30. sep. 2009 : Námsvinir hittast

Námsvinahópar Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, eru nú farnir að hittast. Hóparnir samanstanda af námsvinum og nemum sem hittast reglulega og fara saman í gegnum heimavinnu eða önnur verkefni með það að markmiði að liðsinna nemunum með það sem þá gæti mögulega vantað aðstoð með. Unga fólkið á það allt sameiginlegt að vera framhaldsskólanemar en nemarnir eru oftar en ekki erlendir að uppruna og þiggja aðstoð við námið og þá sérstaklega íslenskuna. Námvinahóparnir eru einnig hugsaðir sem kjörinn vettvangur fyrir ungt fólk með ólíkan bakgrunn til að kynnast.

29. sep. 2009 : Ungbarnanudd á samveru foreldra á fimmtudaginn

Það verður boðið upp á ungbarnanudd á samveru foreldra á fimmtudaginn þar sem þeim verður kennt að nudda barnið sitt . Foreldrarnir hittast vikulega með lítil börn sín á aldrinum 0-6 ára og eiga ánægjulegar samverustundir saman. Foreldrarnir eru íslenskir og erlendir en eiga allir sameiginlegt að vera heima með lítil börn.

Reglulega er boðið upp á fræðslu og kynningar sem oftar en ekki tengjast börnum. Leikföng eru fyrir börnin á staðnum og léttar veitingar eru í boði. Ýmislegt fleira verður í boði á samverunum þetta haustið, eins og fræðsla um svefn barna, dagvistunarmál og mat barna.

28. sep. 2009 : Verkefni deildarinnar kynnt hjá félagsþjónustu Kópavogs

Verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvar kynnti fyrir helgi verkefni deildarinnar fyrir starfsmönnum félagsþjónustu Kópavogs. Verkefnastjórinn fór yfir heimsóknaþjónustuna, fataverkefnið, alþjóðlega foreldra, námsaðstoð, ungmennastarfið og önnur verkefni sem skjólstæðingar félagsþjónustunnar gætu mögulega haft gagn af. Starfsmennirnir vita þá betur hvað deildin býður upp á og geta sett skjólstæðinga sína í samband við hana varðandi aðstoð og þjónustu. Gott og mikið samstarf er á milli deildarinnar og félagsþjónustunnar varðandi hin ýmsu mál.

25. sep. 2009 : Nemendur í áfanga um þróunarlönd í MK heimsækja deildina

Nemar í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda við Menntaskólann í Kópavogi heimsóttu deildina nú í morgun. Þeir fengu kynningu á starfi deildarinnar og helstu verkefnum sem hún sinnir á alþjóðavísu. Má þar nefna vinadeildasamstarf við Rauða kross deildina í Maputo-héraði í Mósambík og verkefnið Föt sem framlag en það miðar meðal annars að því að útbúa og senda fatapakka til ungbarna í neyð í Malaví.

24. sep. 2009 : Gagnlegar niðurstöður rannsóknar á stöðu innflytjenda á erfiðleikatímum

Fjölmennt var á málþingi um stöðu innflytjenda á erfiðleikatímum sem Rauði kross Íslands stóð fyrir í Þjóðminjasafninu í vikunni. Ný rannsókn sem dr. Hallfríður Þórarinsdóttir hjá MIRRA vann fyrir Rauða kross Íslands var kynnt, og niðurstaða hennar rædd í pallborði. Tilgangur málþingsins var að vekja athygli á stöðu innflytjenda á Íslandi nú þegar efnahagserfiðleikar hrjá þjóðina.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu m.a. að mikil fjölgun innflytjenda hafi orðið hér á landi á örfáum árum og innflytjendur séu nú nálægt þrjátíu þúsundum. Hópurinn sé afar sundurleitur innbyrðis og komi víðsvegar að úr heiminum. Þó einkenni það samfélag innflytjenda á Íslandi að langstærstur hluti þeirra sé af evrópskum uppruna, ljós á hörund og kristinnar trúar. Tæplega helmingur þeirra komi frá Póllandi. Þá kom einnig í ljós að streymi erlendra ríkisborgara/innflytjenda til landsins hafi fyrst og fremst miðast við þarfir atvinnulífsins, eins og sýndi sig glöggt í efnahagsþenslu undangenginna ára. 

24. sep. 2009 : Fyrirhuguðu fræðslukvöldi frestað vegna veikinda

Vegna veikinda fyrirlesara hefur deildin því miður þurft að fresta fyrirhuguðu fræðslukvöldi sem átti að hefjast kl. 20 í kvöld. Fræðslukvöldið verður skipulagt annan dag og verða sjálfboðaliðar upplýstir um það síðar. Við biðjumst velvirðingar á þessum óþægindum.

22. sep. 2009 : „Engu líkt“ – reynsla Eldhuga Kópavogsdeildar af sumarbúðum Rauða krossins

Andri Karlsson fór í sumarbúðir ungmennahreyfingar Rauða krossins á Löngumýri í Skagafirði í sumar. Í kjölfarið gerðist hann svo Eldhugi hjá Kópavogsdeild og tekur nú þátt í ungmennastarfi deildarinnar.

Þátttakendur í sumarbúðunum voru ungmenni á aldrinum 12-16 ára. Þar var unnið út frá grundvallarmarkmiðum Rauða krossins og viðhorf ungmennanna til ýmissa þjóðfélagshópa rædd. Að auki gerðist eitthvað ævintýralegt og spennandi á hverjum degi svo sem klettasig, flúðasiglingar, hlutverkaleikir og busl í sundlauginni á Löngumýri.

21. sep. 2009 : Sjálfboðið starf í Rjóðrinu

Sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar heimsækja börnin í Rjóðrinu en þangað koma langveik börn í hvíldarinnlögn. Sjálfboðaliðarnir eru flestir í menntaskóla og koma aðallega úr Menntaskólanum í Kópavogi og Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hver þeirra mætir hálfsmánaðarlega í Rjóðrið til að veita börnunum félagsskap og afþreyingu. Þeir meðal annars föndra með börnunum, leika við þau, lesa fyrir þau, fara með þeim út að ganga og aðstoða starfsfólkið á annan hátt.

18. sep. 2009 : Enter- og Eldhugastarf hefst að nýju eftir sumarfrí

Nú er barna- og ungmennastarf Kópavogsdeildarinnar komið á fullt skrið en í fyrradag var fyrsta samvera Enter hópsins og í gærkvöldi hittust Eldhugar einnig í fyrsta sinn á nýju hausti. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára en Eldhugar eru fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu í gegnum skapandi verkefni.

17. sep. 2009 : Kópavogsdeild bauð heimilisfólkinu í Sunnuhlíð á Kjarvalsstaði

Deildin bauð heimilisfólkinu í Sunnuhlíð í ferð í gær eins og venja er á hverju hausti og var ferðinni heitið á Kjarvalsstaði. Sjálfboðaliðar úr hópi heimsóknavina deildarinnar fylgdu fólkinu og voru því innan handar með aðstoð þar sem þurfti. Alls fóru um 40 manns í ferðinni en starfsfólk hjúkrunarheimilisins og aðstandendur voru einnig með í för. Fólkið skoðaði sýningarnar á safninu og fékk sér svo kaffi og meðlæti á eftir.

16. sep. 2009 : Viltu tala meiri íslensku?

Hópur sjálfboðaliða hitti í gær innflytjendur sem taka þátt í verkefninu Viltu tala meiri íslensku? en það er hluti af heimsóknaþjónustu deildarinnar. Þetta var fyrsta samveran eftir sumarfrí en verkefnið hófst í janúar á þessu ári. Á samverunum gefst innflytjendunum tækifæri til að tala íslensku við íslenska sjálfboðaliða og þannig þjálfa sig í notkun málsins. Hópurinn mun hittast vikulega í vetur á þriðjudögum í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs. 

