29. jan. 2010 : Alþjóðlegir foreldrar hittast í sjálfboðamiðstöðinni

Góður hópur alþjóðlegra foreldra hittist í gærmorgun í sjálfboðamiðstöðinni eins og venjan er á fimmtudögum. Hópurinn samanstendur af foreldrum ólíkra landa sem eru heima með lítil börn sín. Auk Íslendinga eru foreldrar frá til dæmis Póllandi, Suður-Afríku, Japan og Ghana. Reglulega er boðið upp á fræðslu eða kynningar sem flestar tengjast börnum. Leikföng eru á staðnum fyrir börnin og léttar veitingar eru í boði. Þátttaka er ókeypis. Allir eru velkomnir, innfæddir og innflytjendur, hvort sem þeir tala enga eða einhverja íslensku.

27. jan. 2010 : Frábært framlag í prjónakaffi

Í dag var haldið prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og er það fyrsta prjónakaffið á nýju ári. Fjöldi prjónandi sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framalag mætti og átti ánægjulega stund saman. Deildinni barst við þetta tækifæri sérstakt framlag til kaupa á garni fyrir verkefnið. Afkomendur Önnu Bjarnadóttur, sem hefur verið sjálfboðaliði í þessu verkefni í fjölda ára, ákváðu fyrir jól að í stað þess að gefa hvort öðru jólagjafir myndu þau styrkja verkefnið. Framlagið nam 98 þúsundum króna og er þetta annað árið sem afkomendurnir styrkja deildina með þessum hætti. Björk Guðmundsdóttir, sem einnig er sjálfboðaliði í verkefninu og dóttir Önnu, afhenti deildinni framlagið fyrir hönd afkomendanna og deildin þakkar þeim kærlega fyrir þetta gjafmildi og hlýhug.

25. jan. 2010 : Prjónavörur til sölu í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg

Í sjálfboðamiðstöð deildarinnar eru nú til sölu prjónavörur sem sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hafa prjónað. Til sölu eru sokkar og vettlingar í öllum stærðum og gerðum, húfur, treflar, ungbarnateppi og peysur á börn. Andvirði sölunnar verður nýtt til garnkaupa fyrir sjálfboðaliðana en auk þessa varnings prjóna þeir ungbarnaföt fyrir börn í neyð í Malaví í Afríku. Þá eru prjónaflíkur þeirra einnig seldar í Rauða kross búðum á höfuðborgarsvæðinu. 

22. jan. 2010 : Aukið samstarf Kópavogsdeildar og Menntaskólans við Hamrahlíð

Kópavogsdeild hefur um árabil átt í gjöfulu samstarfi við Menntskólann við Hamrahlíð en nemar innan svokallaðrar IB-brautar hafa sinnt margs konar sjálfboðaliðastarfi fyrir deildina frá árinu 2006. IB–braut  stendur fyrir International Baccalaureate en það er alþjóðleg námsbraut til stúdentsprófs þar sem nær allt námið fer fram á ensku en sjálfboðið starf er einnig hluti námsins.

20. jan. 2010 : Um hundrað nemendur hafa lokið áfanga um sjálfboðið starf

Frá byrjun árs 2006 hafa nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi getað valið áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf sem kallast SJÁ 102. Kennarar í Menntaskólanum í Kópavogi og fulltrúar Kópavogsdeildar tóku sig saman um að hanna áfangann með það að markmiði að gefa nemendum færi á að kynnast sjálfboðnu starfi og fá það metið sem hluta af námi sínu. Í áfanganum vinna nemendur sjálfboðin störf eins og aðstoð við aldraða, heimsóknir til langveikra barna í Rjóðrinu, stuðning og námsaðstoð fyrir jafningja, þátttaka í að stýra verkefnum fyrir unga innflytjendur og unglinga sem kallast Enter og Eldhugar eða stuðning við fólk með geðraskanir í athvarfinu Dvöl.

