30. okt. 2008 : Ráðgjöf og hlustun hjá Hjálparsíma Rauða krossins 1717

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna kvíða, þunglyndis, depurðar, efnahagsáhyggja eða jafnvel sjálfsvígshugsana. Hjálparsíminn 1717 gegnir því hlutverki að veita ráðgjöf til fólks á öllum aldri sem óskar eftir stuðningi. 

Símhringingar í Hjálparsímann hafa aukist jafnt og þétt, og hefur aukningin verið mest á þessu ári. Um 19.000 símtöl hafa borist Hjálparsímanum það sem af er árs, eða um 60 símtöl  á dag. Langflest símtölin snúast um sálræn vandamál. Síðustu vikur hefur orðið töluverð aukning í símhringingum í tengslum við fjárhagsáhyggjur og vanlíðan vegna þeirra umbrota sem nú eiga sér stað í þjóðfélaginu.

Starfsmenn og sjálfboðaliðar 1717 veita upplýsingar um hvar megi leita frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning. Meðal hlutverka Hjálparsímans er einnig að vera til staðar fyrir þá sem eru einmana og einangraðir og þurfa upplýsingar um samfélagsleg úrræði. 

24. okt. 2008 : Ungbarnanudd hjá Alþjóðlegum foreldrum

Alþjóðlegir foreldrar hittast vikulega í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og eiga skemmtilega stund saman með börnunum sínum. Reglulega er boðið upp á ýmiss konar fræðslu eða viðburði sem tengist annaðhvort ungabörnum eða innflytjendum á Íslandi. Alþjóðlegir foreldrar hafa til dæmis fengið fræðslu um starfsemi og þjónustu Alþjóðahúss, fengið kynningu á dagvistunarmálum og farið í Hreyfiland. Á dögunum tók svo einn þátttakandinn sig til og kenndi ungbarnanudd sem hún sjálf hafði lært nýlega. Foreldrarnir mynduðu hring á gólfinu eins og myndin sýnir og lærðu helstu handtökin við nuddið. Þetta vakti mikla gleði bæði hjá foreldrunum og börnunum og verður því eflaust endurtekið áður en langt um líður.

22. okt. 2008 : Eldhugar búa til brjóstsykur

Eldhugar Kópavogsdeildar hittust á fimmtudaginn í síðustu viku eins og venja er á fimmtudögum og í þetta skiptið var alveg nýtt verkefni lagt fyrir hópinn, brjóstsykursgerð. Vatni, sykri og þrúgusykri var skellt í pott og soðið, síðan var bragefnunum blandað út í og þegar efniviðurinn hafði kólnað aðeins voru brjóstsykursmolar klipptir út, mótaðir í alls konar myndir og settir á sleikjóprik, allt undir góðri handleiðslu eldri sjálfboðaliða. Í þetta skiptið bjuggu Eldhugarnir til jarðarberja- og perubrjóstsykur. Á morgun heldur brjóstsykursgerðin áfram og ætla Eldhugarnir þá að prófa lakkrísbragð og kólabragð.

Afraksturinn verður síðan seldur á handverksmarkaði sem deildin mun standa fyrir 15. nóvember næstkomandi. Markaðurinn verður auglýstur nánar síðan en á honum munu finnast prjónaflíkur og annað handverk frá sjálfboðaliðum deildarinnar en einnig handverk alla leiðina frá Mósambík þar sem deildin er í vinadeildasamstarfi með Rauða kross deild í Maputo-héraði í Mósambík.

17. okt. 2008 : Heimsóknavinur Kópavogsdeildar fer á slóðir Alþjóða Rauða krossins í Genf

Bragi Óskarsson er heimsóknavinur sem sinnir heimsóknum á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð. Þar stendur hann fyrir vikulegum söngstundum fyrir heimilisfólkið með fleiri heimsóknavinum. Bragi byrjaði sem sjálfboðaliði hjá deildinni fyrir rúmum tveimur árum síðan þegar hann hætti að vinna og fór á eftirlaun. Hann hafði séð auglýsingu um starf deildarinnar og kom í sjálfboðamiðstöðina til að fá frekari upplýsingar. Hann byrjaði svo fljótlega í Sunnuhlíð, fyrst við upplestur í afleysingum en síðan í sönghópnum.

