25. feb. 2010 : Þáttaskil hjá Kópavogsdeild

Í gærkvöldi var fjölmennur aðalfundur hjá deildinni og má með sanni segja að þáttaskil hafi orðið. Garðar H. Guðjónsson, sem gegnt hafði formennsku hjá deildinni í 8 ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og því var nýr formaður kjörinn, Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir. Ingibjörg Lilja hefur setið í stjórn deildarinnar frá 2003 og verið gjaldkeri síðustu tvö ár. Í fyrsta skipti í sögu deildarinnar var kosið um formann á milli tveggja frambjóðenda og hlaut Ingibjörg Lilja afgerandi kosningu. Hún er einnig fyrsti kvenformaður deildarinnar.

Þá var kosið um fjögur laus sæti í stjórninni og tvö í varastjórninni. Fimm sjálfboðaliðar höfðu gefið kost á sér fyrir fundinn og tveir gáfu kost á sér í aðalstjórnina á fundinum. Arnfinnur Daníelsson, Ívar Kristmannsson og Sigrún Árnadóttir voru kjörin til tveggja ára stjórnarsetu og Sigrún Hjörleifsdóttir til eins árs. Þau munu taka sæti Hildar Tryggvadóttur Flóvenz, Hjördísar Einarsdóttur, Hjartar Þ. Haukssonar og Ingibjargar Lilju Diðriksdóttur nýkjörins formanns. Gunnar M. Hansson var endurkjörinn í varastjórn til eins árs og Björn Kristján Arnarson kom nýr inn í varastjórnina og hlaut kosningu til tveggja ára.

23. feb. 2010 : Aðalfundur Kópavogsdeildar

Aðalfundur Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands verður haldinn miðvikudaginn 25. febrúar kl. 20 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð.

Allir sjálfboðaliðar deildarinnar eru hvattir til að mæta til að taka þátt í því að gera upp síðasta starfsár og leggja á ráðin með framhaldið.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf.
Önnur mál.

22. feb. 2010 : Prjónakaffi á miðvikudaginn

Prjónakaffi febrúarmánaðar verður haldið á miðvikudaginn í sjálfboðamiðstöðinni kl. 15-18. Þá verður miðstöðin full af áhugasömum prjónakonum sem eru sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag. Þær prjóna, sauma og hekla ungbarnaföt sem síðan er pakkað í þar til gerða fatapakka og sendir til barna og neyð erlendis. Þær búa til dæmis til litlar peysur, sokka, húfur og teppi. Þá fara einnig í pakkana samfellur, buxur, taubleyjur og treyjur. Alltaf síðasta miðvikudags hvers mánaðar koma prjónakonurnar saman í sjálfboðamiðstöðinni og eiga ánægjulega stund saman yfir prjónunum og kaffispjalli.

17. feb. 2010 : 34 manns á skyndihjálparnámskeiði hjá deildinni

Deildin hélt tvö almenn skyndihjálparnámskeið í vikunni og samtals sóttu 34 manns námskeiðin. Aldrei hafa fleiri sótt skyndihjálparnámskeið á einni viku hjá deildinni. Á námskeiðinu læra þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Námskeiðin voru haldin í kjölfar 112-dagsins en hann er haldinn 11. febrúar ár hvert. Aðkoma almennings að vettvangi slysa, veikinda og áfalla var viðfangsefni 112-dagsins að þessu sinni og er ekki ólíklegt að umfjöllunin hafi ýtt við mörgum að fara á skyndihjálparnámskeið.

15. feb. 2010 : Heimsóknir til heilabilaðra

Kópavogsdeild leitar að sjálfboðaliðum, 30 ára og eldri, sem vilja vera heimsóknavinir og heimsækja heilabilaða einstaklinga. Heimsóknirnar eru bæði hugsaðar til að veita heilabiluðum félagsskap og rjúfa félagslega einangrun aðstandenda þeirra.

Allir sjálfboðaliðar verða teknir í viðtal og sitja undirbúningsnámskeið áður en heimsóknir hefjast. Næsta námskeið verður þriðjudaginn 23. febrúar. Hægt er að skrá sig með því að smella hér. Þetta er kjörið tækifæri fyrir einstaklinga með menntun á sviði heilbrigðis- eða félagsmála og aðra sem hafa reynslu í þessum efnum til að láta gott af sér leiða. Um er að ræða vikulegar heimsóknir í 1-2 tíma í hvert skipti.

12. feb. 2010 : Bjargaði föður sínum með því að beita hjartahnoði í 16 mínútur

Rauði kross Íslands hefur valið Magneu Tómasdóttur sem Skyndihjálparmann ársins 2009 fyrir að sýna hárrétt viðbrögð á neyðarstundu. Magnea tók við viðurkenningu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð í dag á hátíðardagskrá Neyðarlínunnar og samstarfsaðila um 112-daginn.

Magnea bjargaði lífi föður síns, Tómasar Grétars Ólasonar, þegar hann fór í hjartastopp í sumarhúsi fjölskyldunnar á Hvalsnesi á Suðurnesjum. Magnea var þar ásamt honum, 18 mánaða gömlum syni sínum og 8 ára systurdóttur, Ernu Diljá. Tómas var að hvíla sig eftir kvöldmatinn í stofunni og þær frænkur voru að spila við borð í sama herbergi. Erna Diljá tók þá eftir því að afi var ekki eins og hann átti að sér að vera, og þegar Magnea sneri sér að föður sínum áttaði hún sig á því að hann hafði misst meðvitund og það kurraði í honum.

