21. des. 2009 : Lokun um jól og áramót.

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar verður lokuð frá og með 21. desember en opnar aftur mánudaginn 4. janúar 2010, kl.10.

Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.

Hægt er að hafa samband með því að senda línu á [email protected]

18. des. 2009 : Góð gjöf

Deildinni barst góð gjöf á dögunum, styrkur að upphæð 100 þúsund krónur, sem rennur til neyðaraðstoðar innanlands. Þetta er mjög kærkomin gjöf á þessum árstíma. Deildin hefur meðal annars verið í samstarfi við Mæðrastyrksnefnd Kópavogs núna fyrir jólin til að aðstoða Kópavogsbúa og hafa þeir getað fengið matargjafir, föt og annað.

17. des. 2009 : Gott ár hjá sjálfboðaliðunum í verkefninu Föt sem framlag

Í ár útbjuggu sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag 637 fatapakka með ungbarnafötum sem síðan voru sendir til fjölskyldna og barna í neyð. Pakkarnir fara venjulega til Malaví en stór hluti af afrakstrinum á þessu ári fór til Hvíta-Rússlands núna í desember þar sem Rauða krossi Íslands hafði í nóvember borist neyðarbeiðni frá Rauða krossinum þar í landi. Tvö þúsund pakkar voru sendir til Hvíta-Rússlands að þessu sinni.

14. des. 2009 : Fjölmargar nýjar heimsóknir hundavina á síðustu mánuðum

Frá því í september hafa fjölmargar nýjar heimsóknir hafist þar sem heimsóknavinir Kópavogsdeildar heimsækja með hunda sína. Í september hófst heimsókn í fangelsið í Kópavogi og er það í fyrsta skipti sem hundur heimsækir þangað. Eigandi hans fer með hann einu sinni í viku í fangelsið og fá vistmennirnir að njóta félagsskapar þeirra. Þá hófust tvær heimsóknir á hjúkrunarheimilið Grund og skiptast tveir heimsóknavinir á að heimsækja heimilið og fær heimilisfólkið því heimsókn frá hundi einu sinni í viku.

Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, fékk aftur til sín hund í október eftir nokkurt hlé og gleður hann gesti athvarfsins vikulega með nærveru sinni. Í lok nóvember fór svo fyrsti hundurinn í heimsókn með eiganda sínum á líknardeildina í Kópavogi. Sá hundur er kóngapúðli og heitir Charly. Á meðan heimsóknavinurinn ræðir við fólkið á deildinni getur það klappað og knúsað Charly. Heimsóknavinir með hunda heimsækja þó ekki bara stofnanir heldur líka einkaheimili og hófst ein slík heimsókn á dögunum. Þá fer heimsóknavinurinn og hundurinn með gestgjafa sínum út að ganga. Nýjasta heimsóknin hófst svo í síðustu viku en labrador að nafni Óðinn heimsækir Hrafnistu í Reykjavík með eiganda sínum. 

11. des. 2009 : Lokasamverur fyrir jól

Í þessari viku voru síðustu samverur Enter, Eldhuga og Alþjóðlegra foreldra. Hóparnir hafa hist einu sinni í viku í sjálfboðamiðstöðinni síðan um miðjan september en fara nú í jólafrí fram í miðjan janúar.

Alþjóðlegir foreldarar hittust í gærmorgun og nutu veitinga í anda jólanna og hlustuðu á jólalög. Í boði voru malt og appelsín, smákökur, konfekt og kertaljós. Foreldrarnir hafa verið duglegir að mæta í vetur og auka Íslendinga hafa mæður frá Þýskalandi, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Kanada og Suður-Afríku tekið þátt. Hópurinn hefur fengið ýmis konar fræðslu, t.d. varðandi svefn og mat barna, dagvistunarmál og ungbarnanudd.

10. des. 2009 : Nemendur frá Austurbæjarskóla í starfskynningu hjá Kópavogsdeild

Í gær tók Kópavogsdeild á móti tveimur 10. bekkingum úr Austurbæjarskóla í starfskynningu. Nemarnir heita Martin og Prezemyslav en þeir koma frá Slóvakíu og Póllandi. Þeir fylgdu verkefnastjóra ungmenna- og alþjóðamála yfir daginn. Þeir fóru í heimsókn í Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, og fylgdust með starfi fyrir unga innflytjendur sem hittast í sjálfboðamiðstöðinni á miðvikudögum. Auk þess fengu nemarnir fræðslu um hugsjónir, markmið og störf Rauða krossins og kynningu á helstu verkefnum Kópavogsdeildar.  
 

8. des. 2009 : Nemendur í SJÁ 102 fá viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru tuttugu í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, sem námsvinir jafningja og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni sem haldinn var þann 14. nóvember síðastliðinn.

7. des. 2009 : Sjálfboðaliðar gleðjast í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Um fjörutíu sjálfboðaliðar mættu í sjálfboðamiðstöðina síðasta föstudagskvöld til að fagna í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans en hann er haldinn 5. desember ár hvert. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga.

Að venju var boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Formaður deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson, hóf gleðina á því að minnast á mikilvægi sjálfboðaliða en síðan tók við upplestur tveggja rithöfunda. Þórarinn Eldjárn las upp úr bók sinni Alltaf sama sagan og Jón Kalman Stefánsson las upp úr bókinni Harmur englanna sem er nýkomin út. Þá flutti Eldhuginn Hulda Hvönn frumsamið ljóð og Eldhugarnir Kristína, Ólöf og Rakel sungu. Ungur gítarnemandi úr Tónlistarskóla Kópavogs kom og spilaði nokkur lög og síðan slógu sjálfboðaliðarnir sjálfir botninn úr dagskránni með fjöldasöng.

3. des. 2009 : Sjálfboðaliðagleði á morgun, föstudag, í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar er boðið á kvöldskemmtun 4. desember kl. 19.30-21.30 í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Við hvetjum því alla sjálfboðaliða okkar til að mæta og eiga skemmtilega kvöldstund saman í sjálfboðamiðstöðinni.
 

1. des. 2009 : Jafningjafræðsla á alþjóðlegum alnæmisdegi

Alþjóðlegur baráttudagur gegn alnæmi er í dag 1. desember. Fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar hefur af því tilefni sinnt forvarnarfræðslu um alnæmi fyrir alla lífsleikninema Menntaskólans í Kópavogi undanfarna daga og vikur. Auk þess hélt hópurinn fyrirlestur og kynningu á Tyllidögum skólans í haust.

Fræðsluhópur sinnir fræðslu og forvörnum, bæði fyrir jafningja og yngri hópa og vinnur með eitt átaksverkefni á hverri önn. Verkefnið sem varð fyrir valinu í haust var fræðsla um alnæmi og hefur hópurinn leitast við að vekja jafningja sína til umhugsunar. Fræðslan var í formi hlutverkaleiks, auk fyrirlesturs þar sem fjallað var um helstu staðreyndir er varða sjúkdóminn. Fræðsluhópur vann þetta átaksverkefni í samstarfi við HIV–samtök Íslands.

 

30. nóv. 2009 : Vel heppnaður skiptidótamarkaður og kakó á laugardaginn

Tuttugu og þrír sjálfboðaliðar Kópavogsdeildarinnar stóðu vaktina síðasta laugardag á skiptidótamarkaði í Molanum og við að gefa gestum og gangandi kakó og piparkökur á jólaskemmtun á Hálsatorgi á laugardaginn. Á markaðinum voru notuð leikföng sem fólk gat fengið í skiptum fyrir dót sem það átti og þannig endurnýjað í dótakassa barna sinna. Þá var einnig hægt að kaupa notuð leikföngin á vægu verði. Alls var selt fyrir 16 þúsund krónur og munu þær renna í neyðaraðstoð innanlands.

Þegar kveikt var á jólatré Kópavogs á Hálsatorgi síðar um daginn voru sjálfboðaliðar tilbúnir með heitt kakó og piparkökur fyrir þá sem komu til að fylgjast með dagskránni á torginu. Þetta voru heimsóknavinir, sjálfboðaliðar í neyðarvörnum og í verkefninu Föt sem framlag. Þá voru einnig sjálfboðaliðar í eldhúsinu í Molanum að búa til kakóið.

27. nóv. 2009 : Skiptidótamarkaður í Molanum og kakó á Hálsatorgi á morgun, laugardaginn

Á morgun, laugardaginn 28. nóvember, verður mikið um að vera hjá deildinni. Í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs, verður haldinn skiptidótamarkaður frá kl. 12-16. Þar gefst fólki tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Þá er einnig hægt að kaupa notuð leikföng á vægu verði og styrkja gott málefni en ágóðinn rennur til neyðaraðstoðar innanlands. Sjálfboðaliðar í ungmennastarfi deildarinnar, Plúsnum, sjá um markaðinn.

Frá kl. 16-17 verða svo aðrir sjálfboðaliðar deildarinnar á Hálsatorgi þegar kveikt verður á jólatré Kópavogs. Þeir verða með heitt kakó og piparkökur fyrir gesti og gangandi á meðan á skemmtiatriðum stendur og tendrað verður á ljósunum á trénu.

