21. des. 2009 : Lokun um jól og áramót.

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar verður lokuð frá og með 21. desember en opnar aftur mánudaginn 4. janúar 2010, kl.10.

Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.

Hægt er að hafa samband með því að senda línu á [email protected]

18. des. 2009 : Góð gjöf

Deildinni barst góð gjöf á dögunum, styrkur að upphæð 100 þúsund krónur, sem rennur til neyðaraðstoðar innanlands. Þetta er mjög kærkomin gjöf á þessum árstíma. Deildin hefur meðal annars verið í samstarfi við Mæðrastyrksnefnd Kópavogs núna fyrir jólin til að aðstoða Kópavogsbúa og hafa þeir getað fengið matargjafir, föt og annað.

17. des. 2009 : Gott ár hjá sjálfboðaliðunum í verkefninu Föt sem framlag

Í ár útbjuggu sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag 637 fatapakka með ungbarnafötum sem síðan voru sendir til fjölskyldna og barna í neyð. Pakkarnir fara venjulega til Malaví en stór hluti af afrakstrinum á þessu ári fór til Hvíta-Rússlands núna í desember þar sem Rauða krossi Íslands hafði í nóvember borist neyðarbeiðni frá Rauða krossinum þar í landi. Tvö þúsund pakkar voru sendir til Hvíta-Rússlands að þessu sinni.

14. des. 2009 : Fjölmargar nýjar heimsóknir hundavina á síðustu mánuðum

Frá því í september hafa fjölmargar nýjar heimsóknir hafist þar sem heimsóknavinir Kópavogsdeildar heimsækja með hunda sína. Í september hófst heimsókn í fangelsið í Kópavogi og er það í fyrsta skipti sem hundur heimsækir þangað. Eigandi hans fer með hann einu sinni í viku í fangelsið og fá vistmennirnir að njóta félagsskapar þeirra. Þá hófust tvær heimsóknir á hjúkrunarheimilið Grund og skiptast tveir heimsóknavinir á að heimsækja heimilið og fær heimilisfólkið því heimsókn frá hundi einu sinni í viku.

Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, fékk aftur til sín hund í október eftir nokkurt hlé og gleður hann gesti athvarfsins vikulega með nærveru sinni. Í lok nóvember fór svo fyrsti hundurinn í heimsókn með eiganda sínum á líknardeildina í Kópavogi. Sá hundur er kóngapúðli og heitir Charly. Á meðan heimsóknavinurinn ræðir við fólkið á deildinni getur það klappað og knúsað Charly. Heimsóknavinir með hunda heimsækja þó ekki bara stofnanir heldur líka einkaheimili og hófst ein slík heimsókn á dögunum. Þá fer heimsóknavinurinn og hundurinn með gestgjafa sínum út að ganga. Nýjasta heimsóknin hófst svo í síðustu viku en labrador að nafni Óðinn heimsækir Hrafnistu í Reykjavík með eiganda sínum. 

11. des. 2009 : Lokasamverur fyrir jól

Í þessari viku voru síðustu samverur Enter, Eldhuga og Alþjóðlegra foreldra. Hóparnir hafa hist einu sinni í viku í sjálfboðamiðstöðinni síðan um miðjan september en fara nú í jólafrí fram í miðjan janúar.

Alþjóðlegir foreldarar hittust í gærmorgun og nutu veitinga í anda jólanna og hlustuðu á jólalög. Í boði voru malt og appelsín, smákökur, konfekt og kertaljós. Foreldrarnir hafa verið duglegir að mæta í vetur og auka Íslendinga hafa mæður frá Þýskalandi, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Kanada og Suður-Afríku tekið þátt. Hópurinn hefur fengið ýmis konar fræðslu, t.d. varðandi svefn og mat barna, dagvistunarmál og ungbarnanudd.

10. des. 2009 : Nemendur frá Austurbæjarskóla í starfskynningu hjá Kópavogsdeild

Í gær tók Kópavogsdeild á móti tveimur 10. bekkingum úr Austurbæjarskóla í starfskynningu. Nemarnir heita Martin og Prezemyslav en þeir koma frá Slóvakíu og Póllandi. Þeir fylgdu verkefnastjóra ungmenna- og alþjóðamála yfir daginn. Þeir fóru í heimsókn í Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, og fylgdust með starfi fyrir unga innflytjendur sem hittast í sjálfboðamiðstöðinni á miðvikudögum. Auk þess fengu nemarnir fræðslu um hugsjónir, markmið og störf Rauða krossins og kynningu á helstu verkefnum Kópavogsdeildar.  
 

8. des. 2009 : Nemendur í SJÁ 102 fá viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru tuttugu í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, sem námsvinir jafningja og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni sem haldinn var þann 14. nóvember síðastliðinn.

7. des. 2009 : Sjálfboðaliðar gleðjast í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Um fjörutíu sjálfboðaliðar mættu í sjálfboðamiðstöðina síðasta föstudagskvöld til að fagna í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans en hann er haldinn 5. desember ár hvert. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga.

Að venju var boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Formaður deildarinnar, Garðar H. Guðjónsson, hóf gleðina á því að minnast á mikilvægi sjálfboðaliða en síðan tók við upplestur tveggja rithöfunda. Þórarinn Eldjárn las upp úr bók sinni Alltaf sama sagan og Jón Kalman Stefánsson las upp úr bókinni Harmur englanna sem er nýkomin út. Þá flutti Eldhuginn Hulda Hvönn frumsamið ljóð og Eldhugarnir Kristína, Ólöf og Rakel sungu. Ungur gítarnemandi úr Tónlistarskóla Kópavogs kom og spilaði nokkur lög og síðan slógu sjálfboðaliðarnir sjálfir botninn úr dagskránni með fjöldasöng.

3. des. 2009 : Sjálfboðaliðagleði á morgun, föstudag, í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar er boðið á kvöldskemmtun 4. desember kl. 19.30-21.30 í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Við hvetjum því alla sjálfboðaliða okkar til að mæta og eiga skemmtilega kvöldstund saman í sjálfboðamiðstöðinni.
 

1. des. 2009 : Jafningjafræðsla á alþjóðlegum alnæmisdegi

Alþjóðlegur baráttudagur gegn alnæmi er í dag 1. desember. Fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar hefur af því tilefni sinnt forvarnarfræðslu um alnæmi fyrir alla lífsleikninema Menntaskólans í Kópavogi undanfarna daga og vikur. Auk þess hélt hópurinn fyrirlestur og kynningu á Tyllidögum skólans í haust.

Fræðsluhópur sinnir fræðslu og forvörnum, bæði fyrir jafningja og yngri hópa og vinnur með eitt átaksverkefni á hverri önn. Verkefnið sem varð fyrir valinu í haust var fræðsla um alnæmi og hefur hópurinn leitast við að vekja jafningja sína til umhugsunar. Fræðslan var í formi hlutverkaleiks, auk fyrirlesturs þar sem fjallað var um helstu staðreyndir er varða sjúkdóminn. Fræðsluhópur vann þetta átaksverkefni í samstarfi við HIV–samtök Íslands.