11. feb. 2010 : Þekking á skyndihjálp skiptir sköpum

Þeir sem hafa farið á námskeið í skyndihjálp á síðustu þremur árum treysta sér miklu fremur en aðrir til að veita bráðveikum eða mikið slösuðum einstaklingi skyndihjálp. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir 112 í tilefni af 112-deginum, sem haldinn er  í dag. Nær 80 prósent þátttakenda segjast hafa farið á námskeið í skyndihjálp en aðeins 27,1 prósent á síðustu þremur árum. Rúmlega fimmtungur hefur aldrei farið á námskeið í skyndihjálp. Mikill minnihluti fólks í þeim hópi segist myndu treysta sér til að veita ókunnugum, bráðveikum eða mikið slösuðum skyndihjálp, svo sem að beita hjartahnoði eða stöðva blæðingu.

10. feb. 2010 : Metþátttaka á samveru heimsóknavina

Samvera heimsóknavina var haldin í gær í sjálfboðamiðstöðinni og mættu 17 heimsóknavinir. Aldrei hafa mætt fleiri á þessar samverur. Þær eru haldnar annan þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrarmánuðina fyrir heimsóknavini sem starfa fyrir deildina. Þetta er tækifæri fyrir sjálfboðaliðana að hittast og eiga ánægjulega stund saman. Reglulega er boðið upp á fræðslu, kynningar eða hópefli. Á samverunni í gær kom slökunarfræðingur og markþjálfi og var með erindið „Hlúðu að sjálfum þér”.

9. feb. 2010 : Vinadeildasamstarf Kópavogsdeildar við Maputo-hérað í Mósambík

Kópavogsdeild hefur átt í vinadeildasamstarfi við deild Rauða krossins í Maputo-héraði í Mósambík frá árinu 2007. Markmiðið með samstarfinu er að efla starf beggja deilda og skapa tengsl á milli sjálfboðaliða deildarinnar. Sjálfboðaliðahópur innan Kópavogsdeildar heldur utan um samstarfið og hefur meðal annars skrifað fréttabréf til vinadeildarinnar með upplýsingum um starfið í Kópavogsdeild, skipulagt fræðslu um samstarfið og aðstæður í Mósambík innan Kópavogsdeildar sem og utan. Auk þess hefur hópurinn haldið utan um fjáröflun til styrktar ungmennaverkefnum deildarinnar í Maputo-héraði.

8. feb. 2010 : Fullt á skyndihjálparnámskeið 15. febrúar, aukanámskeið 16. febrúar

Full skráning er á skyndihjálparnámskeið deildarinnar sem verður í næstu viku, mánudaginn 16. febrúar og hefur því aukanámskeiði verið bætt við þriðjudaginn 16. febrúar. Þetta eru almenn skyndihjálparnámskeið. Á námskeiðinu læra þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað.

5. feb. 2010 : Námsvinir hittast

Nú eru námsvinahópar Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar, komnir á fullt skrið. Hóparnir samanstanda af námsvinum og nemum sem hittast reglulega og fara saman í gegnum heimavinnu eða önnur verkefni með það að markmiði að liðsinna nemunum með það sem þá gæti mögulega vantað aðstoð með. Samverurnar eru einnig ætlaðar til þess að skapa grundvöll fyrir ungt fólk með ólíkan bakgrunn til að kynnast. Meðlimir hópanna eru allir nemar í framhaldsskóla og oftar en ekki erlendir að uppruna. Nú á vorönn munu fjórir hópar hittast á mismunandi tímum í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs.

3. feb. 2010 : Skemmtilegur janúar í Dvöl

Janúarmánuður var skemmtilegur í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og var ýmislegt gert utan hefbundinnar dagskrár. Snemma í mánuðinum bauð Guðrún Friðriksdóttir, sjálfboðaliði, gestum og starfsfólki Dvalar í kaffiveislu heim til sín. Þrettán manns mættu á yndislegt heimili Guðrúnar, sem var enn í jólabúning og var mikið dáðst að skreytingunum. Guðrún hafði bakað dýrindis kökur fyrir mannskapinn og útbúið heitt súkkulaði með rjóma. Þetta lagðist afar vel í fólk og fóru allir saddir heim eftir frábæran eftirmiðdag.

1. feb. 2010 : Fjöldi námskeiða í boði hjá Kópavogsdeild

Kópavogsdeild býður reglulega upp á ýmis konar námskeið og hér á síðunni er hægt að fá upplýsingar og skrá sig á næstu námskeið. Þann 15. febrúar verður skyndihjálparnámskeið þar sem farið verður yfir grundvallaratriðið í skyndihjálp og endurlífgun. Námskeið í sálrænum stuðningi verður svo 1. mars en þar fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum.

Námskeiðið Slys og veikindi barna fer fram 8. og 10. mars. Þá verður meðal annars fjalla um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Í maí og júní verður svo námskeiðið Börn og umhverfi fyrir ungmenni á 12. aldursári og eldri. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn auk slysavarna og skyndihjálpar.