25. nóv. 2009 : Gefur fólki virkilega mikið að knúsa dýr

Heimsóknir hunda frá Rauða krossinum hófust á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gær. Á vegum Rauða krossins er fjöldi sjálfboðaliða sem fer með hunda sína í heimsóknir á stofnanir til að gleðja vistmenn, oftast eldra fólk. Greinin birtist í Fréttablaðinu 25.11.2009.

25. nóv. 2009 : Líf og fjör í sjálfboðamiðstöðinni á prjónakaffi

Núna stendur yfir prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og eru fjöldi prjónakvenna saman komnar til að njóta góðrar stundar yfir prjónum og kaffi. Konurnar hafa skilað inn því sem þær hafa prjónað síðasta mánuðinn og fengið meira garn til að halda áfram handavinnu sinni. Konurnar eru sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag og hittast í prjónakaffi síðasta miðvikudag í hverjum mánuði frá kl. 15-18.

23. nóv. 2009 : Fræðslukvöld vegna liðsauka

Miðvikudaginn 25. nóvember kl. 19.30-21.00 verður haldin kynning á liðsauka í sjálfboðamiðstöð deildarinnar að Hamraborg 11, 2. hæð. Þar verður neyðaraðstoð Rauða krossins kynnt, hlutverk liðsauka útskýrt og kynning á starfsemi deildar. Neyðarvarnakerfi Rauða krossins byggir á því að fólk eigi rétt á tafarlausri aðstoð í kjölfar náttúruhamfara og slysa. Mikil áhersla er lögð á að alls staðar á landinu megi finna hóp fólks sem þjálfaður er í að bregðast við með því að skjóta skjólshúsi yfir fólk, skrá það og veita alla fyrstu aðstoð.

19. nóv. 2009 : Handverk til sölu í sjálfboðamiðstöðinni

Enn er handverk til sölu í sjálfboðamiðstöðinni frá því á handverksmarkaðinum um síðustu helgi. Það má meðal annars finna prjónaðar peysur á góðu verði, trefla, vettlinga, sokka og húfur. Þá eru einnig saumaðar jólasvuntur og –smekkir til sölu. Handverk frá Mósambík er líka í boði, eins og skartgripir, töskur og batik-myndir. Hægt að gera góð kaup í sjálfboðamiðstöðinni og styrkja í leiðinni gott málefni. Allur ágóðinn rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

17. nóv. 2009 : Rúi og Stúi - styrktarsýningar fyrir Kópavogsdeild hjá Leikfélagi Kópavogs

Kópavogsdeild Rauða krossins og Leikfélag Kópavogs eru í samstarfi í tengslum við barnasýninguna Rúa og Stúa sem leikfélagið sýnir. Þriðjungur af andvirði hvers miða á sýninguna fer til styrktar barna- og ungmennastarfi Kópavogsdeildar. Leikhúsgestir geta þannig slegið tvær flugur í einu höggi, stutt börn og ungmenni í gegnum hjálparstarf Rauða krossins og notið bráðskemmtilegrar leiksýningar.

16. nóv. 2009 : Enter-krakkarnir fengu heimsókn frá Íþróttaálfinum

Í síðustu viku fengu Enter-krakkarnir skemmtilega heimsókn en enginn annar en Íþróttaálfurinn kíkti til þeirra í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og vakti það mikla lukku. Hann kenndi þeim ýmsar æfingar og orðaforða tengdum þeim. Þá ræddi hann einnig við þau um mikilvægi holls mataræðis og heilbrigðra lífshátta. Hann sýndi þeim ýmsar listir sem Íþróttaálfurinn er sérfræðingur í, eins og heljarstökk og handahlaup. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og tóku vel á móti álfinum.

14. nóv. 2009 : Vel heppnaður handverksmarkaður

Fjöldi fólks mætti í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í dag og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, jólakort og handverk frá vinadeild í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 440 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

14. nóv. 2009 : Handverksmarkaður í dag, laugardag!

Handverksmarkaður Kópavogsdeildar hefst kl. 11 í dag og þar er hægt að gera góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá er einnig til sölu handverk frá Mósambík eins og batik-myndir, armbönd, töskur, hálsmen og eyrnalokkar. Þögult uppboð verður á sérlega veglegum hlutum frá Mósambík. Einnig er hægt að gera góð kaup á kökum og brjóstsykri sem hafa verið búnir til sérstaklega fyrir markaðinn. Jólakort sem voru handskreytt af yngstu þátttakendum okkar í Rauða kross starfi – Enter-börnunum – verða líka til sölu.

13. nóv. 2009 : Handverksmarkaður Kópavogsdeildar 14. nóvember

Kópavogsdeildin heldur handverksmarkað laugardaginn 14. nóvember kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma fleiri sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum.

Selt verður fjölbreytt handverk sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag eins og fallegar sauma- og prjónavörur. Heimsóknavinir gefa kökur og þá verða í boði jólakort og sælgæti sem yngstu sjálfboðaliðar deildarinnar úr Enter og Eldhugum hafa búið til. Auk þess verður handverk frá Mósambík til sölu, s.s. litríkar töskur, skartgripir og batíkmyndir. Allur ágóði af sölunni rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

11. nóv. 2009 : Enter-krakkar útbúa jólakort fyrir handverksmarkað Kópavogsdeildar

Enter-hópur Kópavogsdeildar hefur unnið að gerð jólakorta sem seld verða á handverksmarkaði deildarinnar á laugardaginn, 14. nóvember næstkomandi.  Vinnan gekk vel hjá börnunum og afraksturinn glæsilegur líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Handverksmarkaðurinn verður haldinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 11-16. Þar verður einnig selt fleira handverk sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, heimagerðar kökur og handverk frá Mósambík.

Börnin í Enter eru 9-12 ára innflytjendur úr Hjallaskóla í Kópavogi en þau hittast einu sinni í viku í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og fá meðal annars málörvun og taka þátt í ýmsum tómstundum í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki.

9. nóv. 2009 : Eldhugar kynna sér starfsemi Þjóðleikhússins

Í síðustu viku fór hópur Eldhuga í heimsókn í Þjóðleikhúsið þar sem hann fékk að kynnast starfsemi hússins. Vel var tekið  á móti krökkunum og fengu þau meðal annars að skoða baksviðs og kynnast vinnuaðstæðum leikara. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og komu mikils vísari um leikhússtarfsemi tilbaka úr heimsókninni.

6. nóv. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast í nýja fatabúð Rauða krossins

Rauði kross Íslands opnar nýja fatabúð í Mjódd í Reykjavík á næstunni og vantar sjálfboðaliða til að sjá um afgreiðslu. Í búðinni verða seld notuð föt sem almenningur hefur gefið Rauða krossinum. Sá fatnaður sem er gefinn Rauða krossinum er að hluta til seldur til flokkunarfyrirtækja í Evrópu sem endurnýta hann til sölu í verslunum og á mörkuðum erlendis. Fatnaðurinn er einnig flokkaður hér á landi í Fatasöfnunarstöð Rauða krossinn og sendur í búðirnar sem félagið rekur.

Auk nýju búðarinnar í Mjóddinni rekur félagið þrjár aðrar búðir á höfuðborgarsvæðinu, á Laugavegi 12 og 116 í Reykjavík og Strandgötu 24 í Hafnarfirði, og sjá sjálfboðaliðar alfarið um afgreiðslu í þeim. Allur ágóði af rekstri þeirra rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins og er sjóðurinn nýttur í alþjóðlega neyðaraðstoð, neyðarvarnir og þróunaraðstoð. 

3. nóv. 2009 : „Hef tekið þátt í starfi Kópavogsdeildar frá unga aldri” - viðtal við Etehem Bajramaj sjálfboðaliða

Etehem Bajramaj er ungur sjálfboðaliði Kópavogsdeildar en hann flutti til Íslands frá Kosovo á afmælisdaginn sinn 3. apríl árið 2000, þá 9 ára gamall. Með honum í för voru  foreldrar hans og þrjú systkini. Aðstæður í heimalandi hans voru þá ekki góðar og atvinnuhorfur slæmar. Þá vantaði starfskrafta á Íslandi og næg vinna var í boði. Etehem flutti strax í Kópavog þar sem hann hefur búið æ síðan ásamt fjölskyldu sinni. Etehem líkar vel á Íslandi og stundar nú nám við Menntaskólann í Kópavogi.

2. nóv. 2009 : Söngstund í Roðasölum

Aðra hverja viku heimsækir hópur heimsóknavina Kópavogsdeildar sambýli fyrir fólk með heilabilun í Roðasölum og heldur söngstund fyrir íbúana. Sjálfboðliðarnir mæta með gítarinn og söngblöð og leiða íbúana í söng. Þá er einnig upplestur á ljóðum og í lokin er öllum boðið upp á kaffi og eitthvert góðmeti.

Fyrir utan söngglöðu heimsóknavinina heimsækja aðrir sjálfboðaliðar sambýlið. Heimsóknavinur með hund kemur einu sinni í viku og þá eru heimsóknir til einstaklinga.

30. okt. 2009 : Tónlist hjá Alþjóðlegum foreldrum

Alþjóðlegir foreldrar fengu heimsókn í gær frá Helgu Rut Guðmundsdóttur hjá Tónagulli en þar eru haldin námskeið með tónlist og dansi fyrir foreldra og börn þeirra. Helga kynnti starfsemi Tónagulls og leiddi hópinn í leikjum með tónlist. Hún spilaði á gítar og foreldrarnir sungu og dönsuðu með börnin sín. Þau fengu einnig hristur til að leika sér með og það ríkti því mikil gleði á samverunni.

