22. des. 2010 : Lokun um jól og áramót

Rauðakrosshúsið i Kópavogi er lokað en opnar aftur þriðjudaginn 4. janúar 2008, kl.10.

Kópavogsdeild Rauða krossins færir sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf og samskipti á árinu sem er að líða.

Hægt er að hafa samband með því að senda línu á [email protected] og við svörum við fyrsta tækifæri.
 

16. des. 2010 : Sjálfboðaliða vantar í Viðbragðshóp Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu

Viðbragðshópurinn sinnir neyðaraðstoð fyrir óslasaða þolendur á vettvangi bruna, vatnstjóna, rýmingu á húsnæði og annarra alvarlegra atburða sem lenda utan skipulags almannavarna.

Hópfélagar eru á bakvakt í viku í senn og taka ítarlegt námskeið á vegum Neyðarnefndar höfuðborgarsvæðisins áður en þeir hefja störf, m.a. í sálrænum stuðningi og úrlausnum eftir tjón. Hópurinn starfar undir Neyðarnefndinni og hún velur einstaklinga í hann. Aldurstakmark í Viðbragðshóp er 23 ár.

10. des. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Menntaskólanum í Kópavogi tóku á móti viðurkenningu fyrir vel unnin störf

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf. Á þessari önn útskrifuðust 14 nemendur úr áfanganum en hann er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar og Menntaskólans í Kópavogi. Meðal verkefna sem nemendur unnu að voru störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, störf í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, félagsstarf með 13-16 ára ungmennum af íslenskum og erlendum uppruna, vinna með innflytjendum á aldrinum 9-12 ára og aðstoð við jafningja með það að markmiði að liðsinna við nám og rjúfa félagslega einangrun. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í Rauðakrosshúsinu sem haldinn var 20. nóvember síðastliðinn og þar söfnuðust 300 þúsund krónur sem runnu til styrktar verkefnum innanlands.

Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossinum og margir nemendur hafa haft á orði að þessi reynsla af sjálfboðaliðastörfum muni fylgja þeim og hafi breytt sýn þeirra á lífið. Deildin fékk leyfi til að vitna í hluta úr dagbók eins nemanda sem vann sem sjálfboðaliði í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn:

9. des. 2010 : Alþjóðlegir foreldrar á haustönn

Hópur alþjóðlegra foreldra mætti í dag á lokasamveru hópsins fyrir jól en mikið líf og fjör hefur verið í Rauðakrosshúsinu alla fimmtudagsmorgna í haust þegar hópurinn mætir með börnin sín til að taka þátt í verkefninu Alþjóðlegir foreldrar. Foreldrarnir koma frá hinum ýmsu löndum, t.d. Litháen, Þýskalandi, Póllandi, Kína, Japan og Íslandi.

Ýmislegt hefur verið á dagskrá í haust líkt og skyndihjálparfræðsla með tilliti til ungra barna, fræðsla um holla næringu fyrir börn, kynning á þroskaleikföngum og heimsókn frá Tónagulli þar sem foreldrarnir fengu fræðslu um tónlistaruppeldi auk fastra liða eins og þegar þátttakendur koma með veitingar frá sínu heimalandi. Þá eru sumar samverurnar einnig helgaðar spjalli og almennri samveru foreldra þar sem þeir fá tækifæri til að kynnast á meðan börnin leika sér.

8. des. 2010 : Fjölmenni á sjálfboðaliðagleði

Deildin bauð sjálfboðaliðum sínum í gleði síðastliðið mánudagskvöld í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans sem haldinn er árlega 5. desember. Metþátttaka var þetta kvöld en alls mættu 55 sjálfboðaliðar og makar þeirra. Þeir áttu notalega stund saman yfir góðum veitingum, tónlist, söng og upplestri. Anna Bjarnadóttir, sjálfboðaliði, gerð að heiðursfélaga deildarinnar við þetta tilefni. Hún hefur verið sjálfboðaliði hjá deildinni í fjöldamörg ár, fyrst sem sjúkravinur og síðar í verkefninu Föt sem framlag. Hún hefur unnið mjög mikið og óeigingjarnt starf í þágu deildarinnar.  

Að venju var boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Þrír nemendur í Tónlistarskóla Kópavogs spiluðu nokkur lög fyrir gestina, þá komu í heimsókn Stefán Helgi Stefánsson tenórsöngvari og Margrét Sesselja Magnúsdóttir en þau mynda hópinn Elligleði. Stefán söng skemmtileg lög við góðar undirtektir viðstaddra. Einar Kárason kom einnig og las upp úr bók sinni Mér er skemmt. Eftir góða kvöldstund var svo happadrætti og fengu nokkrir heppnir gestir gjafir.

6. des. 2010 : Síðasti dagurinn fyrir umsóknir vegna jólaaðstoðar í Kópavogi

Í dag, mánudag, er síðasti dagurinn fyrir Kópavogsbúa til að sækja um neyðaraðstoð hjá Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Kópavogsdeild Rauða krossins fyrir jólin. Hægt verður að koma í Rauðakrosshúsið í Hamraborg 11, 2. hæð, og fylla út umsókn til kl. 16 í dag.

Nefndin mun svo úthluta matvörum, jólapökkum og fleiri nauðsynjum vegna jólanna í húsnæði nefndarinnar að Fannborg 5 dagana 14., 15. og 16. desember frá 16-19.

5. des. 2010 : Alþjóðadagur sjálfboðaliðans

Í dag, 5. desember, er alþjóðadagur sjálfboðaliðans og í tilefni dagsins vill Kópavogsdeild Rauða krossins færa sjálfboðaliðum sínum bestu þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf.

Starf Rauða krossins er borið upp af sjálfboðnu starfi og án sjálfboðaliða gæti deildin ekki haldið úti öllum þeim verkefnum sem hún er að sinna og bjóða upp á. Störf sjálfboðaliða eru deildinni mikils virði og það er ómetanlegt fyrir okkur að eiga traustan hóp sjálfboðaliða að, án ykkar værum við ekki til.

Við getum með stolti sagt að verkefni deildarinnar sé í fullum blóma, verkefnin næg og hundruðir sjálfboðaliða að störfum í hinum ýmsu verkefnum. Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag eru yfir 60 talsins, þeir prjóna, hekla og sauma fatnað í ungbarnapakka sem sendir eru til neyðaraðstoðar erlendis og alls pökkuðu þeir 658 fatapökkum á árinu. Þá útbúa þeir ýmsan varning fyrir fjáröflunarmarkaði deildarinnar. Ungmennastarf Kópavogsdeildar er gróskumikið og á árinu störfuðu vel yfir 100 sjálfboðaliðar í barna- og ungmennaverkefnum deildarinnar. Í ungmennastarfinu er að finna ýmsa áhugahópa eins og hönnunarhóp, leiklistarhóp, fjáröflunarhóp og stýrihóp.

3. des. 2010 : Sjálfboðaliðagleði á mánudag - alþjóðadagur sjálfboðaliðans

Kópavogsdeild heldur upp á alþjóðadag sjálfboðaliðans mánudaginn 6. desember kl. 19.30-21.30 með gleði fyrir sjálfboðaliða deildarinnar. Við hvetjum því alla sjálfboðaliða okkar til að mæta og eiga skemmtilega kvöldstund saman í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi í Hamraborg 11. 

Dagskrá:
 

2. des. 2010 : Það er gott að láta gott af sér leiða - Viðtal við sjálfboðaliða

Rakel Sara Hjartardóttir er 19 ára Kópavogsbúi sem hefur verið sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeild í hátt á annað ár. Hún hefur unnið með börnunum í Enter en þau eru ungir innflytjendur á aldrinum 9-12 ára. Verkefnið er unnið í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Álfhólsskóla og hófst árið 2004. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í Rauðakrosshúsið Hamraborg 11 og fá meðal annars málörvun og fræðslu í gegnum fjölbreytta leiki og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Rakel Sara ákvað í byrjun að gerast sjálfboðaliði þar sem hún hafði frítíma sem hún vildi nýta til góðs. Þá hafði hún heyrt af Rauða krossinum í Kópavogi í gegnum vinkonu sína. Hún hafði því samband við Kópavogsdeild, fór í viðtal og fékk að heyra hvaða sjálfboðaliðastörf væru í boði fyrir hana. Hún hafði sérstakan áhuga á því að vinna með börnum og þess vegna varð Enter-starfið fyrir valinu.

29. nóv. 2010 : Kópavogsdeild tók þátt í aðventuhátíð á Hálsatorgi

Á laugardaginn var tók Kópavogsdeild þátt í aðventuhátið Kópavogsbæjar sem haldin var á Hálsatorgi. Þar buðu sjálfboðaliðar deildarinnar upp á heittu kakó og piparkökur fyrir gesti og gangandi á meðan á skemmtiatriðum stóð og ljósin voru tendruð á jólatrénu. Eldhugar úr unglingastarfi deildarinnar tóku einnig þátt í hátíðinni og sáu meðal annars um að ferja kakó á milli staða, dreifa bæklingum og gefa piparkökur.

Margir þáðu kakósopann með þökkum og styrktu deildina með framlagi eða skráðu sig til að kynnast frekar starfi deildarinnar. Þá var fjölbreytt dagskrá í boði á Hálsatorgi, kór Kársnesskóla söng og jólasveinar kíktu í heimsókn.

26. nóv. 2010 : Kakó á Hálsatorgi á morgun, laugardag

Á morgun, laugardaginn 27. nóvember kl. 16-17, verða sjálfboðaliðar deildarinnar á Hálsatorgi þegar kveikt verður á jólatré Kópavogs. Þeir verða með heitt kakó og piparkökur fyrir gesti og gangandi á meðan á skemmtiatriðum stendur og tendrað verður á ljósunum á trénu.