Bragi hefur einnig farið í ferðir með heimilisfólkinu í Sunnuhlíð og verið því innan handar en Kópavogsdeildin stendur reglulega fyrir ferðum á söfn og í messur. Bragi fór einnig í allmerkilega ferð í september en þá fór hann til Genf á vegum Rauða krossins í árlega sjálfboðaliðaferð þar sem sjálfboðaliðarnir fá kynningu á starfsemi Alþjóða Rauða krossins. Hann var dreginn úr potti sjálfboðaliða hjá Kópavogsdeild og fór utan með konu sinni. Alls voru tæplega fjörutíu manns í ferðinni frá fleiri deildum Rauða krossins og varði hópurinn fjórum dögum í Genf.

15. okt. 2008 : Fataúthlutun hafin á ný

Fatasöfnun Rauða krossins hóf fataúthlutun á ný í dag kl. 10 í nýju húsnæði félagsins að Laugavegi 116, í Reykjavík, eftir stutt hlé meðan á flutningi Fataflokkunarstöðvar Rauða krossins stóð. Fólk sem á þarf að halda getur leitað í úthlutunina á Laugavegi, á miðvikudögum milli kl. 10 og 16 , og fengið föt án endurgjalds.

Ráðgert er að úthluta að minnsta kosti vikulega og getur hver einstaklingur fengið um 4-5 kg af fötum í hvert sinn. Hér er um að ræða samstarfsverkefni deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.

Um 2.300 manns fengu úthlutað fötum í fyrra og á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefur um 1.200 manns fengið föt hjá söfnuninni.

15. okt. 2008 : Svæðisfundur á höfuðborgarsvæði

Svæðisfundur Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu var haldinn í húsnæði Garðabæjardeildar í gær. Fulltrúar allra deilda á svæðinu sátu fundinn.

Að loknum hefðbundnum svæðisfundarstörfum (skýrslu formanns, kjöri á svæðisráði næsta árs og umræðum um fjárhags- og framkvæmdaáætlun) kynnti Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins nýsamþykktar siðareglur félagsins.

13. okt. 2008 : Hjálparsíminn 1717 er alltaf opinn!

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.

10. okt. 2008 : Nýr samstarfssamningur undirritaður um rekstur Dvalar

Í gær var haldið upp á 10 ára afmæli Dvalar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir í Kópavogi. Yfir 100 manns tóku þátt í því að fagna þessum merka áfanga í safnaðarheimili Digraneskirkju. Þar voru mættir fulltrúar frá Félags- og tryggingamálaráðuneytinu ásamt landsskrifstofu Rauða kross Íslands, starfsfólk og gestir annarra athvarfa á höfuðborgarsvæðinu og að sjálfsögðu starfsfólk, gestir og sjálfboðaliðar Dvalar.

Einnig voru viðstaddir fulltrúar frá rekstraraðilum athvarfins, þ.e. Kópavogsdeildinni, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi og Kópavogsbæ. Tækifærið var notað til að skrifa undir nýjan samstarfssamning þessara þriggja aðila um rekstur Dvalar. Samningurinn er til þriggja ára og tryggir áframhaldandi starfsemi athvarfsins.

9. okt. 2008 : Athvarfið Dvöl í Kópavogi 10 ára

Í dag verður haldið upp á tíu ára afmæli Dvalar sem er í Reynihvammi 43. Athvarfið er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins, Kópavogsbæjar og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi.

„Athvarfið hefur í tímans rás sannað gildi sitt og rofið einangrun fjölda fólks sem glímir við geðraskanir," segir Þórður Ingþórsson forstöðumaður Dvalar. Þórður segir að frá upphafi hafi verið lögð áhersla á að efla sjálfstæði og virkni gesta og er fólk aðstoðað við að leita nýrra leiða í leik og starfi óski viðkomandi þess. Margir sækja staðinn eftir að hafa dvalist á geðdeild en allir komi til að njóta samveru.