28. okt. 2009 : Fræðslukvöld á morgun, fimmtudag

Kópavogsdeild stendur fyrir fræðslukvöldi fyrir sjálfboðaliða sína fimmtudaginn 29. október frá kl. 20-21.30. Viðfangsefnið verður verkefni Rauða krossins á hættu- og neyðartímum. Verkefnastjóri frá Landsskrifstofu Rauða krossins, Jón Brynjar Birgisson, mun fjalla um þetta efni og þá sérstaklega hlutverk sjálfboðaliða varðandi viðbrögð við jarðskjálfta, eldgosi og inflúensu ásamt annarri hættu og áföllum. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti.

26. okt. 2009 : Ungbarnaföt óskast í neyðarpakka til Hvíta-Rússlands

Rauða krossi Íslands barst nýlega neyðarbeiðni frá Rauða krossinum í Hvíta-Rússlandi þar sem óskað var eftir 2.500 ungbarnapökkum. Í pökkunum eru föt fyrir börn á aldrinum 0-12 mánaða; peysur, teppi, sokkar, húfur, buxur, handklæði, samfellur, taubleyjur, bleyjubuxur og treyjur. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar munu leggja sitt af mörkum og pakka fötum sem hafa borist deildinni og sjálfboðaliðarnir prjónað síðustu mánuði.

Til að geta pakkað sem flestum pökkum óskar deildin eftir ungbarnafötum fyrir 0-12 mánaða. Hægt er að koma með föt í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11 en hún er opin virka daga frá kl. 10-16. Fötin þurfa að berast deildinni fyrir 25. nóvember.

23. okt. 2009 : Námskeið um slys og veikindi barna

Kópavogsdeild heldur námskeiðið Slys og veikindi barna 9. og 11. nóvember næstkomandi. Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Meðal annars er leiðbeint í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús. Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn, hvort sem er í starfi eða daglegu lífi.

22. okt. 2009 : „Sjálfboðaliðastarfið hefur gefið mér innsýn í lífið” – viðtal við Elísabetu Þóru Gunnlaugsdóttur sjálfboðaliða

Elísabet Þóra byrjaði sjálfboðaliðastörf sín fyrir Rauða krossinn hjá Vinalínunni snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Þar svaraði hún í símann í þrjú ár og veitti stuðning og aðstoð með virkri hlustun. Hún segir að þetta verkefni hafi gefið henni undirstöðuna fyrir það sjálfboðna starf sem hún sinnir í dag en síðan 2004 hefur hún sinnt heimsóknaþjónustu og neyðarvörnum hjá Kópavogsdeild.

Fyrsta verkefni Elísabetar Þóru hjá deildinni var að heimsækja konu á einkaheimili. Síðar bætti hún á sig verkefni í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, vegna áhuga síns á geðheilbrigðismálum. Sem stendur sinnir hún heimsóknaþjónustu með því að lesa fyrir fólkið sem býr á sambýli aldraðra í Gullsmára. Fyrir þremur árum fór hún síðan á námskeið fyrir fjöldahjálpastjóra og er nú einnig í viðbragðshópi sem sinnir neyðarvörnum. Sjálfboðaliðar í þeim hópi eru á vikulangri vakt einu sinni í mánuði og eru þá reiðubúnir að aðstoða verði hamfarir, slys eða önnur áföll. Elísabet Þóra hefur tvisvar þurft að svara útkalli.

21. okt. 2009 : Kópavogsdeild og Leikfélag Kópavogs í samstarf

Kópavogsdeild Rauða krossins og Leikfélag Kópavogs hafa tekið upp samstarf í tengslum við barnasýninguna Rúa og Stúa sem leikfélagið sýnir. Þriðjungur af andvirði hvers miða á sýninguna fer til styrktar barna- og ungmennastarfi Kópavogsdeildar. Leikhúsgestir geta þannig slegið tvær flugur í einu höggi, stutt börn og ungmenni í gegnum hjálparstarf Rauða krossins og notið bráðskemmtilegrar leiksýningar.

20. okt. 2009 : Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd veita neyðaraðstoð í Kópavogi

Kópavogsdeild Rauða krossins og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs hafa gert samkomulag um neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur í Kópavogi fyrir jólin.

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar og Mæðrastyrksnefndar úthluta matvörum, fatnaði og fleiri nauðsynjum vegna jólanna í húsnæði nefndarinnar að Fannborg 5 dagana 15., 16. og 17. desember kl. 16-19. Tekið er við umsóknum hjá Kópavogsdeild, Hamraborg 11, alla virka daga kl. 10-16. Mæðrastyrksnefnd tekur við umsóknum í húsnæði nefndarinnar  þann 24. nóvember kl.16-18, 1.desember kl.14-18 og 3. desember kl.17-19.

19. okt. 2009 : Sjálfboðaliðar kynntu starf Rauða krossins

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar tóku þátt í að kynna starf Rauða krossins í kynningarvikunni sem er nú nýafstaðin. Átta sjálfboðaliðar frá deildinni kynntu starfið ásamt sjálfboðaliðum frá öðrum deildum á höfuðborgarsvæðinu en alls stóðu þrjátíu manns vaktina. Kynningarnar voru á fimmtudag, föstudag og laugardag í Smáralindinni, Kringlunni og IKEA. Sjálfboðaliðarnir dreifðu bæklingum um Liðsauka en í þeim hópi eru sjálfboðaliðar sem eru tilbúnir að aðstoða Rauða krossinn á tímum áfalla. Fólk gat skráð sig í hópinn hjá sjálfboðaliðunum en einnig fræðst um önnur verkefni hjá félaginu.

18. okt. 2009 : Getur Rauðakrosshúsið nýst þér?

Rauðakrosshúsið er miðstöð fyrir alla landsmenn þar sem einstaklingar og fjölskyldur geta leitað stuðnings við að takast á við breyttar aðstæður eða nýtt krafta sína sjálfum sér og öðrum til gagns. Í húsinu er boðið upp á sálrænan stuðning og ráðgjöf um ýmis úrræði sem bjóðast í samfélaginu. Þá er einnig boðið upp á fræðslu og félagsstarf sem er opið öllum. Það er alltaf heitt á könnunni og gestir geta farið á netið í tölvuverinu, lesið blöðin og átt góða stund í húsinu.

Fólk er einnig hvatt til að nýta krafta sína með því að þróa og skapa sín eigin verkefni sem gjarnan nýtast öðrum í Rauðakrosshúsinu. Sjálfboðaliðar hafa til dæmis komið af stað prjóna- og gönguhópum í húsinu. Tölvuglöggir sjálfboðaliðar bjóða upp á tölvuaðstoð og aðrir hafa stofnað bókaklúbb sem hittist vikulega og enn aðrir sjá um föndur.

 


 

17. okt. 2009 : Námskeið í sálrænum stuðningi

Eitt af meginhlutverkum Rauða krossins er að veita stuðning og aðstoð þegar hamfarir, hættur eða önnur áföll steðja að. Félagið leggur mikið upp úr sálrænum stuðningi og leitast bæði við að þjálfa sjálfboðaliða til að veita slíkan stuðning og fræða almenning um gildi hans. Fjölmargar deildir Rauða krossins bjóða upp á námskeið í sálrænum stuðning og heldur Kópavogsdeildin eitt slíkt þriðjudaginn 27. október.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju. Viðfangsefnin verða meðal annars mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli. Hægt er að skrá sig á námskeiðið með því að smella hér.

 

16. okt. 2009 : Vöfflukaffi í Dvöl

Opið hús verður í Dvöl laugardaginn 17. október kl. 13-15.

Markmiðið með rekstri Dvalar er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Fjölbreytt dagskrá er í boði í Dvöl þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, þ.á.m. listsköpun, gönguferðir og kyrrðarstundir. Margir koma einnig í Dvöl einfaldlega til að slaka á, horfa á sjónvarp, ræða við aðra gesti og starfsfólk eða líta í blöðin.

Það sem Dvöl hefur gert fyrir mig
„Ég sæki Dvöl tvisvar til þrisvar í viku og meðal annars til þess að rjúfa félagslega einangrun. Þar er margt gert í Dvöl, handavinna og alls konar föndur sem ég hef gaman af. Svo er farið í göngutúra. Ég hef líka farið í dagsferðir, leikhús og á listasöfn. Þar eru allir jafnir. Þar er heitur matur í hádeginu og starfsfólk sérstaklega vingjarnlegt, við lærum líka margt af því. Gott er að koma í Dvöl og þar er alltaf vel tekið á móti manni. Þar er líka gott að sitja og spjalla, skiptast á skoðunum. Dvöl hefur hjálpað mér mikið og oft komið í veg fyrir innlagnir á geðdeild, ef ég færi ekki niður í Dvöl mundi ég bara einangra mig."
-Alfa Malmquist.

15. okt. 2009 : Heimsóknavinir gefa lífinu lit

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru umfangsmesta verkefni sjálfboðaliða á vegum Kópavogsdeildar og eitt af áhersluverkefnum hennar. Eftirspurnin eftir heimsóknum hefur aukist jafnt og þétt og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna nú verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi. Vel á annað hundrað sjálfboðaliða eru heimsóknavinir Kópavogsdeildar.

