29. jún. 2009 : Vel heppnaðir Gleðidagar

Námskeiðið Gleðidagar sem haldið var hjá deildinni í síðustu viku heppnaðist afar vel en um er að ræða tilraunaverkefni í því skyni að tengja saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til þeirra yngri. Nítján börn á aldrinum 7-12 ára sóttu námskeiðið og boðið var upp á fjölbreytta dagskrá alla vikuna. Eldri borgarar sögðu börnunum meðal annars sögur og fræddu þau um gamla tímann, þá var börnunum leiðbeint varðandi leikræna tjáningu og kennt að binda hnúta. Auk þess sáu tveir sjálfboðaliðar deildarinnar um að kenna prjón.

24. jún. 2009 : Lögreglan og Rauði krossinn gera samkomulag um sálrænan stuðning

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, og Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, undirrituðu í dag samkomulag um sálrænan stuðning við fólk sem komið hefur að vettvangi alvarlegra atburða þar sem kallað er eftir aðstoð lögreglunnar.

Lögreglan mun afhenda þeim sem koma að eða verða vitni að alvarlegum atburðum handhæg kort með upplýsingum um þau áhrif sem atvikið getur haft á líðan viðkomandi.  Á kortinu er fólki bent á að full ástæða geti verið til að viðra reynslu sína við góðan vin eða sjálfboðaliða Hjálparsíma Rauða krossins 1717, en hann er gjaldfrjáls og  opinn allan sólarhringinn.  Allir sjálfboðaliðar Hjálparsímans 1717 eru sérstaklega þjálfaðir til að veita sálrænan stuðning.

23. jún. 2009 : Tombóla til styrktar Rauða krossinum

Þær Ísgerður Sandra Ragnarsdóttir, Eva Wolanczyk, Ásta Margrét Guðnadóttir og Ágústa Ragnarsdóttir héldu tombólu á dögunum fyrir utan búðina 11/11 við Þverbrekku til styrktar Rauða krossinum. Þær komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með afraksturinn, alls 10.227 kr. Þær höfðu safnað ýmsu dóti á tombóluna og sögðu að það hefði verið skemmtilegt að halda hana og að fólk hefði tekið þeim vel.

22. jún. 2009 : Námskeiðið Gleðidagar stendur nú yfir í sjálfboðamiðstöðinni

Rétt í þessu var námskeiðið Gleðidagar að hefjast í sjálfboðamiðstöð deildarinnar. Nítján börn á aldrinum 7-12 ára eru mætt og munu njóta leiðsagnar fram á föstudag. Námskeiðið hefur yfirskriftina Ungur nemur, gamall temur og eru leiðbeinendur að mestu eldri borgarar. Hugmyndin er að tengja saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til hinna yngri.

18. jún. 2009 : Hundaheimsókn á Grund

Heimsóknavinur með hund hóf að heimsækja heimilisfólk á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund í vikunni. Heimsóknavinurinn María fór með hundinn sinn Check og heimsótti tvær deildir á Grund við góðar undirtektir fólksins þar. Sumir létu sér nægja að fylgjast með hundinum en aðrir klöppuðu honum, héldu á honum og gáfu honum meira að segja nokkra kleinubita. María og Check munu framvegis heimsækja Grund reglulega.

Kópavogsdeildin hefur boðið upp á heimsóknir með hunda í nokkur ár núna. Heimsóknavinir heimsækja með hundana sína á heilbrigðisstofnanir eins og hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og Rjóðrið, hvíldarinnlögn fyrir langveik börn, en einnig á einkaheimili þar sem fólk er einmana og félagslega einangrað. Þær stofnanir sem fá til sín hunda hafa allar fengið sérstakar undanþágur frá heilbrigðisyfirvöldum.

17. jún. 2009 : Það er kominn 17. júní!

Kópavogsdeild óskar landsmönnum gæfu og gleði á þjóðhátíðardegi landsins. Til hamingju með daginn!