25. nóv. 2010 : Námsaðstoð í nóvember og desember

Kópavogsdeild býður upp á ókeypis námsaðstoð yfir prófatímann fyrir framhaldsskólanemendur. Aðstoðin fer fram í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs að Hábraut 2.Á milli klukkan 17 og 19 dagana 29. nóvember, 1. desember, 2. desember og 7. desember munu sjálfboðaliðar sem búa yfir góðri sérþekkingu í stærðfræði vera til aðstoða fyrir þá sem þurfa.

Einnig er hægt að óska sérstaklega eftir aðstoð í öðrum fögum með því að hafa  samband við Kópavogsdeild í síma 554 6626 eða á netfangið [email protected].

23. nóv. 2010 : Atvinnuleitendur pakka jólagjöfum fyrir Mæðrastyrksnefnd Kópavogs

Ungir atvinnuleitendur af höfuðborgarsvæðinu hafa nýlega aðstoðað Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og pakkað inn jólagjöfum fyrir jólaúthlutunina í desember. Þessir atvinnuleitendur taka þátt í verkefni hjá Rauða krossinum þar sem blandað er saman atvinnuleit og sjálfboðaliðastarfi. Fimm sjálfboðaliðar sáu um pökkunina og var góð stemming í hópnum. Einn sjálfboðaliði hafi jafnvel orð á því að þetta væri ágætis upphitun fyrir jólainnpökkun fjölskyldunnar.

22. nóv. 2010 : Prjónavörur til sölu í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg

Enn eru prjónavörur til sölu í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg 11 frá því á markaðinum um síðustu helgi. Það má meðal annars finna prjónaðar peysur á góðu verði, trefla, vettlinga, sokka og húfur. Þá eru einnig handgerð jólakort og dagatöl fyrir 2011 til sölu en ungir innflytjendur í Rauða kross starfi hjá deildinni gerðu þau. Handverk frá Mósambík er líka í boði, eins og skartgripir, töskur og batik-myndir. Hægt að gera góð kaup og styrkja í leiðinni gott málefni. Allur ágóðinn rennur til verkefna innanlands.

20. nóv. 2010 : Bestu þakkir!

Fjöldi fólks mætti í Rauðakrosshúsið í Kópavogi í dag og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, jólakort og handverk frá vinadeild í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 300.000  þúsund krónur. Ágóðinn rennur til verkefna innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

20. nóv. 2010 : Markaður í dag, laugardag!

Markaður Kópavogsdeildar hefst kl. 11 í dag, laugardag, og þar verður hægt að gera góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá verða notuð föt til sölu og skiptidótamarkaður einnig í gangi þar sem fólki gefst tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Það verður líka hægt að kaupa notuð leikföng á vægu verði. Auk þessa verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, töskur, batik-myndir og fleira.  Einnig verða til sölu kökur og brjóstsykur sem hefur verið búið til sérstaklega fyrir markaðinn. Dagatöl sem yngstu þátttakendur deildarinnar í Rauða kross starfi – Enter-börnin – hafa handgert verða líka til sölu. Allur ágóði rennur til verkefna innanlands.

19. nóv. 2010 : Markaður á morgun, laugardag!

Markaður Kópavogsdeildar hefst kl. 11 á morgun, laugardag, og þar verður hægt að gera góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá verða notuð föt til sölu og skiptidótamarkaður einnig í gangi þar sem fólki gefst tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Það verður líka hægt að kaupa notuð leikföng á vægu verði. Auk þessa verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, töskur, batik-myndir og fleira.  Einnig verða til sölu kökur og brjóstsykur sem hefur verið búið til sérstaklega fyrir markaðinn. Dagatöl sem yngstu þátttakendur deildarinnar í Rauða kross starfi – Enter-börnin – hafa handgert verða líka til sölu. Allur ágóði rennur til verkefna innanlands.

18. nóv. 2010 : Nemendur í SJÁ 102 vinna lokaverkefni sitt fyrir Kópavogsdeild

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 vinna þessa dagana að því að setja upp markað Kópavogsdeildar en hann er lokaverkefni þeirra í áfanganum. Nemendurnir eru 14 talsins á þessari önn og hafa unnið sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, með Enter- börnunum og í Dvöl. Þar að auki sátu þau grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þau tóku einnig þátt í landssöfnun Rauða krossins þann 2.október síðastliðinn, Göngum til góðs og auk þess hafa þau haldið dagbók um störf sín sem þau skila nú í lok annar.

Á markaðinum verða seld handverk sjálfboðaliða deildarinnar, sauma-og prjónavörur, bakkelsi sem nemendurnir baka og annað föndur. Þá verða notuð föt til sölu og skiptidótamarkaður einnig í gangi þar sem fólki gefst tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Einnig verður hægt að kaupa leikföng á vægu verði. Auk þessa verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, töskur, batik- myndir og fleira.

16. nóv. 2010 : Börn og ungmenni í starfi Kópavogsdeildar útbúa handverk fyrir markað

Síðustu vikur hafa börnin í Enter og unglingarnir í Eldhugum, barna- og unglingastarfi Kópavogsdeildarinnar unnið að gerð handverks sem selt verður á markaði hennar á laugardaginn, 20. nóvember næstkomandi. Vinnan hefur gengið vel en Enter börnin hafa unnið að gerð dagatals og Eldhugarnir búið til lakkrísbrjóstsykur. Þess má einnig geta að ungmenni úr Plúsnum, starfi fyrir 16-24 ára sjálfboðaliða, hafa búið til hálsklúta, hárskraut og skartgripi sem einnig verða til sölu á markaðinum.

Markaðurinn verður haldinn í Rauðakrosshúsinu, Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 11-16. Þar verður einnig selt fleira handverk, eins og prjónavörur, sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, heimagerðar kökur og handgerðir munir frá Mósambík.

15. nóv. 2010 : Frábær stemning á „Kaffihúsakvöldi án landamæra”

Ungir sjálfboðaliðar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, Alþjóðatorg ungmenna og Molinn, ungmennahús Kópavogs, stóðu fyrir alþjóðlegu kaffihúsakvöldi sem kallaðist „Kaffihús án landamæra” í Molanum í síðustu viku. Kvöldið heppnaðist í alla staði frábærlega, fjölbreyttur og alþjóðlegur hópur gesta mætti og mikil stemning myndaðist í húsinu.

Kynnar kvöldsins voru sjálfboðaliðar Plússins, Hulda Hvönn, Dagbjört Rós og Sæunn. Þær sáu einnig um leikinn „án landamæra” sem miðaði að því að þjappa fólki saman og vekja fólk til umhugsunar um að þrátt fyrir ólíkan bakgrunn þá deili fólk oft sömu reynslu. Þá var boðið upp á hlaðborð með alþjóðlegu snakksmakki frá ýmsum löndum líkt og Suður-Afríku, Rússlandi, Svíþjóð, Póllandi, Hollandi, Mexíkó og Íslandi en sjálfboðaliðar af erlendum uppruna úr Plúsnum og Alþjóðatorgi höfðu útbúið veitingarnar sjálf.

12. nóv. 2010 : Samvera heimsóknavina

Mánaðarleg samvera heimsóknavina var haldin fyrr í vikunni og var boðið upp á erindið „Hvernig stöndumst við álag?“ að þessu sinni. Á þessum samverum er venjulega boðið upp á einhvers konar fræðslu fyrir heimsóknavinina til að efla þá í starfi og miðla til gestgjafa sinna. Samverurnar eru annan þriðjudag í hverjum mánuði og á þeim eru heimsóknavinir sem heimsækja á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, hjúkrunarheimilum og Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir. Alltaf er þörf á nýjum heimsóknavinum og geta áhugasamir haft samband við deildina í síma 554 6626 eða á [email protected]. Næsta námskeið fyrir nýja heimsóknavini á höfuðborgarsvæðinu verður haldið þriðjudaginn 16. nóvember. Frekari upplýsingar og skráningu má fá með því að smella hér.

11. nóv. 2010 : Plúsinn heldur kaffihús án landamæra í kvöld, fimmtudag

Í kvöld kl. 20.30 munu sjálfboðaliðar í Plúsnum, ungmennastarfi deildarinnar, Alþjóðatorg ungmenna og Molinn, ungmennahús Kópavogs, standa fyrir alþjóðlegu kaffihúsakvöldi sem kallast ,,Kaffihús án landamæra” í Molanum að Hábraut 2. Plúsinn hefur áður haldið álíka viðburð í samstarfi við Molann sem þá kallaðist palestínskt kaffihúsakvöld.

Dagskráin hefst með alþjóðlegu snakksmakki en ungir sjálfboðaliðar af erlendum uppruna munu koma með slíkt að heiman fyrir gesti til að smakka. Þá mun trúbadorinn Trausti koma og spila nokkur lög og Salsa-Iceland koma fólki í gírinn með því að sýna nokkur vel valin spor. Auk þess munu ungmenni frá Alþjóðatorgi kenna salsatakta. Sjálfboðaliðar úr Plúsnum verða einnig með leik sem kallast ,,Engin landamæri"- leikur fyrir ALLA!

5. nóv. 2010 : Göngum til góðs söfnunin gerir kleift að efla hjálparstarfið í Malaví

Rauði kross Íslands hefur unnið að hjálparstarfi í Malaví síðan 2002, fyrst í einu þéttbýlasta og fátækasta héraði landsins, Chiradzulu, og síðan 2008 einnig í héraðinu Mwanza. Árið 2009 nutu um 3.600 börn aðstoðar og fengu tækifæri til að sækja skóla ásamt því að fá fæði og klæði og félagslegan stuðning frá sjálfboðaliðum. Áætlað er að efla verkefni Rauða krossins í Malaví enn frekar á næstu árum, meðal annars með því fjármagni sem safnaðist í landssöfnuninni Göngum til góðs í október 2010.