Hlutverk heimsóknavina er að veita félagsskap og hlýju. Þeir heimsækja fólk sem býr við alls konar aðstæður og er á öllum aldri. Sumir eru einstæðingar, aðrir eru veikir og komast lítið út og enn aðra vantar tilbreytingu í dagana sína þar sem þeir eru mikið einir yfir daginn þó þeir eigi jafnvel stórar fjölskyldur.


 

14. okt. 2009 : Föt sem framlag til bágstaddra

Á hverju ári berast hundruð tonna af notuðum fötum til Rauða krossins. Þessi föt nýtast fólki sem býr við bág kjör eða lendir í áföllum, bæði innanlands og erlendis. Hluti fatnaðarins er flokkaður í Fatasöfnunarstöð Rauða krossins í Skútuvogi 1 og sendur í búðirnar sem Rauði krossinn rekur. Búðirnar eru þrjár; við Strandgötu 24 í Hafnarfirði og í Reykjavík við Laugaveg 12 og Laugaveg 116. Sjálfboðaliðar sinna afgreiðslustörfum í búðunum en í búðinni við Laugaveg 116 er einnig fataúthlutun á miðvikudögum kl. 10-14. Fólk sem býr við kröpp kjör getur því leitað þangað vanti það föt.

 

13. okt. 2009 : Félagar í Rauða krossinum aðstoða Kópavogsbúa í vanda

Í Rauðakrossvikunni 12.-17. október leggur Kópavogsdeild Rauða krossins áherslu á að fjölga félagsmönnum í deildinni og leitast þannig við að efla starfið í þágu þeirra Kópavogsbúa sem þurfa á aðstoð að halda. Í dag sendir deildin bókamerki inn á öll heimili í bænum og vill með því framtaki vekja athygli á átakinu. Með því að gerast félagsmaður í Kópavogsdeild leggur fólk árlega 1.200 krónur í að aðstoða bágstadda Kópavogsbúa.

Deildin aðstoðar bágstaddar fjölskyldur í Kópavogi þegar á reynir, meðal annars með neyðaraðstoð í samvinnu við mæðrastyrksnefnd og vikulegri fataúthlutun. Deildin sinnir þeim sem búa við einsemd og félagslega einangrun með öflugri heimsóknaþjónustu við þá sem þurfa og býður uppá uppbyggjandi starf fyrir börn og ungmenni. Einnig tekur deildin þátt í neyðarvörnum og viðbúnaði vegna almannavarna. Kópavogsdeild þarf stuðning almennings til að halda uppi öflugu starfi og þjónustu í heimabyggð. 
 

 

12. okt. 2009 : Sjálfboðaliðar sinna neyðarvörnum

Kópavogsdeild ásamt öðrum Rauða kross deildum um allt land myndar neyðarvarnanet Rauða kross Íslands. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru reiðubúnir til þess að leggja fram krafta sína ef til neyðarástands kemur vegna náttúruhamfara eða af öðrum ástæðum. Á neyðarvarnaáætlunum deildarinnar eru skráðir fjöldahjálparstjórar, sem eru tilbúnir að bregðast við ef á þarf að halda. Þeir eru þjálfaðir í neyðarvörnum og gegna lykilhlutverki þegar opna þarf fjöldahjálparstöðvar.

Slíkar stöðvar eru opnaðar á hættu- og neyðartímum til að taka á móti fólki sem þarf að yfirgefa heimili sín. Þar fer fram skráning sem miðar að því að sameina fjölskyldur auk þess sem fólk fær fæði, klæði, upplýsingar og nauðsynlega aðhlynningu eftir atvikum. Fjöldahjálparstöðvarnar í Kópavogi eru Digranesskóli, Kársnesskóli og Lindaskóli. Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar að Hamraborg 11 getur líka gegnt hlutverki fjöldahjálparstöðvar. Sjálfboðaliðarnir vinna að neyðarvörnum samkvæmt neyðarvarnaskipulagi Rauða krossins en neyðarnefnd höfuðborgarsvæðis hefur umsjón með skipulagi neyðarvarna á vegum deildarinnar.

 

11. okt. 2009 : Rauðakrossvika 12.-17. október

Rauði kross Íslands stendur fyrir kynningarviku 12.-17. október þar sem áhersla verður lögð á að kynna starfsemi félagsins innanlands. Tilgangurinn er einnig að fá sjálfboðaliða til liðs við félagið sem eru reiðubúnir að svara kalli á tímum áfalla og rétta þolendum áfalla hjálparhönd. Þessi sjálfboðaliðar munu tilheyra hópnum Liðsauki og verkefni þeirra yrðu margvísleg eins og að svara í síma og veita upplýsingar, gæta barna, veita skyndihjálp og sálrænan stuðning, útbúa mat og skrá upplýsingar. Þessa vikuna leggur Kópavogsdeild einnig áherslu á að fjölga félagsmönnum í deildinni og sendir frá sér sérstakt kynningarefni á öll heimili í Kópavogi af því tilefni. Þannig leitast hún við að efla starf sitt í þágu þeirra sem þurfa á aðstoð að halda í Kópavogi.

9. okt. 2009 : „Sjálfboðaliðastarf er frábært!” – viðtal við Sigrúnu Hjörleifsdóttur heimsóknavin

Sigrún skráði sig sem sjálfboðaliða hjá deildinni snemma árs 2008. Hún hafði séð ungmennastarf deildarinnar auglýst og benti syni sínum á að taka þátt í starfinu en þegar hún kannaði hvað fleira deildin byði upp á sá hún ýmislegt áhugavert fyrir sjálfa sig. Hana langaði að gefa af sér og hún hafði góðan tíma svo hún fór á námskeið fyrir nýja heimsóknavini. Hún fékk fljótlega verkefni sem heimsóknavinur konu á einkaheimili og hefur nú sinnt þeirri heimsókn í eitt og hálft ár.

Heimsóknir Sigrúnar snúast að mestu um spjall en hún hefur líka farið út að ganga með gestgjafa sínum og aðstoðað hann við að fara út í búð og banka. Gestgjafinn býður gjarnan upp á kaffi og heimabakað góðmeti eins og pönnukökur. Þær eiga sameiginlegt áhugamál, prjón, og ræða það iðulega. Sigrún segir að henni finnist gaman að heimsækja gestgjafa sinn og að það gefi henni mikið, sérstaklega því hún veit að gestgjafinn fær ekki margar heimsóknir og hefur gaman af heimsóknum Sigrúnar. Það sem Sigrúnu finnst einnig sérstaklega skemmtilegt er að ræða við gestgjafa sinn um lífið og tilveruna en eldri gestgjafinn hefur aðra sýn á lífið og gefur það Sigrúnu mikið að heyra af því.

8. okt. 2009 : Kannt þú skyndihjálp?

Skyndihjálp er fyrsta aðstoð sem veitt er slösuðu eða bráðveiku fólki. Hún getur skipt sköpum um lífslíkur og bata. Kópavogsdeild heldur reglulega námskeið í almennri skyndihjálp og hafa námskeiðin að jafnaði verið vel sótt. Næsta námskeið verður 20. október og munu þátttakendurnir læra grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun og verða þar með hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

7. okt. 2009 : Stuðningur í Hjálparsímanum 1717

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna einsemdar, kvíða, þunglyndis, depurðar, efnahagsáhyggja eða jafnvel sjálfsvígshugsana. Hjálparsíminn 1717 gegnir því hlutverki að veita ráðgjöf til fólks á öllum aldri sem óskar eftir stuðningi. Starfsmenn og sjálfboðaliðar símans veita upplýsingar um hvar megi leita frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning.

6. okt. 2009 : Prjónavörur til sölu í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg

Í sjálfboðamiðstöðinni eru til sölu prjónavörur sem sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hafa prjónað. Til sölu eru sokkar og vettlingar í öllum stærðum og gerðum, húfur, treflar, ungbarnateppi og peysur á börn. Andvirði sölunnar er nýtt til garnkaupa fyrir sjálfboðaliðana en auk þessa varnings prjóna þeir ungbarnaföt fyrir börn í neyð í Malaví í Afríku. Þá eru prjónaflíkur þeirra einnig seldar í Rauða kross búðunum á höfuðborgarsvæðinu.

5. okt. 2009 : Tíkin Karólína afrekshundur ársins

Það er deildinni sönn ánægja að greina frá því að tíkin Karólína, sem sinnir heimsóknaþjónustu með eiganda sínum, var heiðruð um helgina sem afrekshundur ársins af Hundaræktarfélagi Íslands. Karólína er sex ára blendingur Border og Springer. Hún og Guðleifur eigandi hennar mynda heimsóknavinateymi sem hefur farið í heimsóknir á vegum deildarinnar síðan haustið 2007.

2. okt. 2009 : Barnafataskiptimarkaður í Rauðakrosshúsinu

Rauði krossinn stendur fyrir skiptimarkaði með barnaföt fram að jólum í Rauðakrosshúsinu Borgartúni 25. Markaðurinn verður opinn alla þriðjudaga klukkan 13:30 – 17:00 og miðvikudaga klukkan 12:00 - 13:00 og byrjar þriðjudaginn 6. október.

