30. nóv. 2009 : Vel heppnaður skiptidótamarkaður og kakó á laugardaginn

Tuttugu og þrír sjálfboðaliðar Kópavogsdeildarinnar stóðu vaktina síðasta laugardag á skiptidótamarkaði í Molanum og við að gefa gestum og gangandi kakó og piparkökur á jólaskemmtun á Hálsatorgi á laugardaginn. Á markaðinum voru notuð leikföng sem fólk gat fengið í skiptum fyrir dót sem það átti og þannig endurnýjað í dótakassa barna sinna. Þá var einnig hægt að kaupa notuð leikföngin á vægu verði. Alls var selt fyrir 16 þúsund krónur og munu þær renna í neyðaraðstoð innanlands.

Þegar kveikt var á jólatré Kópavogs á Hálsatorgi síðar um daginn voru sjálfboðaliðar tilbúnir með heitt kakó og piparkökur fyrir þá sem komu til að fylgjast með dagskránni á torginu. Þetta voru heimsóknavinir, sjálfboðaliðar í neyðarvörnum og í verkefninu Föt sem framlag. Þá voru einnig sjálfboðaliðar í eldhúsinu í Molanum að búa til kakóið.

27. nóv. 2009 : Skiptidótamarkaður í Molanum og kakó á Hálsatorgi á morgun, laugardaginn

Á morgun, laugardaginn 28. nóvember, verður mikið um að vera hjá deildinni. Í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs, verður haldinn skiptidótamarkaður frá kl. 12-16. Þar gefst fólki tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Þá er einnig hægt að kaupa notuð leikföng á vægu verði og styrkja gott málefni en ágóðinn rennur til neyðaraðstoðar innanlands. Sjálfboðaliðar í ungmennastarfi deildarinnar, Plúsnum, sjá um markaðinn.

Frá kl. 16-17 verða svo aðrir sjálfboðaliðar deildarinnar á Hálsatorgi þegar kveikt verður á jólatré Kópavogs. Þeir verða með heitt kakó og piparkökur fyrir gesti og gangandi á meðan á skemmtiatriðum stendur og tendrað verður á ljósunum á trénu.

25. nóv. 2009 : Gefur fólki virkilega mikið að knúsa dýr

Heimsóknir hunda frá Rauða krossinum hófust á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gær. Á vegum Rauða krossins er fjöldi sjálfboðaliða sem fer með hunda sína í heimsóknir á stofnanir til að gleðja vistmenn, oftast eldra fólk. Greinin birtist í Fréttablaðinu 25.11.2009.

25. nóv. 2009 : Líf og fjör í sjálfboðamiðstöðinni á prjónakaffi

Núna stendur yfir prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og eru fjöldi prjónakvenna saman komnar til að njóta góðrar stundar yfir prjónum og kaffi. Konurnar hafa skilað inn því sem þær hafa prjónað síðasta mánuðinn og fengið meira garn til að halda áfram handavinnu sinni. Konurnar eru sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag og hittast í prjónakaffi síðasta miðvikudag í hverjum mánuði frá kl. 15-18.

23. nóv. 2009 : Fræðslukvöld vegna liðsauka

Miðvikudaginn 25. nóvember kl. 19.30-21.00 verður haldin kynning á liðsauka í sjálfboðamiðstöð deildarinnar að Hamraborg 11, 2. hæð. Þar verður neyðaraðstoð Rauða krossins kynnt, hlutverk liðsauka útskýrt og kynning á starfsemi deildar. Neyðarvarnakerfi Rauða krossins byggir á því að fólk eigi rétt á tafarlausri aðstoð í kjölfar náttúruhamfara og slysa. Mikil áhersla er lögð á að alls staðar á landinu megi finna hóp fólks sem þjálfaður er í að bregðast við með því að skjóta skjólshúsi yfir fólk, skrá það og veita alla fyrstu aðstoð.

19. nóv. 2009 : Handverk til sölu í sjálfboðamiðstöðinni

Enn er handverk til sölu í sjálfboðamiðstöðinni frá því á handverksmarkaðinum um síðustu helgi. Það má meðal annars finna prjónaðar peysur á góðu verði, trefla, vettlinga, sokka og húfur. Þá eru einnig saumaðar jólasvuntur og –smekkir til sölu. Handverk frá Mósambík er líka í boði, eins og skartgripir, töskur og batik-myndir. Hægt að gera góð kaup í sjálfboðamiðstöðinni og styrkja í leiðinni gott málefni. Allur ágóðinn rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

17. nóv. 2009 : Rúi og Stúi - styrktarsýningar fyrir Kópavogsdeild hjá Leikfélagi Kópavogs

Kópavogsdeild Rauða krossins og Leikfélag Kópavogs eru í samstarfi í tengslum við barnasýninguna Rúa og Stúa sem leikfélagið sýnir. Þriðjungur af andvirði hvers miða á sýninguna fer til styrktar barna- og ungmennastarfi Kópavogsdeildar. Leikhúsgestir geta þannig slegið tvær flugur í einu höggi, stutt börn og ungmenni í gegnum hjálparstarf Rauða krossins og notið bráðskemmtilegrar leiksýningar.

16. nóv. 2009 : Enter-krakkarnir fengu heimsókn frá Íþróttaálfinum

Í síðustu viku fengu Enter-krakkarnir skemmtilega heimsókn en enginn annar en Íþróttaálfurinn kíkti til þeirra í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og vakti það mikla lukku. Hann kenndi þeim ýmsar æfingar og orðaforða tengdum þeim. Þá ræddi hann einnig við þau um mikilvægi holls mataræðis og heilbrigðra lífshátta. Hann sýndi þeim ýmsar listir sem Íþróttaálfurinn er sérfræðingur í, eins og heljarstökk og handahlaup. Krakkarnir stóðu sig mjög vel og tóku vel á móti álfinum.

