30. okt. 2009 : Tónlist hjá Alþjóðlegum foreldrum

Alþjóðlegir foreldrar fengu heimsókn í gær frá Helgu Rut Guðmundsdóttur hjá Tónagulli en þar eru haldin námskeið með tónlist og dansi fyrir foreldra og börn þeirra. Helga kynnti starfsemi Tónagulls og leiddi hópinn í leikjum með tónlist. Hún spilaði á gítar og foreldrarnir sungu og dönsuðu með börnin sín. Þau fengu einnig hristur til að leika sér með og það ríkti því mikil gleði á samverunni.

28. okt. 2009 : Fræðslukvöld á morgun, fimmtudag

Kópavogsdeild stendur fyrir fræðslukvöldi fyrir sjálfboðaliða sína fimmtudaginn 29. október frá kl. 20-21.30. Viðfangsefnið verður verkefni Rauða krossins á hættu- og neyðartímum. Verkefnastjóri frá Landsskrifstofu Rauða krossins, Jón Brynjar Birgisson, mun fjalla um þetta efni og þá sérstaklega hlutverk sjálfboðaliða varðandi viðbrögð við jarðskjálfta, eldgosi og inflúensu ásamt annarri hættu og áföllum. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti.

26. okt. 2009 : Ungbarnaföt óskast í neyðarpakka til Hvíta-Rússlands

Rauða krossi Íslands barst nýlega neyðarbeiðni frá Rauða krossinum í Hvíta-Rússlandi þar sem óskað var eftir 2.500 ungbarnapökkum. Í pökkunum eru föt fyrir börn á aldrinum 0-12 mánaða; peysur, teppi, sokkar, húfur, buxur, handklæði, samfellur, taubleyjur, bleyjubuxur og treyjur. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar munu leggja sitt af mörkum og pakka fötum sem hafa borist deildinni og sjálfboðaliðarnir prjónað síðustu mánuði.

Til að geta pakkað sem flestum pökkum óskar deildin eftir ungbarnafötum fyrir 0-12 mánaða. Hægt er að koma með föt í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11 en hún er opin virka daga frá kl. 10-16. Fötin þurfa að berast deildinni fyrir 25. nóvember.

23. okt. 2009 : Námskeið um slys og veikindi barna

Kópavogsdeild heldur námskeiðið Slys og veikindi barna 9. og 11. nóvember næstkomandi. Á námskeiðinu er fjallað um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Meðal annars er leiðbeint í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús. Námskeiðið getur gagnast öllum þeim sem umgangast börn, hvort sem er í starfi eða daglegu lífi.

22. okt. 2009 : „Sjálfboðaliðastarfið hefur gefið mér innsýn í lífið” – viðtal við Elísabetu Þóru Gunnlaugsdóttur sjálfboðaliða

Elísabet Þóra byrjaði sjálfboðaliðastörf sín fyrir Rauða krossinn hjá Vinalínunni snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Þar svaraði hún í símann í þrjú ár og veitti stuðning og aðstoð með virkri hlustun. Hún segir að þetta verkefni hafi gefið henni undirstöðuna fyrir það sjálfboðna starf sem hún sinnir í dag en síðan 2004 hefur hún sinnt heimsóknaþjónustu og neyðarvörnum hjá Kópavogsdeild.

Fyrsta verkefni Elísabetar Þóru hjá deildinni var að heimsækja konu á einkaheimili. Síðar bætti hún á sig verkefni í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, vegna áhuga síns á geðheilbrigðismálum. Sem stendur sinnir hún heimsóknaþjónustu með því að lesa fyrir fólkið sem býr á sambýli aldraðra í Gullsmára. Fyrir þremur árum fór hún síðan á námskeið fyrir fjöldahjálpastjóra og er nú einnig í viðbragðshópi sem sinnir neyðarvörnum. Sjálfboðaliðar í þeim hópi eru á vikulangri vakt einu sinni í mánuði og eru þá reiðubúnir að aðstoða verði hamfarir, slys eða önnur áföll. Elísabet Þóra hefur tvisvar þurft að svara útkalli.