Þema októbermánaðar verður útiföt og vetrarskór/stígvél, nóvembermánaðar íþróttaföt og íþróttaskór og í desember spariföt og leikföng.

Fólk getur komið með vörur og fær skipt í aðrar stærðir eða öðruvísi föt. 

1. okt. 2009 : Metþátttaka í prjónakaffi

Alls mættu 47 sjálfboðaliðar í prjónakaffi sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Ekki hafa áður mætt fleiri sjálfboðaliðar í eitt prjónakaffi frá því að deildin stóð fyrir fyrsta prjónakaffinu í febrúar 2007. Þetta er því metþátttaka. Prjónaglöðu sjálfboðaliðarnir komu með prjónaflíkur sem þeir höfðu unnið að síðasta mánuðinn og fengu meira garn til að halda áfram að prjóna. Svo var boðið upp á kaffi og meðlæti og áttu sjálfboðaliðarnir ánægjulega stund saman. Prjónakaffi er haldið síðasta miðvikudag hvers mánaðar frá kl. 16-18.

30. sep. 2009 : Námsvinir hittast

Námsvinahópar Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, eru nú farnir að hittast. Hóparnir samanstanda af námsvinum og nemum sem hittast reglulega og fara saman í gegnum heimavinnu eða önnur verkefni með það að markmiði að liðsinna nemunum með það sem þá gæti mögulega vantað aðstoð með. Unga fólkið á það allt sameiginlegt að vera framhaldsskólanemar en nemarnir eru oftar en ekki erlendir að uppruna og þiggja aðstoð við námið og þá sérstaklega íslenskuna. Námvinahóparnir eru einnig hugsaðir sem kjörinn vettvangur fyrir ungt fólk með ólíkan bakgrunn til að kynnast.

29. sep. 2009 : Ungbarnanudd á samveru foreldra á fimmtudaginn

Það verður boðið upp á ungbarnanudd á samveru foreldra á fimmtudaginn þar sem þeim verður kennt að nudda barnið sitt . Foreldrarnir hittast vikulega með lítil börn sín á aldrinum 0-6 ára og eiga ánægjulegar samverustundir saman. Foreldrarnir eru íslenskir og erlendir en eiga allir sameiginlegt að vera heima með lítil börn.

Reglulega er boðið upp á fræðslu og kynningar sem oftar en ekki tengjast börnum. Leikföng eru fyrir börnin á staðnum og léttar veitingar eru í boði. Ýmislegt fleira verður í boði á samverunum þetta haustið, eins og fræðsla um svefn barna, dagvistunarmál og mat barna.

28. sep. 2009 : Verkefni deildarinnar kynnt hjá félagsþjónustu Kópavogs

Verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar kynnti fyrir helgi verkefni deildarinnar fyrir starfsmönnum félagsþjónustu Kópavogs. Verkefnastjórinn fór yfir heimsóknaþjónustuna, fataverkefnið, alþjóðlega foreldra, námsaðstoð, ungmennastarfið og önnur verkefni sem skjólstæðingar félagsþjónustunnar gætu mögulega haft gagn af. Starfsmennirnir vita þá betur hvað deildin býður upp á og geta sett skjólstæðinga sína í samband við hana varðandi aðstoð og þjónustu. Gott og mikið samstarf er á milli deildarinnar og félagsþjónustunnar varðandi hin ýmsu mál.

25. sep. 2009 : Nemendur í áfanga um þróunarlönd í MK heimsækja deildina

Nemar í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda við Menntaskólann í Kópavogi heimsóttu deildina nú í morgun. Þeir fengu kynningu á starfi deildarinnar og helstu verkefnum sem hún sinnir á alþjóðavísu. Má þar nefna vinadeildasamstarf við Rauða kross deildina í Maputo-héraði í Mósambík og verkefnið Föt sem framlag en það miðar meðal annars að því að útbúa og senda fatapakka til ungbarna í neyð í Malaví.

24. sep. 2009 : Gagnlegar niðurstöður rannsóknar á stöðu innflytjenda á erfiðleikatímum

Fjölmennt var á málþingi um stöðu innflytjenda á erfiðleikatímum sem Rauði kross Íslands stóð fyrir í Þjóðminjasafninu í vikunni. Ný rannsókn sem dr. Hallfríður Þórarinsdóttir hjá MIRRA vann fyrir Rauða kross Íslands var kynnt, og niðurstaða hennar rædd í pallborði. Tilgangur málþingsins var að vekja athygli á stöðu innflytjenda á Íslandi nú þegar efnahagserfiðleikar hrjá þjóðina.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu m.a. að mikil fjölgun innflytjenda hafi orðið hér á landi á örfáum árum og innflytjendur séu nú nálægt þrjátíu þúsundum. Hópurinn sé afar sundurleitur innbyrðis og komi víðsvegar að úr heiminum. Þó einkenni það samfélag innflytjenda á Íslandi að langstærstur hluti þeirra sé af evrópskum uppruna, ljós á hörund og kristinnar trúar. Tæplega helmingur þeirra komi frá Póllandi. Þá kom einnig í ljós að streymi erlendra ríkisborgara/innflytjenda til landsins hafi fyrst og fremst miðast við þarfir atvinnulífsins, eins og sýndi sig glöggt í efnahagsþenslu undangenginna ára. 

24. sep. 2009 : Fyrirhuguðu fræðslukvöldi frestað vegna veikinda

Vegna veikinda fyrirlesara hefur deildin því miður þurft að fresta fyrirhuguðu fræðslukvöldi sem átti að hefjast kl. 20 í kvöld. Fræðslukvöldið verður skipulagt annan dag og verða sjálfboðaliðar upplýstir um það síðar. Við biðjumst velvirðingar á þessum óþægindum.

22. sep. 2009 : „Engu líkt“ – reynsla Eldhuga Kópavogsdeildar af sumarbúðum Rauða krossins

Andri Karlsson fór í sumarbúðir ungmennahreyfingar Rauða krossins á Löngumýri í Skagafirði í sumar. Í kjölfarið gerðist hann svo Eldhugi hjá Kópavogsdeild og tekur nú þátt í ungmennastarfi deildarinnar.

Þátttakendur í sumarbúðunum voru ungmenni á aldrinum 12-16 ára. Þar var unnið út frá grundvallarmarkmiðum Rauða krossins og viðhorf ungmennanna til ýmissa þjóðfélagshópa rædd. Að auki gerðist eitthvað ævintýralegt og spennandi á hverjum degi svo sem klettasig, flúðasiglingar, hlutverkaleikir og busl í sundlauginni á Löngumýri.

21. sep. 2009 : Sjálfboðið starf í Rjóðrinu

Sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar heimsækja börnin í Rjóðrinu en þangað koma langveik börn í hvíldarinnlögn. Sjálfboðaliðarnir eru flestir í menntaskóla og koma aðallega úr Menntaskólanum í Kópavogi og Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hver þeirra mætir hálfsmánaðarlega í Rjóðrið til að veita börnunum félagsskap og afþreyingu. Þeir meðal annars föndra með börnunum, leika við þau, lesa fyrir þau, fara með þeim út að ganga og aðstoða starfsfólkið á annan hátt.

18. sep. 2009 : Enter- og Eldhugastarf hefst að nýju eftir sumarfrí

Nú er barna- og ungmennastarf Kópavogsdeildarinnar komið á fullt skrið en í fyrradag var fyrsta samvera Enter hópsins og í gærkvöldi hittust Eldhugar einnig í fyrsta sinn á nýju hausti. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára en Eldhugar eru fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu í gegnum skapandi verkefni.

17. sep. 2009 : Kópavogsdeild bauð heimilisfólkinu í Sunnuhlíð á Kjarvalsstaði

Deildin bauð heimilisfólkinu í Sunnuhlíð í ferð í gær eins og venja er á hverju hausti og var ferðinni heitið á Kjarvalsstaði. Sjálfboðaliðar úr hópi heimsóknavina deildarinnar fylgdu fólkinu og voru því innan handar með aðstoð þar sem þurfti. Alls fóru um 40 manns í ferðinni en starfsfólk hjúkrunarheimilisins og aðstandendur voru einnig með í för. Fólkið skoðaði sýningarnar á safninu og fékk sér svo kaffi og meðlæti á eftir.

16. sep. 2009 : Viltu tala meiri íslensku?

Hópur sjálfboðaliða hitti í gær innflytjendur sem taka þátt í verkefninu Viltu tala meiri íslensku? en það er hluti af heimsóknaþjónustu deildarinnar. Þetta var fyrsta samveran eftir sumarfrí en verkefnið hófst í janúar á þessu ári. Á samverunum gefst innflytjendunum tækifæri til að tala íslensku við íslenska sjálfboðaliða og þannig þjálfa sig í notkun málsins. Hópurinn mun hittast vikulega í vetur á þriðjudögum í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs. 

15. sep. 2009 : Undirbúningur, hópefli og fræðsla fyrir nýja sjálfboðaliða í ungmennastarfi

Í gærkvöldi var haldið undirbúnings- og fræðslukvöld fyrir þá sjálfboðaliða Kópavogsdeildar sem munu vinna í verkefnum er lúta að börnum og unglingum í vetur.

