31. mar. 2010 : Fatapökkun og prjónakaffi hjá prjónahópnum

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hittust í sjálfboðamiðstöðinni í gær og pökkuðu ungbarnafötum í fatapakka sem síðan verða sendir til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Fjöldi sjálfboðaliða pakkaði alls 168 pökkum á rúmum klukkutíma. Í pakkana fara prjónaðar peysur, húfur, sokkar, teppi og bleyjubuxur ásamt samfellum, treyjum, buxum, handklæðum og taubleyjum.

30. mar. 2010 : Hlutverk leiðtoga kynnt fyrir sjálfboðaliðum höfuðborgarsvæðis

Svæðisráð Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu stendur nú fyrir námskeiðum fyrir sjálfboðaliða. Fyrir nokkru var haldin kynning á Genfarsamningunum og í síðustu viku var haldið leiðtoganámskeið.

Leiðtoganámskeiðið fór fram í nýrri mynd, var haft styttra og tók einungis þrjár klukkustundir. Ýmsir fyrirlesarar frá deildunum á svæðinu, jafnt sjálfboðaliðar og starfsmenn, héldu erindi.

Fyrirlesarar fóru yfir mismunandi þætti leiðtogahlutverksins og voru efnistökin fjölbreytt s.s. hvað er að vera leiðtogi, hvað er að vera sjórnandi, hvernig best er að stýra innan félagasamtaka og mikilvægi stuðnings við sjálfboðaliða og umbunar, svo eitthvað sé nefnt.

29. mar. 2010 : Ungmenni Kópavogsdeildar skapa sitt eigið heimshorn

Ungmennahópur Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur fengið afnot af einu herbergi í sjálfboðamiðstöðinni og vinnur nú að því að gera það að „sínu”. Ungir sjálfboðaliðar úr röðum Eldhuga og Plússins hafa haft penslana á lofti og skapað sitt eigið „heimshorn” eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Ungmennin máluðu heimskort á einn vegginn ásamt mynd af stofnanda Rauða krossins, Henry Dunant. Fleiri hugmyndir eru á teikniborðinu hjá ungmennunum til að skreyta herbergið en það á að vera vettvangur fyrir unga fólkið til að geta hist og jafnvel lært eða haft það notalegt án þess að eiginleg samvera sé á dagskrá. Þá mun herbergið einnig verða nýtt undir Enter-starfið fyrir unga innflytjendur.

29. mar. 2010 : Jóhanna Laufey safnaði 1.712 kr. fyrir Rauða krossinn

Jóhanna Laufey Kristmundsdóttir hélt tombólu á dögunum og safnaði alls 1.712 kr. Hún hafði safnaði saman einhverju af dótinu sínu sem hún svo seldi á tombólunni. Afraksturinn kom hún með í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og gaf Rauða krossinum. Upphæðin rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu. Það er ráðstafað einu sinni á ári úr sjóðnum í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

25. mar. 2010 : Eldhugar í Alviðruferð

Fimmtán Eldhugar, bæði af íslenskum og erlendum uppruna, fóru í Alviðru síðastliðinn föstudag og dvöldu þar fram á laugardag. Ferðin var ætluð öllum 13 -16 ára unglingum úr ungmennastarfi Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæðinu en alls tóku 29 ungmenni þátt í ferðinni og komu þau frá Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Mosfellsbæ.

Markmið ferðarinnar var að hafa gaman saman, fræðast og kynnast. Ungmennin fóru í rútu austur fyrir fjall í Alviðru og þegar á staðinn var komið var farið í heljarinnar hópefli og fengið sér síðan að borða. Eftir matinn var kvöldvaka þar sem ungmennin stóðu sjálf fyrir ýmsum leikjum og atriðum. Mikið stuð og stemning myndaðist og eftir kvöldvökuna var farið út í skotbolta í hlöðunni.