Einn megin styrkur þessara verkefna er að þau eru unninn í samvinnu við heimamenn, sniðin að aðstæðum á hverjum stað og það er verið að styrkja landsfélag Rauða krossins, samfélagið og fólkið til sjálfshjálpar. Mikill árangur hefur náðst í samstarfi Rauða kross Íslands og í Malaví í þau átta ár sem samvinnan hefur staðið. Vegna þess að um langtímaskuldbindingu er að ræða hafa verkefnin breyst og þróast til að mæta nýjum aðstæðum og þörfum skjólstæðinga Rauða krossins. 

4. nóv. 2010 : Atvinnuleitendur taka þátt í starfi deildarinnar

Kópavogsdeild er með tvö verkefni sem miða að því að virkja atvinnuleitendur á meðan á atvinnuleit stendur. Annað verkefnið ber yfirskriftina „Nýttu tímann“ og samanstendur af opnu húsi í húsnæði deildarinnar. Boðið er upp á námskeið, fyrirlestra, ráðgjöf og samverur. Markmiðið er að virkja og hvetja fólk þótt að þrengi vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, atvinnuleysis og krappra kjara. Verkefninu er ætlað að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk og ekki síst rjúfa einsemd og félagslega einangrun. Opna húsið er þrjá daga í viku og er þátttaka ókeypis. Hver og einn mætir á sínum eigin forsendum, hvort sem það er að mæta á fyrirlestur, nýta sér ráðgjöf eða kíkja í kaffi og spjall. Þá er einnig hægt að taka þátt með því að gerast leiðbeinandi og sjá um fyrirlestur, námskeið eða samverur. Hægt er að kynna sér dagskrá opna hússins með því að smella hér.

3. nóv. 2010 : 658 fatapakkar á árinu

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hafa pakkað alls 658 fatapökkum á árinu. Þeir hafa pakkað þrisvar sinnum og nú síðast fyrir viku síðan. Þá pökkuðu sjálfboðaliðarnir 240 pökkum. Fatapakkarnir eru sendir til barna og fjölskyldna í neyð erlendis og síðasta sending fór til Hvíta-Rússlands en sú næsta fer til Malaví. Sjálfboðaliðarnir prjóna, hekla og sauma peysur, sokka, húfur, teppi og bleyjubuxur en auk þess fer líka í pakkana handklæði, treyja, buxur, samfellur, taubleyjur og taustykki.

1. nóv. 2010 : Tombóla

Diljá Pétursdóttir, Sigurjón Bogi Ketilsson og Rakel Svavarsdóttir héldu tombólu á dögunum og söfnuðu alls 5.282 kr. Þau heimsóttu deildina með afraksturinn til að styrkja Rauða krossinn. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

29. okt. 2010 : Úrslit kunn í ljósmynda- og stuttmyndakeppni Eldhuga

Á samveru Eldhuga í gær fór fram verðlaunaafhending í ljós- og stuttmyndakeppni þeirra en þemað að þessu sinni var frjálst og útkoman fjölbreytt eftir því. Eldhugarnir Aníta Sif og Tanja Björk fengu verðlaun fyrir stuttmynd sína ,,Fíkniefni og forvarnir” en með henni vilja þær vekja jafningja sína til umhugsunar um skaðsemi fíkniefna og mikilvægi þess að standa sterkur með sjálfum sér. Hægt er að sjá stuttmyndina með því að smella hér. Tvenn verðlaun voru gefin fyrir ljósmyndir en þau fengu Anna Guðrún fyrir mynd sína um virðingu og Katrín fyrir mynd sína sem túlkar vináttu með skemmtilegu móti. Eldhugar höfðu fengið tilsögn frá sjálfboðaliða deildarinnar um helstu þætti í gerð slíkra mynda og það nýttist þeim greinilega vel við vinnuna.

27. okt. 2010 : Ingó veðurguð á sameiginlegri samveru ungmennastarfs

Sameiginleg samvera ungmenna í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu var haldin í síðustu viku í Rauðakrosshúsinu í Reykjavík. Þar hittust 13-16 ára unglingar sem taka þátt í ungmennastarfi Kópavogs, Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og Mosfellsbæ. Slíkar samverur eru haldnar reglulega til að hrista hópana saman og má þar einnig nefna vorferð barna og ungmenna sem farin er á hverju vori og auk þess hafa ungmennin farið saman í ferð í Alviðru þar sem þau hafa fengið ýmis konar fræðslu um Rauða krossinn og mannréttindi.

21. okt. 2010 : Vinnufundur Kópavogsdeildar

Dagana 19.og 21. október hélt Kópavogsdeild vinnudaga þar sem farið var yfir helstu verkefni deildarinnar, verkefnin metin og ekki hvað síst var horft til framtíðar með tilliti til frekari tækifæra og þróunar. Á fundinn mættu stjórnarmenn, starfsmenn og sjálfboðaliðar deildarinnar. Markmið fundarins var að meta styrkleika og veikleika verkefnanna með tilliti til ýmissa þátta líkt og utanaðkomandi aðstæðna og þörfinni í samfélaginu. Auk þess var farið á hugarflug og margar góðar hugmyndir komu fram.
 

18. okt. 2010 : Neyðarmötuneyti Rauða krossins, Klúbbs matreiðslumeistara og MK

Rauði kross Íslands, Menntaskólinn í Kópavogi og Klúbbur matreiðslumeistara hafa gert með sér samstarfsamning um starfsemi neyðarmötuneyta Rauða krossins til að tryggja faglega umgjörð í framkvæmd og rekstri þeirra.  Neyðarmötuneyti eru meðal annars starfrækt tímabundið í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins, þjónustumiðstöðvum almannavarna og í aðstöðu fyrir hjálparlið í kjölfar náttúruhamfara eða annarra alvarlegra atburða.

Samningurinn verður undirritaður í Menntaskólanum í Kópavogi þriðjudaginn 19. október kl. 15:00.  Þar munu félagar í Klúbbi matreiðslumanna mæta í fullum skrúða og reiða fram veitingar í boði Menntaskólans í MK – hótels og matvælasviðs.

15. okt. 2010 : Ungir atvinnuleitendur heimsækja Enter

Enter-hópurinn fékk skemmtilega heimsókn þegar Trausti  Aðalsteinsson mætti til þeirra með fjölbreytt hljóðfæri og kynnti fyrir krökkunum. Trausti er þátttakandi í verkefninu Takti sem miðar að því að virkja unga atvinnuleitendur í sjálfboðaliðastörf innan Rauða krossins. Viðfangsefnin eru margvísleg og  heimsóknin í starf Enter var eitt af því sem Trausti hefur verið að sinna. Allir fengu tækifæri til að prófa hin ýmsu hljóðfæri líkt og ukulele, rafmagnsgítar, munnhörpu, harmonikku og fleira við góðar undirtektir. Þá lærðu krakkarnir ýmsan orðaforða í kringum tónlist og hljóðfæri.

14. okt. 2010 : Gestir Dvalar eiga hlut í Héðinsfjarðargangnatreflinum

Gestir Dvalar tóku þátt í að prjóna trefil, sem náðu í gegnum Héðinsfjarðargöngin, þ.e. nýju göngin á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Fríða Gylfadóttir listamaður á Siglufirði á heiðurinn af framtakinu og fékk hún yfir 1000 þátttakendur til liðs við sig og þar á meðal gesti Dvalar. Þeir voru stoltir þegar þeir skiluðu 35 metrum og vildu gjarnan vita hvort þetta sé ekki lengsti trefill í veröldinni.

13. okt. 2010 : Nemendur Menntaskólans í Kópavogi kynntu sér alþjóðastarf Rauða krossins

Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda, sem kenndur er í Menntaskólanum í Kópavogi, fengu kynningu á alþjóðastarfi Rauða kross Íslands í vikunni. Verkefnastjóri alþjóðamála hjá Kópavogsdeild kynnti starfið en það er orðinn fastur liður í áfanganum að nemendur fái fræðslu um þetta málefni einu sinni á önn. Markmiðið er að veita nemendum innsýn í alþjóðaverkefni félagsins og að þau geti sett þau í samhengi við efnið sem fjallað er um í áfanganum. Eftir fræðsluna vinna svo nemendur verkefni og skýrslu.

8. okt. 2010 : Opið Rauðakrosshús þrjá daga í viku

Kópavogsdeild er með opið hús í húsnæði deildarinnar á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum kl. 11-15. Margt áhugavert er í boði þessa daga og er þátttaka ókeypis og opin öllum. Næstu tvær vikurnar verður meðal annars boðið upp á fyrirlestra um tilfinningagreind, Súdan og listina að lifa í núinu. Þá verða námskeið í hugleiðslu og betri tímastjórnun. Fulltrúi frá Umboðsmanni skuldara kemur í heimsókn til að fjalla um embættið og svara spurningum um þjónustu þess. Einnig verður boðið upp á handavinnu, tarotlestur, tölvuaðstoð, ráðgjöf og bingó. Hægt er að kynna sér dagskrána betur með því að smella hér.

6. okt. 2010 : Kópavogsbúar gáfu um 2 milljónir í Göngum til góðs

Í landssöfnun Rauða krossins síðastliðinn laugardag söfnuðust um 2 milljónir í Kópavogi. Ekki er komin heildartala fyrir allt landið en Kópavogsbúar geta verið stoltir af sínu framlagi. Gengið var í hús í öllum hverfum bæjarins og náðist að fara í um 80% húsa. Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni þá verður söfnunarfénu varið til verkefna Rauða kross Íslands í Malaví og Síerra Leóne þar sem áhersla er lögð á að bæta lífsgæði barna. Frekari upplýsingar um verkefnin má fá með því að smella hér fyrir Malaví og hér fyrir Síerra Leóne.