14. nóv. 2009 : Vel heppnaður handverksmarkaður

Fjöldi fólks mætti í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í dag og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, jólakort og handverk frá vinadeild í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 440 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

14. nóv. 2009 : Handverksmarkaður í dag, laugardag!

Handverksmarkaður Kópavogsdeildar hefst kl. 11 í dag og þar er hægt að gera góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá er einnig til sölu handverk frá Mósambík eins og batik-myndir, armbönd, töskur, hálsmen og eyrnalokkar. Þögult uppboð verður á sérlega veglegum hlutum frá Mósambík. Einnig er hægt að gera góð kaup á kökum og brjóstsykri sem hafa verið búnir til sérstaklega fyrir markaðinn. Jólakort sem voru handskreytt af yngstu þátttakendum okkar í Rauða kross starfi – Enter-börnunum – verða líka til sölu.

13. nóv. 2009 : Handverksmarkaður Kópavogsdeildar 14. nóvember

Kópavogsdeildin heldur handverksmarkað laugardaginn 14. nóvember kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma fleiri sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum.

Selt verður fjölbreytt handverk sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag eins og fallegar sauma- og prjónavörur. Heimsóknavinir gefa kökur og þá verða í boði jólakort og sælgæti sem yngstu sjálfboðaliðar deildarinnar úr Enter og Eldhugum hafa búið til. Auk þess verður handverk frá Mósambík til sölu, s.s. litríkar töskur, skartgripir og batíkmyndir. Allur ágóði af sölunni rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

11. nóv. 2009 : Enter-krakkar útbúa jólakort fyrir handverksmarkað Kópavogsdeildar

Enter-hópur Kópavogsdeildar hefur unnið að gerð jólakorta sem seld verða á handverksmarkaði deildarinnar á laugardaginn, 14. nóvember næstkomandi.  Vinnan gekk vel hjá börnunum og afraksturinn glæsilegur líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Handverksmarkaðurinn verður haldinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 11-16. Þar verður einnig selt fleira handverk sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, heimagerðar kökur og handverk frá Mósambík.

Börnin í Enter eru 9-12 ára innflytjendur úr Hjallaskóla í Kópavogi en þau hittast einu sinni í viku í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og fá meðal annars málörvun og taka þátt í ýmsum tómstundum í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki.

9. nóv. 2009 : Eldhugar kynna sér starfsemi Þjóðleikhússins

Í síðustu viku fór hópur Eldhuga í heimsókn í Þjóðleikhúsið þar sem hann fékk að kynnast starfsemi hússins. Vel var tekið  á móti krökkunum og fengu þau meðal annars að skoða baksviðs og kynnast vinnuaðstæðum leikara. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og komu mikils vísari um leikhússtarfsemi tilbaka úr heimsókninni.

6. nóv. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast í nýja fatabúð Rauða krossins

Rauði kross Íslands opnar nýja fatabúð í Mjódd í Reykjavík á næstunni og vantar sjálfboðaliða til að sjá um afgreiðslu. Í búðinni verða seld notuð föt sem almenningur hefur gefið Rauða krossinum. Sá fatnaður sem er gefinn Rauða krossinum er að hluta til seldur til flokkunarfyrirtækja í Evrópu sem endurnýta hann til sölu í verslunum og á mörkuðum erlendis. Fatnaðurinn er einnig flokkaður hér á landi í Fatasöfnunarstöð Rauða krossinn og sendur í búðirnar sem félagið rekur.

Auk nýju búðarinnar í Mjóddinni rekur félagið þrjár aðrar búðir á höfuðborgarsvæðinu, á Laugavegi 12 og 116 í Reykjavík og Strandgötu 24 í Hafnarfirði, og sjá sjálfboðaliðar alfarið um afgreiðslu í þeim. Allur ágóði af rekstri þeirra rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins og er sjóðurinn nýttur í alþjóðlega neyðaraðstoð, neyðarvarnir og þróunaraðstoð. 

3. nóv. 2009 : „Hef tekið þátt í starfi Kópavogsdeildar frá unga aldri” - viðtal við Etehem Bajramaj sjálfboðaliða

Etehem Bajramaj er ungur sjálfboðaliði Kópavogsdeildar en hann flutti til Íslands frá Kosovo á afmælisdaginn sinn 3. apríl árið 2000, þá 9 ára gamall. Með honum í för voru  foreldrar hans og þrjú systkini. Aðstæður í heimalandi hans voru þá ekki góðar og atvinnuhorfur slæmar. Þá vantaði starfskrafta á Íslandi og næg vinna var í boði. Etehem flutti strax í Kópavog þar sem hann hefur búið æ síðan ásamt fjölskyldu sinni. Etehem líkar vel á Íslandi og stundar nú nám við Menntaskólann í Kópavogi.

2. nóv. 2009 : Söngstund í Roðasölum

Aðra hverja viku heimsækir hópur heimsóknavina Kópavogsdeildar sambýli fyrir fólk með heilabilun í Roðasölum og heldur söngstund fyrir íbúana. Sjálfboðliðarnir mæta með gítarinn og söngblöð og leiða íbúana í söng. Þá er einnig upplestur á ljóðum og í lokin er öllum boðið upp á kaffi og eitthvert góðmeti.

Fyrir utan söngglöðu heimsóknavinina heimsækja aðrir sjálfboðaliðar sambýlið. Heimsóknavinur með hund kemur einu sinni í viku og þá eru heimsóknir til einstaklinga.