15. jún. 2009 : Selir, tröllskessa og bilaðar bremsur

Strandakirkja, selir og víkingaskip voru á meðal þess sem varð á vegi gesta og starfsmanna Dvalar sem fóru í dagsferð á Reykjanes á miðvikudaginn í síðustu viku. Strandakirkja var fyrsti áfangastaðurinn en eftir skoðunarferð um kirkjuna voru borðaðar dýrindis samlokur og skyr, auk þess sem heitt kaffi og kakó var á boðstólnum. Nokkrir úr hópnum gengu upp á hæð þar sem sást yfir fjöruna en þar mátti sjá stærðarinnar seli sem svömluðu um í sjónum og sátu á skerjunum.

Saltfisksetrið í Grindavík var næst á döfinni en þar kynnti fólk sér saltfiskvinnslu og viðskipti fyrr og nú. Í Duushúsi í Keflavík var borðuð súpa og brauð auk þess sem sumir skokkuðu út að helli við höfnina til að skoða tröllskessu sem þar býr.

12. jún. 2009 : Viltu tala meiri íslensku?

Verkefnið Viltu tala meiri íslensku? er hluti af heimsóknaþjónustu deildarinnar og hefur verið í gangi síðan í janúar síðastliðnum. Íslenskir sjálfboðaliðar hafa vikulega hitt innflytjendur sem vilja æfa sig í að tala íslensku. Á samverunum fá innflytjendurnir tækifæri til að tala íslensku og þjálfa sig því í notkun málsins.

Alls hafa níu manns nýtt sér þessa þjónustu og sjálfboðaliðarnir hafa verið fjórir. Þátttakendurnir hafa verið frá Póllandi, Ítalíu, Ástralíu, Tíbet, Sri Lanka og Eþíópíu og kunna sumir litla íslensku en aðrir hafa meiri kunnáttu.

10. jún. 2009 : Nýtt skipurit Kópavogsdeildar komið á vefinn

Á stjórnarfundi deildarinnar síðasta laugardag var samþykkt skipurit fyrir deildina. Þetta er í fyrsta skipti sem skipurit er útbúið yfir stjórnskipulag deildarinnar og hefur það verið sett hér inn á vefsíðuna undir „Um Kópavogsdeild”. Tilgangurinn er að gefa skýra mynd af stjórnskipulaginu og yfirsýn yfir þær nefndir, ráð og stjórnir sem deildin á fulltrúa í.

8. jún. 2009 : Sjálfboðaliðar fjölmenntu á vorgleði

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðarnir fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja. Alls mættu yfir sextíu manns sem nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þá var haldin rúsínuspíttkeppni og sjálfboðaliði leiddi gestina í söng. Börnin fengu andlitsmálun og mátti meðal annars sjá litlar mýs, ketti, tígrisdýr og fiðrildi leika sér í snú snú og með sippubönd og húlahringi.

Gleðin er haldin árlega og er eins konar uppskeruhátið sjálfboðaliða deildarinnar þar sem markmiðið er að fagna starfsvetrinum og gleðjast saman í upphafi sumars. Deildin metur mikils framlag sjálfboðaliða sinna og þakkar þeim fyrir vel unnin sjálfboðin störf í vetur.


4. jún. 2009 : Vinkonur styrkja Rauða krossinn með tombólu

Vinkonurnar Oddný Björg Stefánsdóttir og Helga Lind Magnúsdóttir héldu tombólu á dögunum og söfnuðu alls 6.832 kr. Þær komu í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og færðu Rauða krossinum söfnunarféð. Þær gengu í hús og búðir og söfnuðu dóti á tombóluna sem þær svo héldu fyrir utan Nóatún í Hamraborginni. Stelpurnar eru báðar í Kópavogsskóla og eru að ljúka fjórða bekk.

3. jún. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast til að aðstoða á námskeiði

Kópavogsdeildin verður með ókeypis námskeið fyrir börn á aldrinum 7-12 ára 22.-26. júní næstkomandi kl. 9-16 alla dagana og kallast það Gleðidagar. Námskeiðið tengir saman eldri og yngri kynslóðir þar sem markmiðið er að miðla gömlum gildum og þekkingu frá hinum eldri til hinna yngri.

Leiðbeinendur á námskeiðinu verða að mestu eldri borgarar en deildin óskar eftir yngri sjálfboðaliðum til að aðstoða við námskeiðshaldið, t.d. við hádegismat, leiki og almenna dagskrá. Við óskum eftir fjórum sjálfboðaliðum á dag, tveimur frá kl. 9-13 og tveimur frá kl. 13-16.30. Áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á [email protected].