30. apr. 2009 : Ungt fólk til áhrifa

Unnur Tryggvadóttir Flóvenz, ungur sjálfboðaliði Kópavogsdeildar, var kosin varamaður í stjórn Ungmennahreyfingar Rauða krossins á landsfundi félagsins síðastliðinn laugardag. Unnur situr einnig sem formaður stýrihóps ungmennastarfs Kópavogsdeildar. Stýrihópurinn er samsettur af sjálfboðaliðum á aldrinum 17-23 ára.

28. apr. 2009 : Sjálfboðaliðar aðstoða nemendur við nám

Frá  27. apríl til 13. maí býður Kópavogsdeild upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri í Molanum, ungmennahúsi að Hábraut 2 í Kópavogi.

Í Molanum er opin lesaðstaða fyrir nemendur alla virka daga en á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 16-17.30 verða sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild á staðnum. Þeir búa yfir góðri þekkingu í stærðfræði, íslensku, raungreinum og tungumálum fyrir þá sem vilja njóta sérstakrar leiðsagnar í þeim fögum. Öll aðstaða undir slíka aðstoð er til fyrirmyndar í Molanum.

27. apr. 2009 : Virkja ber þann mikla kraft sem býr í fólki og gefa því tækifæri til að gefa af sér, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Kollsteypan sem orðið hefur í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnu misseri hefur breytt lífi margra. Þegar fólk missir vinnuna eða þarf að minnka verulega við sig vinnu er hætta á að það einangrist og upplifi aðgerðaleysi og vanmátt.

24. apr. 2009 : Þrjár vinkonur styrkja Rauða krossinn

Valdís Birna Björnsdóttir, Lísa Björk Ólafsdóttir og Karen Björg Lindsey héldu tombólu á dögunum og söfnuðu 2.765 kr. Þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með þennan afrakstur og gáfu Rauða krossinum. Þær höfðu orð á því að það hefði verið skemmtilegt að halda tombóluna og að þær hafi gert það til að hjálpa öðrum. Framlag stelpnanna rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

22. apr. 2009 : Gleðilegt sumar!

Kópavogsdeildin óskar sjálfboðaliðum sínum og samstarfsfólki gleðilegs sumars og þakkar fyrir samstarfið á liðnum vetri.

21. apr. 2009 : Fyrirlestur um heilsufar og matarræði á morgun, miðvikudag

Kópavogsdeildin verður með fyrirlestur um heilsufar og matarræði í sjálfboðamiðstöðinni á morgun, miðvikudag. Fyrirlesturinn er hluti af verkefninu Nýttu tímann sem byrjaði hjá deildinni í mars. Á fyrirlestrinum verða teknar fyrir spurningar eins og: Hvaða þættir hafa áhrif á heilsufar okkar og hvernig er hægt að borða hollt en ódýrt? Fyrirlesturinn hefst kl. 10 og í lok hans verður boðið upp á léttan hádegisverð. Allir eru velkomnir!

20. apr. 2009 : Sjálfboðaliðar í leikhús

Hópur sjálfboðaliða Kópavogsdeildar fór á leiksýninguna Óskar og bleikklædda konan í boði Borgarleikhússins um helgina. Höfundur þessa verks er Eric-Emmanuel Schmidt og það fjallar um ungan dreng sem á skammt eftir ólifað og samskipti hans við sjálfboðaliða á sjúkrahúsinu þar sem hann dvelur. Kópavogsdeild þakkar Borgarleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

16. apr. 2009 : Enter tekur þátt í Kópavogsdögum

Enterhópurinn hóf í gær undirbúning að þátttöku á Kópavogsdögum sem haldnir verða 9.-13. maí. Hópurinn vann dúkkulísur sem eiga að túlka þau sjálf en þær verða hengdar upp til sýnis á bæjarskrifstofu Kópavogsbæjar. Markmið sýningarinnar er að vekja athygli á ólíkum bakgrunni Kópavogsbúa en börnin í Enter eru af fjölbreyttum uppruna.  Þau koma meðal annars frá Dóminíska lýðveldinu, Sri Lanka, Póllandi, Portúgal, Litháen og Tælandi. Öll eiga þau þó það sameiginlegt að búa í Kópavogi og ganga í Hjallaskóla.  Líkt og myndirnar sýna skein einbeiting úr andlitum barnanna við vinnuna og útkoman var fjölbreytt og skemmtileg.

14. apr. 2009 : Skráning hafin á Börn og umhverfi

Skráning er hafin á námskeiðið Börn og umhverfi hjá Kópavogsdeild Rauða krossins. Alls verða fjögur námskeið haldin hjá deildinni í apríl og maí. Námskeiðin hafa verið afar vinsæl undanfarin ár meðal ungmenna sem eru á 12. aldursári og eldri. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Fjallað er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur og veitt ítarleg kennsla í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

7. apr. 2009 : Spennt að fara í vinnuna

Stundum hefur verið sagt um hunda að þeir sér bestu vinir mannsins. Viðmót þeirra er fals- og fordómalaust en ávallt hlýtt og gefandi, enda vinsæll félagsskapur ungra sem aldinna, veikra sem frískra. Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

4. apr. 2009 : 260 þúsund krónur söfnuðust á handverksmarkaði deildarinnar í dag

Fjöldi fólks mætti í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í dag og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, máluð páskaegg og fleira handverk. Alls seldust vörur fyrir 260 þúsund krónur.

Helmingur af ágóðanum rennur til Rauða kross deildar í Maputo-héraði í Mósambík en Kópavogsdeildin er í vinadeildasamstarfi með þeirri deild. Markmið samstarfsins er að efla starf beggja deilda og skapa tengsl á milli sjálfboðaliða deildarinnar. Hinn helmingurinn af ágóðanum rennur til verkefnisins Föt sem framlag en í því verkefni prjóna og sauma sjálfboðaliðar ungbarnaföt sem síðan eru send til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví.

2. apr. 2009 : Handverksmarkaður Kópavogsdeildar á laugardaginn

Hér er tækifæri til að verða sér úti um fallegt handverk, setja það jafnvel í afmælispakka eða gefa sem sængjurgjafir og styrkja um leið gott málefni!

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur handverksmarkað laugardaginn 4. apríl kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma sjálfboðaliðar úr ýmsum öðrum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum, ungir sem aldnir.

Selt verður fjölbreytt handverk sjálfboðaliða eins og fallegar prjónavörur, páskaskraut og sælgæti sem yngstu sjálfboðaliðarnir hafa búið til.

1. apr. 2009 : Tíminn nýttur í að læra fatasaum

Kópavogsdeildin býður upp á námskeið í fatasaumi í verkefninu Nýttu tímann en verkefnið samanstendur af námskeiðum, fyrirlestrum og samverum fyrir atvinnulausa og þá sem hafa þurft að minnka við sig vinnu. Námskeiðið í fatasaumi er einkar vinsælt og komust færri að en vildu. Tíu þátttakendur sitja námskeiðið en tveir sjálfboðaliðar hjá deildinni í verkefninu Föt sem framlag sjá um kennsluna. Núna stendur yfir önnur samveran á námskeiðinu í sjálfboðamiðstöðin en það er mánaðarlangt og samanstendur af alls fjórum samverum.