4. okt. 2010 : 289 sjálfboðaliðar tóku þátt í Göngum til góðs í Kópavogi

Alls tóku 289 sjálfboðaliðar þátt í söfnuninni Göngum til góðs í Kópavogi á laugardaginn. 250 manns gengu í hús og þó að ekki hafi tekist að ganga í öll hús náðu sjálfboðaliðarnir að fara í stærsta hluta þeirra. Gengið var út frá 8 söfnunarstöðvum í bænum og sáu alls 14 sjálfboðaliðar um þær. 25 manns stóðu síðan vaktina á 6 fjölförnum stöðum eins og í Smáralind og á Smáratorgi. Sjálfboðaliðunum var flestum vel tekið og var fólk tilbúið að styrkja Rauða krossinn í þessari söfnun. 

Í ár verður söfnunarfénu varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku, sérstaklega til barna- og ungmennaverkefna í Malaví og Síerra Leóne. Í Malaví aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn. Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Sjálfshjálparhópar alnæmissmitaðra fá einnig aðstoð við að koma sér upp matjurtargörðum og að minnsta kosti 150 stríðshrjáð ungmenni á ári fá kennslu í lestri, skrift og ýmsum iðngreinum sem færir þeim aukin tækifæri í lífinu.

2. okt. 2010 : Takk fyrir stuðninginn!

Kópavogsdeild þakkar öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu okkur lið í landssöfnuninni Göngum til góðs. Framlag sjálfboðaliða er deildinni mikils virði. Þá þökkum við bæjarbúum fyrir góðar móttökur, framlag ykkar og stuðningur ykkar skiptir okkur miklu máli. Alls lögðu 289 sjálfboðaliðar söfnuninni lið í Kópavogi og gengu í  hús í bænum.

2. okt. 2010 : Göngum til góðs í dag!

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar og annarra deilda Rauða krossins ganga í hús um allt land með söfnunarbauka í dag til að safna fé til verkefna Rauða krossins í Afríku.

Söfnunarstöðvarnar Kópavogsdeildar opna kl. 10 í morgun en deildin er með átta söfnunarstöðvar í Kópavogi, Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, í Sundlaug Kópavogs, Digranesskóla, Snælandsskóla, Smáraskóla, Vatnsendaskóla, í Sundlauginni Versölum og Dvöl, Reynihvammi 43.  Þeir sem vilja ganga til góðs í Kópavogi eru hvattir til að mæta á einhverja af söfnunarstöðvum deildarinnar, skrá sig, fá söfnunarbauk og götu úthlutað og ganga af stað.  Þá eru sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar með söfnunarbauk á nokkrum fjölförnum stöðum í bænum.

1. okt. 2010 : Hvaða götu tekur þú?

Landssöfnun Rauða kross Íslands Göngum til góðs verður á morgun, laugardag, og er undirbúningur fyrir hana í fullum gangi hjá félaginu. Verkefnastjórar eru meðal annars að taka saman gögn fyrir söfnunarstöðvar og útbúa kort fyrir göngufólk. Þá er leitað til sjálfboðaliða deildarinnar með að manna söfnunarstaði, þ.e. fjölfarna staði í Kópavogi eins og Smáralind og Smáratorg, til að safna þar líka. Stefnt er að því að ganga í öll hús á landinu og þarf Rauði krossinn því á 3.000 sjálfboðaliðum að halda. Hvaða götu ætlar þú að taka?

30. sep. 2010 : Við erum ekki vön að láta okkar eftir liggja hér í Kópavogi!

„Nú treystum við á að bæjarbúar gangi til liðs við okkur eins og ávallt þegar við leitum eftir stuðningi“, segir Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður Kópavogsdeildar. Laugardaginn 2. október verður gengið til góðs í Kópavogi og er stefnt á að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum og þarf deildin því á mörgum sjálfboðaliðum að halda, eða um 350 talsins.

Söfnunarfénu verður varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku, sérstaklega til barna- og ungmennaverkefna í Malaví og Síerra Leóne. Í Malaví aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn. Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Sjálfshjálparhópar alnæmissmitaðra fá einnig aðstoð við að koma sér upp matjurtargörðum og að minnsta kosti 150 stríðshrjáð ungmenni á ári fá kennslu í lestri, skrift og ýmsum iðngreinum sem færir þeim aukin tækifæri í lífinu.

29. sep. 2010 : Von um betra líf - Malaví

Rauða kross Íslands styður malavíska Rauði krossinn við framkvæmd alnæmisverkefna á tveimur svæðum, annars vegar í Nkalo í Chiradzulu-héraði og hins vegar í Kanduku í Mwanza- héraði. Í Nkalo eru 96 þorp þar sem búa rúmlega 42 þúsund manns. Í Kanduku eru 48 þorp og um 35 þúsund manns sem njóta góðs af átaki Rauða krossins. Í Malaví styður Rauði kross Íslands meðal annars munaðarlaus börn til framfærslu og mennta. Börnin eru ekki tekin úr umhverfi sínu heldur er þeim gefinn kostur á að alast upp í þorpinu sínu. Máltíðin sem þau fá hjá Rauða krossinum er eina máltíð dagsins hjá sumum þeirra. 

28. sep. 2010 : Von um betra líf - Síerra Leone

Í Sierra Leone styður Rauði krossinn ungmenni til mennta eftir þátttöku í borgarastyrjöldinni sem var í landinu. Átökin komu í veg fyrir eðlilegan þroska þeirra á líkama og sál en sum þeirra misstu allt að fimm ár úr skóla. Strákarnir voru margir barnahermenn og stúlkurnar teknar sem kynlífsþrælar. Eitt ár í endurmenntunarstöðvum Rauða krossins er það tækifæri sem þau fá í lífinu.

Frá 2001 hefur fimm athvörfum verið komið á laggirnar þar sem börnin stunda almennt bóknám og einnig ýmis konar iðnnám. Þeim býðst að læra handbragð við ýmsar starfsgreinar, t.d. húsa- eða húsgagnasmíði, bakstur, saumaskap, sápugerð, hárgreiðslu og landbúnað. Þau fá einnig fræðslu um alnæmi og getnaðarvarnir.

27. sep. 2010 : Saman búum við til betri heim

Kópavogsdeild Rauða krossins skorar á fólk að gerast sjálfboðaliði í klukkustund laugardaginn 2. október og ganga til góðs fyrir landssöfnun Rauða krossins. Söfnunarfénu verður að þessu sinni varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku. Sérstaklega er um barna- og ungmennaverkefni í Malaví og Síerra Leóne að ræða. Í Malaví, þar sem verkefnin fara æ vaxandi, aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn.

24. sep. 2010 : Lífsleikninemar Menntaskólans í Kópavogi ganga til góðs

Kópavogsdeild tekur þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs laugardaginn 2. október. Stefnt er að því að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum. Í ár verður safnað fyrir verkefni Rauða krossins í Afríku, sérstaklega barna- og ungmennaverkefni í Malaví og Síerra Leóne. Líkt og fyrri ár þarf á liðsinni fjölda sjálfboðaliða að halda og er það von deildarinnar að sem flestir í Kópavogi komi og leggi söfnuninni lið. Það var því mikið gleðiefni að sjá hversu margir nemendur sýndu landssöfnunni áhuga í kynningarfyrirlestrum sem sjálfboðaliðar og starfsmenn Kópavogsdeildar héldu í Menntaskólanum í Kópavogi í síðustu viku.

Allir nýnemar skólans sem sitja lífsleikniáfanga, eða 180 nemendur, sátu þessa fyrirlestra. Nemendunum var boðið að ganga til góðs sem hluta af námi sínu í lífsleikni. Þeir geta fengið gönguna metna sem eitt af verkefnum annarinnar, auk ánægjunnar sem felst í því að láta gott af sér leiða. Eina sem þau þurfa að gera er að mæta á söfnunarstöð, fá bauk og götu til að ganga í og svo skila þau bauknum aftur eftir 1-2 klukkutíma, endurnærð á líkama og sál.

23. sep. 2010 : Margir styrkja Rauða krossinn með tombólu

Mörg börn og ungmenni styrkja Rauða krossinn á hverju ári með því að halda tombólu og nýlega komu tveir vinahópar í húsnæði deildarinnar með afraksturinn af tombólu. Heiða Björk Garðarsdóttir, Ástrós Gabríela Davíðsdóttir og Aníta Björk Káradóttir héldu tvisvar tombólu fyrir utan Bónus í Ögurhvarfi og söfnuðu rúmum 7.000 kr. Þær höfðu safnaði dóti í Vatnsendahverfinu en gáfu líka eigið dót. Þær ákváðu að styrkja Rauða krossinn þar sem þær vildu styrkja gott málefni og þeim finnst hreyfingin vera að gera góða hluti um allan heim

Annar hópur hélt svo tombólu í sumar en hann safnaði líka um 7.000 kr. Það voru þau Kara Kristín Ákadóttir, Alex Rúnar Ákason, Emma Kristín Ákadóttir, Halla Rakel Long, Gunnhildur Jóa Árnadóttir, Hekla Margrét Árnadóttir og Elín Helena Karlsdóttir.

23. sep. 2010 : Hönnunarhópur Plússins

Nú er starf hönnunarhóps Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar fyrir 16-24 ára, komið á fullt skrið á nýju hausti. Á fyrstu samverunni fengu sjálfboðaliðarnir leiðsögn frá Marín Þórsdóttur sem kenndi þeim að útfæra skart og klæði úr notuðu efni. Þá sýndi hún þeim ýmsar vefsíður og hagnýtar upplýsingar sem hægt er að styðjast við þegar föndrað er. Á haustönn mun hópurinn miða að því að hanna og búa til vörur úr notuðum fötum og efnum og selja á handverksmarkaði deildarinnar sem haldinn verður 20. nóvember næstkomandi. Hópurinn hittist aðra hverju viku í húsnæði deildarinnar.