Kvöldið hófst með hópefli þar sem sjálfboðaliðarnir fengu tækifæri til að kynnast hver öðrum. Þá kynnti verkefnastjóri ungmennamála fyrir þeim verkefnin sem sjálfboðaliðarnir munu koma til með að starfa í; Enter og Eldhuga. Hann fór einnig yfir hlutverk sjálfboðaliðans með tilliti til þessara tveggja verkefna. Auk þess fengu sjálfboðaliðarnir tækifæri til að koma með tillögur og hugmyndir að þemaverkefnum og viðfangsefnum fyrir starf vetrarins.

14. sep. 2009 : Heimsóknavinahundar kynntir á smáhundadögum í Garðheimum

Heimsóknavinir sem sinna heimsóknaþjónustu með hunda sína hjá Rauða krossinum kynntu verkefnið á smáhundadögum í Garðheimum um helgina. Heimsóknavinirnir mættu með hundana sína og báru hundarnir sérstaka klúta merkta Rauða krossinum en klútana nota þeir einnig í heimsóknum sínum. Bæklingum var dreift og sýndu gestirnir verkefninu mikinn áhuga.

11. sep. 2009 : Kynningarstarf í fullum gangi

Um þessar mundir stendur yfir kynningarstarf á vegum Kópavogsdeildar innan unglingadeilda grunnskóla Kópavogs. Á kynningunum fá nemendur innsýn í starf Rauða krossins bæði innanlands og erlendis í máli og myndum. Þá er einnig sagt frá helstu verkefnum Kópavogsdeildar og hvernig nemendurnir geti sjálfir tekið þátt. Verkefnastjóri Kópavogsdeildar hefur fengið frábærar móttökur í skólum bæjarins og nemendur sýna málefninu mikinn áhuga. Þeir eru duglegir við að spyrja spurninga og oftar en ekki skapast mikil og góð umræða um hin ýmsu málefni er snerta starf Rauða krossins.

10. sep. 2009 : Tombóludrengir

Stefán Grímur, Einar Óskarsson og Alexander Bjarnason í Digranesskóla héldu tombólu á dögunum fyrir utan Nóatún og söfnuðu alls 5.490 kr. Þeir komu í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og afhentu Rauða krossinum söfnunarféð. Það rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

Strákarnir söfnuðu dóti á tombóluna með því að ganga í hús í hverfinu sínu og fólk tók framtaki þeirra vel, bæði í hverfinu og á tombólunni sjálfri. 

9. sep. 2009 : Jákvæð hugsun á samveru heimsóknavina

Heimsóknavinir fjölmenntu á mánaðarlega samveru þeirra í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Alls mættu 15 heimsóknavinir sem sinna sjálfboðnum störfum á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð, á sambýlum aldraðra og á einkaheimilum. Að þessu sinni var boðið upp á erindi um jákvæða hugsun frá Lótushúsi en það er miðstöð þar sem reglulega eru haldin hugleiðslu- og hugræktarnámskeið. Erindið hófst á stuttri hugleiðslu og síðan var lögð áhersla á að veita heimsóknavinunum aukinn skilning á eðli og mátt hugsana. Þá var sérstaklega farið yfir mikilvægi jákvæðra hugsana og hvernig þær geta bætt lífið.

8. sep. 2009 : Sjálfboðaliða vantar í Dvöl

Sjálfboðaliða vantar í Dvöl við Reynihvamm 43 fyrir veturinn. Dvöl er athvarf fyrir geðfatlaða og er ætlað að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við að geðsjúkdóma að stríða. Sjálfboðaliðar gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Dvalar með því að taka þátt í starfsemi athvarfsins og veita gestunum félagsskap.
 
Það vantar sjálfboðaliða til að vera í Dvöl á laugardögum frá kl. 11-14. Venjulega eru tveir sjálfboðaliðar á vakt hverju sinni og þurfa þeir að hafa náð 18 ára aldri.

7. sep. 2009 : Alþjóðlegir foreldrar hittast á fimmtudaginn

Fyrsta samvera alþjóðlegra foreldra á nýju hausti verður fimmtudaginn 10. september. Á samverunum býður deildin velkomna foreldra allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára. Reglulega er boðið upp á fjölbreyttar kynningar eða fræðslu sem tengist börnum. Dagskráin þetta haustið samanstendur meðal annars af kennslu í ungbarnanuddi og fræðslu um mat og svefn barna, svo eitthvað sé nefnt. Leikföng eru á staðnum fyrir börnin og þátttaka er ókeypis. Allir eru velkomnir, innfæddir og innflytjendur, hvort sem þeir tala enga eða einhverja íslensku.

4. sep. 2009 : Hópastarf Plússins fer vel af stað

Hönnunarhópur og fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, héldu báðir fund í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í gærkvöldi.

Verkefni hönnunarhópsins í haust verða margvísleg og spennandi en hópurinn hefur ákveðið að hanna vörur úr notuðum fötum og efnum sem deildin útvegar. Sjálfboðaliðarnir munu leyfa sköpunargáfunni að njóta sín, endurhanna og sauma föt og fylgihluti út frá hugmyndum hvers og eins. Að því loknu verður afraksturinn seldur í Rauða kross búðunum og jafnframt á handverksmarkaði deildarinnar sem haldinn er á hverri önn. Mikil stemning myndaðist hjá hópnum en hann mun hittast aftur eftir viku.


 

3. sep. 2009 : Finnsk ungmenni heimsækja sjálfboðamiðstöðina

Landssamband æskulýðsfélaga á Íslandi hélt fund í sjálfboðamiðstöðinni á dögunum fyrir finnsk ungmenni búsett í Svíþjóð. Á fundinum var starfsemi Landssambands æskulýðsfélaga kynnt og hópurinn ræddi um stöðu ungmenna í löndunum tveimur. Auk þess að fá innsýn í þessa starfsemi var tilgangur heimsóknarinnar til Íslands að kynnast landi og þjóð.

2. sep. 2009 : Námskeið fyrir nýja heimsóknavini haldið í gær

Undirbúningsnámskeið fyrir nýja heimsóknavini var haldið í sjálfboðamiðstöðinni í gær og tóku átta sjálfboðaliðar þátt að þessu sinni. Á námskeiðinu var farið yfir þau atriði sem mikilvæg eru fyrir heimsóknavini að hafa í huga þegar þeir sinna heimsóknaþjónustu. Þá var einnig starf deildarinnar kynnt og heimsóknavinur sagði frá reynslu sinni. Athvarfið Dvöl var líka kynnt sérstaklega en heimsóknavinir sinna einnig sjálfboðnum störfum þar. Að loknu námskeiðinu eru þátttakendurnir tilbúnir í verkefni og sér verkefnastjóri heimsóknaþjónustunnar um að koma á heimsóknum þeirra til gestgjafa.

1. sep. 2009 : Tvær vinkonur héldu tombólu

Þær Íma Fönn Hlynsdóttir og Rebekka Sól Jóhannsdóttir héldu tombólu fyrir utan Nóatún í Hamraborg á dögunum. Þær söfnuðu alls 180 krónum sem þær færðu Rauða krossinum að gjöf. Vinkonurnar eru báðar í 5. bekk í Kópavogsskóla. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

31. ágú. 2009 : Heimsóknavinir með hunda leiddu Laugavegsgöngu

Hin árlega Laugavegsganga Hundaræktarfélags Íslands var farin á laugardaginn síðastliðinn en þá ganga hundaeigendur með hunda sína niður Laugaveginn. Eins og undanfarin ár voru heimsóknavinir Rauða krossins sem heimsækja með hunda sína í broddi fylkingar. Þeir hundar sem heimsækja á vegum Rauða krossins eru með sérstaka klúta merkta félaginu og stóðu þeir sig með stakri prýði í göngunni.

28. ágú. 2009 : Reynsla ungra sjálfboðaliða Kópavogsdeildar

Okkur langar aðeins til að gefa innsýn inn í reynslu okkar af starfi í Plúsnum, ungmennastarfi Kópavogsdeildar.

Í síðustu viku tók Kópavogsdeild og við í ungmennastarfinu á móti tveimur palestínskum strákum sem voru í heimsókn á landinu á vegum Rauða kross Íslands. Þeir hafa unnið sem sjálfboðaliðar fyrir Rauða hálfmánann í Palestínu þar sem þeir sinna meðal annars sjúkraflutningum. Við höfðum fengið það hlutverk að skipuleggja dagskrá fyrir þá þessa þrjá daga sem þeir voru hjá okkur í Kópavoginum og við gerðum margt skemmtilegt saman.

Við byrjuðum á því að kynna fyrir þeim deildina okkar og fyrsta daginn fórum við einnig með þá á hestbak og síðan í hvalaskoðun. Annan daginn fórum við á Þingvelli, Gullfoss og Geysi og síðasta daginn fórum við síðan í Bláa lónið. Heimsókn þeirra lauk svo með palestínsku kaffihúsi sem við höfðum skipulagt en þangað fengum við góða gesti frá Ungmennahreyfingu Rauða krossins og samtökunum Ísland-Palestína og fræddumst auk þess um líf strákanna í Palestínu, sögu landsins þeirra og sjálfboðastörf þeirra sem sjúkraflutningamenn.

