30. mar. 2009 : Kópavogsdeildin færir Lindaskóla þakklætisvott

Kópavogsdeildin færði í dag nemendum og starfsfólki Lindaskóla þakklætisvott fyrir vel unnið starf í þemaviku skólans fyrir skemmstu þar sem Rauði krossinn var umfjöllunarefnið. Við sama tilefni gáfu nemendur Rauða krossinum þá peninga sem höfðu safnast við sölu á vöfflum og söfnun á fjárframlögum á fjölskyldusýningu skólans. Verkefnastjóri ungmenna- og alþjóðamála hjá deildinni, Hrafnhildur Helgadóttir, tók þakklát við þessari peningagjöf.

26. mar. 2009 : Ungt fólk og fjölmenning

Kópavogsdeild stóð fyrir viðburðinum „Ungt fólk og fjölmenning” í gærkvöldi í samvinnu við Menningarhúsið Molann í Kópavogi. Fólk fjölmennti í Molann þar sem viðburðurinn var haldinn og allt að 80 manns voru í húsinu þegar hæst bar. Þessi viðburður var fyrsti liðurinn í ungmennastarfi Kópavogsdeildar fyrir ungmenni á aldrinum 16-35 ára en nú í vor mun deildin víkka út starf sitt enn frekar með því að koma á fót sérstöku starfi fyrir þennan aldurshóp. Markmið viðburðarins var einnig að vekja athygli á stöðu fjölmenningar á Íslandi með sérstakri áherslu á ungt fólk. 

25. mar. 2009 : Sjálfboðaliða vantar í Rauðakrosshúsið

Námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða í Rauðakrosshúsi verður haldið í Rauðakrosshúsinu að Borgartúni 25 (1. hæð) í Reykjavík mánudaginn 30. mars.

Á námskeiðinu verður fjallað um sálræna erfiðleika á erfiðum tímum, sálrænan stuðning, móttöku gesta, viðtalstækni og hvaða aðstoð og úrræði eru í boði í samfélaginu. Starfsemi Rauða krossins verður kynnt og starf sjálfboðaliða í Rauðakrosshúsinu.

Störf sjálfboðaliða í Rauðakrosshúsinu eru margvísleg. Hluti sjálfboðaliða sinnir einkum móttöku og ráðgjöf við gesti, aðrir sinna undirbúningi námskeiða og öðrum tilfallandi verkefnum þar á meðal léttu spjalli við gesti.

25. mar. 2009 : Um 15 milljónir söfnuðust í landssöfnun Rauða krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar

Landssöfnuninni sem Rauði kross Íslands og Hjálparstarf kirkjunnar stóðu fyrir í síðustu viku er nú lokið. Landsmenn voru hvattir til að gefa 100 kall á haus og alls söfnuðust um 15 milljónir. Söfnunarféð skiptist jafnt á milli Rauða krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar.

Kópavogsdeildin þakkar öllum þeim sem tóku þátt í söfnuninni með framlagi sínu. Stuðningur landsmanna við starf hreyfingarinnar er ómetanlegur, nú sem endranær.

24. mar. 2009 : Nemendur í Lindaskóla kynna sér Rauða krossinn

Þemaviku Lindaskóla í Kópavogi þar sem Rauði krossinn var viðfangsefnið lauk nú nýverið með veglegri fjölskyldusýningu þar sem afrakstur nemenda var til sýnis. Verkefnastjóri ungmennamála hjá Kópavogsdeildinni mætti á sýninguna og heillaðist mjög af veglegri vinnu nemendanna.

Eftir að hafa fengið kynningu frá verkefnastjóranum á mánudagsmorgni völdu nemendurnir sér eitt viðfangsefni til þess að vinna með. Máttu þeir ráða nánari útfærslu sinna verkefna í framhaldinu. Dæmi um viðfangsefni sem hægt var að velja var sjálfboðið starf, starf Rauða krossins á Íslandi, alþjóðlegt hjálparstarf, börn og stríð, hungursneyð,  hugsjónastarf Rauða krossins og þróunarlöndin. Auk þess var hægt að taka að sér að búa til fréttir um þemavikuna.

23. mar. 2009 : Fjórða námskeiðið í Nýttu tímann farið af stað

Í morgun hófst fjórða námskeiðið í Nýttu tímann, þ.e. hreyfing. Þátttakendur fá þá leiðsögn í tai chi-æfingum og svo jóga. Námskeiðið er ætlað öllum, í sama hvaða formi fólk er, og það verður næstu þrjá mánudaga. Enn er laust á námskeiðið fyrir áhugasama. Verkefnið Nýttu tímann hófst í byrjun mars með námskeiði í skapandi skrifum. Níu manns sátu námskeiðið en næsta námskeið, aðstoð við gerð skattaskýrslunnar, var einnig vinsælt. Þá var fullbókað á námskeið í prjóni og hekli. Einnig er fullbókað á námskeið í fatasaumi en nú hafa bæst við fleiri námskeið og skráning er hafin á þau.