22. sep. 2010 : Vel sótt námskeið í skyndihjálp og Slys og veikindi barna

Deildin hélt nýlega námskeið í skyndihjálp og námskeiðið Slys og veikindi barna og voru þau bæði vel sótt. Full skráning var á skyndihjálparnámskeiðið og lærðu þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þeir sem sitja námskeiðið verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Námskeiðið Slys og veikindi barna fjallar um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús.
Námskeiðið sálrænn stuðningur verður svo haldið þriðjudaginn 5. október.

20. sep. 2010 : Opið hús – dagskrá vikunnar

Deildin býður upp á fjölbreytta dagskrá í vikunni á opnu húsi og eru áhugasamir eindregið hvattir til að nýta sér það. Í dag er boðið upp á leikfimi með léttum æfingum sem allir ættu að geta gert. Síðan kemur fulltrúi frá VR og segir frá þeirri þjónustu sem verkalýðsfélagið býður atvinnuleitendum á skrá hjá sér. Á morgun, þriðjudag, verður svo handavinnustund þar sem fólk getur komið með föndrið sitt og hitt aðra áhugasama um föndur. Þá verður einnig námskeið í ræktun kryddjurta. Á föstudaginn verður svo fyrirlestur um hamingju og fjallað verður um tíu aðferðir til að auka hamingju sína. Einnig er boðið upp á ráðgjöf fyrir innflytjendur og ráðgjöf hjá atvinnumálafulltrúum Kópavogsbæjar. Á föstudaginn verður líka bingó. Allir eru velkomnir á opna húsið en ítarlegri dagskrá má finna með því að smella hér.

17. sep. 2010 : Enter og Eldhugar hittust í vikunni

Nú eru verkefni Kópavogsdeildar, Enter og Eldhugar, fyrir börn og unglinga farin aftur af stað eftir sumarfrí. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára en Eldhugar eru fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu í gegnum skapandi verkefni og leik.

16. sep. 2010 : Fjölbreytt kynningar- og fræðslustarf hjá Kópavogsdeild

Síðustu vikur hefur verkefnastjóri ungmennamála ásamt sjálfboðaliðum sinnt öflugu kynningarstarfi í Kópavogi, bæði fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur. Þessa dagana er hann með sjálfboðaliðum Plússins að heimsækja alla lífsleiknema Menntaskólans í Kópavogi. Þá fá nemendur kynningu á starfi Rauða krossins, fordómafræðslu og HIV-forvarnir í tvöfaldri kennslustund í senn. Gert er ráð fyrir að með þessu muni fræðslustarf Plússins ná til allra nýnema innan menntaskólans.

14. sep. 2010 : Tombóla til styrktar Rauða krossinum

Selma Margrét Gísladóttir og Júlíana Lind Guðlaugsdóttir komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar á dögunum og gáfu Rauða krossinum 5.500 kr. Þær höfðu haldið tombólu fyrir utan Kaupfélag Norðurfjarðar í sumar og varð þetta afraksturinn. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

13. sep. 2010 : Kynningarfundur í kvöld á verkefnum deildarinnar

Deildin verður með kynningarfund á starfi og verkefnum deildarinnar fyrir áhugasama í kvöld, 13. september kl. 18-19. Þá verður hægt að kynna sér hin ýmsu verkefni eins og heimsóknaþjónustuna, Föt sem framlag, ungmennastarfið, Nýttu tímann, neyðarvarnir, starf með innflytjendum, námsaðstoð og átaksverkefni. Um er að ræða verkefni sem henta körlum jafnt sem konum og fólki á öllum aldri. Þeir sem hafa áhuga geta gerst sjálfboðaliðar á staðnum.

10. sep. 2010 : Gestir Dvalar á myndlistarsýningu

Gestir og starfsmenn Dvalar fóru á dögunum og skoðuðu myndlistarsýningu sem Ágústhópurinn stendur fyrir í ráðhúsi Reykjavíkur þessa dagana. Ágústhópurinn samanstendur af fjórum myndlistarkonum og hefur ein þeirra leiðbeint á námskeiðum sem hafa verið í Dvöl, eins og saumanámskeiði fyrr á þessu ári. Meðal efnistaka í myndunum er ást, frelsi og lífsgleði. Allt sem getur gefið manni jákvæðan innblástur í dagsins önn.

7. sep. 2010 : Starfsmaður óskast

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands auglýsir eftir starfsmanni í 25% stöðugildi til sinna opnu húsi fyrir atvinnuleitendur í Kópavogi. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Helstu verkefni:
• Umsjón með opnu húsi í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11
• Samskipti við gesti og sjálfboðaliða
• Þátttaka í viðburðum og öðrum verkefnum deildarinnar

Hæfniskröfur:
• Sjálfstæði, metnaður og  frumkvæði í starfi
• Framúrskarandi þjónustulund
• Góðir skipulagshæfileikar
• Góð samskiptahæfni og reynsla af mannlegum samskiptum
• Stúdentspróf eða önnur sambærileg menntun sem nýtist í starfinu

6. sep. 2010 : Nýttu tímann – opið Rauðakrosshús í Kópavogi

Deildin fer aftur af stað með verkefnið Nýttu tímann 13. september næstkomandi. Þá verður opið hús í húsnæði deildarinnar í Hamraborg 11, 2. hæð, kl. 11-15 á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrirlestra, samveru, námskeiða og ráðgjafar. Hægt er að kynna sér dagskrána með því að smella hér. Fyrstu tvær vikurnar verður meðal annars boðið upp á fyrirlestur um hamingju, námskeið í ræktun kryddjurta og ljósmyndum ásamt útileikfimi. Allir eru velkomnir að koma í Rauðakrosshúsið í Kópavogi! 

1. sep. 2010 : Ungir sjálfboðaliðar

Sylvía Þorleifsdóttir afhenti í gær Kópavogsdeild Rauða krossins afrakstur tombólu sem hún hélt í Hamraborginni á laugadaginn. Sylvía naut aðstoðar systur sinnar og frænda en alls söfnuðust 2.200 krónur. Þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn. Framlagið rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

 

31. ágú. 2010 : Líf og fjör í Hamraborginni

Kópavogsdeild Rauða krossins tók þátt í vel heppnaðri Hamraborgarhátíð sem haldin var í sól og blíðu á laugardaginn. Opið hús var hjá deildinni og gátu gestir kynnt sér starf og verkefni deildarinnar auk þess sem boðið var upp á kaffi og meðlæti. Sjálfboðaliðar deildarinnar stóðu vaktina utandyra og seldu prjónavörur sjálfboðaliða og handverk frá vinadeild í Mósambík en ágóðinn, alls 27.500 krónur, rennur í verkefnið Föt sem framlag.

Hátíðin var haldin á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við verslanir, fyrirtæki og menningarstofnanir í Hamraborginni. Kópavogsdeild vill þakka bænum fyrir skemmtilegt framtak og hlakkar til að taka þátt í hátíðinni að ári.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefnum deildarinnar geta haft samband við deildina í síma 554 6626.

27. ágú. 2010 : Opið hús á Hamraborgarhátíð

Kópavogsdeild verður með opið hús í húsnæði sínu laugardaginn 28. ágúst í tilefni af Hamraborgarhátíðinni. Hægt verður að kíkja í kaffi og kynna sér starf og verkefni deildarinnar kl. 13-17 í Hamraborg 11, 2. hæð. Þá verða einnig til sölu prjónavörur sjálfboðaliða en ágóðinn rennur í verkefnið Föt sem framlag.

Ásamt Kópavogsdeild ætla menningarstofnanir, listamenn, íþróttafélög og fleiri að setja skemmtilegan svip á Hamraborgina þennan dag. 

26. ágú. 2010 : Verkefnið Föt sem framlag fékk góðan fjárstyrk

Anna Bjarnadóttir, sjálfboðaliði og prjónakona, í verkefninu Föt sem framlag færði Kópavogsdeildinni í gær fjárstyrk að upphæð 263 þúsund krónur. Anna átti stórafmæli fyrr í sumar og í stað þess að þiggja gjafir bað hún fólk um að styrkja verkefnið. Þetta varð afraksturinn og kemur hann sér einkar vel fyrir verkefnið.

Fjármagninu verður varið til kaupa á garni fyrir sjálfboðaliða verkefnisins. Anna var ein af fyrstu sjálfboðaliðunum í verkefninu og hefur tekið þátt í því í yfir 20 ár. Deildin færir henni bestu þakkir fyrir þennan rausnarlega styrk.

25. ágú. 2010 : Við þurfum fleiri sjálfboðaliða - Vertu með!

Undirbúningur er nú í fullum gangi fyrir hauststarf deildarinnar og vantar sjálfboðaliða í ýmis verkefni. Það vantar heimsóknavini í heimsóknaþjónustu, sjálfboðaliða til að vinna með innflytjendum og ungu fólki. Þá vantar sjálfboðaliða í námsaðstoð, athvarfið Dvöl og í átaksverkefni. Verkefnið Föt sem framlag er einnig í boði fyrir áhugasama.

23. ágú. 2010 : Prjónakaffi á miðvikudaginn

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hittast miðvikudaginn 25. ágúst kl. 15-18 í prjónakaffi í húsnæði deildarinnar. Sjálfboðaliðarnir prjóna og sauma ungbarnaföt sem síðan eru send erlendis til barna og fjölskyldna í neyð. Þeir hittast síðasta miðvikudaginn í hverjum mánuði og eiga ánægjulega stund saman yfir prjónunum. Á staðnum verður garn og prjónar og nýir sjálfboðaliðar eru alltaf velkomnir í hópinn.

18. ágú. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Kópavogdeild í sumarbúðum í Finnlandi

Dagana 2.-8. ágúst fóru fjögur ungmenni fyrir hönd Rauða kross Íslands í sumarbúðirnar Herzi Camp en þær eru haldnar árlega í Finnlandi. Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, báðar 16 ára sjálfboðaliðar í Plúsnum, fóru frá Kópavogsdeild ásamt þeim Bjarna Haukssyni frá Suðurnesjadeild og Fanneyju Sumarliðadóttur frá Stykkishólmsdeild.

