31. ágú. 2009 : Heimsóknavinir með hunda leiddu Laugavegsgöngu

Hin árlega Laugavegsganga Hundaræktarfélags Íslands var farin á laugardaginn síðastliðinn en þá ganga hundaeigendur með hunda sína niður Laugaveginn. Eins og undanfarin ár voru heimsóknavinir Rauða krossins sem heimsækja með hunda sína í broddi fylkingar. Þeir hundar sem heimsækja á vegum Rauða krossins eru með sérstaka klúta merkta félaginu og stóðu þeir sig með stakri prýði í göngunni.

28. ágú. 2009 : Reynsla ungra sjálfboðaliða Kópavogsdeildar

Okkur langar aðeins til að gefa innsýn inn í reynslu okkar af starfi í Plúsnum, ungmennastarfi Kópavogsdeildar.

Í síðustu viku tók Kópavogsdeild og við í ungmennastarfinu á móti tveimur palestínskum strákum sem voru í heimsókn á landinu á vegum Rauða kross Íslands. Þeir hafa unnið sem sjálfboðaliðar fyrir Rauða hálfmánann í Palestínu þar sem þeir sinna meðal annars sjúkraflutningum. Við höfðum fengið það hlutverk að skipuleggja dagskrá fyrir þá þessa þrjá daga sem þeir voru hjá okkur í Kópavoginum og við gerðum margt skemmtilegt saman.

Við byrjuðum á því að kynna fyrir þeim deildina okkar og fyrsta daginn fórum við einnig með þá á hestbak og síðan í hvalaskoðun. Annan daginn fórum við á Þingvelli, Gullfoss og Geysi og síðasta daginn fórum við síðan í Bláa lónið. Heimsókn þeirra lauk svo með palestínsku kaffihúsi sem við höfðum skipulagt en þangað fengum við góða gesti frá Ungmennahreyfingu Rauða krossins og samtökunum Ísland-Palestína og fræddumst auk þess um líf strákanna í Palestínu, sögu landsins þeirra og sjálfboðastörf þeirra sem sjúkraflutningamenn.

26. ágú. 2009 : Prjónað til góðs

Í dag hittust um þrjátíu prjónakonur í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í hinu mánaðarlega prjónakaffi. Það er sérstaklega skemmtilegt að segja frá því að fjöldi nýrra sjálfboðaliða bættist í hópinn að þessu sinni og ætlar nú að leggja okkur lið með handavinnu sinni. Tilgangur prjónakaffisins var að eiga skemmtilega stund saman en þetta er fyrsta samvera þessa hóps eftir sumarfrí.

Sjálfboðaliðarnir komu með prjónafíkur sem þeir hafa unnið að í sumar og fengu svo meira garn til að halda áfram að prjóna. Þeir komu meðal annars með peysur, teppi, sokka, bleyjubuxur og húfur. Einn sjálfboðaliðinn kom með 60 húfur!

24. ágú. 2009 : Palestínskt kaffihúsakvöld

Ungir sjálfboðaliðar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, stóðu fyrir palestínsku kaffihúsakvöldi í samvinnu við Molann, menningarhús Kópavogs, síðastliðið föstudagskvöld. Kvöldið var bæði fróðlegt og skemmtilegt og fjölbreyttur hópur gesta mætti.

21. ágú. 2009 : 8.356 krónur söfnuðust á tombólu

Vinkonurnar Berglind Þorsteinsdóttir og Elva Arinbjarnar héldu tombólu um síðustu helgi fyrir utan Bónus við bæði Ögurhvarf og Smáratorg. Áður höfðu þær safnað dóti á tombóluna og afraksturinn varð alls 8.356 kr. Þær komu í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og afhentu fjárframlag sitt en það verður notað í þágu barna í neyð erlendis. Elva er að fara í 5. bekk í Vatnsendaskóla og Berglind í 5. bekk í Digranesskóla.

