29. maí 2009 : Hlustum á börnin – átaksvika Hjálparsíma Rauða krossins 1717

Hlutleysi – Skilningur – Trúnaður - Nafnleysi

Hjálparsími Rauða krossins 1717 stendur fyrir átaki vikuna 31. maí til 6. júní undir yfirskriftinni Hlustum á börnin. Með átaksvikunni vill Hjálparsíminn 1717 minna fólk á að vera vakandi yfir líðan barna á erfiðum tímum og einnig upplýsa börn og unglinga um að þau geti fengið ráðgjöf og upplýsingar um úrræði sem standa þeim til boða með því að hringja í 1717.

Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að þunglyndi, sinnuleysi og kvíði foreldra færist yfir á börn þeirra. Við þær aðstæður eru foreldrar í minna mæli í stakk búin til þess að veita börnum sínum öryggi, hlýju og athygli. Börn elska foreldra sína og þurfa að fá staðfestingu á að þeir hafi tíma fyrir þau og hlusti á þau. Það sem börn þrá framar öllu er samvera við sína nánustu.

29. maí 2009 : Vorferð prjónahóps og heimsóknavina

Heimsóknavinir deildarinnar og sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag fóru í sameiginlega vorferð í gær til Grindavíkur. Tilgangurinn var að þakka sjálfboðaliðunum fyrir gott starf í vetur og eiga skemmtilega stund saman. Þetta var jafnframt lokasamvera þessara tveggja sjálfboðaliðahópa fyrir sumarfrí. Alls fóru þrjátíu konur í ferðina.

28. maí 2009 : Gleðidagar - ókeypis sumarnámskeið fyrir börn

Rauði kross Íslands í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands stendur fyrir óvenjulegum sumarnámskeiðum fyrir börn undir yfirskriftinni Gleðidagar - ungur nemur, gamall temur.

Leiðbeinendur á námskeiðinu verða að mestu eldri borgarar og er hverjum í sjálfsvald sett hverju hann vill miðla til ungu kynslóðarinnar. Því er um ákaflega fjölbreytta dagskrá að ræða þar sem hugarflug og kunnátta þeirra eldri ræður för. Þetta getur til að mynda falist í gömlum leikjum, hnútabindingum, handavinnu, sögustundum, og kennslu í að kveðast á.

28. maí 2009 : Fatapökkun hjá sjálfboðaliðum í verkefninu Föt sem framlag

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag komu saman í sjálfboðamiðstöðinni á dögunum. Tilefnið var fatapökkun þar sem sjálfboðaliðarnir pökkuðu handavinnu sinni í svokallaða ungbarnapakka. Alls var pakkað 229 pökkum að þessu sinni og verða þeir sendir til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví. Sjálfboðaliðarnir hafa pakkað alls 412 pökkum á þessu ári.

26. maí 2009 : Kirkjuferð heimilisfólksins í Sunnuhlíð

Á uppstigningardaginn, sem jafnframt er kirkjudagur aldraðra, hélt stór hópur íbúa í Sunnuhlíð ásamt aðstandendum til messu í Kópavogskirkju. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hafa árlega aðstoðað fólkið í þessari ferð við að komast til og frá kirkjunni og í kaffið í safnaðarheimilinu að lokinni messunni. Þeir sjá því um að keyra hjólastóla, finna sæti og kaffiveitingar fyrir fólkið og annað sem þarf að sjá um í ferðinni.

26. maí 2009 : Vorferð barna og ungmenna í Heiðmörk

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Í þessari dagsferð gefst ungmennunum einstakt tækifæri til að hittast og kynnast krökkum í öðrum deildum sem starfa með Rauða krossinum. Ferðin var afar vel sótt en rúmlega 70 börn og ungmenni auk sjálfboðaliða tóku þátt í ár.

Alls komu 28 börn og ungmenni frá Kópavogsdeild að þessu sinni. Úr Enter starfinu, sem er vikulegt starf  með sjálfboðaliðum fyrir 9-12 ára innflytjendur, komu 18 börn. Eldhugarnir voru 10 talsins en þeir eru unglingar á aldrinum 13-16 ára sem einnig hafa hist einu sinni í viku í vetur. Hópurinn var í heild sinni mjög alþjóðlegur en krakkarnir frá Kópavogsdeild komu meðal annars frá Póllandi, Litháen, Tælandi, Dóminíska lýðveldinu, Rúmeníu og Íslandi.