21. okt. 2009 : Kópavogsdeild og Leikfélag Kópavogs í samstarf

Kópavogsdeild Rauða krossins og Leikfélag Kópavogs hafa tekið upp samstarf í tengslum við barnasýninguna Rúa og Stúa sem leikfélagið sýnir. Þriðjungur af andvirði hvers miða á sýninguna fer til styrktar barna- og ungmennastarfi Kópavogsdeildar. Leikhúsgestir geta þannig slegið tvær flugur í einu höggi, stutt börn og ungmenni í gegnum hjálparstarf Rauða krossins og notið bráðskemmtilegrar leiksýningar.

20. okt. 2009 : Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd veita neyðaraðstoð í Kópavogi

Kópavogsdeild Rauða krossins og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs hafa gert samkomulag um neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur í Kópavogi fyrir jólin.

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar og Mæðrastyrksnefndar úthluta matvörum, fatnaði og fleiri nauðsynjum vegna jólanna í húsnæði nefndarinnar að Fannborg 5 dagana 15., 16. og 17. desember kl. 16-19. Tekið er við umsóknum hjá Kópavogsdeild, Hamraborg 11, alla virka daga kl. 10-16. Mæðrastyrksnefnd tekur við umsóknum í húsnæði nefndarinnar  þann 24. nóvember kl.16-18, 1.desember kl.14-18 og 3. desember kl.17-19.

19. okt. 2009 : Sjálfboðaliðar kynntu starf Rauða krossins

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar tóku þátt í að kynna starf Rauða krossins í kynningarvikunni sem er nú nýafstaðin. Átta sjálfboðaliðar frá deildinni kynntu starfið ásamt sjálfboðaliðum frá öðrum deildum á höfuðborgarsvæðinu en alls stóðu þrjátíu manns vaktina. Kynningarnar voru á fimmtudag, föstudag og laugardag í Smáralindinni, Kringlunni og IKEA. Sjálfboðaliðarnir dreifðu bæklingum um Liðsauka en í þeim hópi eru sjálfboðaliðar sem eru tilbúnir að aðstoða Rauða krossinn á tímum áfalla. Fólk gat skráð sig í hópinn hjá sjálfboðaliðunum en einnig fræðst um önnur verkefni hjá félaginu.

18. okt. 2009 : Getur Rauðakrosshúsið nýst þér?

Rauðakrosshúsið er miðstöð fyrir alla landsmenn þar sem einstaklingar og fjölskyldur geta leitað stuðnings við að takast á við breyttar aðstæður eða nýtt krafta sína sjálfum sér og öðrum til gagns. Í húsinu er boðið upp á sálrænan stuðning og ráðgjöf um ýmis úrræði sem bjóðast í samfélaginu. Þá er einnig boðið upp á fræðslu og félagsstarf sem er opið öllum. Það er alltaf heitt á könnunni og gestir geta farið á netið í tölvuverinu, lesið blöðin og átt góða stund í húsinu.

Fólk er einnig hvatt til að nýta krafta sína með því að þróa og skapa sín eigin verkefni sem gjarnan nýtast öðrum í Rauðakrosshúsinu. Sjálfboðaliðar hafa til dæmis komið af stað prjóna- og gönguhópum í húsinu. Tölvuglöggir sjálfboðaliðar bjóða upp á tölvuaðstoð og aðrir hafa stofnað bókaklúbb sem hittist vikulega og enn aðrir sjá um föndur.

 


 

17. okt. 2009 : Námskeið í sálrænum stuðningi

Eitt af meginhlutverkum Rauða krossins er að veita stuðning og aðstoð þegar hamfarir, hættur eða önnur áföll steðja að. Félagið leggur mikið upp úr sálrænum stuðningi og leitast bæði við að þjálfa sjálfboðaliða til að veita slíkan stuðning og fræða almenning um gildi hans. Fjölmargar deildir Rauða krossins bjóða upp á námskeið í sálrænum stuðning og heldur Kópavogsdeildin eitt slíkt þriðjudaginn 27. október.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju. Viðfangsefnin verða meðal annars mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli. Hægt er að skrá sig á námskeiðið með því að smella hér.