Sumarbúðirnar eru ætlaðar ungmennum á aldrinum 16-29 ára, fötluðum sem ófötluðum og er markmið þeirra að auka víðsýni og færni fólks til að hjálpa einstaklingum með hamlanir. Um 45 manns dvöldu í búðunum frá fjórum löndum; Finnlandi, Íslandi, Egyptalandi og Kosovo.

16. ágú. 2010 : Fjöldi námskeiða á döfinni

Kópavogsdeild býður upp á hefðbundin námskeið í september og október og hér á síðunni er hægt að fá upplýsingar og skrá sig á þau. Þann 15. september verður almennt skyndihjálparnámskeið þar sem farið verður yfir grundvallaratriðið í skyndihjálp og endurlífgun. Námskeiðið Slys og veikindi barna fer fram 20. og 21. september. Þá verður meðal annars fjalla um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Námskeið í sálrænum stuðningi fyrir almenning verður svo 5. október og námskeið í sálrænum stuðningi fyrir sjálfboðaliða 11. október en þar fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum.

12. ágú. 2010 : Góður hópur vina styrkir Rauða krossinn

Vinirnir Herta Benjamínsdóttir, Freyja Ósk Héðinsdóttir, Aron Yngvi Héðinsson, Ásta Hind Ómarsdóttir, Lára Sigurðardóttir, Mjöll Ívarsdóttir, Kolka Ívarsdóttir, Katla Rut Róbertsdóttir Kluvers og Gísli Jón Benjamínsson héldu tombólu fyrir utan sundlaug Kópavogs í sumar og söfnuðu alls 6.768 kr. til styrktar Rauða krossinum. Þau eru öll í Kársnesskóla. Framlag þeirra rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

9. ágú. 2010 : Vel heppnað námskeið Mannúð og menning

Deildin stóð fyrir námskeiðinu Mannúð og menning í síðustu viku fyrir börn á aldrinum 7-9 ára. Á námskeiðinu er lögð áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Þátttakendurnir fræddust um Rauða kross starf, skyndihjálp, mismunandi menningarheima og umhverfið. Þá nýttu þau góða veðrið og fóru í leiki úti. Námskeiðinu lauk svo í Nauthólsvíkinni með góðri samveru.

4. ágú. 2010 : Styðjum Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni 21. ágúst

Rauði kross Íslands hvetur félaga og velunnara sína að heita á eða hlaupa fyrir Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 21. ágúst. Hægt er að heita á hlaupara fram að miðnætti mánudaginn 23. ágúst með því að smella á hlaupastyrkur.is.

Til að skrá áheit þarf að smella á nafn hlaupara sem ætlunin er að heita á. Þá opnast síða hlauparans með upplýsingum um vegalengd, góðgerðafélag og jafnvel stuttum texta um það hversvegna hlaupari ætlar að hlaupa fyrir viðkomandi félag. Á síðu hlauparans er hægt að heita á hann með því að greiða með kreditkorti en einnig með því að senda áheita númer hans sem sms skilaboð. Upphæðin rennur síðan til þess góðgerðarfélags sem viðkomandi hlaupari valdi þegar hann skráði sig í hlaupið.

Hlaupum til góðs fyrir Rauða kross Íslands.

3. ágú. 2010 : Nærveran er gefandi

Gestum í athvarfinu Dvöl í Kópavogi líkar vel við tíkina Tinnu. Hundurinn er í eigu Þórðar Ingþórssonar forstöðumanns sem kom á óvart hve tímafrekt hundahald er. Greinin birtist í Morgunblaðinu 21.07.2010

„Hundar eru góðir fyrir geðheilsuna. Þetta er staðreynd sem bæði erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á og einnig er þetta eitthvað sem margir hafa sjálfir upplifað,“ segir Þórður Ingþórsson forstöðumaður Dvalar í Kópavogi, athvarfs sem Kópavogsdeild Rauða krossins og bæjaryfirvöld starfrækja í sameiningu.

Þórður kemur með hundinn sinn, tíkina Tinnu, til vinnu sinnar í Dvöl sérhvern dag. Tinnu og Dvalar-gestum kemur afar vel saman og eru gestirnir sammála um að nærvera hennar sé mjög gefandi á allan hátt.

26. júl. 2010 : Mannúð og menning - nokkur sæti laus!

Námskeið er fyrir börn á aldrinum 7-9 ára (fædd 2001-2003) 3.-6. ágúst kl. 9-16 í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11, 2. hæð. Skráning er til 30. júlí.

Á námskeiðunum „Mannúð og menning" er lögð áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Þátttakendur fræðast um Rauða kross starf, skyndihjálp, mismunandi menningarheima og umhverfið.

 

2. júl. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Plúsnum á leið á sumarbúðir til Finnlands

Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, sjálfboðaliðar í ungmennastarfi Kópavogsdeildar Rauða krossins taka þátt í sumarbúðum á vegum finnska Rauða krossins í Herttoniemi Helsinki 2.-8. ágúst næstkomandi. Hulda og Dagbjört hófu þátttöku sína í Rauða kross starfi með því að gerast Eldhugar en færðu sig svo yfir í Plúsinn þegar þær urðu eldri en það er starf fyrir 16-24 ára ungmenni. Auk þeirra fara tvö önnur ungmenni frá Rauða krossinum á Suðurnesjum og Stykkishólmi í sumarbúðirnar.

28. jún. 2010 : Heilsuhópur Takts fór í Esjugöngu

Heilsuhópur Takts – Ungt fólk til athafna fór á dögunum í gönguferð upp á Esju. Það var góð stemming í hópnum og eftir fjallgönguna endaði ferðin á því að farið var í heita pottinn í Nauthólsvík til að ná úr sér þreytunni.

Heilsuhópurinn er einn af fjölmörgum hópum í virkniverkefninu Taktur. Einnig er boðið uppá mömmuhóp, prjónahóp, myndlistarhóp, hönnunarhóp, heimildamyndagerð, íslenskukennslu og margt fleira. Síðan eru ótal sjálfboðaliðastörf innan Rauða krossins sem unga fólkið hefur valið sér og tekið þátt í.

24. jún. 2010 : Móri og aska í sumarferð Dvalar

Fyrst lá leiðin á Selfoss þar sem ferðalangarnir stoppuðu og fengu sér pylsu og annað góðgæti. Þá var farið í Fljótshlíðina á Njáluslóðir en einn ferðalanganna reyndist hinn prýðilegasti leiðsögumaður og gat hann bent á helstu sögustaði Njálu og rifjað upp atburði sögunnar. Á Skeiðavegamótum á þjóðveginum heldur svo Skerflóðsmóri til en hann er draugur sem hoppar upp í bíla og tekur sér far með ökumönnum. Voru menn ekki frá því að móri hefði eitthvað látið finna fyrir sér í rútunni þegar farið var yfir gatnamótin.

22. jún. 2010 : Hnútabindingar á Gleðidögum

Börnin á námskeiðinu Gleðidagar, sem Kópavogsdeildin hélt í síðustu viku, lærðu ýmislegt nýtt og eitt af því voru hnútabindingar. Jóhann S. Birgisson, eða Boggi eins og hann er venjulega kallaður, kenndi börnunum að binda hnúta og búa til glasamottur og hálsmen úr þeim. Þetta er í annað skiptið sem Boggi leiðbeinir á námskeiðinu en hann tók einnig þátt í því í fyrra. Þá var haft samband við skátana og óskað eftir leiðbeinendum með sérkunnáttu. Boggi gaf kost á sér í hnútabindingarnar og hefur að eigin sögn haft mjög gaman að því að leiðbeina börnunum. „Þetta er fræðandi fyrir börnin og gaman fyrir þau að búa til eitthvað sem þau geta farið heim með“, segir Boggi.

18. jún. 2010 : Ókeypis ráðgjöf fyrir innflytjendur/free consult for immigrants

Pólsku- og enskumælandi sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar munu bjóða innflytjendum upp á ókeypis ráðgjöf mánudagana 21. og 28. júní kl. 12-14 í sjálfboðamiðstöð deildarinnar að Hamraborg 11, 2. hæð. Markmið ráðgjafarinnar er að liðsinna innflytjendum með ýmis mál sem þá vantar mögulega aðstoð með og auðvelda aðgengi þeirra að upplýsingum, til dæmis varðandi dagvistunarmál, húsnæðismál og þá þjónustu sem í boði er.

16. jún. 2010 : Þriðja fréttabréf Kópavogsdeildar til vinadeildar í Mósambík

Kópavogsdeild er í vinadeildasamstarfi við deild Rauða krossins í Maputo-héraði í Mósambík. Sjálfboðaliðahópurinn sem haldið hefur utan um samstarfið fyrir hönd Kópavogsdeildar hefur nú sent frá sér þriðja fréttabréfið til vinadeildarinnar þar úti. Í bréfinu má finna upplýsingar um starf Kópavogsdeildar, fróðleik um Ísland og kynningu á nokkrum af þeim sjálfboðaliðum sem að samstarfinu hafa unnið síðustu misseri. Hægt er að lesa fréttabréfið á íslenskum með því að smella hér.

15. jún. 2010 : Námskeiðið Gleðidagar í fullum gangi

Kópavogsdeild heldur námskeiðið „Gleðidagar – ungur nemur gamall temur“ þessa vikuna. Námskeiðið er ókeypis og er fyrir 6-12 ára börn. Það er haldið í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og er dagskráin fjölbreytt og skemmtileg. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru að mestu eldri borgarar og er markmiðið að þeir yngri læri af þeim eldri. Í gær fengu börnin meðal annars leiðsögn varðandi ljósmyndun og framsögn. Í dag fara þau í heimsókn á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og læra um starfsemi þess.