23. mar. 2010 : Tombóla til styrktar Rauða krossinum

Hertha, Katla, Guðrún og Gísli héldu tombólu á dögunum og söfnuðu 2.386 kr. til styrktar Rauða krossinum. Þau eru í 2. og 3. bekk í Kársnesskóla. Þau seldu hluta af dótinu sínu á tombólunni og bjuggu til skutlur sem þau seldu einnig. Tombólan var haldin fyrir utan búðina Strax. 

Afrakstur tombólunnar rennur í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu. Það er ráðstafað einu sinni á ári úr sjóðnum í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

22. mar. 2010 : Eldhugar tóku þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti

Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti var haldin hátíðleg í Smáralind 18. mars síðastliðinn en hún er haldin á þessum tíma ár hvert vegna alþjóðdags gegn kynþáttamisrétti 21. mars. Ungmenni frá Rauða krossinum, þjóðkirkjunni, Soka Gakkai, og Seeds fjölmenntu og gerðu sér glaðan dag til að vekja fólk til umhugsunar um að uppræta þröngsýni, fordóma og þjóðernishyggju í Evrópu. Markmiðið er að byggja Evrópusamfélag með víðsýni og samkennd þar sem allir eru jafnir óháð útliti og uppruna. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Rauða krossins, Mannréttindaskrifstofu Íslands, þjóðkirkjunnar, Soka Gakkai á Íslandi, KFUM/KFUK og fleiri félaga.

19. mar. 2010 : Kópavogsdeild tók á móti starfsnema úr Kársnesskóla

Kópavogsdeild fékk til sín starfsnema á dögunum þegar Heiðrún Fivelstad, nemandi í 10. bekk í Kársnesskóla, kynnti sér starf deildarinnar. Heiðrún fylgdi verkefnastjóra ungmenna- og alþjóðamála í einn dag og tók þátt í verkefnum þann daginn sem tengdust innflytjendum.

17. mar. 2010 : Gestir og starfsmenn Dvalar heimsóttu sjóminjasafn

Miðvikudaginn 10. mars heimsóttu sextán gestir og starfsmenn Dvalar sjóminjasafnið Víkina í Reykjavík. Ferðin var afar vel heppnuð, bæði skemmtileg og fróðleg.

Á þessu glæsilega safni var margt að sjá úr sögu siglinga á Íslandi. Má þar nefna líkan af bryggju, stjórnklefa, frystihúsi, sjómannsheimili, loftskeytaklefa og svefnrými. Einnig mátti þar líta föt sjómanna fyrr og nú, ýmsar myndir og málverk af skipum, skipsstýri, seglskútu og ýmislegt annað tengt sjómennsku. Hópurinn tók sér góðan tíma í að skoða safnið og að því loknu fóru nokkrir um borð í varðskipið Óðinn. Þar lituðust þeir um undir góðri leiðsögn starfskonu Víkurinnar.

16. mar. 2010 : Plúsinn styrkir börn á Haítí

Hulda, Unnur og Dagbjört fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands og Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs um 60 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem hópurinn hélt 6. mars síðastliðinn. Peningurinn verður nýttur til að aðstoða börn sem eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið 12. janúar. Kristján og Þórir sögðu að fjárhæðin myndi nýtast afar vel enda væri mikil þörf á áframhaldandi aðstoð í landinu. Haítí var bágstatt ríki fyrir skjálftann en núna væri uppbyggingarstarf í gangi og enn mikil þörf á aðstoð.

15. mar. 2010 : Vel sótt námskeið hjá Kópavogsdeild

Deildin hefur haldið fjögur námskeið síðustu vikur; tvö skyndihjálparnámskeið, eitt í  sálrænum stuðningi og námskeiðið Slys og veikindi barna. Námskeiðin hafa verið vel sótt og alls voru þátttakendurnir 50. Aðsóknin á skyndihjálparnámskeið var svo mikil að deildin hélt aukanámskeið og var það fullbókað. Á því námskeiði læra þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. En á námskeiði í sálrænum stuðningi læra þátttakendur að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju. Námskeiðið Slys og veikindi barna fjallar um varnir og viðbrögð gegn slysum á börnum ásamt orsökum slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Námskeiðin verða haldin aftur í haust.