22. maí 2009 : Hátt í eitt hundrað námsmenn nýttu sér lesaðstöðu og námsaðstoð

Kópavogsdeildin bauð upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri 27. apríl til 13. maí í samstarfi við Molann, menningar- og tómstundahús Kópavogs að Hábraut 2.

Í Molanum var opin lesaðstaða fyrir nemendur alla virka daga en tvisvar í viku voru sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild, sem búa yfir góðri þekkingu í helstu námsfögunum, á staðnum. Tilgangur verkefnisins var að sporna gegn brottfalli nemenda úr námi með því að veita þeim sérstaka aðstoð yfir prófatímann.

20. maí 2009 : Yfir hundrað þátttakendur í verkefninu Nýttu tímann

Kópavogsdeild Rauða krossins hratt af stað verkefninu Nýttu tímann í byrjun mars með ókeypis námskeiðum, fyrirlestrum og samverum. Síðasta námskeiðinu lauk núna í vikunni en alls voru þátttakendur á viðburðunum yfir hundrað talsins. Viðburðirnir voru 19 talsins, haldnir á 27 dögum, og 16 sjálfboðaliðar gáfu vinnu sína, sem leiðbeinendur eða með því að veita annars konar aðstoð.

Verkefninu var ætlað að ná til fólks í atvinnuleit og þeirra sem hafa þurft að minnka við sig vinnu með því að skapa þeim aðstæður til að bæta við þekkingu sína. Þá var markmiðið einnig að hvetja fólk til að nýta þekkingu sína og reynslu og halda áfram að dafna og vaxa þrátt fyrir tímabundinn atvinnumissi á erfiðum tímum en sumir leiðbeinandanna voru án atvinnu.

18. maí 2009 : Viltu taka þátt í skyndihjálparhópi Rauða krossins?

Skyndihjálparhópur ungmennastarfs Kópavogsdeildar sem vinnur í samstarfi við Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík óskar eftir sjálfboðaliðum til þess að taka þátt í skyndihjálparverkefnum í sumar.

Til þess að geta tekið þátt í starfinu þurfa umsækjendur að sækja grunnnámskeið Rauða krossins þann 28. maí næstkomandi. Auk þess mun hópurinn standa fyrir sérstöku skyndihjálparnámskeiði dagana 2.–4. júní í Rauðakrosshúsinu í Borgartúni 25. 

16. maí 2009 : Ný umhverfisstefna Rauða kross Íslands til að draga úr loftslagsbreytingum

Ný umhverfisstefna Rauða kross Íslands var samþykkt á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Vík í Mýrdal í dag. Rauði kross Íslands er þar með fyrsta af 186 landsfélögum Rauðakrosshreyfingarinnar að marka sér formlega stefnu til að leggja sitt að mörkum til að draga úr loftslagsbreytingum í heiminum. 

Í umhverfisstefnu Rauða krossins er kveðið á um að starfsemi Rauða krossins verði þannig að hún valdi sem minnstri mengun og álagi á auðlindir og umhverfi. Skref í þá átt eru að:
minnka úrgang með markvissari notkun upplýsingatækni, minni notkun á pappír og einnota vörum.
auka endurvinnslu með skilum á flokkuðum úrgangi og spilliefnum.
stunda umhverfisvæn innkaup á rekstrarvörum og við endurnýjun búnaðar.
minnka orkunotkun, huga að umhverfisvænum samgöngum og fundum og draga úr losun koltvísýrings (þar verði horft til bílaflota félagsins). 

14. maí 2009 : Skráning hafin á námskeiðið Börn og umhverfi 25.-28. maí

Þriðja Börn og umhverfi námskeiðið sem Kópavogsdeildin heldur þetta árið verður 25.-28. maí. Námskeiðið er fyrir ungmenni á 12. aldursári og eldri. Þau læra mikilvæga þætti varðandi umgengni og framkomu við börn og eru þjálfuð í árangursríkum samskiptum, aga og umönnum. Þá er einnig fjallað um slysavarnir og algengar slysabætur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Ungmennin fá líka innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

13. maí 2009 : Vetrarstarfi Eldhuga lýkur senn

Nú fer að líða að lokum vetrarstarfsins hjá Eldhugum en þeir hafa hist kl.17.30 alla fimmtudaga í vetur. Síðasta samvera Eldhuga verður þann 14. maí en þá fara þeir í heimsókn til Reykjavíkurdeildar. Þar verður haldin sameiginleg grillveisla og skemmtun fyrir 13-16 ára unglinga í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu. Eldhugar munu þar fá tækifæri til þess að kynnast og eiga góða stund saman með öðrum unglingum. Auk þess munu þeir fá að sjá hvað önnur ungmenni innan Rauða krossins hafa verið að gera í vetur en hver deild mun vera með myndasýningu frá sínu vetrarstarfi.

