6. júl. 2009 : Sumarlokun sjálfboðamiðstöðvar

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er lokuð vegna sumarleyfa frá 6. júlí og opnar aftur miðvikudaginn 5. ágúst og verður þá opin sem fyrr alla virka daga kl.10-16. Hægt er að senda deildinni tölvupóst á netfangið [email protected]. Ef nauðsyn krefur er hægt að hafa samband við formann deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson á gaji[hjá]mmedia.is. Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu sumarkveðjur.
 
Our volunteer centre is closed because of summer holidays and will open again on August 5th.

2. júl. 2009 : Grillað í Dvöl

Alls mættu um fimmtíu manns í grillveislu Dvalar sem haldin var í blíðskaparveðri þann 1. júlí.  Gestir og starfsmenn frá Vin og Læk, athvörfum Rauða krossins mættu í veisluna með hamborgara og pylsur á grillð og áttu góðan dag með félögum sínum í Dvöl. Þá spilaði einn gestanna á harmonikku, annar á munnhörpu og sá þriðji á gítar við góðar undirtektir veislugesta.

Markmiðið með starfsemi Dvalar er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðsjúkdóma er að stríða. Gestir koma í athvarfið á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem í boði er. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna, en jafnhliða eru gestir aðstoðaðir við að leita nýrra leiða, sé þess óskað. Dvöl er athvarf en ekki meðferðarstofnun þar sem gestir og aðstandendur geta fengið góð ráð hjá starfsmönnum ef þeir óska þess.