11. jún. 2010 : Ungur sjálfboðaliði styrkir Rauða krossinn

Freyja Ósk Héðinsdóttir kom í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í dag og gaf Rauða krossinum 1.987 kr. Með þessu framlagi sínu vill hún hjálpa veikum börnum. Hún hafði beðið fjölskyldu sína um að aðstoða sig og þetta varð afraksturinn. Freyja var að klára 3. bekk í Kársnesskóla. Framlag hennar rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

9. jún. 2010 : Gengu að Tröllafossi í góða veðrinu

Vaskur hópur gesta og starfsmanna úr Dvöl fór í göngu upp að Tröllafossi í Leirvogsdal á dögunum. Veðrið var gott, glampandi sól og hópurinn vel búinn. Þetta er mjög skemmtileg gönguleið og ekki erfið en gengið er eftir malarstíg nánast alla leið. Gangan tekur um einn og hálfan tíma í allt, fram og til baka. Fossinn var glæsilegur en til að komast að honum þarf að vaða yfir ána, svo gott er að hafa með sér töflur og lítið handklæði ef fólk hyggst fara yfir. Þegar búið var að skoða fossinn og vaða aftur yfir ána gæddu göngugarparnir sér á dýrindis samlokum og drykkjum og héldu síðan heim á leið.

8. jún. 2010 : Sjálfboðaliðar nutu veðurblíðu á vorgleði

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðarnir fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja. Gestirnir nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þeir sungu saman og börnin fengu andlitsmálun.

Gleðin er haldin árlega og er eins konar uppskeruhátíð sjálfboðaliða deildarinnar þar sem markmiðið er að fagna starfsvetrinum og gleðjast saman í upphafi sumars. Deildin metur mikils framlag sjálfboðaliða sinna og þakkar þeim fyrir vel unnin sjálfboðin störf í vetur.


5. jún. 2010 : Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar á morgun, laugardag!

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar verður haldin 5. júní kl. 13-15 í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Vorgleðin er uppskeruhátíð sjálfboðaliða Kópavogsdeildar og ætlum við að fagna góðum starfsvetri og gleðjast saman í upphafi sumars. Það verður margt til gamans gert eins og spilað á gítar og sungið, farið í rúsínuspíttkeppni og grillað. Afþreying verður fyrir börnin og andlitsmálun.

4. jún. 2010 : Taktu til og leggðu Rauða krossinum lið í leiðinni

Rauði kross Íslands stendur fyrir fatasöfnun um allt land laugardaginn 5. júní í samstarfi við Eimskip. Gámum verður komið fyrir við allar sundlaugar ÍTR í Reykjavík og við sundstaði í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ, í húsi Rauða krossins í Mosfellsbæ, og á móttökustöðum Eimskips Flytjanda úti á landsbyggðinni. Sjálfboðaliðar verða við fatagámana frá klukkan 13-17. Átakinu lýkur klukkan 17.

Rauði krossinn hvetur fólk að taka til hjá sér og koma gömlum fatnaði í notkun að nýju með því að nýta ferðina um leið og farið er í sund í góða veðrinu. Fólki er bent á að nota tækifærið og koma með gömlu fötin, skóna, handklæði, rúmföt, gluggatjöld og jafnvel stöku sokkana því mikil verðmæti eru fólgin í allri vefnaðarvöru.

1. jún. 2010 : Alþjóðlegir foreldrar í Grasagarðinum

Góður hópur alþjóðlegra foreldra átti skemmtilega stund saman í Grasagarðinum í síðustu viku. Hópurinn hittist fimmtudagsmorgna í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildarinnar en fer þó fljótlega í sumarfrí þannig að hann gerði sér dagamun í Grasagarðinum til tilbreytingar. Alls mættu um 15 foreldrar með börnin sín og gæddu sér á veitingum í góðu veðri.

Venjulega mæta um 10 foreldrar á hverja samveru og hefur myndast góð eining í hópnum. Hann hefur jafnvel skipulagt samverur utan hins hefðbundna tíma og farið í gönguferðir og prjónað saman. Á samverunum í sjálfboðamiðstöðinni er reglulega boðið upp á fræðslu eða kynningar sem tengjast börnum. Auk íslenskra foreldra eru þátttakendur frá Kína, Suður- Afríku, Japan, Póllandi, Ghana, Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

31. maí 2010 : Sjálfboðaliðar pakka 226 fatapökkum, prjónakonur í Sunnuhlíð gáfu 82 teppi

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar í verkefninu Föt sem framlag pökkuðu 226 fatapökkum í síðustu viku sem sendir verða til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví. Í pakkana fóru prjónaflíkur sem sjálfboðaliðarnir hafa útbúið síðustu mánuði en prjónakonur á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð komu einnig að pökkuninni með því að gefa deildinni 82 teppi og 6 peysur sem þær höfðu prjónað síðasta árið. Pakkarnir geyma prjónaðar og saumaðar flíkur á 0-12 mánaða gömul börn.

28. maí 2010 : Kópavogsdeild styrkir Fjölsmiðjuna um 250 þúsund krónur

Kópavogsdeild afhenti Fjölsmiðjunni 250 þúsund króna styrk á dögunum vegna flutnings smiðjunnar í nýtt og stærra húsnæði í Kópavogi. Fjölsmiðjan er mennta- og þjálfunarsetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára sem ekki hefur náð að fóta sig í námi og á vinnumarkaði. Markmiðið er að styðja nemana til þess að komast á ný til náms eða í vinnu.

26. maí 2010 : Ókeypis námskeið fyrir börn í júní og ágúst

Kópavogsdeild heldur tvö ókeypis í sumar. Námskeiðið „Gleðidagar – ungur nemur gamall temur“ verður dagana 14., 15., 16. og 18. júní og er fyrir 6-12 ára börn á höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðið er haldið í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og er markmiðið að þeir yngri læri af þeim eldri. Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg. Leiðbeinendur á námskeiðinu verða að mestu eldri borgarar. Hægt er að skrá sig með því að smella hér.

Námskeiðið „Mannúð og menning“ fyrir börn á aldrinum 7-9 ára (fædd 2001-2003) verður haldið 3.-6. ágúst. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á fræðslu og leiki í tengslum við hugsjónir Rauða krossins um mannúð og óhlutdrægni. Þátttakendur fræðast um Rauða kross starf, skyndihjálp, mismunandi menningarheima og umhverfið. Hægt er að skrá sig með því að smella hér.

21. maí 2010 : Eldhugablaðið „Eldhuginn Magazine” er komið út!

Í gær héldu Eldhugar útgáfuteiti í tilefni útgáfu Eldhugablaðsins sem ber titilinn „Eldhugar Magazine”. Teitið var haldið á landsskrifstofu Rauða kross Íslands og heppnaðist mjög vel en Eldhugar höfðu einnig boðið öðrum ungmennum úr starfi deilda á höfuðborgarsvæðinu. Það voru því skemmtilegir endurfundir enda höfðu margir kynnst vel í Alviðruferðinni í mars.

Byrjað var á því að bjóða gestum upp á léttar veitingar, farið var í ýmsa skemmtilega leiki og svo fékk allur hópurinn leiðsögn um húsið og fræðslu um starfsemi landsskrifstofu. Þá dreifðu Eldhugarnir blaðinu til allra viðstaddra og sögðu frá tilurð þess en allur efniviður blaðsins er unninn af Eldhugunum sjálfum og sjálfboðaliðum. Hulda Hvönn Kristinsdóttir Eldhugi tók einnig að sér yfirumsjón með efnisþáttum blaðsins í samstarfi við starfsmenn deildarinnar. Í blaðinu má meðal annars finna viðtöl, ljóð og myndir úr starfinu í vetur. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér.

20. maí 2010 : Sjálfboðaliðar í kirkjuferð með heimilisfólk í Sunnuhlíð

Á uppstigningardag var farin hin árlega kirkjuferð með heimilisfólkinu í Sunnuhlíð. Þá er fólkinu boðið í messu í Kópavogskirkju í tilefni af kirkjudegi aldraðra sem er þennan sama dag. Sjálfboðaliðar deildarinnar sem sjá um upplestur og söngstundir í Sunnuhlíð fara í ferðina og aðstoða fólkið á leiðinni. Eftir messu er svo boðið upp á kaffiveitingar í safnaðarheimili kirkjunnar. Að þessu sinni fóru um 40 manns í ferðina og 6 sjálfboðaliðar.

19. maí 2010 : Vorferð barna og unglinga

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð en um 20 börn auk 4 sjálfboðaliða frá Kópavogsdeild tóku þátt í ferðinni að þessu sinni. Hópurinn frá Kópavogsdeild var mjög fjölþjóðlegur eða frá 6 þjóðlöndum.

Ferðinni var heitið út í Viðey og þar tók Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir á móti hópnum og kynnti staðarhætti. Þar er margt forvitnilegt að sjá og vel hægt að eyða löngum tíma í að spóka sig í göngutúrum um þessa fallegu eyju. Þegar Guðlaug lauk sínu máli var komið að ratleikjum. Eldri krakkarnir spreyttu sig í skyndihjálp og þrautum tengdum henni en yngri krakkarnir reyndu á kunnáttu sína um Rauða krossinn, þar sem grundvallarmarkmiðin skipuðu stóran sess. Eftir að hópurinn hafði hlaupið um eyjuna þvera og endilanga í leit að vísbendingum var komið að því að gæða sér á pylsum sem runnu ljúflega niður í svanga maga. Þá var ekki seinna vænna en að bregða á leik áður en bátnum var náð og aftur siglt heim á leið.

18. maí 2010 : Sjálfboðaliðar kynntu verkefni deildarinnar á aðalfundi Rauða kross Íslands

Á aðalfundi Rauða kross Íslands 15. maí síðastliðinn kynntu sjálfboðaliðar deildarinnar verkefni hennar. Kynningarbásarnir voru þrír og kynntu sjálfboðaliðarnir Alþjóðlega foreldra, ungmennastarfið og heimsóknir með hunda. Þurý Ósk Axelsdóttir sá um að segja fundargestum frá alþjóðlegu foreldrunum, Sæunn Gísladóttir úr Plúsnum sá um ungmennastarfið og Njála Vídalín, heimsóknavinur með hundinn Lottu, kynnti starf hundavina. Fundargestir gátu fengið sér bæklinga um verkefnin og skoðað myndir úr starfinu.