15. sep. 2009 : Undirbúningur, hópefli og fræðsla fyrir nýja sjálfboðaliða í ungmennastarfi

Í gærkvöldi var haldið undirbúnings- og fræðslukvöld fyrir þá sjálfboðaliða Kópavogsdeildar sem munu vinna í verkefnum er lúta að börnum og unglingum í vetur.

Kvöldið hófst með hópefli þar sem sjálfboðaliðarnir fengu tækifæri til að kynnast hver öðrum. Þá kynnti verkefnastjóri ungmennamála fyrir þeim verkefnin sem sjálfboðaliðarnir munu koma til með að starfa í; Enter og Eldhuga. Hann fór einnig yfir hlutverk sjálfboðaliðans með tilliti til þessara tveggja verkefna. Auk þess fengu sjálfboðaliðarnir tækifæri til að koma með tillögur og hugmyndir að þemaverkefnum og viðfangsefnum fyrir starf vetrarins.

14. sep. 2009 : Heimsóknavinahundar kynntir á smáhundadögum í Garðheimum

Heimsóknavinir sem sinna heimsóknaþjónustu með hunda sína hjá Rauða krossinum kynntu verkefnið á smáhundadögum í Garðheimum um helgina. Heimsóknavinirnir mættu með hundana sína og báru hundarnir sérstaka klúta merkta Rauða krossinum en klútana nota þeir einnig í heimsóknum sínum. Bæklingum var dreift og sýndu gestirnir verkefninu mikinn áhuga.

11. sep. 2009 : Kynningarstarf í fullum gangi

Um þessar mundir stendur yfir kynningarstarf á vegum Kópavogsdeildar innan unglingadeilda grunnskóla Kópavogs. Á kynningunum fá nemendur innsýn í starf Rauða krossins bæði innanlands og erlendis í máli og myndum. Þá er einnig sagt frá helstu verkefnum Kópavogsdeildar og hvernig nemendurnir geti sjálfir tekið þátt. Verkefnastjóri Kópavogsdeildar hefur fengið frábærar móttökur í skólum bæjarins og nemendur sýna málefninu mikinn áhuga. Þeir eru duglegir við að spyrja spurninga og oftar en ekki skapast mikil og góð umræða um hin ýmsu málefni er snerta starf Rauða krossins.

10. sep. 2009 : Tombóludrengir

Stefán Grímur, Einar Óskarsson og Alexander Bjarnason í Digranesskóla héldu tombólu á dögunum fyrir utan Nóatún og söfnuðu alls 5.490 kr. Þeir komu í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og afhentu Rauða krossinum söfnunarféð. Það rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

Strákarnir söfnuðu dóti á tombóluna með því að ganga í hús í hverfinu sínu og fólk tók framtaki þeirra vel, bæði í hverfinu og á tombólunni sjálfri. 

9. sep. 2009 : Jákvæð hugsun á samveru heimsóknavina

Heimsóknavinir fjölmenntu á mánaðarlega samveru þeirra í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Alls mættu 15 heimsóknavinir sem sinna sjálfboðnum störfum á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð, á sambýlum aldraðra og á einkaheimilum. Að þessu sinni var boðið upp á erindi um jákvæða hugsun frá Lótushúsi en það er miðstöð þar sem reglulega eru haldin hugleiðslu- og hugræktarnámskeið. Erindið hófst á stuttri hugleiðslu og síðan var lögð áhersla á að veita heimsóknavinunum aukinn skilning á eðli og mátt hugsana. Þá var sérstaklega farið yfir mikilvægi jákvæðra hugsana og hvernig þær geta bætt lífið.