19. jan. 2010 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins pökkuðu 1.000 skyndihjálpargögnum til Haítí

Deildir á höfuðborgarsvæðinu brugðust skjótt við í gærkvöldi og virkjuðu sjálfboðaliða til að pakka skyndihjálpargögnum fyrir fórnarlömb jarðskjálftans á Haítí.  Þrátt fyrir mjög stuttan fyrirvara mættu yfir 50 sjálfboðaliðar í Rauðakrosshúsið til að útbúa pakkana sem settir voru saman samkvæmt lista frá Alþjóða Rauða krossinum.  

„Sjálfboðaliðarnir sýndu með þessu í verki samstöðu sína með sjálfboðaliðum Rauða krossins í Haítí sem staðið hafa vaktina sólarhringum saman frá því jarðskjálftinn reið yfir," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Það var ekki ljóst fyrr en eftir klukkan fimm í gær að nægar birgðir af þessum sjúkragögnum væru til í landinu til að uppfylla skilyrði Alþjóða Rauða krossins, og því gífurlega ánægjulegt að sjá hversu margir sáu sér fært að taka þátt í þessu verkefni."

18. jan. 2010 : Viltu tala meiri íslensku? Samvera á morgun

Sjálfboðaliðar deildarinnar munu halda áfram að hitta innflytjendur sem vilja læra meiri íslensku og verður fyrsta samveran á nýju ári á morgun. Sjálfboðaliðarnir og innflytjendurnir hittast á þriðjudögum kl. hálfsex í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs, við Hábraut 2 og tala saman á íslensku í klukkutíma. Samverurnar eru fyrir þá sem vilja þjálfa sig í notkun íslenskunnar og auka við orðaforða sinn.

15. jan. 2010 : Fyrsta samvera Eldhuga á nýju ári

Eldhugar Kópavogsdeildar hittust í fyrsta sinn á nýju ári í gær en þeir hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar alla á fimmtudaga kl. 17.30-19.00. Fyrsta samveran fór í að setja saman dagskrá fyrir vorið. Mikill hugur er í unga fólkinu sem stefnir að mörgum viðfangsefnum á vorönn. Þau munu meðal annars fá leiklistarkennslu og taka þátt í Evrópuviku gegn kynþáttafordómum sem haldin verður í marsmánuði. Eldhugar stefna að því að vera með lítinn hlutverkaleik á þeim viðburði og taka þátt í því að vekja fólk til umhugsunar um fordóma. Auk þess verður haldin ,,Gettu betur Eldhugi” spurningakeppni og ,,Alias” mót. Þá munu Eldhugar heimsækja önnur ungmenni í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu, fræðast með þeim um ýmis málefni og hafa gaman saman. Síðast en ekki síst stefna þeir að því að gefa út annað tölublað af Eldhugablaðinu á vordögum.

 

14. jan. 2010 : Íslenskur sendifulltrúi á leið til Haítí í dag

Hlín Baldvinsdóttir, með reyndustu sendifulltrúum Rauða kross Íslands, heldur til Haítí í dag.  Hún mun gegna stöðu fjármálastjóra í sérfræðingateymi Alþjóða Rauða krossins sem meta mun þörf á aðstoð næstu vikna og mánaða. Hlín hefur unnið að fjölmörgum verkefnum fyrir Rauða kross Íslands og Alþjóða Rauða krossinn frá árinu 1998, jafnt í þróunarstarfi sem neyðaraðgerðum í kjölfar hamfara.

Tíu neyðarteymi Alþjóða Rauða krossins eru nú á leið á vettvang. Þar er um að ræða sérfræðinga í dreifingu hjálpargagna, heilsugæslu, uppsetningu neyðarskýla, birgðaflutningum og hreinsun vatns, auk sérhæfðra lækna og hjúkrunarfræðinga sem munu setja upp tjaldsjúkrahús í höfuðborginni Port-au-Prince.