19. mar. 2009 : Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti, viðburður í Smáralindinni í dag

Þessa vikuna stendur yfir Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti þar sem unnið er að því að uppræta mismunun, fordóma og þjóðernishyggju í álfunni og stuðla að umburðalyndu samfélagi þar sem allir eru jafnir.

Í tilefni þess stendur Rauði krossinn, Mannréttindastofa, Þjóðkirkjan, SGI Búddistafélagið og KFUM & KFUK fyrir viðburði fyrir ungt fólk í Smáralindinni  í dag, 19. mars, kl. 16:30.

Unga fólkið í félögunum mun bjóða gestum og gangandi upp á fjölmenningarspjall, sælgæti og barmmerki á 1. hæðinni fyrir framan verslun Haugkaupa. Ýmis skemmtiatriði verða í boði eins og söngatriði úr söngleik Menntaskólans í Kópavogi „Skítt með það" og söngleiknum Hero, gestum og gangandi verður boðið í break kennslu, fjölmenningar- „twister" og fleiri leiki.

18. mar. 2009 : Ungmenni kynna sér starfsemi Rauða krossins

Nú stendur yfir árleg þemavika í Lindaskóla í Kópavogi og þemað í unglingadeildinni í ár er Rauði kross Íslands. Nemendur úr skólanum hafa kynnt sér starfsemi Rauða krossins og hafa nokkrir hópar komið í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og tekið viðtöl við starfsmenn deildarinnar. Þeir hafa fræðst um rekstur deildarinnar, verkefnin, námskeið og ungmennastarfið. Þá hafa nokkrir hópar líka farið á landsskrifstofu Rauða krossins og fengið upplýsingar um starfið þar. Þeir fengu meðal annars stutta kennslu í skyndihjálp.

17. mar. 2009 : Úrslit í ljósmyndakeppni Eldhuga

Spennan var mikil þegar úrslitin í ljósmyndakeppni Eldhuga voru kynnt í síðustu viku. Fyrsta sætið hlaut Valey Sól Guðmundsdóttir fyrir mynd sína í þemanu „Fjölbreytni“. Í verðlaun býður Ljósmyndaskóli Sissu Valeyju Sól upp á kennslu í formi leiðsagnar í einn dag. Auk þess fékk hún tvo bíómiða sem Sambíóin gáfu í verðlaun. Annað sætið hlutu Heiðrún Fivelstad og Gunnhildur Ýr Valdimarsdóttir fyrir mynd sína í þemanu „Fordómar“. Fengu þær gjafabréf upp á tvo kafbáta í boði Subway.

16. mar. 2009 : Hundraðkall á haus – Stöndum saman

Sameiginleg landssöfnun Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar hófst 16. mars. Einkunnarorð eru Stöndum saman og er safnað í þágu aðstoðar innanlands.

Um er að ræða símasöfnun þar sem hringt er í eitt númer 90 15 100, og þá dragast 100 kr. frá næsta símreikningi. Lögð er áhersla á að allir geti lagt sitt að mörkum burtséð frá afkomu og aðstæðum hvers og eins með því að hafa upphæðina þetta lága. Ef allir landsmenn standa saman ættu að safnast 32 milljónir króna til verkefna Rauða krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar vegna efnahagsþrenginganna.

16. mar. 2009 : Góður stuðningur í landssöfnuninni sem hófst í dag

Sóley Gunnarsdóttir, 10 ára, kom færandi hendi í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar rétt í þessu í tilefni af landssöfnun Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar. Hún kom fyrir hönd frændsystkina sinna sem hvert gaf 500 krónur í söfnuna og færði hún Rauða krossinum alls 6.000 krónur. Fyrir hönd Rauða krossins færir Kópavogsdeildin frændsystkinunum kærar þakkir fyrir stuðninginn.

13. mar. 2009 : Enter á ferð og flugi

Það hefur ýmislegt skemmtilegt verið á döfinni síðustu vikur hjá Enter krökkunum. Til að mynda var þeim boðið að heimsækja RÚV í síðustu viku þar sem þau fengu að fylgjast með upptöku Stundarinnar okkar. Björgvin Franz Gíslason, umsjónarmaður þáttarins, gaf sér tíma og heilsaði upp á krakkana auk þess sem þeim var boðið upp á veitingar. Þau voru uppnumin yfir þessari reynslu og því hversu stórt myndverið er í raun. Þau sátu áhugasöm og prúð á meðan á upptökum stóð og sögðust síðan ætla að fylgjast spennt með á hverjum sunnudegi eftir þættinum sem þau sáu búinn til. 

12. mar. 2009 : Kastljósþátturinn um alnæmisleikinn kominn á vefinn

Rauða kross ungmenni af öllu höfuðborgarsvæðinu sameinuðust fimmtudagskvöldið 27. nóvember 2008 í húsakynnum Kópavogsdeildar. Samkoman var liður í undirbúningi fyrir alþjóðlega alnæmisdaginn, sem haldinn er ár hvert 1. desember.

