26. feb. 2009 : Talsverð endurnýjun í stjórn á aðalfundi

Samningsbundnum sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar fjölgaði verulega á síðasta ári eða úr 240 í 329. Um 2.600 manns komu í sjálfboðamiðstöðina í Hamraborg til að sækja námskeið, fundi og margvíslega viðburði. Nær 400 manns sóttu námskeið deildarinnar og hafa aldrei verið fleiri. Þátttakendur í starfinu voru frá öllum heimshornum og má nefna sem dæmi að konur af 20 mismunandi þjóðernum tóku þátt í Alþjóðlegum foreldrum og krakkarnir í Enter komu frá 15 þjóðlöndum. Þetta kom fram í skýrslu stjórnar sem Garðar H. Guðjónsson formaður flutti á vel sóttum aðalfundi deildarinnar í gærkvöldi. Talsverð endurnýjun varð í stjórn og varastjórn á fundinum.

20. feb. 2009 : Nýttu tímann: Skráning hafin

Kópavogsdeildin býður upp á fjölda spennandi námskeiða og fyrirlestra auk samveru fyrir þá sem hafa nægan tíma og áhuga. Viðburðirnir eru á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 10-13 og eru fyrst og fremst ætlaðir atvinnulausum og þeim sem hafa þurft að minnka við sig vinnu, þeim að kostnaðarlausu, en viðburðirnir eru auðvitað opnir öllum. Til dæmis er boðið upp á námskeið í fatasaum, tafli og bridds. Þá verður kennt jóga og tai chi ásamt skapandi skrifum.

18. feb. 2009 : Aðalfundur Kópavogsdeildar

Aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn miðvikudaginn 25. febrúar kl. 20 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

Allir sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að mæta til að taka þátt í því að gera upp síðasta starfsár og leggja á ráðin með framhaldið.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf.
Önnur mál.

18. feb. 2009 : Tilnefning til kjörnefndar fyrir aðalfund Rauða kross Íslands

Á fundi sínum þann 30. janúar síðastliðinn skipaði stjórn Rauða kross Íslands kjörnefnd til að undirbúa kosningu stjórnar og skoðunarmanna skv. 8. grein laga félagsins.

Í kjörnefnd eiga sæti: Ómar H. Kristmundsson fyrrverandi formaður Rauða krossins sem er formaður nefndarinnar, Hrefna Magnúsdóttir formaður Ísafjarðardeildar og Haraldur Hreinsson stjórnarmaður í Kjósarsýsludeild. Einn stjórnarmaður, Þór Gíslason, sagði sig úr stjórn fyrr í vetur þegar hann hóf störf hjá Reykjavíkurdeild og annar, Karen Erla Erlingsdóttir, mun ganga úr stjórn í vor þar sem hún hefur setið þar í átta ár sem er hámarks tími skv. lögum félagsins.
 

17. feb. 2009 : Prjónavörur til sölu í sjálfboðamiðstöðinni

Í sjálfboðamiðstöð deildarinnar eru nú til sölu prjónavörur sem sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hafa prjónað. Til sölu eru sokkar og vettlingar í öllum stærðum og gerðum, húfur, treflar, ungbarnateppi og peysur á börn. Andvirði sölunnar verður nýtt til garnkaupa fyrir sjálfboðaliðana en auk þessa varnings prjóna þeir ungbarnaföt fyrir börn í neyð í Malaví í Afríku. Þá eru prjónaflíkur þeirra einnig seldar í Rauða kross búðum á höfuðborgarsvæðinu. 

Hægt að gera góð kaup á prjónavörunum í sjálfboðamiðstöðinni og þær eru tilvaldar í til dæmis afmælispakka eða sem sængurgjafir.

16. feb. 2009 : Hjálparsími Rauða krossins 1717 með átak gegn einelti

Hjálparsími Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaksviku gegn einelti vikuna 15.-21. febrúar. Hjálparsíminn hvetur alla sem orðið hafa fyrir einelti, þekkja einhvern sem er þolandi eineltis eða er sjálfur gerandi að hringja í 1717 og opna sig fyrir hlutlausum aðila sem getur veitt upplýsingar um úrræði við hæfi.

Hjálparsíminn 1717 efnir til slíks átaks tvisvar á ári þar sem vakin er athygli á sérstökum málaflokkum. Tilgangur átaksvikunnar að þessu sinni er að minna þá sem orðið hafa fyrir einelti á að þeir geti fengið ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem standa þeim til boða með því að hringja í Hjálparsímann 1717. Einnig er ætlunin að hvetja til umræðu í þjóðfélaginu um afleiðingar eineltis jafnframt því að benda á leiðir til úrlausnar.