20. ágú. 2009 : Ungir sjálfboðaliðar í Kópavogi taka á móti ungum sjálfboðaliðum frá Palestínu

Um þessar mundir eru tveir ungir sjálfboðaliðar frá Rauða hálfmánanum í Palestínu staddir á Íslandi í boði Rauða kross Íslands og í gær komu þeir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem sjálfboðaliðar í ungmennastarfi deildarinnar, Plúsnum, tóku á móti þeim. Ungmennin frá Palestínu dvelja á landinu í þrjár vikur til að kynna sér starfsemi Rauða krossins en næstu dagana munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sjá um dagskrána þeirra. Hún hljóðar meðal annars upp á kynningu á deildinni, hestaferð í boði Íshesta, hvalaskoðun í boði Eldingar og aðrar skoðunarferðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

14. ágú. 2009 : Hjálparsíminn 1717 veitir allar almennar upplýsingar um Inflúensu A (H1N1)v

Sjálfboðaliðar og starfsmenn Hjálparsíma Rauða krossins 1717 veita allar almennar upplýsingar um Inflúensu A (H1N1)v (svínaflensuna) í gegnum gjaldfrjálsa númerið 1717. Hjálparsíminn hefur frá stofnun lagt mikið upp úr því hlutverki að veita upplýsingar um samfélagsleg úrræði og þjónustu til einstaklinga um hin ýmsu mál.

Aðdragandi þess að Hjálparsíminn hefur tekið að sér þetta verkefni er þátttaka fulltrúa Rauða kross Íslands í símahópi á vegum Landlæknisembættisins vegna Inflúensu A (H1N1)v. Hlutverk símahópsins var að undirbúa áætlun um hvernig haga eigi upplýsingagjöf til almennings ef flensan breiðist út á Íslandi. Nú þegar tilfellum flensunnar fjölgar ört hefur álagið á heilsugæslustöðvarnar og Læknavaktina aukist töluvert og því þarf að efla mannskap sem veitir almennum borgurum upplýsingar um inflúensuna.

11. ágú. 2009 : Heimsóknavinir gegn einsemd og einangrun, sjálfboðaliðar óskast

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru umfangsmesta verkefni sjálfboðaliða á vegum Kópavogsdeildar og eitt af áhersluverkefnum deildarinnar og Rauða kross Íslands. Deildin setti fram áætlun haustið 2006 um að efla og auka heimsóknaþjónustu sína verulega á árunum 2007-2009 og árið 2008 tóku alls um 120 sjálfboðaliðar þátt í þessu verkefni. Eftirspurnin eftir heimsóknum hefur aukist jafnt og þétt og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi. Nú viljum við bæta enn í hóp heimsóknavina og flestir ættu að geta fundið verkefni við hæfi.

7. ágú. 2009 : Söfnun til styrktar Rauða krossinum

Svandís Salómonsdóttir, 6 ára, og Katrín Rós Torfadóttir, 9 ára, komu í sjálfboðamiðstöðina í dag með afrakstur söfnunar handa Rauða krossinum. Þær gengu í hús í hverfinu sínu og báðu fólk um gefa þeim klink sem þær ætluðu svo að fara með til Rauða krossins. Þær sungu stundum fyrir fólkið en fengu hugmyndina að söfnuninni því þær vildu styrkja börn í Afríku. Þær söfnuðu alls 2.930 kr.

5. ágú. 2009 : Sjálfboðamiðstöðin opnar aftur eftir sumarfrí

Sjálfboðamiðstöð deildarinnar er nú opin aftur og verður eins og áður opin frá kl. 10-16 alla virka daga. Undirbúningur er hafinn fyrir starfið á komandi vetri og öll helstu verkefni deildarinnar fara á fullt skrið á næstu vikum. Að vanda er óskað eftir sjálfboðaliðum til að sinna þeim. Sjálfboðaliða vantar í verkefni eins og Enter, Eldhuga og Alþjóðlega foreldra. Einnig er þörf á sjálfboðaliðum í Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða, í heimsóknaþjónustu og Föt sem framlag.