6. okt. 2008 : Nær 200 gengu til góðs í Kópavogi

Um 200 sjálfboðaliðar á öllum aldri gengu til góðs í Kópavogi á laugardaginn en það er mun meiri þátttaka en víða annars staðar. Alls söfnuðust 1.688.000 krónur í baukana í Kópavogi og er það jafnframt mun betri árangur en náðist í mörgum nágrannasveitarfélaganna sé miðað við íbúafjölda. Kópavogsdeild kann öllum sem tóku þátt í Göngum til góðs í Kópavogi bestu þakkir fyrir framlagið.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vorum við undir það búin að þátttaka yrði dræmari en fyrir tveimur árum þegar 350 manns gengu með okkur til góðs hér í bænum. Þetta gekk eftir en við getum þó verið stolt af framlagi Kópavogsbúa, hvort sem litið er til fjölda sjálfboðaliða eða til upphæðarinnar sem safnaðist. Sjálfboðaliðum okkar var nánast undantekningarlaust vel tekið, segir Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og söfnunarstjóri í Kópavogi. Hann vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til starfsfólks og þeirra sem mönnuðu söfnunarstöðvarnar og stóðu sína vakt frá því snemma að morgni og fram eftir deginum.

5. okt. 2008 : Færri Gengu til góðs en fengu frábærar móttökur

Um 1000 sjálfboðaliðar Gengu til góðs í gær með Rauða krossinum til styrktar verkefnis um sameiningu fjölskyldna í Kongó sem sundrast hafa vegna stríðsátaka. Reynslan hefur sýnt að það þarf að minnsta kosti um 2000 manns til að ganga í öll hús á landinu, og því er ljóst að einungis tókst að ná til um 50% landsmanna í söfnuninni í gær. Rauði krossinn er mjög þakklátur þeim sem gáfu af tíma sínum í gær og Gengu til góðs, og vill einnig þakka þeim sem tóku á móti sjálfboðaliðunum og gáfu í söfnunina.

Rauði krossinn hvetur þá sem ekki gafst tækifæri til að gefa í söfnunina í gær að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 903 1010, 903 3030 og 903 5050. Þá dragast frá kr. 1000 kr., kr. 3000 kr. eða kr. 5000 frá næsta símreikningi. Símarnir verða opnir út þessa viku.

5. okt. 2008 : Bestu þakkir!

Kópavogsdeild þakkar öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið í göngum til góðs. Þá þökkum við bæjarbúum fyrir góðar móttökur, framlag ykkar skiptir miklu máli.

Kynningarfundur um starfsemi Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11, 2 hæð, miðvikudaginn 8. október kl.18.

Áhugasamir eru eindregið hvattir til að mæta og  kynna sér verkefni deildarinnar.

Frekari upplýsingar um fundinn fást í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

2. okt. 2008 : Mætum öll og göngum til góðs með Rauða krossinum á laugardag

Rauði krossinn skorar á fólk að gerast sjálfboðaliði í klukkustund laugardaginn 4. október og Ganga til góðs fyrir landssöfnun Rauða krossins. Söfnunarféð rennur óskert í verkefni til að sameina fjölskyldur í Kongó sem hafa sundrast vegna stríðsátaka.

Alls hafa nú á fjórða hundrað skráð sig til þátttöku í Göngum til góð en Rauða krossinn vantar 2500 sjálfboðaliða til að ná til allra heimila á landinu. Einkum vantar sjálfboðaliða í Reykjavík.  Á höfuðborgarsvæðinu eru 24 söfnunarstöðvar í öllum hverfum borgarinnar og í Kópavogi,  Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og á Álftanesi og Seltjarnarnesi. Fólk sem vill Ganga til góðs með Rauða krossinum fyrir gott málefni er hvatt til að skrá sig á www.raudikrossinn.is eða í síma 570 4000.

Rauði krossinn náðu að virkja 2500 sjálfboðaliða síðast þegar var Gengið til góðs árið 2006 og nú vill Rauði krossinn endurtaka þann frábæra árangur.