13. feb. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast í nýtt, tímabundið verkefni

Kópavogsdeildin er að hrinda í framkvæmd nýju, tímabundnu verkefni sem ber heitið Nýttu tímann: Námskeið – Fyrirlestrar – Samvera og er því ætlað að ná til atvinnulausra og þeirra sem hafa þurft að minnka við sig vinnu vegna efnahagsástandsins í landinu. Verkefnið er að sjálfssögðu opið öllum en áhersla er lögð á að ná til fyrrgreindra hópa. Áhersla er einnig lögð á að leiðbeinendur komi úr röðum sjálfboðaliða, sem og atvinnulausra, og því biðjum við áhugasama um að hafa samband við okkur ef þeir geta leiðbeint á einhverju af námskeiðunum. Leiðbeinendurnir þurfa ekki að vera fagmenn heldur bara sjálfboðaliðar með kunnáttu á viðfangsefninu hverju sinni.

11. feb. 2009 : Bjargaði viðskiptavini sem kramdist milli bifreiða

Rauði kross Íslands hefur valið Magnús Þór Óskarsson bifvélavirkja í bifreiðarskoðuninni Frumherja sem Skyndihjálparmann ársins 2008 fyrir hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Magnúsi Þór var veitt viðurkenning Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni Skógarhlíð í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112- daginn.

Magnús vann það þrekvirki að bjarga Hannesi Ragnarssyni sem kramdist milli tveggja bifreiða á bílastæði við Frumherja í ágúst á síðasta ári. 

Hannes hafði skilið bifreið sína eftir í gangi. Hann ætlaði að teygja sig inn í bílinn til að drepa á honum en virðist þá hafa rekið sig í sjálfskiptinguna og sett bílinn í bakkgír. Hannes var þá hálfur inni í bílnum. Bíllinn bakkaði á fullri ferð og lenti Hannes milli eigin bifreiðar og bílsins fyrir aftan. Við áreksturinn fór hurðin af með miklum látum og Hannes skellur þá út úr bílnum og lendir á milli bifreiðanna.

11. feb. 2009 : Viðurkenning fyrir skyndihjálparafrek

Í dag er 112-dagurinn og í tilefni þess veitti Kópavogsdeild Rauða krossins Þráni Farestveit viðurkenningu fyrir að vera tilnefndur sem skyndihjálparmaður ársins 2008. Síðustu árin hafa fleiri aðilar, auk skyndihjálparmanns ársins, hlotið sérstaka viðurkenningu fyrir björgunarafrek og hafa deildir Rauða krossins víða um land afhent viðurkenningarnar. Þráinn vann það afrek að koma manni til bjargar þegar bíll hans varð skyndilega alelda við Laugardalinn í Reykjavík.

10. feb. 2009 : 112-dagurinn 2009 – öryggi barna og ungmenna

Dagur neyðarnúmersins, 112-dagurinn, er haldinn um allt land miðvikudaginn 11. febrúar. Að þessu sinni leggja samstarfsaðilarnir áherslu á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á. Börnunum er jafnframt bent á að þau geta sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka. Viðbragðsaðilar heimsækja grunnskóla um allt land og fræða nemendur um neyðarnúmerið og starfsemi sína. Kópavogsdeildin er engin undantekning þar á og heimsækir unglingadeildir grunnskóla í Kópavogi um þessar mundir og vekur athygli á deginum og neyðarnúmerinu.

5. feb. 2009 : Líf og fjör hjá Eldhugum

Eldhugar Kópavogsdeildar hittust á fimmtudaginn í síðustu viku líkt og þeir eru vanir að gera alla fimmtudaga kl. 17.30. Fjölmennt var á fundinum og í þetta sinn var farið í ýmsa leiki í byrjun til að hrista hópinn saman. Síðan var hafist handa við að deila með hvort öðru uppáhalds ,,youtube-krækjunni “ og skemmtu sér allir konunglega yfir því sem hver hafði að sýna. Eldhugarnir fengu líka að smakka á alþjóðlegu snakki og í þetta sinn var snakkið ættað frá Mexíkó, öllum til mikillar gleði.

3. feb. 2009 : Framlag til kaupa á garni

Á dögunum var Kópavogsdeildinni fært sérstakt framlag til kaupa á garni fyrir verkefnið Föt sem framlag. Afkomendur Önnu Bjarnadóttur, sem hefur verið sjálfboðaliði í þessu verkefni í fjölda ára, ákváðu fyrir jól að í stað þess að gefa hvort öðru jólagjafir myndu þau styrkja verkefnið. Framlagið nam 88 þúsundum króna, eitt þúsund fyrir hvert ár sem Anna hefur lifað. Anna Rún Ingvarsdóttir, barnabarn Önnu, afhenti deildinni framlagið fyrir hönd afkomendanna en deildin þakkar þeim kærlega fyrir þetta gjafmildi og hlýhug.

2. feb. 2009 : Rauði krossinn bregst við efnahagsástandinu með opnun miðstöðvar

Miðstöð, þar sem aðstoð verður veitt í samræmi við neyðarvarnaskipulag Rauða krossins, verður sett á laggirnar á næstu vikum til að bregðast við þörf sem hefur skapast í samfélaginu í kjölfar efnahagsástandsins. Boðið verður upp á sálrænan stuðning, ráðgjöf og námskeið til að takast á við breyttar aðstæður fólks í landinu. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi Rauða krossins í gærkvöldi.