 

16. okt. 2009 : Vöfflukaffi í Dvöl

Opið hús verður í Dvöl laugardaginn 17. október kl. 13-15.

Markmiðið með rekstri Dvalar er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Fjölbreytt dagskrá er í boði í Dvöl þar sem flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, þ.á.m. listsköpun, gönguferðir og kyrrðarstundir. Margir koma einnig í Dvöl einfaldlega til að slaka á, horfa á sjónvarp, ræða við aðra gesti og starfsfólk eða líta í blöðin.

Það sem Dvöl hefur gert fyrir mig
„Ég sæki Dvöl tvisvar til þrisvar í viku og meðal annars til þess að rjúfa félagslega einangrun. Þar er margt gert í Dvöl, handavinna og alls konar föndur sem ég hef gaman af. Svo er farið í göngutúra. Ég hef líka farið í dagsferðir, leikhús og á listasöfn. Þar eru allir jafnir. Þar er heitur matur í hádeginu og starfsfólk sérstaklega vingjarnlegt, við lærum líka margt af því. Gott er að koma í Dvöl og þar er alltaf vel tekið á móti manni. Þar er líka gott að sitja og spjalla, skiptast á skoðunum. Dvöl hefur hjálpað mér mikið og oft komið í veg fyrir innlagnir á geðdeild, ef ég færi ekki niður í Dvöl mundi ég bara einangra mig."
-Alfa Malmquist.

15. okt. 2009 : Heimsóknavinir gefa lífinu lit

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru umfangsmesta verkefni sjálfboðaliða á vegum Kópavogsdeildar og eitt af áhersluverkefnum hennar. Eftirspurnin eftir heimsóknum hefur aukist jafnt og þétt og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna nú verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi. Vel á annað hundrað sjálfboðaliða eru heimsóknavinir Kópavogsdeildar.

Hlutverk heimsóknavina er að veita félagsskap og hlýju. Þeir heimsækja fólk sem býr við alls konar aðstæður og er á öllum aldri. Sumir eru einstæðingar, aðrir eru veikir og komast lítið út og enn aðra vantar tilbreytingu í dagana sína þar sem þeir eru mikið einir yfir daginn þó þeir eigi jafnvel stórar fjölskyldur.


 

14. okt. 2009 : Föt sem framlag til bágstaddra

Á hverju ári berast hundruð tonna af notuðum fötum til Rauða krossins. Þessi föt nýtast fólki sem býr við bág kjör eða lendir í áföllum, bæði innanlands og erlendis. Hluti fatnaðarins er flokkaður í Fatasöfnunarstöð Rauða krossins í Skútuvogi 1 og sendur í búðirnar sem Rauði krossinn rekur. Búðirnar eru þrjár; við Strandgötu 24 í Hafnarfirði og í Reykjavík við Laugaveg 12 og Laugaveg 116. Sjálfboðaliðar sinna afgreiðslustörfum í búðunum en í búðinni við Laugaveg 116 er einnig fataúthlutun á miðvikudögum kl. 10-14. Fólk sem býr við kröpp kjör getur því leitað þangað vanti það föt.

 

13. okt. 2009 : Félagar í Rauða krossinum aðstoða Kópavogsbúa í vanda

Í Rauðakrossvikunni 12.-17. október leggur Kópavogsdeild Rauða krossins áherslu á að fjölga félagsmönnum í deildinni og leitast þannig við að efla starfið í þágu þeirra Kópavogsbúa sem þurfa á aðstoð að halda. Í dag sendir deildin bókamerki inn á öll heimili í bænum og vill með því framtaki vekja athygli á átakinu. Með því að gerast félagsmaður í Kópavogsdeild leggur fólk árlega 1.200 krónur í að aðstoða bágstadda Kópavogsbúa.

