29. jan. 2009 : Fatapakkar frá sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar afhentir í Malaví

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag prjóna og sauma ungbarnaföt fyrir börn í neyð í Malaví. Þó að Malaví sé vissulega á suðlægum slóðum getur sums staðar orðið kalt á kvöldin og á nóttunni, sérstaklega við fjalllendi. Sjálfboðaliðarnir pakka þessum ungbarnafötum reglulega í þar til gerða fatapakka en í hverjum slíkum pakka er prjónuð peysa, teppi, sokkar, bleyjubuxur og húfa auk handklæðis, taubleyja, treyja og buxna.

Á síðasta ári sendu sjálfboðaliðarnir frá sér 640 pakka og í nóvember síðastliðnum var þeim dreift, ásamt pökkum frá öðrum deildum, til mæðra með lítil börn í Chiradzulu-héraði í Malaví undir stjórn malavíska Rauða krossins. Ljósmyndari var á staðnum og myndaði dreifinguna á pökkunum.

26. jan. 2009 : Ýmis námskeið á döfinni hjá Kópavogsdeild – skráning hafin

Deildin býður upp á fjölbreytt námskeið á næstunni fyrir sjálfboðaliða og almenning. Fyrst á dagskránni er námskeið fyrir nýja heimsóknavini sem verður haldið 9. febrúar. Námskeiðið er undirbúningsnámskeið fyrir þá sem vilja sinna heimsóknaþjónustu en hún miðar að því að rjúfa félagslega einangrun fólks.

Námskeið í skyndihjálp verður svo haldið 18. febrúar þar sem farið verður yfir grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

Þá verður boðið upp á námskeið í sálrænum stuðningi 16. mars. Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum en viðfangsefnin eru til dæmis mismunandi tegundir áfalla og áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn.

23. jan. 2009 : Heimsóknaþjónusta til innflytjenda

English version below.

Nýtt verkefni í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar hefur farið af stað. Því er ætlað að ná til innflytjenda og koma í veg fyrir félagslega einangrun þeirra sem og auðvelda aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Verkefnið ber heitið Viltu tala meiri íslensku? og samanstendur af vikulegum samverum innflytjenda og íslenskra sjálfboðaliða. Á samverunum er töluð íslenska og fá innflytjendurnir þannig tækifæri til að þjálfa sig í notkun íslenskunnar og auka við orðaforða sinn. Nú þegar eru þátttakendur frá Póllandi, Ítalíu og Tíbet.

21. jan. 2009 : Eldhugar hittast á morgun, fimmtudag!

Fyrsta samvera Eldhuga á nýju ári verður fimmtudaginn 22. janúar kl. 17.30. Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins á fimmtudögum kl. 17.30-19.00.

Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum ljósmyndun, leiklist, kynningar á erlendum menningarheimum og margt fleira. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum.

19. jan. 2009 : Ungur sjálfboðaliði styrkir Rauða krossinn

Jóhannes Kristjánsson, 9 ára, hélt tombólu á dögunum og safnaði 1.200 krónum. Hann kom í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og afhenti þennan afrakstur tombólusölunnar. Framlag Jóhannesar rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

16. jan. 2009 : Fjórði starfsmaður Kópavogsdeildar tekur til starfa

Hrafnhildur Helgadóttir hefur hafið störf hjá Kópavogsdeildinni sem verkefnastjóri ungmenna- og alþjóðamála. Hrafnhildur mun sinna öflun upplýsinga og ráðgjöf í málefnum ungra innflytjenda sem og hafa umsjón með Eldhugum og Enter-starfinu. Þá mun hún sjá um samskipti og samvinnu við grunnskóla Kópavogs og Menntaskólann í Kópavogi.

Hrafnhildur er kennaramenntuð og stundar nú meistaranám í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Hún hefur, auk kennslunnar, unnið ýmis störf tengd börnum og ungmennum eins og hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar og Barnheill. “Það er mér mikil ánægja að fá að takast á við ný og spennandi verkefni og taka þátt í því góða starfi sem unnið er hér í Kópavogsdeild Rauða krossins,” segir Hrafnhildur.

14. jan. 2009 : Alþjóðlegir foreldrar hittast aftur á nýju ári

Fyrsta samvera Alþjóðlegra foreldra á nýju ári verður haldin fimmtudaginn 15. janúar kl. 10-11.30 í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11. Alþjóðlegir foreldrar er hópur foreldra frá hinum ýmsu löndum sem hittast vikulega með börnin sín í sjálfboðamiðstöðinni. Við bjóðum velkomna foreldra allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára og vilja hitta aðra með lítil börn.

Boðið er upp samverur þar sem reglulega fer fram stutt íslenskukennsla fyrir foreldrana og fjölbreyttar kynningar. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og léttar veitingar eru í boði. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir hvort sem foreldrarnir tala enga eða einhverja íslensku.

9. jan. 2009 : Kjörnefnd tekur til starfa

Stjórn Kópavogsdeildar samþykkti á fundi sínum þann 4. desember síðastliðinn að mynda þriggja manna kjörnefnd sem gera á tillögu um hverjir verði í kjöri í stjórn og varastjórn á aðalfundi deildarinnar 2009. Verkefni kjörnefndar er að undirbúa kosningar stjórnar- og skoðunarmanna í samræmi við lög félagsins og tryggja að nægilega margir hæfir einstaklingar verði í framboði til þess að fylla þau sæti sem laus eru.

Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram eða vilja tilnefna einhvern til setu í stjórn eða varastjórn deildarinnar eru vinsamlega beðnir um að senda inn tilnefningar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan. Nefndin tekur á móti tilnefningum til 25. janúar næstkomandi. Kosnir verða fjórir stjórnarmenn og einn í varastjórn.

7. jan. 2009 : Undirbúningur í fullum gangi fyrir starf deildarinnar á nýju ári

Sjálfboðamiðstöð deildarinnar hefur opnað aftur eftir jólafrí og nú er verið að undirbúa starf næstu mánaða. Fyrsta samvera Alþjóðlegra foreldra verður 15. janúar kl. 10, Enter-krakkarnir hittast aftur 21. janúar kl. 14 og Eldhugarnir 22. janúar kl. 17.30. Fyrsta prjónakaffið á nýju ári verður svo 28. janúar.

Þá verða ýmis námskeið í boði. Námskeið fyrir nýja heimsóknavini verður haldið 9. febrúar kl. 18-21 og námskeið í almennri skyndihjálp 9. mars kl. 18-22. Einnig verður boðið upp á námskeiðið Slys á börnum og Sálrænn stuðningur en dagsetningar verða auglýstar síðar hér á vefnum.