13. jan. 2010 : Rauði kross Íslands með símasöfnun vegna jarðskjálftans í Haítí

Óttast er að þúsundir manna hafi farist í jarðskjálftanum sem reið yfir eyjuna Haítí í gærkvöldi, og að tugþúsundir fjölskyldna þurfi á tafarlausri neyðaraðstoð að halda.  Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Haítí hafa unnið sleitulaust síðan í gærkvöldi að björgun og við að aðstoða sjúkrahús á hamfarasvæðinu við umönnun slasaðra.

Brýnustu aðgerðir nú eru björgun úr rústum, uppsetning bráðabirgða sjúkraskýla og að koma fólki sem fyrst í öruggt skjól. Alþjóðlegt teymi sérfræðinga frá Rauða krossinum mun koma til Haítí í dag til að veita aðstoð á hamfarasvæðunum.

„Reynslan sýnir að fyrstu aðgerðir Rauða krossins í jarðskjálftum sem þessum eru að veita fólki skjól, mat og hreint vatn, auk læknisaðstoðar og sálræns stuðnings," segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

13. jan. 2010 : Andleg verðmæti á samveru heimsóknavina

Heimsóknavinir hittust í sjálfboðamiðstöðinni í gær á sinni fyrstu samveru á nýju ári. Heimsóknavinirnir hittast annan þriðjudag í hverjum mánuði og reglulega er boðið upp á ýmis konar kynningar, fræðslu og hópefli. Í gær kom fulltrúi frá Lótushúsi og fjallaði um andleg verðmæti mannsins, eins og innri frið, styrk og kærleika. Erindið var áhugasamt og heimsóknavinirnir voru hæstánægðir með innleggið. Á þessum reglulegu samverum eru heimsóknavinir sem heimsækja meðal annars í heimahús, á sambýli aldraðra, á hjúkrunarheimili og í Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir.

12. jan. 2010 : Skyndihjálparmaður ársins 2009 – tilnefningar óskast!

Veist þú um einhvern sem með snarræði sínu og réttum viðbrögðum hefur bjargað mannslífi á árinu 2009? Ef svo er - sendu okkur upplýsingar.

11. jan. 2010 : Fyrstu samverur á nýju ári

Fyrstu samverur ýmissa hópa hjá deildinni á þessu ári verða í þessari viku. Heimsóknavinir ríða á vaðið á morgun, þriðjudag, og hittast í sjálfboðamiðstöðinni. Á samverunni verður boðið upp á erindi um andleg verðmæti, eins og innri frið og kærleika. Enter-hópurinn hittist svo á miðvikudaginn en í honum eru ungir innflytjendur sem stunda nám í Hjallaskóla. Þá munu alþjóðlegir foreldrar mæta í sjálfboðamiðstöðina á fimmtudagsmorgun en það eru íslenskir og erlendir foreldarar sem koma saman. Eldhugarnir hittast svo seinni partinn á fimmtudaginn en það eru 13-16 ára ungmenni í Kópavogi.

8. jan. 2010 : Sjálfboðaliða vantar í Dvöl

Sjálfboðaliða vantar í Dvöl við Reynihvamm 43. Dvöl er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og er ætlað að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við að geðsjúkdóma að stríða. Sjálfboðaliðar gegna mikilvægu hlutverki í rekstri Dvalar með því að taka þátt í starfsemi athvarfsins og veita gestunum félagsskap.

5. jan. 2010 : Kjörnefnd tekur á móti tilnefningum

Stjórn Kópavogsdeildar samþykkti á fundi sínum þann 3. desember síðastliðinn að mynda þriggja manna kjörnefnd sem gera á tillögu um hverjir verði í kjöri til formanns, í stjórn og varastjórn á aðalfundi deildarinnar 2010. Verkefni kjörnefndar er að undirbúa kosningar stjórnar- og skoðunarmanna í samræmi við lög félagsins og tryggja að nægilega margir hæfir einstaklingar verði í framboði til þess að fylla þau sæti sem laus eru.