Deildin aðstoðar bágstaddar fjölskyldur í Kópavogi þegar á reynir, meðal annars með neyðaraðstoð í samvinnu við mæðrastyrksnefnd og vikulegri fataúthlutun. Deildin sinnir þeim sem búa við einsemd og félagslega einangrun með öflugri heimsóknaþjónustu við þá sem þurfa og býður uppá uppbyggjandi starf fyrir börn og ungmenni. Einnig tekur deildin þátt í neyðarvörnum og viðbúnaði vegna almannavarna. Kópavogsdeild þarf stuðning almennings til að halda uppi öflugu starfi og þjónustu í heimabyggð. 
 

 

12. okt. 2009 : Sjálfboðaliðar sinna neyðarvörnum

Kópavogsdeild ásamt öðrum Rauða kross deildum um allt land myndar neyðarvarnanet Rauða kross Íslands. Sjálfboðaliðar deildarinnar eru reiðubúnir til þess að leggja fram krafta sína ef til neyðarástands kemur vegna náttúruhamfara eða af öðrum ástæðum. Á neyðarvarnaáætlunum deildarinnar eru skráðir fjöldahjálparstjórar, sem eru tilbúnir að bregðast við ef á þarf að halda. Þeir eru þjálfaðir í neyðarvörnum og gegna lykilhlutverki þegar opna þarf fjöldahjálparstöðvar.

Slíkar stöðvar eru opnaðar á hættu- og neyðartímum til að taka á móti fólki sem þarf að yfirgefa heimili sín. Þar fer fram skráning sem miðar að því að sameina fjölskyldur auk þess sem fólk fær fæði, klæði, upplýsingar og nauðsynlega aðhlynningu eftir atvikum. Fjöldahjálparstöðvarnar í Kópavogi eru Digranesskóli, Kársnesskóli og Lindaskóli. Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar að Hamraborg 11 getur líka gegnt hlutverki fjöldahjálparstöðvar. Sjálfboðaliðarnir vinna að neyðarvörnum samkvæmt neyðarvarnaskipulagi Rauða krossins en neyðarnefnd höfuðborgarsvæðis hefur umsjón með skipulagi neyðarvarna á vegum deildarinnar.

 

11. okt. 2009 : Rauðakrossvika 12.-17. október

Rauði kross Íslands stendur fyrir kynningarviku 12.-17. október þar sem áhersla verður lögð á að kynna starfsemi félagsins innanlands. Tilgangurinn er einnig að fá sjálfboðaliða til liðs við félagið sem eru reiðubúnir að svara kalli á tímum áfalla og rétta þolendum áfalla hjálparhönd. Þessi sjálfboðaliðar munu tilheyra hópnum Liðsauki og verkefni þeirra yrðu margvísleg eins og að svara í síma og veita upplýsingar, gæta barna, veita skyndihjálp og sálrænan stuðning, útbúa mat og skrá upplýsingar. Þessa vikuna leggur Kópavogsdeild einnig áherslu á að fjölga félagsmönnum í deildinni og sendir frá sér sérstakt kynningarefni á öll heimili í Kópavogi af því tilefni. Þannig leitast hún við að efla starf sitt í þágu þeirra sem þurfa á aðstoð að halda í Kópavogi.

9. okt. 2009 : „Sjálfboðaliðastarf er frábært!” – viðtal við Sigrúnu Hjörleifsdóttur heimsóknavin

Sigrún skráði sig sem sjálfboðaliða hjá deildinni snemma árs 2008. Hún hafði séð ungmennastarf deildarinnar auglýst og benti syni sínum á að taka þátt í starfinu en þegar hún kannaði hvað fleira deildin byði upp á sá hún ýmislegt áhugavert fyrir sjálfa sig. Hana langaði að gefa af sér og hún hafði góðan tíma svo hún fór á námskeið fyrir nýja heimsóknavini. Hún fékk fljótlega verkefni sem heimsóknavinur konu á einkaheimili og hefur nú sinnt þeirri heimsókn í eitt og hálft ár.

