27. nóv. 2008 : Prjónahópurinn fjölmennir í prjónakaffi

Í gær var haldið síðasta prjónakaffi deildarinnar fyrir jól og mættu yfir þrjátíu hressar prjónakonur. Þær komu með prjónavörur sem þær hafa unnið að síðasta mánuðinn og fengu meira garn til að halda áfram að prjóna. Svo voru veitingar í boði sem þær gæddu sér á yfir prjónum og spjalli. Framlag þessara sjálfboðliða er sent til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví og Gambíu en einnig í Rauða kross búðirnar hér á landi þar sem alltaf er mikil eftirspurn eftir til dæmis handprjónuðum vettlingum og sokkum.

26. nóv. 2008 : Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd veita neyðaraðstoð í Kópavogi

Kópavogsdeild Rauða krossins og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs hafa gert samkomulag um neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur í Kópavogi fyrir jólin. Kópavogsdeild Rauða krossins hefur stóraukið framlag sitt vegna aðstoðarinnar miðað við fyrri ár enda er búist við að fleiri leiti aðstoðar nú.
 
Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd hvetja fyrirtæki og stofnanir til að styrkja hjálparstarfið fyrir jólin með vörum eða fjárframlögum. Rauði krossinn þarf á talsverðum fjölda sjálfboðaliða að halda vegna verkefnisins og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected].

25. nóv. 2008 : Jólaföndur og jólabakstur í fangelsinu í Kópavogi

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sáu um jólaföndur í fangelsinu síðustu tvo laugardaga fyrir þá sem sitja af sér dóm þar. Beiðni barst frá fangelsinu um aðstoð sjálfboðaliðanna til að auka afþreyingu fyrir fólkið sem situr þar inni og koma af stað dálitlum jólaundirbúningi. Fyrstu laugardagana í desember munu sjálfboðaliðar svo sjá um að leiðbeina fólkinu í jólabakstri.

24. nóv. 2008 : Nemendur í Hjallaskóla fá fræðslu um starf Kópavogsdeildar

Um fimmtíu nemendur unglingadeildar Hjallaskóla komu í sjálfboðamiðstöðina fyrir helgi og fengu fræðslu um starf deildarinnar. Fræðslan var hluti af þemadögum í skólanum sem stóð yfir í síðustu viku og var þemað mannúð.

Í sjálfboðamiðstöðinni fengu nemendurnir fræðslu um heimsóknaþjónustuna, fataverkefnið, verkefni tengd innflytjendum, vinadeildasamstarfið og að sjálfsögðu Eldhugana en það er starf sem þessum nemendum stendur einmitt til boða að taka þátt í. Þeir sáu myndband úr starfinu frá því í fyrra og myndir úr starfi síðustu mánaða. Eldhugarnir hittast á fimmtudögum kl. hálfsex og er opið fyrir alla 13-16 ára Kópavogsbúa.

19. nóv. 2008 : Sparifatasöfnun Rauða krossins laugardaginn 22. nóvember

Rauði krossinn leitar eftir aðstoð almennings til að gefa vel með farinn sparifatnað fyrir börn og fullorðna í sérstakri sparifatasöfnun laugardaginn 22. nóvember milli kl. 11:00-15:00.  Með því að gefa í söfnun Rauða krossins er hægt að veita fjölskyldum og einstaklingum tækifæri til að eignast spariföt fyrir jólin í fataúthlutun félagsins eða fá þau á hagstæðu verði í verslunum Rauða krossins.

Rauði krossinn hvetur alla til að kíkja í skápana og finna föt sem ekki eru lengur í notkun en gætu öðlast nýtt líf hjá nýjum eiganda. Tekið verður á móti sparifatnaðinum á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu og víðsvegar úti á landi.

18. nóv. 2008 : Nú reynir á

Rauði krossinn hefur þann tilgang að koma fólki til hjálpar þegar á reynir. Það hefur hann gert í stóru og smáu, hér heima og erlendis, og nú er óhætt að segja að mjög reyni á hlutverk félagsins í íslensku samfélagi. Rauði krossinn hefur þegar ráðist í aðgerðir til þess að aðstoða fólk í gegnum yfirstandandi þrengingar og mun beita kröftum sínum í náinni framtíð til þess að lina þjáningar þeirra sem eiga um sárt að binda vegna efnhagsástandsins.

17. nóv. 2008 : Siðareglur fyrir sjálfboðaliða og starfsmenn Rauða krossins

Stjórn Rauða kross Íslands samþykkti nýverið siðareglur fyrir alla sjálfboðaliða og starfsmenn Rauða kross Íslands og deilda. Reglurnar eru í níu liðum og fjalla meðal annars um samskipti fólks, trúnað við skjólstæðinga, öflun fjármuna og hagsmunaárekstra. Siðareglurnar eru settar í samræmi við ákvæði í stefnu félagsins.

17. nóv. 2008 : Fjöldi fólks fær fræðslu um sálrænan stuðning

Fjöldi fólks hefur að undanförnu sótt námskeið Kópavogsdeildar um sálrænan stuðning en námskeiðin hafa verið haldin án endurgjalds. Síðasta námskeiðið að sinni verður haldið mánudaginn 8. desember næstkomandi og er enn unnt að skrá sig til þátttöku. Námskeiðin eru liður í aðgerðum Kópavogsdeildar vegna efnahagskreppunnar.

15. nóv. 2008 : 600 þúsund krónur söfnuðust á handverksmarkaði MK-nema í dag

Á handverksmarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu í dag söfnuðust um 600 þúsund krónur. Afraksturinn rennur óskiptur til að styrkja ungmenni í Maputo-héraði í Mósambík en Kópavogsdeildin er í vinadeildasamstarfi með Rauða krossinum í Maputo-héraði.

15. nóv. 2008 : Handverksmarkaðurinn í dag fer vel af stað!

Mikil aðsókn hefur verið á handverksmarkað deildarinnar sem hófst kl. 10 í morgun. Margir áhugasamir hafa komið og gert góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá hefur verið sérstaklega mikill áhugi á handverki frá Mósambík en til sölu eru batik-myndir, armbönd, hálsmen, box í ýmsum stærðum og gerðum ásamt töskum. Þögult uppboð er í gangi á sérlega veglegum hlutum frá Mósambík.

14. nóv. 2008 : Ungir og aldnir vinna saman að því að safna fyrir Rauðakrossdeildina í Maputo

Kópavogsdeild Rauða krossins stendur fyrir handverksmarkaði til styrktar Rauðakrossdeild í Mósambík. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 14.11.2008.

13. nóv. 2008 : Handverksmarkaður Rauða krossins 15. nóvember

Hér er tækifæri til að verða sér úti um fallegt handverk, setja það jafnvel í jólapakkana og styrkja um leið gott málefni!

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur handverksmarkað laugardaginn 15. nóvember kl. 10-18 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma fleiri sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum.

12. nóv. 2008 : Ókeypis fjármálanámskeið haldin hjá Kópavogsdeild

Tekist hefur samstarf með Kópavogsdeild, Kópavogsbæ og Neytendasamtökunum um að bjóða bæjarbúum uppá fjármálanámskeið án endurgjalds. Námskeiðin verða tvö fyrst um sinn, það fyrra 24. nóvember og það síðara 1. desember. Að sögn Garðars H. Guðjónssonar, formanns Kópavogsdeildar, verður metið í framhaldinu hvort ástæða sé til að bjóða fleiri námskeið.

3. nóv. 2008 : Opnar samverur og aðstoð

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er opin alla virka daga frá kl. 10-16 og er fólk ávallt velkomið að kíkja í heimsókn í kaffi og spjall. Deildin býður einnig upp á opnar samverur fyrir ýmsa hópa samfélagsins. Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 sem hittast í sjálfboðamiðstöðinn á fimmtudögum kl. 17.30-19.00, hópur kvenna á öllum aldri hittist síðasta miðvikudag hvers mánðar kl. 16-18 í svokölluðu prjónakaffi þar sem þær sinna handavinnu og svo hittist hópur mæðra frá ýmsum löndum með lítil börn sín á fimmtudögum kl. 10-11.30. Þátttaka í þessum samverum er ókeypis og opin öllum.