Auður Ásbjörnsdóttir stjórnarmeðlimur URKÍ hélt utan um svokallaðan „alnæmisleik". Leikurinn varpar ljósi á hvernig fólk getur sýkst af alnæmisveirunni. Kastljós kom í heimsókn og fylgdist með leiknum.

12. mar. 2009 : Kópavogsdeildin hélt námskeið fyrir Landssamband æskulýðsfélaga

Kópavogsdeildin hélt námskeið í sálrænum stuðningi fyrir Landssamband æskulýðsfélaga í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Á námskeiðinu voru leiðbeinendur í ungmennastarfi hjá meðal annars URKÍ-deildum Rauða krossins, Skátafélaginu Svanir á Álftanesi og Samtökunum ’78. Alls sátu fjórtán leiðbeinendur námskeiðið. Dögg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Kópavogsdeild, byrjaði á því að kynna starf deildarinnar og síðan leiðbeindi Margét Blöndal, geðhjúkrunarfræðingur, þátttakendunum í sálrænum stuðningi.

9. mar. 2009 : Eldhugar hitta palestínska unglinga á Akranesi

Það var sannkölluð fjölmenningarstemning á fundi Eldhuga á fimmtudaginn er þeir fóru saman ásamt sjálfboðaliðum að heimsækja Rauða krossinn á Akranesi. Þar fékk hópurinn frábærar móttökur. Nokkrir unglingar úr hópi palestínskra flóttamanna sem þar búa, ásamt sjálfboðaliðum og starfsfólki  deildarinnar, biðu hópsins með veitingar. Auk þess sem hann fékk fræðslu um móttöku flóttamanna til nýrra heimkynna. Þar kom fram hvernig Rauði krossinn á Akranesi stóð að móttöku flóttamannanna frá Palestínu sem fluttu þangað í fyrrahaust. Sagt var frá því hvernig deildin og bæjarbúar stuðluðu að því að fólkinu liði sem best og hvernig stuðningsfjölskyldur á Akranesi hafa stutt við hópinn og hjálpað þeim við að aðlagast lífi í nýju landi.

6. mar. 2009 : Ný stjórn skiptir með sér verkum

Nýja stjórn deildarinnar sem kosin var á aðalfundinum í febrúar skipti með sér verkum á marsfundi stjórnarinnar í gær. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir verður áfram gjaldkeri deildarinnar og Hildur Tryggvadóttir Flóvenz var skipuð ritari. Hún gegnir þá jafnframt stöðu varaformanns deildarinnar en hún er yngsti stjórnarmeðlimurinn.

4. mar. 2009 : Góðar viðtökur á fyrsta námskeiðinu í verkefninu Nýttu tímann

Fyrsta námskeiðið í verkefninu Nýttu tímann hófst á mánudaginn síðasta og var mætingin góð. Alls mættu níu manns og fengu leiðbeiningar í skapandi skrifum og við gerð ritverka. Þá fengu þátttakendurnir heimaverkefni og mæta svo aftur næsta mánudag og fá ábendingar varðandi skrif sín. Í lok þessa fyrra dags námskeiðsins var svo boðið upp á léttan hádegisverð.

3. mar. 2009 : Kópavogsdeildin er virkur þátttakandi í alþjóðastarfi Rauða krossins

Markmið deildarinnar er að taka þátt í alþjóðlegri neyðaraðstoð á vegum Rauða kross Íslands og vera virkur þátttakandi í alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Einn liður í þessu starfi er verkefnið Föt sem framlag en vel yfir 50 sjálfboðaliðar störfuðu við það árið 2008 eins og kemur fram í ársskýrslu deildarinnar sem var kynnt á aðalfundi í síðustu viku. Sjálfboðaliðarnir útbúa fatapakka fyrir börn í neyð og eru þeir sendir til Malaví í Afríku. Alls sendu þeir frá sér 640 pakka og yfir 100 teppi á síðasta ári. Þá lögðu gestir í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, verkefninu lið með handavinnu sem fer fram í athvarfinu. Konur á hjúkrunarheimilinu í Sunnuhlíð lögðu einnig sitt af mörkum með því að afhenda deildinni teppi og aðrar prjónavörur.

2. mar. 2009 : Blómlegt barna- og ungmennastarf hjá Kópavogsdeild

Markmið deildarinnar með barna- og ungmennastarfinu er að aðstoða börn og ungt fólk sem stendur höllum fæti, taka þátt í markvissu forvarnarstarfi, kynna sjálfboðið Rauða kross starf fyrir ungu fólki og stuðla að þátttöku þess í starfi deildarinnar. Alls tóku á annað hundrað manns þátt í þessu starfi árið 2008 eins og kemur fram í ársskýrslu deildarinnar sem var kynnt á aðalfundi í síðustu viku. Fimmtíu börn, frá hinum ýmsu löndum, tóku þátt í Enter og með þeim störfuðu 19 sjálfboðaliðar. Þátttakendur í Eldhugum voru 34 og þeim til aðstoðar voru 17 sjálfboðaliðar. Sjálfboðaliðarnir voru á tvítugs- eða þrítugsaldri og komu flestir úr Menntaskólanum í Kópavogi, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Háskóla Íslands.