11. maí 2009 : Við erum Kópavogsbúar

Sýning á dúkkulísum sem Enter-hópurinn vann fyrir skemmstu er nú til sýnis í anddyri Þjónustuskrifstofu Kópavogsbæjar. Tilefnið er Kópavogsdagar og markmið sýningarinnar er að vekja athygli á ólíkum bakgrunni Kópavogsbúa í samfélagi sem verður sífellt alþjóðlegra. Dúkkulísurnar túlka börnin sjálf en börnin í Enter eru af fjölbreyttum uppruna.

8. maí 2009 : Alþjóðadagur Rauða krossins 8. maí

Sjálfboðaliðar, félagar og starfsmenn Rauða krossins og Rauða hálfmánans fagna því að í dag er alþjóðadagur hreyfingarinnar. Dagurinn er fæðingardagur stofnanda hennar, Henry Dunants, og er fyrst og fremst helgaður öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna fyrir Rauða krossinn og Rauða hálfmánann um heim allan. Sjálfboðaliðarnir starfa að ólíkum verkefnum en þó alltaf með sömu markmið og hugsjónir að leiðarljósi.

7. maí 2009 : Verkefnið Nýttu tímann hefur fengið góðar viðtökur

Verkefnið Nýttu tímann fór af stað hjá deildinni í byrjun mars og hafa viðtökurnar verið vonum framar. Fjöldi fólks hefur nýtt sér ókeypis námskeið og fyrirlestra sem hafa verið í boði tvo til þrjá daga í hverri viku síðan verkefnið hófst. Boðið hefur verið upp á námskeið í til dæmis fatasaumi, ræktun kryddjurta, skapandi skrifum og nýsköpun. Þátttakendur hafa almennt verið ánægðir með viðburðina og framtakið í heild sinni.

Leiðbeinendur hafa gefið vinnu sína og í lok hvers viðburðar hefur verið boðið upp á léttan hádegisverð. Síðustu viðburðirnir verða í næstu viku en á mánudag verður ljósmyndakennsla, námskeið um gerð viðskiptaáætlana á þriðjudag og kennsla á GPS-tæki á miðvikudag. Enn er hægt að skrá sig á þessa viðburði með því að smella hér.

5. maí 2009 : Tveir starfsmenn kvaddir í Dvöl

Selma Þórðardóttir og Sigurbjörg Lundholm, leiðbeinendur í Dvöl, sögðu skilið við athvarfið á dögunum en báðar höfðu starfað þar frá opnun þess fyrir tíu árum síðan. Þær voru kvaddar af gestum athvarfsins og öðru starfsfólki með góðri samveru í Dvöl. Þá voru þær leystar út með gjöfum og kærum þökkum fyrir vel unnin störf. Dvöl er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar, Kópavogsbæjar og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Selma og Sigurbjörg unnu báðar fyrir svæðisskrifstofuna.

4. maí 2009 : Myndir frá afhendingu fatapakka í Malaví sýndar í Sunnuhlíð

Konur á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð taka þátt í verkefninu Föt sem framlag hjá Kópavogsdeildinni með því að prjóna teppi og peysur. Teppunum og peysunum er pakkað í þar til gerða fatapakka ásamt öðrum prjónaflíkum frá sjálfboðaliðum deildarinnar og þeir sendir til Malaví.

Á dögunum bárust deildinni myndir frá dreifingu fatapakkanna í Malaví og í dag var haldin myndasýning í Sunnuhlíð. Þá fengu konurnar að sjá afrakstur vinnu sinnar kominn á leiðarenda til barna og fjölskyldna í neyð. Þeim fannst gaman að sjá myndirnar og þær voru þeim mikil hvatning að halda áfram handavinnu sinni.

1. maí 2009 : Börn og umhverfi

Kópavogsdeildin heldur tvö Börn og umhverfi námskeið í apríl og maí. Því fyrra lauk í gær og það seinna verður haldið 11.-14. maí. Námskeiðið er ætlað ungmennum á 12. aldursári eða eldri sem gæta yngri barna. Farið er í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysabætur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.