8. sep. 2009 : Sjálfboðaliða vantar í Dvöl

Sjálfboðaliða vantar í Dvöl við Reynihvamm 43 fyrir veturinn. Dvöl er athvarf fyrir geðfatlaða og er ætlað að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við að geðsjúkdóma að stríða. Sjálfboðaliðar gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Dvalar með því að taka þátt í starfsemi athvarfsins og veita gestunum félagsskap.
 
Það vantar sjálfboðaliða til að vera í Dvöl á laugardögum frá kl. 11-14. Venjulega eru tveir sjálfboðaliðar á vakt hverju sinni og þurfa þeir að hafa náð 18 ára aldri.

7. sep. 2009 : Alþjóðlegir foreldrar hittast á fimmtudaginn

Fyrsta samvera alþjóðlegra foreldra á nýju hausti verður fimmtudaginn 10. september. Á samverunum býður deildin velkomna foreldra allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára. Reglulega er boðið upp á fjölbreyttar kynningar eða fræðslu sem tengist börnum. Dagskráin þetta haustið samanstendur meðal annars af kennslu í ungbarnanuddi og fræðslu um mat og svefn barna, svo eitthvað sé nefnt. Leikföng eru á staðnum fyrir börnin og þátttaka er ókeypis. Allir eru velkomnir, innfæddir og innflytjendur, hvort sem þeir tala enga eða einhverja íslensku.

4. sep. 2009 : Hópastarf Plússins fer vel af stað

Hönnunarhópur og fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, héldu báðir fund í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í gærkvöldi.

Verkefni hönnunarhópsins í haust verða margvísleg og spennandi en hópurinn hefur ákveðið að hanna vörur úr notuðum fötum og efnum sem deildin útvegar. Sjálfboðaliðarnir munu leyfa sköpunargáfunni að njóta sín, endurhanna og sauma föt og fylgihluti út frá hugmyndum hvers og eins. Að því loknu verður afraksturinn seldur í Rauða kross búðunum og jafnframt á handverksmarkaði deildarinnar sem haldinn er á hverri önn. Mikil stemning myndaðist hjá hópnum en hann mun hittast aftur eftir viku.


 

3. sep. 2009 : Finnsk ungmenni heimsækja sjálfboðamiðstöðina

Landssamband æskulýðsfélaga á Íslandi hélt fund í sjálfboðamiðstöðinni á dögunum fyrir finnsk ungmenni búsett í Svíþjóð. Á fundinum var starfsemi Landssambands æskulýðsfélaga kynnt og hópurinn ræddi um stöðu ungmenna í löndunum tveimur. Auk þess að fá innsýn í þessa starfsemi var tilgangur heimsóknarinnar til Íslands að kynnast landi og þjóð.

2. sep. 2009 : Námskeið fyrir nýja heimsóknavini haldið í gær

Undirbúningsnámskeið fyrir nýja heimsóknavini var haldið í sjálfboðamiðstöðinni í gær og tóku átta sjálfboðaliðar þátt að þessu sinni. Á námskeiðinu var farið yfir þau atriði sem mikilvæg eru fyrir heimsóknavini að hafa í huga þegar þeir sinna heimsóknaþjónustu. Þá var einnig starf deildarinnar kynnt og heimsóknavinur sagði frá reynslu sinni. Athvarfið Dvöl var líka kynnt sérstaklega en heimsóknavinir sinna einnig sjálfboðnum störfum þar. Að loknu námskeiðinu eru þátttakendurnir tilbúnir í verkefni og sér verkefnastjóri heimsóknaþjónustunnar um að koma á heimsóknum þeirra til gestgjafa.

1. sep. 2009 : Tvær vinkonur héldu tombólu

Þær Íma Fönn Hlynsdóttir og Rebekka Sól Jóhannsdóttir héldu tombólu fyrir utan Nóatún í Hamraborg á dögunum. Þær söfnuðu alls 180 krónum sem þær færðu Rauða krossinum að gjöf. Vinkonurnar eru báðar í 5. bekk í Kópavogsskóla. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.