglegur prjónahópur

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hittust tvisvar sinnum í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í vikunni. Fyrst var tilefnið fatapökkun þar sem afrakstri prjónaskaps síðustu mánaða var pakkað í þar til gerða fatapakka. Pakkarnir urðu alls 212 að þessu sinni og verða þeir sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Afríkuríkinu Gambíu. Í pakkana fara prjónaðar peysur, teppi, húfur og sokkar ásamt taubleyjum, samfellum og fleiru. Seinna tilefnið var hið mánaðarlega prjónakaffi þar sem sjálfboðaliðarnir hittast, fá meira garn og eiga ánægjulega stund saman. Þá komu þeir einnig með fleiri prjónavörur sem fara í fatapakka í næstu pökkun.

24. sep. 2008 : Sjálfboðaliðar óskast til að Ganga til góðs laugardaginn 4. október

Rauði krossinn þarf að minnsta kosti 2,500 sjálfboðaliða til að Ganga til góðs laugardaginn 4. október  svo að hægt sé að ná til allra heimila á landinu.

Við hvetjum fólk til að sameinast í hressandi göngu og stuðningi við gott málefni. Aðeins er gert er ráð fyrir að hver gangi í um 1-2 klukkustundir, eða eins lengi og hver og einn óskar.
 
Söfnunarféð rennur óskert til verkefnis Rauða krossins um sameiningu fjölskyldna í Kongó.  Það er því sérlega vel til þess fallið að Íslendingar noti tækifærið til að sameinast um að ganga til góðsog leggja sitt að mörkum til að sameina fjölskyldur á átakasvæðum.

22. sep. 2008 : Heimilisfólkið í Sunnuhlíð skoðar Þjóðmenningarhús

Kópavogsdeildin stóð á dögunum fyrir ferð í Þjóðmenningarhúsið fyrir heimilisfólkið í Sunnuhlíð. Rúmlega fjörutíu manns fóru í ferðina en auk íbúanna í Sunnuhlíð voru starfsmenn hjúkrunarheimilisins með í för sem og aðstandendur og sjálfboðaliðar frá deildinni. Þeir voru fólkinu innan handar í ferðinni og aðstoðuðu þá þar sem þurfti. Sú hefð hefur skapast hjá deildinni að bjóða reglulega upp á slíkar ferðir fyrir heimilisfólkið og er þá oftar en ekki farið á söfn og svo fengið sér kaffi og með því á eftir.

16. sep. 2008 : Tvær vinkonur styrkja Rauða krossinn

Vinkonurnar Karen Helga Sigurgeirsdóttir og Helga Mikaelsdóttir héldu tombólu í sumar og söfnuðu alls 9.564 kr. til styrktar Rauða krossinum. Þær komu með afraksturinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar á dögunum. Þær höfðu fengið gefins dót til að selja og sögðu að það hefði verið mjög gaman að halda tombóluna. Stelpurnar eru báðar 10 ára og eru í 5. bekk, Karen í Snælandsskóla og Helga í Digranesskóla.

11. sep. 2008 : Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi hjá Rauða krossinum...

...eru hvatningarorð Reynis Guðsteinssonar til allra á eftirlaunaaldri sem vilja láta gott af sér leiða en Reynir lét nýlega af stjórnarstörfum hjá Kópavogsdeild. Reynir kom inn í stjórn deildarinnar á aðalfundi hennar árið 2000. Hann segist alla tíð hafa verið félagslega sinnaður og hafi komið mikið að félagsmálum gegnum tíðina. Hann taldi að hann gæti hugsanlega gert gagn hjá Rauða krossinum og sló því til þegar honum bauðst sæti í stjórninni. Í fyrstu ætlaði hann bara að sitja eitt ár til reynslu en þau urðu svo á endanum átta. Hann sér ekki eftir því.

Auk stjórnarsetu, þar sem Reynir hefur hin síðustu ár verið bæði varaformaður og ritari, sat hann í stjórn Fjölsmiðjunnar og var varamaður í svæðisráði höfuðborgarsvæðisins. Hann spilaði einnig og söng ásamt öðrum í nokkurn tíma fyrir heimilisfólkið í Roðasölum en það er sambýli í Kópavogi fyrir heilabilaða. Núna er Reynir í vinnuhópi hjá Rauða krossinum sem hefur málefni geðfatlaðra á sinni könnu.

10. sep. 2008 : Heimsóknavinir hittast á samveru

Sjálfboðaliðar sem sinna heimsóknaþjónstu hjá deildinni hittust á samveru í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Samverurnar eru haldnar annan þriðjudaginn í hverjum mánuði yfir vetrarmánuðina og þá hittast heimsóknavinir sem sinna sjálfboðnum störfum í Sunnuhlíð, á sambýlum aldraðra, í Dvöl og á einkaheimilum. Markmiðið með samverunun er að heimsóknavinirnir hittist, læri af reynslu hvers annars og eigi ánægjulega stund saman. Reglulega er boðið upp á ýmsa fræðslu, hópefli eða heimsóknir.

5. sep. 2008 : Yngstu sjálfboðaliðarnir láta ekki sitt eftir liggja

Guðný Erla Snorradóttir og Kristín Anna Ólafsdóttir héldu tombólu á dögunum og færðu Rauða krossinum afraksturinn. Þær gengu í hús og söfnuðu dóti á tombóluna sem þær seldu svo. Alls seldu þær fyrir 8.108 kr. og rennur framlag þeirra í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

3. sep. 2008 : Tombóla, tombóla!

Vinkonurnar Petra Sylvie og Kara Sól komu færandi hendi í sjálfboðamiðstöðina á dögunum. Þær höfðu tekið til í dótakössunum heima hjá sér í sumar og haldið tombólu fyrir utan Sundlaug Kópavogs. Þær söfnuðu alls 4.010 kr. Í sjálfboðamiðstöðinni var tekin af þeim meðfylgjandi mynd og fengu stelpurnar að velja sér dálítinn glaðning frá Rauða krossinum.

1. sep. 2008 : Prjónahópurinn hittist aftur eftir sumarfrí

Fyrsta prjónakaffi vetrarins var haldið í sjálfboðamiðstöðinni í síðustu viku. Þrjátíu hressar konur mættu og tóku með sér handavinnu sem þær höfðu unnið að yfir sumarmánuðina. Þær komu með handprjónuð teppi, peysur, húfur, bleyjubuxur og sokka sem verður síðar pakkað í þar til gerða ungbarnapakka. Pakkarnir verða síðan sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Afríku.