26. ágú. 2009 : Prjónað til góðs

Í dag hittust um þrjátíu prjónakonur í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í hinu mánaðarlega prjónakaffi. Það er sérstaklega skemmtilegt að segja frá því að fjöldi nýrra sjálfboðaliða bættist í hópinn að þessu sinni og ætlar nú að leggja okkur lið með handavinnu sinni. Tilgangur prjónakaffisins var að eiga skemmtilega stund saman en þetta er fyrsta samvera þessa hóps eftir sumarfrí.

Sjálfboðaliðarnir komu með prjónafíkur sem þeir hafa unnið að í sumar og fengu svo meira garn til að halda áfram að prjóna. Þeir komu meðal annars með peysur, teppi, sokka, bleyjubuxur og húfur. Einn sjálfboðaliðinn kom með 60 húfur!

24. ágú. 2009 : Palestínskt kaffihúsakvöld

Ungir sjálfboðaliðar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, stóðu fyrir palestínsku kaffihúsakvöldi í samvinnu við Molann, menningarhús Kópavogs, síðastliðið föstudagskvöld. Kvöldið var bæði fróðlegt og skemmtilegt og fjölbreyttur hópur gesta mætti.

21. ágú. 2009 : 8.356 krónur söfnuðust á tombólu

Vinkonurnar Berglind Þorsteinsdóttir og Elva Arinbjarnar héldu tombólu um síðustu helgi fyrir utan Bónus við bæði Ögurhvarf og Smáratorg. Áður höfðu þær safnað dóti á tombóluna og afraksturinn varð alls 8.356 kr. Þær komu í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og afhentu fjárframlag sitt en það verður notað í þágu barna í neyð erlendis. Elva er að fara í 5. bekk í Vatnsendaskóla og Berglind í 5. bekk í Digranesskóla.

20. ágú. 2009 : Ungir sjálfboðaliðar í Kópavogi taka á móti ungum sjálfboðaliðum frá Palestínu

Um þessar mundir eru tveir ungir sjálfboðaliðar frá Rauða hálfmánanum í Palestínu staddir á Íslandi í boði Rauða kross Íslands og í gær komu þeir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem sjálfboðaliðar í ungmennastarfi deildarinnar, Plúsnum, tóku á móti þeim. Ungmennin frá Palestínu dvelja á landinu í þrjár vikur til að kynna sér starfsemi Rauða krossins en næstu dagana munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sjá um dagskrána þeirra. Hún hljóðar meðal annars upp á kynningu á deildinni, hestaferð í boði Íshesta, hvalaskoðun í boði Eldingar og aðrar skoðunarferðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

14. ágú. 2009 : Hjálparsíminn 1717 veitir allar almennar upplýsingar um Inflúensu A (H1N1)v

Sjálfboðaliðar og starfsmenn Hjálparsíma Rauða krossins 1717 veita allar almennar upplýsingar um Inflúensu A (H1N1)v (svínaflensuna) í gegnum gjaldfrjálsa númerið 1717. Hjálparsíminn hefur frá stofnun lagt mikið upp úr því hlutverki að veita upplýsingar um samfélagsleg úrræði og þjónustu til einstaklinga um hin ýmsu mál.

Aðdragandi þess að Hjálparsíminn hefur tekið að sér þetta verkefni er þátttaka fulltrúa Rauða kross Íslands í símahópi á vegum Landlæknisembættisins vegna Inflúensu A (H1N1)v. Hlutverk símahópsins var að undirbúa áætlun um hvernig haga eigi upplýsingagjöf til almennings ef flensan breiðist út á Íslandi. Nú þegar tilfellum flensunnar fjölgar ört hefur álagið á heilsugæslustöðvarnar og Læknavaktina aukist töluvert og því þarf að efla mannskap sem veitir almennum borgurum upplýsingar um inflúensuna.

11. ágú. 2009 : Heimsóknavinir gegn einsemd og einangrun, sjálfboðaliðar óskast

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru umfangsmesta verkefni sjálfboðaliða á vegum Kópavogsdeildar og eitt af áhersluverkefnum deildarinnar og Rauða kross Íslands. Deildin setti fram áætlun haustið 2006 um að efla og auka heimsóknaþjónustu sína verulega á árunum 2007-2009 og árið 2008 tóku alls um 120 sjálfboðaliðar þátt í þessu verkefni. Eftirspurnin eftir heimsóknum hefur aukist jafnt og þétt og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi. Nú viljum við bæta enn í hóp heimsóknavina og flestir ættu að geta fundið verkefni við hæfi.

7. ágú. 2009 : Söfnun til styrktar Rauða krossinum

Svandís Salómonsdóttir, 6 ára, og Katrín Rós Torfadóttir, 9 ára, komu í sjálfboðamiðstöðina í dag með afrakstur söfnunar handa Rauða krossinum. Þær gengu í hús í hverfinu sínu og báðu fólk um gefa þeim klink sem þær ætluðu svo að fara með til Rauða krossins. Þær sungu stundum fyrir fólkið en fengu hugmyndina að söfnuninni því þær vildu styrkja börn í Afríku. Þær söfnuðu alls 2.930 kr.

5. ágú. 2009 : Sjálfboðamiðstöðin opnar aftur eftir sumarfrí

Sjálfboðamiðstöð deildarinnar er nú opin aftur og verður eins og áður opin frá kl. 10-16 alla virka daga. Undirbúningur er hafinn fyrir starfið á komandi vetri og öll helstu verkefni deildarinnar fara á fullt skrið á næstu vikum. Að vanda er óskað eftir sjálfboðaliðum til að sinna þeim. Sjálfboðaliða vantar í verkefni eins og Enter, Eldhuga og Alþjóðlega foreldra. Einnig er þörf á sjálfboðaliðum í Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða, í heimsóknaþjónustu og Föt sem framlag.

6. júl. 2009 : Sumarlokun sjálfboðamiðstöðvar

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er lokuð vegna sumarleyfa frá 6. júlí og opnar aftur miðvikudaginn 5. ágúst og verður þá opin sem fyrr alla virka daga kl.10-16. Hægt er að senda deildinni tölvupóst á netfangið [email protected]. Ef nauðsyn krefur er hægt að hafa samband við formann deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson á gaji[hjá]mmedia.is. Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu sumarkveðjur.
 
Our volunteer centre is closed because of summer holidays and will open again on August 5th.

2. júl. 2009 : Grillað í Dvöl

Alls mættu um fimmtíu manns í grillveislu Dvalar sem haldin var í blíðskaparveðri þann 1. júlí.  Gestir og starfsmenn frá Vin og Læk, athvörfum Rauða krossins mættu í veisluna með hamborgara og pylsur á grillð og áttu góðan dag með félögum sínum í Dvöl. Þá spilaði einn gestanna á harmonikku, annar á munnhörpu og sá þriðji á gítar við góðar undirtektir veislugesta.

Markmiðið með starfsemi Dvalar er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðsjúkdóma er að stríða. Gestir koma í athvarfið á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem í boði er. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna, en jafnhliða eru gestir aðstoðaðir við að leita nýrra leiða, sé þess óskað. Dvöl er athvarf en ekki meðferðarstofnun þar sem gestir og aðstandendur geta fengið góð ráð hjá starfsmönnum ef þeir óska þess.

 

29. jún. 2009 : Vel heppnaðir Gleðidagar

Námskeiðið Gleðidagar sem haldið var hjá deildinni í síðustu viku heppnaðist afar vel en um er að ræða tilraunaverkefni í því skyni að tengja saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til þeirra yngri. Nítján börn á aldrinum 7-12 ára sóttu námskeiðið og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá alla vikuna. Eldri borgarar sögðu börnunum meðal annars sögur og fræddu þau um gamla tímann, þá var börnunum leiðbeint varðandi leikræna tjáningu og kennt að binda hnúta. Auk þess sáu tveir sjálfboðaliðar deildarinnar um að kenna prjón.

24. jún. 2009 : Lögreglan og Rauði krossinn gera samkomulag um sálrænan stuðning

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, og Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, undirrituðu í dag samkomulag um sálrænan stuðning við fólk sem komið hefur að vettvangi alvarlegra atburða þar sem kallað er eftir aðstoð lögreglunnar.

Lögreglan mun afhenda þeim sem koma að eða verða vitni að alvarlegum atburðum handhæg kort með upplýsingum um þau áhrif sem atvikið getur haft á líðan viðkomandi.  Á kortinu er fólki bent á að full ástæða geti verið til að viðra reynslu sína við góðan vin eða sjálfboðaliða Hjálparsíma Rauða krossins 1717, en hann er gjaldfrjáls og  opinn allan sólarhringinn.  Allir sjálfboðaliðar Hjálparsímans 1717 eru sérstaklega þjálfaðir til að veita sálrænan stuðning.

23. jún. 2009 : Tombóla til styrktar Rauða krossinum

Þær Ísgerður Sandra Ragnarsdóttir, Eva Wolanczyk, Ásta Margrét Guðnadóttir og Ágústa Ragnarsdóttir héldu tombólu á dögunum fyrir utan búðina 11/11 við Þverbrekku til styrktar Rauða krossinum. Þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með afraksturinn, alls 10.227 kr. Þær höfðu safnað ýmsu dóti á tombóluna og sögðu að það hefði verið skemmtilegt að halda hana og að fólk hefði tekið þeim vel.