18. maí 2010 : Samstarfssamningur um neyðarvarnir á höfuðborgarsvæðinu

Á aðalfundi Rauða kross Íslands sem haldinn var í Reykjavík þann 15. maí síðastliðinn var endurnýjaður samningur deilda á höfuðborgarsvæði varðandi neyðarvarnir. Deildir á höfuðborgarsvæði skrifuðu fyrst undir slíkan samning fyrir fimm árum með það að markmiði að efla samvinnu deildanna svo þær geti betur brugðist við neyðarástandi á svæðinu. Nokkrar breytingar voru gerðar frá fyrri samningi og má þar helst nefna stofnun skyndihjálparhóps sem mun meðal annars hafa það hlutverk að efla og kynna skyndihjálp á svæðinu.

17. maí 2010 : Nemendur í Kársnesskóla styrkja Föt sem framlag

Í dag tók Kópavogsdeild Rauða krossins við góðu framlagi frá Kársnesskóla til verkefnisins Föt sem framlag við mikla athöfn en nemendur í lífsleikni í 9. bekk höfðu unnið að því að sauma og prjóna föt í allan vetur. Afraksturinn lét ekki á sér standa þar sem nemendurnir afhentu deildinni um 200 flíkur í heildina sem munu verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Pakkar með flíkum sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands. Hver pakki inniheldur prjónaða peysu, teppi, húfu, sokka og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum, taubleyjum, buxum og treyju.

12. maí 2010 : Fjöldi framhaldsskólanemenda nýtti sér ókeypis námsaðstoð

Kópavogsdeild bauð upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri  nú yfir prófatímann í samstarfi við Molann, ungmennahús Kópavogs. Molinn heldur úti opinni lesaðstöðu fyrir nemendur alla virka daga frá miðjum apríl en einu sinni í viku voru sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild, sem búa yfir góðri þekkingu í stærðfræði, á staðnum. Auk þess gátu nemendur óskað eftir aðstoð í öðrum fögum. Tilgangur verkefnisins er að sporna gegn brottfalli nemenda úr námi með því að veita þeim sérstaka aðstoð yfir prófatímann. Námsaðstoðin hlaut mjög góðar móttökur líkt og áður. Mæting nemenda í lesverið jókst til muna og fjöldi nemenda mætti í hvert sinn í beinum tilgangi að nýta sér leiðsögn sjálfboðaliðanna.

11. maí 2010 : Eldhugar taka þátt í Kópavogsdögum

Sýning á ljósmyndum úr ljósmyndasamkeppni Eldhuga, 13-16 ára unglinga úr ungmennastarfi Kópavogsdeildar, stendur nú yfir í anddyri þjónustuvers bæjarskrifstofu Kópavogs, að Fannborg 2, 1. hæð. Tilefnið er Kópavogsdagar og fellur sýningin undir menningu barna og ungmenna. Yfirskrift ljósmyndasamkeppninnar var „Fjölbreytni og fordómar" og markmiðið með henni var að vekja fólk til umhugsunar um fordóma í samfélaginu. Deildinni bárust margar myndir og á sýningunni má skoða myndirnar sem komust í efstu sætin.

8. maí 2010 : Alþjóðadagur Rauða krossins

Í dag, 8. maí, er alþjóðadagur Rauða krossins. Dagurinn er fæðingardagur stofnanda hreyfingarinnar, Henry Dunants, og er fyrst og fremst helgaður öllum þeim fjölda sjálfboðaliða sem vinna fyrir Rauða krossinn og Rauða hálfmánann um heim allan.  Sjálfboðaliðar hreyfingarinnar vinna mörg og ólík verkefni en alltaf með sömu hugsjónir og markmið að leiðarljósi.

Hreyfingin spratt upp af löngun til að veita þeim sem særst höfðu á orrustuvelli hjálp án manngreinarálits og reynir með alþjóðlegu starfi og starfi landsfélaga, eins og Rauða krossi Íslands, að koma í veg fyrir og lina þjáningar fólks hvar sem það er statt. Tilgangur hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hún vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða.

7. maí 2010 : Nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í MK fá viðurkenningu

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 hafa hlotið viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild á vorönninni. Nemendurnir voru þrettán í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum og Enter-krökkunum, sem námsvinir jafningja og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni sem haldinn var þann 17. apríl síðastliðinn.

5. maí 2010 : Vetrarstarf Plússins

Á liðnum vetri hafa sjálfboðaliðahópar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir 16-24 ára, unnið að ýmsum verkefnum.

Sjálfboðaliðar hönnunarhóps leyfðu sköpunargáfunni að njóta sín og endurhönnuðu og saumuðu föt og fylgihluti út frá hugmyndum hvers og eins. Afraksturinn voru hárskraut og klæðnaður sem var til sölu á handverksmörkuðum deildarinnar og í Rauða kross búðunum. Vörurnar vann hópurinn úr fatnaði sem fenginn var úr Fatasöfnunarstöð Rauða krossins.

3. maí 2010 : Sjálfboðaliðar á leiksýninguna Gerplu

Fjöldi sjálfboðaliða nýtti sér boð Þjóðleikhússins á leiksýninguna Gerplu. Hægt var að velja um þrjár sýningar og alls fóru 45 sjálfboðaliðar á sýningarnar þrjár. Deildin þakkar leikhúsinu fyrir þessa rausnarlegu gjöf en með henni gat hún umbunað sjálfboðaliðum sínum.

29. apr. 2010 : AUS skiptinemi í Dvöl

Á þeim árum sem Dvöl hefur starfað hafa nokkrir skiptinemar á vegum AUS, sem eru alþjóðleg skiptanemasamtök, verið þar. Þetta hefur mælst vel fyrir meðal gesta og aukahönd er vel þegin af starfsfólki. Nú í byrjun apríl kom til Dvalar stúlka frá Slóvakíu sem heitir Ráchel Kovácová. Hún er 24 ára gömul og sálfræðingur að mennt. Hún verður í Dvöl þangað til í desember á þessu ári.

Ráchel segir: ,,Ég er mjög hrifin af Íslandi, náttúran er ofsalega falleg og svolítið villtari en í Slóvakíu. Fólkið á Íslandi er mjög lífsglatt og allir hafa tekið mér opnum örmum, sem ég kann vel að meta. Það er frábært hvað Íslendingar tala góða ensku, því þá er auðvelt að fá upplýsingar og eiga samskipti. Ég er samt búin að læra nokkur orð í íslensku og mun fara á íslenskunámskeið í sumar þar sem ég vonast eftir að læra svolítið meira. Ég bý í Mosfellsbænum og finnst andrúmsloftið þar mjög afslappað og gott. Það á mjög vel við mig að búa í litlu bæjarfélagi því það minnir mig á heimabæ minn Nesvady sem er 5000 manna bær. Ég vonast til að geta ferðast aðeins um Ísland í sumar og skoðað þetta fallega land.  

27. apr. 2010 : Landsfundur Ungmennahreyfingarinnar

Landsfundur Ungmennahreyfingar Rauða krossins (URKÍ) var haldinn laugardaginn 26. apríl síðastliðinn. Að lokinni skýrslu stjórnar og umræðum um fjárhags- og framkvæmdaáætlun tóku við fjörugar stjórnarkosningar þar sem fjöldi fólks var í framboði. Ekki stóð til að kjósa formann en Pálína Björk Matthíasdóttir ákvað á fundinum að segja af sér formennsku vegna þess að hún er í námi erlendis. Eru hennar færðar góðar þakkir fyrir framlag sitt til URKÍ.

Stjórn URKÍ árið 2010-2011 verður þannig skipuð:
Aðalmenn: Ágústa Ósk Aronsdóttir formaður, Margrét Inga Guðmundsdóttir, Gunnlaugur Bragi Björnsson, Arnar Benjamín Kristjánsson, Auður Ásbjörnsdóttir, Arna Garðarsdóttir og Guðný Halla Guðmundsdóttir. Varamenn: Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Hrönn Björgvinsdóttir.

26. apr. 2010 : Sjálfboðaliðar hreinsa til við bæina undir Eyjafjöllum

Á fimmta tug sjálfboðaliða Rauða krossins brást við með stuttum fyrirvara þegar leitað var til þeirra um aðstoð við hreinsunarstörf í gær við bæina undir Eyjafjöllum sem urðu hvað verst úti í öskufallinu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Verkefnin fólust helst í að hreinsa ösku í kringum íbúðarhús og í görðum eða hvað annað sem bændur óskuðu eftir.

Óhætt er að segja að mikið verk blasti við hreinsunarfólki þegar það mætti á svæðið en það var ólýsanleg ánægja að sjá umhverfið lýsast upp og grænka þegar öskuleðjunni var mokað og sópað í burtu. Þakklæti heimamanna var svo stærsta umbunin og dagsverkið með því mest gefandi sem sjálfboðaliðar hafa færi á að takast á við.
 

26. apr. 2010 : Textíll til góðs í Salaskóla

Nokkrir nemendur úr Salaskóla færðu Kópavogsdeild gjöf á dögunum er þeir afhentu fatnað sem þeir útbjuggu í valáfanga í skólanum sem kallast ,,Textíll til góðs“. Nemendurnir prjónuðu og saumuðu svo sannarlega til góðs í samstarfi við deildina. Þeir prjónuðu ungbarnahúfur ásamt því að sauma teppi, peysur og buxur. Afraksturinn fer síðan í svokallaða ungbarnapakka sem deildin sendir til barna í neyð erlendis. Pakkar sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands.