28. des. 2008 : Tilnefning á Skyndihjálparmanni ársins 2008

Veist þú um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum hefur bjargað mannslífi á árinu 2008?  Ef svo er - sendu okkur upplýsingar.

Á hverju ári velur Rauði krossinn „Skyndihjálparmann ársins“. Þá er einstaklingi sem hefur á árinu veitt almenna skyndihjálp á eftirtektarverðan hátt afhent viðurkenning við hátíðlega athöfn. Tilgangurinn með tilnefningunni er ekki síst að vekja athygli almennings á mikilvægi skyndihjálpar og hvetja sem flesta til að vera undir það búnir að veita hjálp á vettvangi slysa og áfalla.  

Ábendingar um eftirtektarverðan atburð þar sem hinn almenni borgari hefur brugðist við slysi eða veikindum til bjargar mannslífi er hægt að gera á vefnum með því að smella hér eða senda með pósti á Rauða kross Íslands Efstaleiti 9, 103 Reykjavík, merktar „Skyndihjálparmaður ársins“.

22. des. 2008 : Gleðileg jól

Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar verður lokuð frá og með 22. desember en opnar aftur mánudaginn 5. janúar 2009, kl.10.

Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir verður lokað 24.-28. desember, 31. desember og 1. janúar.

19. des. 2008 : Opið hús í Dvöl á laugardögum

Opið hús er í Dvöl, athvarfi Kópavogsdeildar að Reynihvammi 43, á hverjum laugardegi kl. 11-14 og er boðið uppá léttan hádegisverð fyrir gesti. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar taka vel á móti gestum í Dvöl á laugardögum en athvarfið er annars opið virka daga kl. 9-16. Reksturinn er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar, Kópavogsbæjar og svæðisskrifstofu málefna fatlaðra.


18. des. 2008 : Mun fleiri leituðu neyðaraðstoðar í Kópavogi

Um 40 sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins voru að störfum fyrir jólin vegna matar- og fataúthlutana og í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir. Sjálfboðaliðum við þessi verkefni hefur fjölgað mjög frá síðasta ári enda hafa mun fleiri leitað aðstoðar nú en á undanförnum árum. Þá eru ótaldir þeir sjálfboðaliðar sem sinna heimsóknaþjónustu og fleiri verkefnum á vegum deildarinnar. Um 50 heimsóknavinir fóru í desember á einkaheimili, stofnanir fyrir aldraða, í fangelsið í Kópavogi og víðar til að draga úr félagslegri einangrun.

18. des. 2008 : Hjálpfús í leikskóla Kópavogs

Kópavogsdeildin hefur sent eintak af sjöundu sögustund fræðsluefnisins Hjálpfús heimsækir leikskólann, Tilfinningar, og DVD-disk með Hjálpfúsþáttunum úr Stundinni okkar til allra leikskóla í Kópavogi.

Fræðsluefnið er hugsað sem leið til að ná til barnanna vegna erfiðrar stöðu margra heimila vegna ástandsins í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ekki er talað um efnahagsþrengingar heldur reynt að koma á framfæri hvernig ná má fram jákvæðum tilfinningum.

16. des. 2008 : Heimilisfólk í Sunnuhlíð færir Kópavogsdeildinni prjónavörur að gjöf

Konur á dvalarheimilinu Sunnuhlíð gáfu deildinni veglega gjöf í dag, um 100 prjónuð teppi ásamt peysum, húfum, sokkum og vettlingum. Þær höfðu sinnt þessari handavinnu síðasta árið og gerðu sér dagamun í hádeginu með jólaveitingum þegar prjónavörurnar voru afhentar verkefnastjóra deildarinnar, Dögg Guðmundsdóttur.

Þessar vörur eru kærkomin gjöf og renna í verkefni deildarinnar sem kallast Föt sem framlag. Hluti þeirra verður seldur í Rauða kross búðunum á höfuðborgarsvæðinu og hluti verður sendur erlendis, einkum til Afríku, þar sem börn í neyð njóta góðs af þeim. Við þökkum konunum í Sunnuhlíð kærlega fyrir þessa hlýju gjafir.   

16. des. 2008 : Fataúthlutun hjá Rauða krossinum á miðvikudögum

Rauða kross deildirnar á höfuðborgarsvæðinu standa að úthlutun á notuðum fatnaði alla miðvikudaga kl. 10-14. Sjálfboðaliðar Rauða krossins annast úthlutunina. Úthlutun fer fram að Laugavegi 116, gengið inn af bílastæði Grettisgötumegin. Verslanir Rauða krossins eru að Laugavegi 12 og Laugavegi 116 Reykjavík og Strandgötu 24 Hafnarfirði. Í verslununum er unnt að fá góðan fatnað á mjög sanngjörnu verði.

Vaxandi fjöldi fólks hefur nýtt sér þessa aðstoð Rauða krossins að undanförnu og eru þeir sem á þurfa að halda hvattir til þess að þiggja hana.

15. des. 2008 : Þrjár Rauða kross búðir á höfuðborgarsvæðinu

Rauði krossinn rekur þrjár búðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að kaupa ódýr, notuð föt. Tvær eru á Laugaveginum í Reykjavík og ein við Strandgötu í Hafnarfirði. Rauði krossinn er með sérstaka gáma á Sorpu-stöðvunum þar sem fólk getur skilið eftir föt sem það notar ekki lengur. Fötin fara svo í Fatasöfnunarstöð Rauða krossins þar sem þau eru flokkuð fyrir búðirnar. Hægt er að gera góð kaup á fötum fyrir karla, konur, unglinga og börn.

12. des. 2008 : MK-nemar fá viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru ellefu í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir tóku einnig þátt í landssöfnun Rauða krossins í október, Göngum til góðs, héldu dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að halda handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni.

10. des. 2008 : Tombólukrökkum boðið í bíó í tilefni af degi sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðar Rauða krossins eru á öllum aldri, þau yngstu  hafa í gegnum tíðina verið iðin við að halda tombólur og nýtur Rauði kross Íslands góðs af þeirri vinnu. Um 450 börn um allt land stóðu á árinu fyrir alls konar söfnunum til að styrkja starf Rauða krossins. Á árinu söfnuðust 600.000 krónur.

Það var spenna í loftinu í Laugarásbíói á laugardaginn þegar tombólukrakkar Rauða krossins mættu til að horfa á myndina Lukkuláka. Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar stóð fyrir bíósýningunni en eins og undanfarin ár gaf Laugarásbíó sýninguna.

 

9. des. 2008 : Jólagjafir stórfjölskyldunnar fara til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs í ár

„Eftir að ég las um fjölgun fólks sem þarf á mataraðstoð að halda fyrir jólin, í kjölfar kreppunnar, ákvað ég í ár að gefa peningana, sem ella hefðu farið í jólagjafir til stjórfjölskyldunnar, vina og barna þeirra, til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs“ segir Ingunn Ásta Sigmundsdóttir, sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeild Rauða krossins.

Stórfjölskyldan og vinirnir tóku fréttum af pakkaleysinu um jólin mjög vel og þótti þetta góð og gegn hugmynd. Móðursystir Ingunnar Ástu var svo ánægð með hugmyndina að hún ákvað að bæta við upphæðina í nafni barna sinna, og því fær Mæðrastyrksnefnd Kópavogs afhent í dag 35.000 krónur til innkaupa á mat og öðrum nauðsynjum fyrir fjölskyldur sem þangað sækja nú fyrir jólin. Þá er gaman að segja frá því að amma Ingunnar Ástu fékk kvennfélagið þar sem hún býr til að gefa Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur andvirði jólagjafa til félagskvenna í ár.

8. des. 2008 : Sjálfboðaliðagleði í sjálfboðamiðstöðinni

Í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans 5. desember hélt deildin sjálfboðaliðagleði í sjálfboðamiðstöðinni á föstudaginn síðastliðinn. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga.

Að venju var boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttamaður og rithöfundur, las úr bók sinni, Magnea og Katrín Baldursdóttir las nokkur ljóð úr nýútkominni ljóðabók sinni, Þak hamingjunnar. Þá léku nemendur úr Tónlistarskóla Kópavogs fyrir gestina. Svo var happdrætti og voru fjórir heppnir sjálfboðaliðar leystir út með gjöfum. Sjálfboðaliðar deildarinnar slógu sjálfir botninn í dagskrána með fjöldasöng. Sjálfboðaliðar sem stjórna söngstundum í Sunnuhlíð leiddu fjöldasönginn og voru sungin jólalög í bland við önnur gömul og góð íslensk lög.

5. des. 2008 : Til hamingju með daginn!

Í tilefni af  alþjóðadegi sjálfboðaliðans í dag, 5. desember, færir Kópavogsdeild Rauða krossins þeim fjölmörgu sem unnið hafa sjálfboðið starf á vegum deildarinnar innilegar þakkir fyrir ómetanlegt framlag á árinu.

Kópavogsdeild hefur starfað með Kópavogsbúum í blíðu og stríðu í hálfa öld en þátttaka sjálfboðaliða í starfinu hefur líklega aldrei verið meiri en nú. Nú er óhætt að segja að mjög reyni á hlutverk Rauða krossins í íslensku samfélagi. Deildin hefur þegar ráðist í margvíslegar aðgerðir til þess að aðstoða fólk í gegnum yfirstandandi þrengingar. Allt þetta starf er borið uppi af sjálfboðaliðum.

4. des. 2008 : Námskeið í sálrænum stuðningi 8. desember – án endurgjalds

Kópavogsdeildin heldur námskeið í sálrænum stuðningi í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11, 2 hæð, mánudaginn 8. desember kl. 17-21.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.

3. des. 2008 : Sjálfboðaliðar í leikhús

Hópur sjálfboðaliða fór á leiksýninguna Vestrið eina í boði Borgarleikhússins um helgina. Höfundur þessa alvöru gamanverks um tvo bræður er Martin McDonagh en Ingunn Ásdísardóttir þýddi það yfir á íslensku og leikstjórn er í höndum Jóns Páls Eyjólfssonar. Kópavogsdeild þakkar Borgarleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

1. des. 2008 : Barnalán hjá Alþjóðlegum foreldrum

Eins og meðfylgjandi mynd sýnir ríkir mikið barnalán hjá þátttakendunum í verkefninu Alþjóðlegum foreldrum. Verkefnið gengur vel og hittist góður hópur mæðra með börnin sín á fimmtudagsmorgnum í sjálfboðamiðstöðinni. Mæðurnar koma hingað til að hitta aðrar mæður og spjalla yfir kaffibolla. Reglulega er einnig boðið upp á stutta íslenskukennslu og kynningar. Tilgangurinn með þessum samverum er að rjúfa félagslega einangrun foreldra með lítil börn. Þátttakendurnir koma frá ýmsum löndum eins og Ástralíu, Póllandi, Noregi, Frakklandi, Rússlandi, Spáni, Lettlandi, Eistlandi, Mexíkó og Moldova. Samverurnar eru opnar foreldrum allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára og vilja hitta aðra með lítil börn.