12. mar. 2010 : Eldhugar undirbúa þátttöku sína í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti

Eldhugar Kópavogsdeildar hittust í gær líkt og aðra fimmtudaga kl. 17.30. Fjölmennt var á samverunni og í þetta sinn var ætlunin að spila saman og undirbúa sig fyrir viðburð í Smáralind sem Eldhugar hyggjast taka þátt í 18. mars næstkomandi. Viðburðurinn er unnin í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands, þjóðkirkjuna, Soka Gakkai á Íslandi, KFUM og KFUK og fleiri félög sem halda í sameiningu ýmsa viðburði víða um land til að vekja athygli á vikunni og fagna fjölmenningu á Íslandi. Viðburðurinn er haldinn í tengslum við alþjóðadaginn gegn kynþáttamisrétti sem er 21.mars en þá koma þúsundir manna saman til að kveða niður kynþáttafordóma og misrétti í Evrópu.

Í ár verða Eldhugar með sérstaka innkomu á viðburðinum þar sem þeir munu stíga á stokk og syngja lagið Imagine með John Lennon fyrir gesti og gangandi en þeir hafa æft það stíft síðustu vikur. Eftir að söngfuglarnir höfðu sungið fyrir félaga sína í Eldhugum í gær við frábærar undirtektir og allir tekið þátt í að ræða og undirbúa sig fyrir næstu viku spiluðu Eldhugarnir hið æsispennandi Alias-spil.

10. mar. 2010 : Sendifulltrúi á samveru heimsóknavina

Mánaðarleg samvera heimsóknavina var í sjálfboðamiðstöðinni í gær og að þessu sinni var boðið upp á erindi frá sendifulltrúa Rauða krossins. Friðbjörn Sigurðsson læknir fór til Haítí sem sendifulltrúi skömmu eftir jarðskjálftann í janúar og veitti heimamönnum heilbrigðisþjónustu í mánuð. Hann sýndi heimsóknavinunum myndir frá dvöl sinni á Haíti og sagði þeim frá landinu, aðstæðunum eftir skjálftann og starfi sínu á vettvanginum. Alls mættu tólf heimsóknavinir og voru þeir hæstánægðir með heimsóknina.

9. mar. 2010 : Nýr starfsmaður í sjálfboðamiðstöðinni

Ingólfur Pálsson hóf störf í sjálfboðamiðstöðinni í síðustu viku en hann gegnir stöðu verkefnisstjóra Nýttu tímans – ungt fólk til athafna. Staðan er tilkomin vegna samstarfs Rauða krossins og Vinnumálastofnunar til að virkja atvinnulaus ungmenni á aldrinum 18-24 ára. Samstarfið er hluti af átaki félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar Ungt fólk til athafna.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að virkni og starfshæfni ungra atvinnuleitenda og sporna gegn erfiðum félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum sem oft fylgja langvarandi atvinnuleysi, auk þess að kynna fyrir fleirum þau fjölmörgu störf og verkefni sem Rauði krossinn sinnir í samfélaginu. Þátttakendur fá þjálfun til að sinna hefðbundnum sjálfboðaliðaverkefnum hjá deildum Rauða krossins en einnig er gert ráð fyrir nýjum verkefnum.

8. mar. 2010 : Vel heppnaður fatamarkaður

Fjöldi fólks lagði leið sína á fatamarkað sem ungir og öflugir sjálfboðaliðar úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, héldu í Molanum, ungmennahúsi Kópavogs á laugardaginn. Á markaðinum voru seld notuð föt og fylgihlutir til styrktar börnum í neyð eftir jarðskjálftana á Haítí. Fötin voru seld á mjög vægu verði eða á 500 og 1000 krónur, auk þess sem fólk gat fengið að prútta niður verð á stærri flíkum. Salan gekk mjög vel og alls söfnuðust um 60 þúsund krónur.