22. jún. 2009 : Námskeiðið Gleðidagar stendur nú yfir í sjálfboðamiðstöðinni

Rétt í þessu var námskeiðið Gleðidagar að hefjast í sjálfboðamiðstöð deildarinnar. Nítján börn á aldrinum 7-12 ára eru mætt og munu njóta leiðsagnar fram á föstudag. Námskeiðið hefur yfirskriftina Ungur nemur, gamall temur og eru leiðbeinendur að mestu eldri borgarar. Hugmyndin er að tengja saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til hinna yngri.

18. jún. 2009 : Hundaheimsókn á Grund

Heimsóknavinur með hund hóf að heimsækja heimilisfólk á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund í vikunni. Heimsóknavinurinn María fór með hundinn sinn Check og heimsótti tvær deildir á Grund við góðar undirtektir fólksins þar. Sumir létu sér nægja að fylgjast með hundinum en aðrir klöppuðu honum, héldu á honum og gáfu honum meira að segja nokkra kleinubita. María og Check munu framvegis heimsækja Grund reglulega.

Kópavogsdeildin hefur boðið upp á heimsóknir með hunda í nokkur ár núna. Heimsóknavinir heimsækja með hundana sína á heilbrigðisstofnanir eins og hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og Rjóðrið, hvíldarinnlögn fyrir langveik börn, en einnig á einkaheimili þar sem fólk er einmana og félagslega einangrað. Þær stofnanir sem fá til sín hunda hafa allar fengið sérstakar undanþágur frá heilbrigðisyfirvöldum.

17. jún. 2009 : Það er kominn 17. júní!

Kópavogsdeild óskar landsmönnum gæfu og gleði á þjóðhátíðardegi landsins. Til hamingju með daginn!

15. jún. 2009 : Selir, tröllskessa og bilaðar bremsur

Strandakirkja, selir og víkingaskip voru á meðal þess sem varð á vegi gesta og starfsmanna Dvalar sem fóru í dagsferð á Reykjanes á miðvikudaginn í síðustu viku. Strandakirkja var fyrsti áfangastaðurinn en eftir skoðunarferð um kirkjuna voru borðaðar dýrindis samlokur og skyr, auk þess sem heitt kaffi og kakó var á boðstólnum. Nokkrir úr hópnum gengu upp á hæð þar sem sást yfir fjöruna en þar mátti sjá stærðarinnar seli sem svömluðu um í sjónum og sátu á skerjunum.

Saltfisksetrið í Grindavík var næst á döfinni en þar kynnti fólk sér saltfiskvinnslu og viðskipti fyrr og nú. Í Duushúsi í Keflavík var borðuð súpa og brauð auk þess sem sumir skokkuðu út að helli við höfnina til að skoða tröllskessu sem þar býr.

12. jún. 2009 : Viltu tala meiri íslensku?

Verkefnið Viltu tala meiri íslensku? er hluti af heimsóknaþjónustu deildarinnar og hefur verið í gangi síðan í janúar síðastliðnum. Íslenskir sjálfboðaliðar hafa vikulega hitt innflytjendur sem vilja æfa sig í að tala íslensku. Á samverunum fá innflytjendurnir tækifæri til að tala íslensku og þjálfa sig því í notkun málsins.

Alls hafa níu manns nýtt sér þessa þjónustu og sjálfboðaliðarnir hafa verið fjórir. Þátttakendurnir hafa verið frá Póllandi, Ítalíu, Ástralíu, Tíbet, Sri Lanka og Eþíópíu og kunna sumir litla íslensku en aðrir hafa meiri kunnáttu.

10. jún. 2009 : Nýtt skipurit Kópavogsdeildar komið á vefinn

Á stjórnarfundi deildarinnar síðasta laugardag var samþykkt skipurit fyrir deildina. Þetta er í fyrsta skipti sem skipurit er útbúið yfir stjórnskipulag deildarinnar og hefur það verið sett hér inn á vefsíðuna undir „Um Kópavogsdeild”. Tilgangurinn er að gefa skýra mynd af stjórnskipulaginu og yfirsýn yfir þær nefndir, ráð og stjórnir sem deildin á fulltrúa í.

8. jún. 2009 : Sjálfboðaliðar fjölmenntu á vorgleði

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðarnir fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja. Alls mættu yfir sextíu manns sem nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þá var haldin rúsínuspíttkeppni og sjálfboðaliði leiddi gestina í söng. Börnin fengu andlitsmálun og mátti meðal annars sjá litlar mýs, ketti, tígrisdýr og fiðrildi leika sér í snú snú og með sippubönd og húlahringi.

Gleðin er haldin árlega og er eins konar uppskeruhátið sjálfboðaliða deildarinnar þar sem markmiðið er að fagna starfsvetrinum og gleðjast saman í upphafi sumars. Deildin metur mikils framlag sjálfboðaliða sinna og þakkar þeim fyrir vel unnin sjálfboðin störf í vetur.


4. jún. 2009 : Vinkonur styrkja Rauða krossinn með tombólu

Vinkonurnar Oddný Björg Stefánsdóttir og Helga Lind Magnúsdóttir héldu tombólu á dögunum og söfnuðu alls 6.832 kr. Þær komu í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og færðu Rauða krossinum söfnunarféð. Þær gengu í hús og búðir og söfnuðu dóti á tombóluna sem þær svo héldu fyrir utan Nóatún í Hamraborginni. Stelpurnar eru báðar í Kópavogsskóla og eru að ljúka fjórða bekk.

3. jún. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast til að aðstoða á námskeiði

Kópavogsdeildin verður með ókeypis námskeið fyrir börn á aldrinum 7-12 ára 22.-26. júní næstkomandi kl. 9-16 alla dagana og kallast það Gleðidagar. Námskeiðið tengir saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til hinna yngri.

Leiðbeinendur á námskeiðinu verða að mestu eldri borgarar en deildin óskar eftir yngri sjálfboðaliðum til að aðstoða við námskeiðshaldið, t.d. við hádegismat, leiki og almenna dagskrá. Við óskum eftir fjórum sjálfboðaliðum á dag, tveimur frá kl. 9-13 og tveimur frá kl. 13-16.30. Áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á [email protected].

29. maí 2009 : Hlustum á börnin – átaksvika Hjálparsíma Rauða krossins 1717

Hlutleysi – Skilningur – Trúnaður - Nafnleysi

Hjálparsími Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaki vikuna 31. maí til 6. júní undir yfirskriftinni Hlustum á börnin. Með átaksvikunni vill Hjálparsíminn 1717 minna fólk á að vera vakandi yfir líðan barna á erfiðum tímum og einnig upplýsa börn og unglinga um að þau geti fengið ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem standa þeim til boða með því að hringja í 1717.

Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að þunglyndi, sinnuleysi og kvíði foreldra færist yfir á börn þeirra. Við þær aðstæður eru foreldrar í minna mæli í stakk búin til þess að veita börnum sínum öryggi, hlýju og athygli. Börn elska foreldra sína og þurfa að fá staðfestingu á að þeir hafi tíma fyrir þau og hlusti á þau. Það sem börn þrá framar öllu er samvera við sína nánustu.

29. maí 2009 : Vorferð prjónahóps og heimsóknavina

Heimsóknavinir deildarinnar og sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag fóru í sameiginlega vorferð í gær til Grindavíkur. Tilgangurinn var að þakka sjálfboðaliðunum fyrir gott starf í vetur og eiga skemmtilega stund saman. Þetta var jafnframt lokasamvera þessara tveggja sjálfboðaliðahópa fyrir sumarfrí. Alls fóru þrjátíu konur í ferðina.

28. maí 2009 : Gleðidagar - ókeypis sumarnámskeið fyrir börn

Rauði kross Íslands í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands stendur fyrir óvenjulegum sumarnámskeiðum fyrir börn undir yfirskriftinni Gleðidagar - ungur nemur, gamall temur.

Leiðbeinendur á námskeiðinu verða að mestu eldri borgarar og er hverjum í sjálfsvald sett hverju hann vill miðla til ungu kynslóðarinnar. Því er um ákaflega fjölbreytta dagskrá að ræða þar sem hugarflug og kunnátta þeirra eldri ræður för. Þetta getur til að mynda falist í gömlum leikjum, hnútabindingum, handavinnu, sögustundum, og kennslu í að kveðast á.

28. maí 2009 : Fatapökkun hjá sjálfboðaliðum í verkefninu Föt sem framlag

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag komu saman í sjálfboðamiðstöðinni á dögunum. Tilefnið var fatapökkun þar sem sjálfboðaliðarnir pökkuðu handavinnu sinni í svokallaða ungbarnapakka. Alls var pakkað 229 pökkum að þessu sinni og verða þeir sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví. Sjálfboðaliðarnir hafa pakkað alls 412 pökkum á þessu ári.

26. maí 2009 : Kirkjuferð heimilisfólksins í Sunnuhlíð

Á uppstigningardaginn, sem jafnframt er kirkjudagur aldraðra, hélt stór hópur íbúa í Sunnuhlíð ásamt aðstandendum til messu í Kópavogskirkju. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hafa árlega aðstoðað fólkið í þessari ferð við að komast til og frá kirkjunni og í kaffið í safnaðarheimilinu að lokinni messunni. Þeir sjá því um að keyra hjólastóla, finna sæti og kaffiveitingar fyrir fólkið og annað sem þarf að sjá um í ferðinni.