Heimsóknir Sigrúnar snúast að mestu um spjall en hún hefur líka farið út að ganga með gestgjafa sínum og aðstoðað hann við að fara út í búð og banka. Gestgjafinn býður gjarnan upp á kaffi og heimabakað góðmeti eins og pönnukökur. Þær eiga sameiginlegt áhugamál, prjón, og ræða það iðulega. Sigrún segir að henni finnist gaman að heimsækja gestgjafa sinn og að það gefi henni mikið, sérstaklega því hún veit að gestgjafinn fær ekki margar heimsóknir og hefur gaman af heimsóknum Sigrúnar. Það sem Sigrúnu finnst einnig sérstaklega skemmtilegt er að ræða við gestgjafa sinn um lífið og tilveruna en eldri gestgjafinn hefur aðra sýn á lífið og gefur það Sigrúnu mikið að heyra af því.

8. okt. 2009 : Kannt þú skyndihjálp?

Skyndihjálp er fyrsta aðstoð sem veitt er slösuðu eða bráðveiku fólki. Hún getur skipt sköpum um lífslíkur og bata. Kópavogsdeild heldur reglulega námskeið í almennri skyndihjálp og hafa námskeiðin að jafnaði verið vel sótt. Næsta námskeið verður 20. október og munu þátttakendurnir læra grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun og verða þar með hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

7. okt. 2009 : Stuðningur í Hjálparsímanum 1717

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna einsemdar, kvíða, þunglyndis, depurðar, efnahagsáhyggja eða jafnvel sjálfsvígshugsana. Hjálparsíminn 1717 gegnir því hlutverki að veita ráðgjöf til fólks á öllum aldri sem óskar eftir stuðningi. Starfsmenn og sjálfboðaliðar símans veita upplýsingar um hvar megi leita frekari úrræða ásamt því að veita sálrænan stuðning.

6. okt. 2009 : Prjónavörur til sölu í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg

Í sjálfboðamiðstöðinni eru til sölu prjónavörur sem sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hafa prjónað. Til sölu eru sokkar og vettlingar í öllum stærðum og gerðum, húfur, treflar, ungbarnateppi og peysur á börn. Andvirði sölunnar er nýtt til garnkaupa fyrir sjálfboðaliðana en auk þessa varnings prjóna þeir ungbarnaföt fyrir börn í neyð í Malaví í Afríku. Þá eru prjónaflíkur þeirra einnig seldar í Rauða kross búðunum á höfuðborgarsvæðinu.

5. okt. 2009 : Tíkin Karólína afrekshundur ársins

Það er deildinni sönn ánægja að greina frá því að tíkin Karólína, sem sinnir heimsóknaþjónustu með eiganda sínum, var heiðruð um helgina sem afrekshundur ársins af Hundaræktarfélagi Íslands. Karólína er sex ára blendingur Border og Springer. Hún og Guðleifur eigandi hennar mynda heimsóknavinateymi sem hefur farið í heimsóknir á vegum deildarinnar síðan haustið 2007.

2. okt. 2009 : Barnafataskiptimarkaður í Rauðakrosshúsinu

Rauði krossinn stendur fyrir skiptimarkaði með barnaföt fram að jólum í Rauðakrosshúsinu Borgartúni 25. Markaðurinn verður opinn alla þriðjudaga klukkan 13:30 – 17:00 og miðvikudaga klukkan 12:00 - 13:00 og byrjar þriðjudaginn 6. október.

Þema októbermánaðar verður útiföt og vetrarskór/stígvél, nóvembermánaðar íþróttaföt og íþróttaskór og í desember spariföt og leikföng.

Fólk getur komið með vörur og fær skipt í aðrar stærðir eða öðruvísi föt. 

1. okt. 2009 : Metþátttaka í prjónakaffi

Alls mættu 47 sjálfboðaliðar í prjónakaffi sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni í gær. Ekki hafa áður mætt fleiri sjálfboðaliðar í eitt prjónakaffi frá því að deildin stóð fyrir fyrsta prjónakaffinu í febrúar 2007. Þetta er því metþátttaka. Prjónaglöðu sjálfboðaliðarnir komu með prjónaflíkur sem þeir höfðu unnið að síðasta mánuðinn og fengu meira garn til að halda áfram að prjóna. Svo var boðið upp á kaffi og meðlæti og áttu sjálfboðaliðarnir ánægjulega stund saman. Prjónakaffi er haldið síðasta miðvikudag hvers mánaðar frá kl. 16-18.