5. mar. 2010 : Fatamarkaður Plússins í Molanum

Ungir sjálfboðaliðar Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar hafa undanfarna daga undirbúið fatamarkað sem haldinn verður á morgun, laugardaginn 6. mars kl. 12-16 í Molanum, Ungmennahúsi Kópavogs að Hábraut 2. Þar verða seld notuð föt á mjög vægu verði og auk þess verður heitt kaffi á könnunni. Allur ágóði markaðarins rennur til verkefna Rauða krossins til hjálpar börnum í neyð á Haítí.

Ungu sjálfboðaliðarnir hafa sjálfir staðið að söfnun undanfarnar vikur en auk þess verður til sölu fatnaður frá fatasöfnun Rauða krossins en þangað fer allur sá fatnaður sem safnast í fatagáma endurvinnslustöðva Sorpu.
 

4. mar. 2010 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins auka lífsgæði fólks

„Það hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi að leiða Kópavogsdeild Rauða krossins í gegnum þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfinu á undanförnum árum. Það er góð tilfinning að fara frá starfinu í blóma og geta jafnframt treyst því að uppbyggingunni verði haldið áfram af metnaði. Kópavogsdeild starfar í fjölmennu og öflugu bæjarfélagi og á að vera í fararbroddi innan Rauða krossins,“ segir Garðar H. Guðjónsson sem lét af formennsku í Kópavogsdeild Rauða krossins á aðalfundi í síðustu viku eftir átta ára sjálfboðið starf sem formaður. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir var kjörin formaður en hún hefur setið í stjórn síðan 2005. Hún er fyrst kvenna til að verða formaður deildarinnar.

Garðar var kjörinn í stjórn Kópavogsdeildar 2001 og varð formaður 2002. Hann hafði áður verið kynningarfulltrúi Rauða kross Íslands um árabil. Kópavogsdeild hafði þá einkum getið sér orð fyrir að vera leiðandi í uppbyggingu hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar og stofnun Dvalar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir. Hún hafði einnig verið meðal brautryðjenda í heimsóknaþjónustu sem þá fór einkum fram í Sunnuhlíð. Veikleikar deildarinnar voru hins vegar þeir að hún var lítt þekkt í bæjarfélaginu, hafði ekki sýnilega starfsaðstöðu, sjálfboðaliðar voru fáir og nýliðun lítil sem engin. Þessu vildi ný stjórn breyta.

3. mar. 2010 : Yngstu sjálfboðaliðarnir styrkja Rauða krossinum

Sigurður Axel Guðmundsson, Elsa Björg Guðmundsdóttir, Kolfinna Bjarney Reynisdóttir, Kjartan Sveinn Guðmundsson og Áróra Hrönn Snorradóttir söfnuðu pening til styrktar Rauða krossinum á Ásbrautinni með því að selja notuð föt, bækur og annan varning. Þau söfnuðu alls 3.199 kr. sem renna í sameiginlegan hjálparsjóð á landsvísu.  Það er ráðstafað einu sinni á ári úr sjóðnum í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.

2. mar. 2010 : Karfa af garni

Deildinni barst góð gjöf á dögunum þegar einn Kópavogsbúi kom færandi hendi með körfu fulla af garni. Kópavogsbúinn vildi styrkja Kópavogsdeildina og eftir að hafa kynnt sér verkefni hennar á vefsíðunni valdi hann að kaupa garn fyrir verkefnið Föt sem framlag. Sjálfboðaliðar í verkefninu munu prjóna ungbarnaflíkur úr garninu sem síðan verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Sjálfboðaliðarnir prjóna til dæmis peysur, teppi, húfur, sokka og bleyjubuxur. Deildin þakkar þessum hugulsama Kópavogsbúa kærlega fyrir gjöfina. Hún mun koma að góðum notum.